Aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar var að ljúka. Fundurinn var fjölmennur og heitar umræður urðu um kjaramál enda hluti sjómanna innan deildarinnar í verkfalli. Eftir góðar umræður samþykkti fundurinn að senda frá sér tvær ályktanir, annars vegar um kjaramál og hins vegar varðandi ofbeldið sem vélstjórum og fiskvinnslufólki er sýnt. Það er að boða verkbann á vélstjóra og þá eru allt of mörg dæmi um að sjávarútvegsfyrirtæki hafi tekið fiskvinnslufólk af kauptryggingu og sagt því að skrá sig á atvinnuleysisbætur í verkfalli sjómanna. Fyrirtækin hafa jafnvel borið því við að það komi betur út fyrir fiskvinnslufólk sem er beinlínis rangt. Hér má sjá ályktanirnar sem samþykktar voru rétt í þessu. Nánar verður fjallað um fundinn inn á heimasíðu félagsins framsyn.is á morgun.
Ályktun um kjaramál sjómanna
„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á samtök sjómanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að ganga nú þegar frá nýjum kjarasamningi sem byggir á framlögðum kröfum sjómanna.
Fyrir liggur að sjómenn telja útgerðarmenn ekki hafa komið til móts við helstu kröfur sjómanna og því hafa nýlegir kjarasamningar verið felldir í tvígang með yfirgnæfandi meirihluta.
Að mati fundarins er ólíðandi með öllu að útgerðarfyrirtækin í landinu skuli ekki sjá sóma sinn í því að undirrita kjarasamning sem byggir á kröfugerð sjómannasamtakanna.
Það að sjómenn séu búnir að vera samningslausir frá árslokum 2010 lýsir best framkomu útgerðarmanna í garð sjómanna, framkomu sem sjómenn munu ekki líða lengur.
Um leið og Sjómannadeild Framsýnar sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra hugheilar jóla- og áramótakveðjur skorar deildin á sjómenn um land allt að standa vörð um kjör og réttindi sjómanna“
Ályktun um stöðu vélstjóra og fiskvinnslufólks í verkfalli sjómanna
„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar átelur Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir ákvörðun þeirra um að setja verkbann á vélstjóra frá 20. janúar nk. verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Það þýðir að vélstjórar verða tekjulausir frá þeim tíma þar sem þeir missa launtekjur auk þess að eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Framkoma sem þessi er óafsakanleg og SFS til skammar enda vélstjórar ekki í verkfalli.
Þá vekur jafnframt athygli að fyrirtæki í sjávarútvegi beini fiskvinnslufólki á atvinnuleysisbætur í verkfalli sjómanna og beri því við að fiskvinnslufólk hafi það mun betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum. Um er að ræða mjög alvarlegan áróður sem á ekki við rök að styðjast. Væri svo að verkafólk hefði það betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu, væri það mikill áfellisdómur yfir Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni. Það borgi sig að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að vera á launaskrá samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.“
Nánar verður fjallað um málefni fundarins á morgun á heimasíðu félagsins.