Góður fundur sjómanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gær. Fundurinn sem hófst kl. 17:00 var vel sóttur og stóð vel fram eftir kvöldi. Á fundinum urðu miklar umræður um kjaramál enda sjómenn í verkfalli. Þá var gerð grein fyrir starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári sem og reglum Vinnudeilusjóðs félagsins um greiðslur til sjómanna í verkfallinu sem hefjast um næstu áramót. Varðandi kjaramálin og áherslur sjómanna innan Framsýnar til að leysa yfirstandandi kjaradeilu þá var gerð skoðanakönnun á fundinum um áherslurnar. Þessa stundina er verið að vinna úr gögnunum sem verða síðan birtar inn á heimasíðunni á morgun enda takist að klára að vinna úr könnuninni í tæka tíð. Fundurinn samþykkti að senda frá sér tvær ályktanir um kjaramál sem þegar hafa vakið töluverða athygli fjölmiðla. Meðfylgjandi þessari frétt er skýrsla stjórnar sem lögð var fram á fundinum um starfsemina á umliðnu starfsári.

sjomennadalfundur1216-114

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tveir ungir menn voru kjörnir í stjórn deildarinnar sem hafa ekki setið áður í stjórn. Hér má sjá þá Heiðar Val Hafliðason varaformann og Reyni Hilmarsson meðstjórnanda. Með því í stjórn eru Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Björn Viðar ritari og Kristján Hjaltalín meðstjórnandi.

 

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar haldinn miðvikudaginn 28. desember 2016 kl. 17:00.

 

Dagskrá:

 1. Venjuleg aðalfundarstörf
 2. Verkfall sjómanna/verkfallsbætur
  1. Verkfallsbætur: Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar
  2. Kjaramál: Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar
  3. Kjarakönnun: Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar
 3. Önnur mál
  1. Ályktun um kjaramál
  2. Verkbann á vélstjóra

 

Tillaga að stjórn fyrir næsta starfsár:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

Heiðar Valur Hafliðason varaformaður

Björn Viðar ritari

Kristján Hjaltalín meðstjórnandi

Reynir Hilmarsson meðstjórnandi

 

Fylgigögn með skýrslu stjórnar:

 • Dagskrá aðalfundarins
 • Upplýsingar um verkbann
 • Reglugerð Vinnudeilusjóðs
 • Starfsreglur sjómannadeildar
 • Tillaga að stjórn deildarinnar
 • Kjarakönnun meðal sjómanna
 • Ályktun um kjaramál sjómanna
 • Ályktun um verkbann á vélstjóra
 • Felldur kjarasamningur SSÍ og SFS
 • Reglur um verkfallsbætur í verkfalli sjómanna

 

Upplýsingar um verkbann:

Um verkbann gilda sömu reglur og um verkfall og eiga þeir því ekki rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir. Sjá lagaákvæðið:

50. gr. Verkfall eða verkbann.
Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem leggur niður störf í verkfalli eða vegna verkbanns vinnuveitanda telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir.
Launamaður sem hefur misst starf sitt áður en til verkfalls eða verkbanns kom en tekur það fram í umsókn að hann sé að leita að starfi í þeirri starfsgrein sem verkfallið eða verkbannið tekur til telst ekki tryggður þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir á fyrstu fjórum vikunum frá því að Vinnumálastofnun tók við umsókn hans.
Ákvæði 2. mgr. á þó ekki við þegar verkfall eða verkbann tekur einungis til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði.
Ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar

 

Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir  hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

 

Fjöldi sjómanna í deildinni:

Alls eru 90 sjómenn skráðir í deildina í árslok 2016, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku.  Af þessum 90 sjómönnum greiddu 76 sjómenn félagsgjald til félagsins á árinu sem er að líða.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Kristján Þorvarðarson varaformaður, Björn Viðar ritari, Snorri Gunnlaugsson og Kristján Hjaltalín meðstjórnendur.

Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund á árinu auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar  á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn Framsýnar.

Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma, nú nýlega 30. þing Sjómannasambandsins sem haldið var dagana 24. og 25. nóvember  á Grand Hóteli Reykjavík. Þá er hann í vara sambandsstjórn Sjómannasambandsins sem fundar eftir þörfum.

Heiðrun sjómanna og sjómannadagurinn:

Sjómannadeildin heiðraði tvo sjómenn á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2016 voru sjómennirnir Hermann Ragnarsson og Jónas Jónsson heiðraðir. Athöfnin fór fram í Húsavíkurkirkju og tókst í alla staði mjög vel.

Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöld sjómannadagsins á Húsavík og á Raufarhöfn með fjárstuðningi auk þess að standa fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn á föstudeginum fyrir sjómannadaginn. Deildin hefur gert það í nokkur ár, en kaffiboðið hefur notið mikilla vinsælda meðal bæjarbúa og gesta sem átt hafa leið um Raufarhöfn.

Kjaramál:

Kjarasamningar milli samtaka sjómanna og SFS (LÍÚ) hafa verið lausir frá 1. janúar 2011.

Nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var undirritaður eftir viðræður aðila 24. júní með gildistíma til 31. desember 2018. Samningurinn fór í atkvæðagreiðslu og var felldur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu innan aðildarfélaga sjómannasambandsins sem voru aðilar að samningnum.

Niðurstaðan atkvæðagreiðslunnar var þessi:

Já sögðu:                                 223 eða 33,3% af þeim sem kusu

Nei sögðu:                              445 eða 66,4% af þeim sem kusu

Auðir/ógildir seðlar voru:            2 eða   0,3% af þeim sem kusu

Aftur var sest að samningaborðinu og nýr kjarasamningur milli SSÍ og SFS var undirritaður þann 14. nóvember síðastliðinn og viðauki þann 18. nóvember þar sem 12. grein um veikinda- og slysarétt í skiptimannakerfi er felld brott og sett í bókun. Að kjarasamningnum stóðu öll aðildarfélög SSÍ að Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur undanskildum. Samhliða undirritun kjarasamningsins þann 14. nóvember síðastliðinn var verkfalli þeirra aðildarfélaga SSÍ sem að samningnum standa frestað frá kl. 20:00  þann 15. nóvember til kl. 20:00 þann 14. desember 2016.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um kjarasamninginn var eftirfarandi, það er meðal þeirra félaga sem stóðu saman innan Sjómannasambandsins:

Á kjörskrá voru 1.098 sjómenn og af þeim kusu 743 eða 67,7%.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var þessi:

Já sögðu                                  177 eða 23,82% af þeim sem kusu

Nei sögðu                               562 eða 75,64% af þeim sem kusu

Auðir/ógildir seðlar voru             4 eða   0,54% af  þeim sem kusu

Samkvæmt framansögðu var því samningurinn felldur með meirihluta greiddra atkvæða í annað skiptið á nokkrum vikum. Verkfall sjómanna hefur því staðið yfir frá kvöldi 14. desember og ekki er fyrir séð hvenær samningar takast milli aðila.

Fulltrúar frá Sjómannasambandinu þreifuðu á SFS fyrir jólin með nokkur atriði sem gætu orðið til þess að liðka fyrir nýjum kjarasamningi. Sérstaklega var horft á eftirfarandi þætti; bætur komi inn fyrir sjómannaafsláttinn, olíuverðsviðmiðið verði endurskoðað, nýsmíðaálagið verði þrengt, sjómönnum verði ekki gert að greiða fyrir fæði um borð og þá verði sjómönnum boðið upp á frían vinnufatnað. Þá hefur einnig verið nefnd að tekið verði á netkostnaði sjómanna um borð í fiskiskipum. Til stendur að ræða þessi atriði betur við SFS á samningafundi þann 6. janúar, það er þegar sjómannafélögunum innan SSÍ hefur gefist tími til að fara yfir þau með sjómönnum á fundum sínum um jól og áramót.

Við munum hér á eftir vera með skoðanakönnun meðal fundarmanna á þeirra skoðunum varðandi þessi atriði. Könnunin verður betur kynnt hér á eftir.

Eins og kunnugt er samþykktu skipstjórnarmenn sinn kjarasamning fyrr á árinu meðan vélstjórar felldu sinn samning í atkvæðagreiðslu í desember. VM hafði áður aflýst verkfalli og því þurfa vélstjórar að fara í aðra atkvæðagreiðslu um afstöðu þeirra til frekari verkfallsboðunar.  Sjómannasambandið notaði aðra aðferð, það var að fresta verkfalli meðan atkvæðagreiðslan um kjarasamninginn fór fram. Þess vegna hófst verkfall aftur hjá undirmönnum þann 14. desember.

SFS hefur ákveðið að setja verkbann á vélstjóra sem taka á gildi kl. 22:00 föstudaginn 20. janúar 2017. Bréf þess efnis barst Framsýn í gær og er í fundargögnunum. Það er athyglisvert í ljósi þess að vélstjórar hafa ekki boðað verkfall. Af hverju útgerðarmenn velja að setja verkbann á vélstjóra en ekki yfirmenn á fiskiskipum kallar á spurningar. Það skal tekið skýrt fram að stjórn Sjómannadeildar Framsýnar er alfarið á móti verkbönnum. Í því sambandi má geta þess að Framsýn hefur þegar gert athugasemdir við ákvörðun SFS að setja verkbann á vélstjóra og að fyrirtækin hafi rofið ráðningarsamband við fiskvinnslufólk með því að beina því á atvinnuleysisbætur í verkfallinu. Framsýn hefur skorað á sjávarútvegsfyrirtækin að draga verkbönnin til baka og að fiskvinnslufólkið verði tekið aftur inn á launaskrá hjá fyrirtækjunum í stað þess að það verði fyrir kjaraskerðingu á atvinnuleysisbótum.

Þá ber að geta þess að ósamið er við Landssamband smábátaeigenda vegna sjómanna á smábátum. Samningsaðilar hafa orðið sammála um að bíða með frekari viðræður þar til kjaradeilan milli SFS og SSÍ hefur verið leist.

Það hefur mikið gengið á í kjaramálum sjómanna á árinu sem er að líða. Til stóð að Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands yrði með okkur á fundinum hér í dag en vegna veðurs komst hann ekki norður. Hann er hins vegar tilbúinn að koma til okkar eftir áramótin til að ræða stöðuna í kjaramálum verði eftir því leitað.

Verkfallsbætur

Stjórn Framsýnar hefur í samráði við stjórn Vinnudeilusjóðs félagsins ákveðið að hefja greiðslur verkfallsbóta til sjómanna í verkfalli innan sjómannadeildar félagsins frá 1. janúar 2017. Svo virðist sem flest sjómannafélögin innan SSÍ ætli sér að miða við hásetatrygginguna sem er í dag á mánuði kr. 234.026,- og hefja greiðslur um áramótin. Stjórnir Framsýnar og Vinnudeilusjóðs hafa ákveðið að gera gott betur og greiða 19% álag á trygginguna. Áætlaður kostnaður fyrir félagið er um 8 milljónir á mánuði en að sjálfsögðu eru bundnar vonir við að takist að semja í janúar. Farið verður betur yfir verkfallsbæturnar hér á eftir undir öðrum lið.

Fræðslumál:

Sjómannadeildin minnir sjómenn reglulega á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi. Þeir sem vilja fræðast frekar um úthlutunarreglur sjóðina er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi, reyndar er einn af þeim í 90% starfi  og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim 6 starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði og einn að hluta af öðrum stéttarfélögum/samböndum og verkkaupum er tengist framkvæmdunum á Bakka og Þeistareykjum. En eins og kunnugt er réð Framsýn sérstakan starfsmann í vinnustaðaeftirlit á árinu sem kostaður er að hluta af Landsvirkjun, Landsneti, Rafiðnarsambandi Íslands, VM og Samiðn þar sem þessir aðilar eiga mikið undir því að framkvæmdirnar gangi vel á svæðinu.

Framkvæmdir fyrirhugaðar:

Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir á efri hæðinni að Garðarsbraut 26 sem vísar út á Árgötuna og er í eigu stéttarfélaganna. Innréttaðar verða 8 fullkomnar skrifstofur sem eiga að vera tilbúnar 1. mars 2017. Þær eru hugsaðar til útleigu þar sem stéttarfélögin hafa ekki þörf fyrir þær. Til greina kemur að selja efri hæðina fáist viðunandi verð í húsnæðið.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt hefur starfsemi Framsýnar gengið vel á árinu, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhalandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2017. Verðið verður áfram kr. 8.900,- per flugferð.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur reglulega fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem gefið er út á hverju ári.

Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári. Ekki síst vil ég þakka Kristjáni og Snorra fyrir störf þeirra í þágu sjómanna en þeir hverfa nú úr stjórn og inn koma tveir öflugir sjómenn verði tillaga þess efnis samþykkt hér á eftir.

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

 Ályktun um kjaramál sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á samtök sjómanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að ganga nú þegar frá nýjum kjarasamningi sem byggir á framlögðum kröfum sjómanna.

 Fyrir liggur að sjómenn telja útgerðarmenn ekki hafa komið til móts við helstu kröfur sjómanna og því hafa nýlegir kjarasamningar verið felldir í tvígang með yfirgnæfandi meirihluta.

 Að mati fundarins er ólíðandi með öllu að útgerðarfyrirtækin í landinu skuli ekki sjá sóma sinn í því að undirrita kjarasamning sem byggir á kröfugerð sjómannasamtakanna.

 Það að sjómenn séu búnir að vera samningslausir frá árslokum 2010 lýsir best framkomu útgerðarmanna í garð sjómanna, framkomu sem sjómenn munu ekki líða lengur.

 Um leið og Sjómannadeild Framsýnar sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra hugheilar jóla- og áramótakveðjur skorar deildin á sjómenn um land allt að standa vörð um kjör og réttindi sjómanna“

 Ályktun um stöðu vélstjóra og fiskvinnslufólks í verkfalli sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar átelur Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir ákvörðun þeirra um að setja verkbann á vélstjóra frá 20. janúar nk. verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Það þýðir að vélstjórar verða tekjulausir frá þeim tíma þar sem þeir missa launtekjur auk þess að eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Framkoma sem þessi er óafsakanleg og SFS til skammar enda vélstjórar ekki í verkfalli.

 Þá vekur jafnframt athygli að fyrirtæki í sjávarútvegi beini fiskvinnslufólki á atvinnuleysisbætur í verkfalli sjómanna og beri því við að fiskvinnslufólk hafi það mun betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum. Um er að ræða mjög alvarlegan áróður sem á ekki við rök að styðjast.  Væri svo að verkafólk hefði það betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu, væri það mikill áfellisdómur yfir Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni. Það borgi sig að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að vera á launaskrá samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.“

 Reglur um verkfallsbætur til sjómanna innan Framsýnar

Samþykkt um verkfallsbætur í verkfalli sjómanna

„Í samráði við stjórn Framsýnar hefur stjórn Vinnudeilusjóðs félagsins samþykkt að viðhafa eftirfarandi reglur um úthlutun úr sjóðnum í verkfalli sjómanna. Greiddar verða verkfallsbætur frá 1. janúar 2017 alla virka daga meðan á verkfallinu stendur til félagsmanna í Sjómannadeild Framsýnar. Miðað verður við kauptryggingu háseta á mánuði sem er kr. 234.026,-. Til viðbótar verður greitt 19% álag á kauptrygginguna sem samtals gerir kr. 278.371 á mánuði eða kr. 12.845 á dag virka daga.

Sjómenn sem hyggjast sækja um verkfallsbætur þurfa að ganga frá umsókn þess efnis á eyðublaði sem hægt er að nálgast á Skrifstofu stéttarfélaganna og/eða á heimasíðu félagsins. Jafnframt þarf að skila inn skattaupplýsingum á móti greiddum verkfallsbótum þar sem þær eru skattskyldar. Sjómenn sem stunda vinnu í landi, meðan á verkfallinu stendur,  eiga ekki rétt á greiðslum úr Vinnudeilusjóði fyrir þá daga sem þeir eru við störf. Það á einnig við ef þeir stunda sjálfboðavinnu sem almennt telst launuð vinna. Greitt verður út mánaðarlega nema annað verði ákveðið af stjórn Vinnudeilusjóðs.“

sjomennadalfundur1216-107

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einar Örn er hér mjög hugsi yfir skýrslu stjórnar um leið og hann fær sér kaffi og tertu sem var í boði á fundinum í gær.

 

 

Deila á