Slæm staða hjá ungu fólki í fiskvinnslu í verkfalli sjómanna- brotalöm í kerfinu, eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum

Stjórn Framsýnar-ung samþykkti í dag að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu ungs fólks í fiskvinnslu í verkfalli sjómanna. Eins og fram kemur í ályktuninni er staða þessa hóps mjög slæm þar sem fólk innan við 18 ára aldur á ekki rétt á því að skrá sig  atvinnulaust og er því launalaust í verkfallinu, það er í þeim tilvikum þegar fyrirtækin hafa afskráð starfsmenn og bent þeim á að skrá sig atvinnulausa.

Ályktun um stöðu ungmenna í verkfalli sjómanna

„Framsýn-ung vill vekja athygli á ákvörðun margra fiskvinnslufyrirtækja að senda starfsmenn sína heim á atvinnuleysisbætur í stað þess að halda þeim á launaskrá, sem myndi tryggja þeim þeirra föstu mánaðarlaun í formi kauptryggingar.  Kauptryggingin virkar þannig að fyrirtækið skuldbindur sig til að greiða starfsmönnum sínum dagvinnulaun meðan á verkfalli stendur.

 Við fiskvinnslu starfar hópur ungmenna sem ekki hefur náð 18 ára aldri og á þar af leiðandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, en þær miðast við 18 ára aldur. Þessi hópur er því án framfærslu meðan á verkfalli stendur og þeirra bíður jafnvel að leita aðstoðar hjá félagsmála yfirvöldum. Er þetta virðing fyrir ungu fólki ?

Á sama tíma og sjávarútvegsfyrirtæki gorta sig af góðri afkomu, treysta þau sér ekki til að halda starfsmönnum á kauptryggingu.

Framsýn- ung hvetur þau fyrirtæki sem í hlut eiga til að endurskoða sínar ákvarðanir og taka starfsfólk sitt þegar inn á kauptryggingu. Sé það gert heldur ungt fólk fullum mánaðarlaunum fyrir utan kaupaukagreiðslur óháð aldri. Sé þessi leið valin eiga fyrirtækin rétt á endurgreiðslum frá Vinnumálastofnun fyrir mestum hluta af launum starfsmanna. Launakostnaður fyrirtækjanna er því umtalsvert minni en annars væri.

 Þá er athyglisvert að unglingar innan við 18 ára aldur skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum í verkfalli sjómanna. Séu þeir hins vegar á kauptryggingu í verkfallinu eiga fyrirtækin rétt á endurgreiðslum upp í laun viðkomandi aðila frá Vinnumálastofnun. Eins og sjá má er mikið misræmi í þessum reglum sem kallar á endurskoðun, þannig að báðir hóparnir sitji við sama borð. 

Framsýn- ung vill með þessari ályktun vekja athygli á þeirri mismunun og óréttlæti sem viðgengst í títtnefndu verkfalli og telur mikilvægt að verkalýðshreyfingin láti sig þessi mál varða.  Þess er krafist  að lögum og reglum þar um verði breytt svo koma megi í veg fyrir að aðstæður sem þessar komi aftur upp í framtíðinni.“

 

Þannig samþykkt af stjórn Framsýnar-ung fimmtudaginn 5. janúar 2017.

Til Fróðleiks:

Innan Framsýnar- stéttarfélags er starfandi öflugt ungliðaráð félagsins. Ungliðaráðið er skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Ungliðaráðið starfar á vettvangi Framsýnar undir heitinu Framsýn-ung. Ungliðaráðið starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags. Þá er ungliðaráðið tengiliður Framsýnar út á við er varðar fræðslu og málefni ungs fólks á vinnumarkaði.

 

 

 

Deila á