Töluvert hefur verið um að fiskvinnslufólk hafi haft samband við Framsýn varðandi réttindi þeirra og kjör í verfalli sjómanna. Fyrirspurnir hafa borist úr flestum landsfjórðungum. Um er að ræða starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja sem valið hafa að senda fólk heim kauplaust á atvinnuleysisbætur í stað þess að halda því á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum. Einnig eru dæmi um að formenn stéttarfélaga, sem hafa fiskvinnslufólk innan sinna raða, hafi leitað eftir upplýsingum um málið hjá Framsýn. Skorað hefur verið á félagið að setja upplýsingar um málið inn á heimasíðuna til að auðvelda fiskvinnslufólki að meta sína stöðu. Að sjálfsögðu er eðlilegt að verða við þeirri beiðni enda varðar málið allt að 4000 starfsmenn í fiskvinnslu. Heimasíðan hefur heimildir fyrir því að fjallað verði um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Því miður virðist sem þeim fullyrðingum sé haldið að fiskvinnslufólki að það sé hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Framsýn er kunnugt um nokkur fyrirtæki sem hafa haldið þessu fram og í einhverjum tilfellum haft stéttarfélög starfsmanna með í ráðum ef marka má skýringar sem fyrirtækin hafa gefið.
Skoðum málið.
Þannig er að fullar atvinnuleysisbætur eru kr. 202.054 á mánuði. Kauptrygging fiskvinnslufólks er hins vegar mun hærri eða allt að kr. 266.409,- á mánuði hjá starfsmanni með yfir sjö ára starfsreynslu. Varðandi atvinnuleysisbæturnar, þá detta menn inn á tekjutengingu eftir 10 daga í allt að þrjá mánuði. Á þessu tímabili geta atvinnuleysisbæturnar orðið allt að kr. 318.532 á mánuði, það er 70% af meðallaunum síðustu 6 mánaða fyrir utan tvo síðustu mánuðina. Síðan er greitt með börnum kr. 8.082 á mánuði séu þau til staðar hjá viðkomandi aðila.
Starfsmaður sem heldur kauptryggingu hjá fyrirtæki fær auk dagvinnulauna orlofslaun í hlutfalli við áunninn rétt til viðbótar sínum föstu launum allt að 13,04%. Hann vinnur sér inn óskert sumarfrí á launum. Hann fær einnig 2% viðbótarframlag frá atvinnurekenda í séreign auk þess að ávinna sér inn frekari réttindi hjá fyrirtækinu samkvæmt ákvæðum kjarasamninga enda er hann á kauptryggingu en ekki skráður atvinnulaus í verkfallinu hjá Vinnumálastofnum.
Sá sem er með skertan bótarétt heldur kauptryggingu hjá sínu fyrirtæki sé þessi leið valin, það er fullum dagvinnulaunum. Hann fær hins vegar skertar/hlutfallslegar bætur sé hann á bótum hjá Vinnumálastofnun í verkfallinu. Auk þess sem réttur hans til atvinnuleysisbóta skerðist í stað þess að vera á launaskrá hjá fyrirtækinu í verkfallinu. Þá fylgja töluverð óþægindi því fyrir fólk að þurfa að skrá sig atvinnulaust meðan á verkfallinu stendur, ekki síst fyrir erlenda starfsmenn.
Þá þarf ekki að taka það fram að greitt er af starfsmönnum til stéttarfélaga, launatengd gjöld, séu þeir á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum en ekki þegar þeir eru á atvinnuleysisbótum. Komi til þess að verkfall sjómanna standi yfir í nokkrar vikur er um að ræða skert réttindi hjá stéttarfélögunum s.s. úr sjúkrasjóðum og starfsmenntasjóðum.
Hvernig fyrirtæki geta haldið því fram að það sé mun hagstæðara fyrir starfsfólk að skrá sig atvinnulaust verður ekki skilið. Segjum svo að verkfallið standi yfir í tvær vikur, hvernig er hægt að finna það út að það sé mun hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum með kr. 1.165 per. dagvinnustund í stað kr. 1.537 m.v. 11. launaflokk fyrir utan orlof verður ekki skilið. Hér má sjá frekari útreikninga hvernig menn koma út, það er annars vegar á kauptryggingu og hins vegar á atvinnuleysisbótum. Niðurstaðan er reyndar skýr:
Meðfylgjandi útreikningar miðast við kauptryggingu fiskvinnslufólks í efsta flokki enda liggja sömu forsendur fyrir er varðar atvinnuleysisbætur sem eru reiknaðar í botn. Þá eru orlofsrétturinn reiknaður með kauptryggingunni svo og 2% í séreignasparnaður sem er miðaður við rétt launþega í kjarasamningum. Fyrstu 10 virku dagana eru launþegar reiknaðir á lágmarksbótum frá atvinnutryggingasjóði en eftir það 70% af meðallaunum síðustu 6 mánuði frá tveggja mánaða reglunni. Þá er í töflunni einnig reiknað með viðbótarframlagi frá atvinnuleysistryggingum vegna fjölda barna.
Miðað við þessar forsendur kemur mun betur út fyrir launþega að fá kauptryggingu frá atvinnuveitenda frekar en að fara á atvinnuleysisbætur. Eins og sjá má á töflunni þá jafnast upphæðin út á mismunandi tíma og fjarlægist síðan aftur eftir 3 mánaða markið frá atvinnutryggingasjóði:
- Launþegi án barns reiknast alltaf hærri með kauptryggingu frekar en á atvinnuleysisbótum.
- Launþegi með eitt barn nær að jafna stöðuna eftir 58 vinnudaga á atvinnuleysisbótum, þ.e. eftir 11 vikur og 3 daga en eftir 79 vinnudaga 15 vikur og 4 daga þá er hann í sömu stöðunni sem versnar eftir þann tíma.
- Launþegi með tvö börn nær að jafna stöðuna eftir 42 vinnudaga á atvinnuleysisbótum, þ.e. eftir 8 vikur og 2 daga en eftir 86 vinnudaga 17 vikur og 1 dag þá er hann í sömu stöðunni sem versnar eftir þann tíma.
- Launþegi með þrjú börn nær að jafna stöðuna eftir 33 vinnudaga á atvinnuleysisbótum, þ.e. eftir 6 vikur og 3 daga en eftir 95 vinnudaga , 19 vikur þá er hann í sömu stöðunni sem versnar eftir þann tíma.
Miðað við þessar forsendur er nokkuð ljóst að sanngjarnara er fyrir launþega að fara á kauptryggingarleiðina enda þeirra réttur. Hér er ekki tekið tillit til þess að réttindi í stéttarfélögum skerðast hjá fiskvinnslufólki í löngu verkfalli sé það á atvinnuleysisskrá.