Hugleiðingar um áramót – bjartir tímar framundan

Almennt gekk starfsemi Framsýnar mjög vel á árinu 2016 en það var án efa eitt annasamasta árið í sögu stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Þau eru auk Framsýnar, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur. Þá er Verkalýðsfélag Þórshafnar með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna. Það sem kallað hefur á aukin umsvif stéttarfélaganna er ekki síst mikil uppbygging í ferðaþjónustunni og framkvæmdir sem tengjast uppbyggingunni á Bakka. Þá hefur aukið framboð varðandi orlofskosti, íbúðir, orlofshús, flug og hótel fyrir félagsmenn kallað á töluverða aukna vinnu starfsmanna. Markmiðið er að gera enn betur við félagsmenn á árinu 2017. Framsýn ætlar sér að vera í fremstu röð stéttarfélaga á Íslandi á hverjum tíma. Annað er ekki í boði.

Skrifstofa stéttarfélaganna
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á árinu 2016. Þrátt fyrir að niðurstöðutölur úr rekstri liggi ekki enn fyrir er alveg ljóst að tekjur stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafa aldrei verið meiri en á ný liðnu ári.

Í mars var ráðinn nýr starfsmaður í vinnustaðaeftirlit, Aðalsteinn J. Halldórsson. Að öðru leiti urðu ekki breytingar á starfsmannahaldinu. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar í starfsmannahaldi á árinu 2017.

Mikið álag var á skrifstofunni enda kallar öflugt starf stéttarfélaganna á hátt þjónustustig. Það er ekki bara að félagsmenn leiti eftir aðstoð heldur eru stjórnendur fyrirtækja á félagsvæðinu ekki síður duglegir við að leita eftir upplýsingum er varðar kjör og réttindi starfsmanna enda mikill mannauður á Skrifstofu stéttarfélaganna þegar kemur að þekkingu á kjarasamningum. Almennt séð eiga starfsmenn stéttarfélaganna mjög gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu. Eðlilega koma upp smá núningar milli aðila sem er hið eðlilegasta mál.

Kynningarmál
Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu www.framsyn.is og Fréttabréfi stéttarfélaganna. Báðir þessir miðlar eru mikilvægir í starfi félaganna. Umferðin um heimasíðuna er ótrúleg en fjöldi fólks fer daglega inn á síðuna sem er virkasta heimasíðan meðal aðildarfélaga ASÍ. Til að mæta þörfum erlendra starfsmanna á svæðinu hafa stéttarfélögin látið útbúa bæklinga með helstu réttindum starfsmanna. Bæklingarnir hafa mælst vel fyrir.

Verulegur áhugi fyrir Framsýn
Verulega mikil ásókn er í Framsýn, það er bæði frá launþegum sem starfa eftir kjarasamningum Framsýnar og eins frá öðrum launþegum sem ekki eiga aðild að kjarasamningum Framsýnar svo ekki sé talað um alla þá sem búa og starfa utan félagssvæðis Framsýnar. Framsýn hefur það að leiðarljósi að virða samskiptareglur stéttarfélaga innan ASÍ en ákveðnar reglur gilda meðal félaganna um félagssvæði og félagsaðild. Hins vegar er greinilegt að það fyrirkomulag sem verið hefur varðandi félagsaðildina er hugsanlega að líða undir lok. Starfsfólk kallar eftir auknu frelsi til að velja sér stéttarfélag sem kæmi sér vel fyrir Framsýn. Reyndar hafa ákveðin félög, sérstaklega iðnaðarmannafélög, unnið að því að verða landsfélög sem skarast á við núverandi fyrirkomulag, það er að félögin séu með ákveðin félagssvæði eftir landshlutum líkt og Framsýn.

Fjölgun hefur orðið á félagsmönnum undanfarin ár. Á síðasta ári greiddu 2736 til félagsins og fjölgaði þeim um 300 milli ára sem er gríðarleg fjölgun. Félagsmenn Framsýnar hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Með gjaldfrjálsum félagsmönnum telur félagið um 3000 félagsmenn.

Greinlegt er að Framsýn nýtur mikillar virðingar meðal félagsmanna. Í þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið hefur félagið alltaf komið mjög vel út. Þá hefur félagið netpósta undir höndum frá félagsmönnum þar sem starfsemi félagsins er rómuð og starfsmönnum hælt fyrir þjónustulund og góða þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins.

Vinnustaðaeftirlit
Stéttarfélögin hafa haldið úti öflugu vinnustaðaeftirliti. Eins og fram hefur komið áður í þessum pistli var Aðalsteinn J. Halldórsson ráðinn í vinnustaðaeftirlit. Hvað varðar vinnustaðaeftirlitið þá hefur það verið unnið í góðu samstarfi við Ríkisskattstjóra, lögregluna, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun. Til viðbótar gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, sem kemur að vinnustaðaeftirliti og mannsálsmálum, sér ferð til Húsavíkur og fór í skoðunarferð á Bakka með fulltrúum stéttarfélaganna á Húsavík. Vinnustaðaeftirlitið hefur helst beinst að ferðaþjónustunni og byggingarframkvæmum á svæðinu. Eftirlitinu verður framhaldið á árinu 2017. Nokkrir aðilar koma að því að fjármagna eftirlitið með stéttarfélögum, það er Landsvirkjun, Landsnet, Rafiðnarsambandið, VM og Samiðn. Samstarfið við þessa aðila kemur sér vel enda mjög kostnaðarsamt að halda úti öflugu eftirliti.

Efri hæðin að Garðarsbraut 26
Fyrir nokkrum árum eignuðust stéttarfélögin efri hæðina að Garðarsbraut 26 sem snýr að Árgötunni. Um er að ræða 300m2 húsnæði. Tilgangurinn með kaupunum var að eignast húsæðið og hafa áhrif á það hvernig það væri nýtt. Eins og gefur að skilja skiptir verulega miklu máli fyrir Skrifstofu stéttarfélaganna að starfsemin í húsnæðinu fari saman við skrifstofuhald. Í nýja húsnæðinu verða 8 skrifstofur sem flestar verða leigðar út. Verkinu verður lokið 1. mars n.k.

Framsýn-UNG
Innan Framsýnar er starfandi ungliðahreyfing er nefnist Framsýn-UNG. Aðalbjörn Jóhannsson fer fyrir starfinu sem formaður. Hann situr einnig í stjórn ASÍ-UNG. Ætlunin með Framsýn-UNG er að efla starfsemi ungs fólks innan félagsins enda afar mikilvægt að skoðanir stéttarfélaga taki á hverjum tíma mið af ólíkum hópum og fólks á öllum aldri. Þess er vænst að starfið hjá Framsýn-UNG verði kraftmikið á árinu sem er ný hafið. Eitt er víst að landslið ungmenna er í stjórn Framsýn UNG.

Deildir innan félagsins
Innan Framsýnar eru starfandi tvær deildir, það er Deild verslunar- og skrifstofufólks og Sjómannadeild. Jakob Gunnar Hjaltalín fer fyrir Sjómannadeildinni og Jóna Matthíasdóttir fyrir Deild verslunar- og skrifstofufólks. Deildirnar skiluðu góðu starfi á árinu 2016 en þær halda utan um starf sem fellur beint undir þessa starfshópa innan félagsins.

Áfram ódýrt að fljúga
Fyrir áramótin gengu stéttarfélögin frá áframhaldandi samningi við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugmiðum fyrir félagsmenn milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Samningurinn tryggir félagsmönnum flugmiðann á kr. 8.900,- út árið 2017. Um er að ræða mjög gleðileg tíðindi, aukin lífsgæði og sparnað fyrir félagsmenn upp á um 40 milljónir sé horft út árið. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa með samningi sínum við flugfélagið komið að því að efla flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Á árinu 2016 flugu rúmlega 20 þúsund farþegar um völlinn sem er veruleg fjölgun milli ára.

Orlofsmál
Stéttarfélögin kappkosta að bjóða félagsmönnum upp á orlofskosti, það er orlofsíbúðir og orlofshús víða um land sem og tjaldsvæðisstyrki. Auk þess hafa félögin samninga við hótel víða um land um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Á síðasta ári tóku félögin auk þess á leigu íbúð á Spáni sem félagsmenn hafa verið duglegir að nota. Þá eru miðar í Hvalfjarðargöngin alltaf til sölu á góðu verði fyrir félagsmenn svo ekki sé talað um ódýru flugmiðana.

Styrkir úr sjúkra- og starfsmenntasjóðum
Félagsmenn hafa gott aðgengi að starfsmenntasjóðum í gegnum Framsýn. Á hverju ári fá félagsmenn umtalsverðar endurgreiðslur stundi þeir nám eða sæki námskeið sem þeir þurfa að greiða fyrir. Þá býr Framsýn yfir öflugum sjúkrasjóði sem félagsmenn hafa aðgengi að s.s. í veikindum.

Velferðarmál
Að venju hafa stéttarfélögin komið að því að styðja við bakið á góðum málefnum með ýmsu móti. Ekki síst hefur verið horft á stuðning við æskulýðs- og íþróttastarf í héraðinu.

Starfið og samstarf við atvinnurekendur
Mikilli uppbyggingu fylgir álag. Algjör sprenging hefur orðið í ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Á árinu 2017 er búist við frekari aukningu á ferðamönnum sem kallar á aukin umsvif. Samhliða þessari aukningu mun uppbyggingin er tengist PCC á Bakka ná hámarki á árinu. Í dag eru framkvæmdir við verksmiðjuna á Bakka, línulögn frá Bakka að Kröflu, þrjú tengivirki eru í byggingu, boranir eru í gangi á Þeistareykjum og á þeim stað er einnig verið að byggja stórt og mikið stöðvarhús. Yfir þúsund manns hafa komið að uppbyggingunni. Stéttarfélögin hafa almennt átt gott samstarf við verkkaupa, verktaka og starfsmenn fyrirtækjanna. Strax í upphafi var ákveðið af hálfu stéttarfélaganna að taka á verkefninu með föstum tökum. Sú áætlun gekk upp og hefur skilað þeim góða árangri að flest mál hefur verið hægt að leysa innan húss, það er með viðkomandi aðilum. Því miður eru dæmi um ljót mál sem félögin hafa þurft að takast á við með hlutaðeigandi aðilum og lögmönnum félagsins. Þrátt fyrir þessi ljótu mál hafa starfsmenn stéttarfélaganna orðið varir við að verktakarnir sem hafa verið hér við störf, ekki síst þeir erlendu, bera almennt virðingu fyrir starfi félaganna. Það sést best á því að þeir hafa sóst eftir fundum með talsmönnum stéttarfélaganna til að tryggja að allt sé í lagi og bæta úr hafi þess þurft með.

Hvernig vinnustaður verður PCC
Um næstu áramót er stefnt að því að nýr fjölmennur vinnustaður hefji starfsemi á Bakka við Húsavík. Það er þegar þýska fyrirtækið PCC hefur starfsemi við kísilmálmvinnslu. Rúmlega hundrað manns koma til með að vinna í verksmiðju fyrirtækisins. Síðar á þessu ári munu hefjast viðræður milli stéttarfélaganna og forsvarsmanna fyrirtækisins um kaup og kjör starfsmanna. Það er alveg ljóst í huga Framsýnar að félagið vill sjá vellaunuð góð störf í verksmiðjunni. Það er von félagsins að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi skilning á kröfum Framsýnar sem ætlað er að stuðla að því að gera störf hjá fyrirtækinu eftirsóknarverð og starfsmanavelta verði í lágmarki.

Eitt er víst að góð ímynd fyrirtækis eins og PCC verður ekki til nema með góðu samstarfi við stéttarfélögin á svæðinu, bæjaryfirvöld og fólkið sem hér býr. Fylgi menn þessari forskrift verða hlutirnir í lagi, annars ekki eins og dæmin sanna. Framsýn mun standa vörð um þessi gildi, það er að fyrirtækið starfi hér í sátt og samlyndi við samfélagið. Neikvæð umræða um nýju kísilmálmverksmiðjuna í Keflavík á að vera okkur hvatning til að tryggja að hér verði farið eftir öllum reglum er varðar réttindi starfsmanna og ekkert verði slakað á í umhverfismálum. Annað á ekki að koma til greina.

Grunnstoðirnar standa fyrir sínu
Sjávarútvegur og landbúnaður hafa lengi borið uppi atvinnulífið í Þingeyjarsýslum auk þjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga. Svo verður áfram en ferðaþjónusta og iðnaður munu fá stærra hlutverk en verið hefur í þróun atvinnulífsins. Þá eru væntingar uppi um að verslun og önnur þjónusta komi til með að eflast frekar á komandi árum. Til að mæta fjölgun íbúa á svæðinu og auknum ferðamannastraum er ljóst að töluvert verður byggt á næstu árum, það er bæði íbúðarhúsnæði og eins húsnæði tengt ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum.

Friður eða ófriður á vinnumarkaði
Um þessar mundir stendur yfir verkfall sjómanna innan Framsýnar. Deilan er í hnút og því óvíst að hún leysist á næstu dögum og jafnvel vikum þar sem mikið ber í milli. Sjómenn hafa verið samningslausir frá því í lok árs 2010. Þá er spurning hvað gert verður í febrúar á almenna vinnumarkaðinum, ekki síst í ljósi þess að við Austurvöll er sjálftökulið sem tók við gríðarlegum hækkunum á dögunum í gegnum úrskurð Kjararáðs. Þingið sá ekki ástæðu til að beina þeim tilmælum til Kjararáðs að úrskurður ráðsins yrði endurskoðaður. Ekki síst þess vegna eru kjarasamningar á almenna markaðinum í uppnámi þar sem endurskoðun á forsendum samningsins eiga að fara fram í febrúar. Það er ólga meðal launþega í landinu, ekki síst þeirra sem búa við lökust kjörin.

Virk – starfsendurhæfingarsjóður skiptir máli
Virk – starfsendurhæfingarsjóður er stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins í kjarasamningum 2008, aðild eiga öll stéttarfélög og samtök launagreiðenda, s.s. Ríkið, Sveitarfélögin og Samtök atvinnulífsins.

Markmið aðila vinnumarkaðarins með starfsemi Virk er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda og slysa hverfi af vinnumarkaði.
Í Þingeyjarsýslum starfar Ágúst Sigurður Óskarsson ráðgjafi Virk á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík og annast þjónustu við alla í þjónustu Virk, bæði þá sem eru í Þingeysku stéttarfélögunum sem aðra. Helstu verkefni ráðgjafa eru:
 Persónuleg ráðgjöf og hvatningu sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins.
 Samvinnu um gerð og eftirfylgni einstaklingsbundinnar áætlunar um eflingu starfshæfni eða endurkomu á vinnumarkað.
 Vali á hentugustu úrræðum til að bæta heilsu og styrkja starfshæfni (skv. ráðgjöf lækna, s.s. meðferð annarra heilbrigðisstétta, sjúkraþjálfara, náms- og starfsráðgjafa, endurmenntunar, mats á starfsaðstæðum og annarra endurhæfingaraðila).
 Leiðbeiningar um réttindi, greiðslur, framfærslu og aðra þjónustu á svæðinu.
 Samstarf við launagreiðendur og aðra lykilaðila í samfélaginu um málefni tengd starfsendurhæfingu.

Vel hefur tekist til með þróun og þjónustu Virk á landsvísu og í Þingeyjarsýslum. Þjónustu- og árangursmælikvarðar sýna að einstaklingar hafa náð góðum árangri í starfsendurhæfingu, eru mjög sáttir við stuðning og þjónustu Virk og góð samvinna er við aðra sem koma að starfsendurhæfingarferlinu. Einnig hefur vakið athygli að þáttur stjórnenda fyrirtækja og stofnana í Þingeyjarsýslum í stuðningi við starfsmenn sem kljást við afleiðingar veikinda og slysa og eru í starfsendurhæfingarferli er virkur og styðjandi og samstarf við Virk árangursríkt. Árið 2016 var árangursríkt í starfsendurhæfingu, í lok árs voru rúmlega tvö þúsund einstaklingar í virkri þjónustu. Jafnvægi hefur náðst í innstreymi í þjónustuna, eftir stöðuga aukningu fyrstu árin fækkaði nýjum í þjónustu um 7% árið 2016. Í árslok hafa 11.000 einstaklingar notið þjónustu Virk.

Stjórn, trúnaðarráð og starfsfólk
Innan Framsýnar er starfandi öflug stjórn og trúnaðarráð sem kemur reglulega saman og fundar um málefni félagsins á hverjum tíma. Þá eru starfandi innan félagsins aðrar stjórnir sjóða, ráð og nefndir. Full ástæða er til að þakka öllu því ágæta fólki sem starfar fyrir félagið fyrir þeirra frábæra starf. Það er gleðilegt til þess að vita að það er eftirsóknarvert að starfa fyrir félagið.

Á Skrifstofu stéttarfélaganna starfar metnaðarfullt starfsfólk sem hefur það að leiðarljósi að halda utan um kraftmikið starf félaganna. Hafi félagsmenn ábendingar um það sem betur má fara í starfi félaganna er mikilvægt að þeir komi skoðunum sínum á framfæri við félögin. Saman getum við gert starfið öflugra, öllum til hagsbóta.

Góðar stundir og megi árið 2017 verða okkur gjöfult í alla staði.

Aðalsteinn Árni Baldursson
Formaður Framsýnar, stéttarfélags

Deila á