Launafl ehf. óskar að ráða vélvirkja eða suðumenn til starfa sem fyrst. Húsnæði í boði. Tungumálakunnátta íslenska eða sæmilega góð enska. Upplýsingar gefur starfsmannastjóri Launafls ehf., Adda Ólafsdóttir. adda@launafl.is eða 414-9400.
Launafl ehf. óskar að ráða vélvirkja eða suðumenn til starfa sem fyrst. Húsnæði í boði. Tungumálakunnátta íslenska eða sæmilega góð enska. Upplýsingar gefur starfsmannastjóri Launafls ehf., Adda Ólafsdóttir. adda@launafl.is eða 414-9400.
Framsýn hefur ákveðið að auka námsstyrki til félagsmanna sem fullnýta styrki úr starfsmenntasjóðum sem þeir eiga aðild að í gegnum kjarasamninga sem Framsýn á aðild að. Það er Landsmennt, Ríkismennt, Sjómennt, Sveitamennt og Fræðslusjóð verslunarmanna. Miðað við full réttindi eiga félagsmenn rétt á 130.000 króna styrk á ári frá þessum sjóðum. Noti menn réttinn ekki á hverju ári getur hann safnast upp í allt að 390.000 króna rétt á þriggja ára tímabili. Til viðbótar þessum góðum styrkjum hefur Framsýn ákveðið að bjóða þeim félagsmönnum sem stunda dýrt nám allt að 100.000 króna styrk til viðbótar úr Fræðslusjóði Framsýnar. Þannig vill félagið koma til móts við félagsmenn á erfiðum tímum þegar búast má við töluverðu atvinnuleysi næstu mánuðina. Varðandi þá styrki sem nefndir eru hér að ofan gilda þeir ekki bara fyrir formlegt nám sem félagsmenn stunda heldur einnig fari þeir á styttri eða lengri námskeið sem og á tómstundanámskeið. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.
Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík hefur unnið að því undanfarið að miðla atvinnulausu fólki í vinnu og hafa þó nokkrir fengið vinnu í gegnum skrifstofuna við fjölbreytt störf. Nú ber svo við að Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn sár vantar starfsfólk á vertíð. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Siggeir Stefánsson hjá Ísfélaginu í síma 894-2608 sem jafnframt veitir frekari upplýsingar. Gangi áætlanir eftir er framundan mikil vinna og góðir tekjumöguleikar fyrir áhugasama.
Í flestum tilfellum var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í matvörukönnun ASÍ sem framkvæmd var þann 8. september í verslunum staðsettum á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Í 43 tilvikum af 98 var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði og í 21 tilviki 40-60% munur. Könnunin náði bæði til stærri verslanakeðja og minni matvöruverslana sem eru í eigu sjálfstæðra aðila en verslanirnar sem voru skoðaðar eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Skerjakolla, Urð, Verslunin Ásbyrgi og Dalakofinn.
Nettó var oftast með lægsta verðið, í 63 tilvikum af 98 og Kjörbúðin næst oftast, í 40. Urð, Raufarhöfn var með lægsta verðið í sex tilvikum og Skerjakolla, Kópaskeri í þremur tilvikum. Skerjakolla var oftast með hæsta verðið í 47 tilvikum og Krambúðin næst oftast, í 20 tilvikum. Urð var með hæsta verðið í 14 tilvikum, Dalakofinn í 10 og Kjörbúðin í 5 tilvikum.
102% munur á kílóverði af Cheeriosi og 57% á ýsuflökum
Dæmi um mikinn verðmun í könnuninni var 83% munur á hæsta og lægsta kílóverði á heilum kjúklingi, lægst var verðið í Nettó og Kjörbúðinni, 699 kr. en hæst í Skerjakollu, 1.279 kr. Þá var 57% munur á hæsta og lægsta verði af ýsuflökum, lægst var verðið í Urð, 1.590 kr. kílóið en hæst í Skerjakollu, 2.498 kr.
Fleiri dæmi um mikinn verðmun í könnuninni er 118% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi, 139% munur á hæsta og lægsta verði af frosnum jarðaberum og 108% verðmunur á Pringles stauk. Þá var 102% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Neutral þvottaefni og 132% munur á 2 lítrum af Pepsi Max. Þá var í mörgum tilfellum gríðarlegur verðmunur á grænmeti og ávöxtum.
Þrátt fyrir að Nettó og Kjörbúðin hafi í heildina litið komið töluvert betur út í verðkönnuninni en minni verslanir mátti finna dæmi um að verð væru lægri í minni verslunum sem eru reknar af sjálfstæðum aðilum eða að verðmunurinn væri tiltölulega lítill. Oftar kom það þó fyrir að verð í minni verslununum væru lægri en í Krambúðinni.
Mikill munur var á vöruúrvali í verslununum en mest var úrvalið í Nettó þar sem 96 vörur fengust af þeim 98 sem voru í könnuninni en minnsta úrvalið var í Versluninni Ásbyrgi þar sem 23 vörur fengust. 88 vörur fengust í Kjörbúðinni, 86 í Krambúðinni, 77 í Urð, 65 í Skerjakollu og 54 í Dalakofanum Laugum. Vert er að hafa í huga að verðkönnunin var framkvæmd í öðrum útibúum Nettó, Kjörbúðarinnar og Krambúðarinnar en þeim sem eru á svæðinu og getur því verið einhver munur á vöruúrvali.
Könnunin var gerð í matvöruverslunum um land allt og má sjá niðurstöður fyrir allt landið á heimasíðu ASÍ, www.asi.is.
Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem þjóna neytendum í dreifbýli til stórra keðjuverslana.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vara sem er það verð er neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni, að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ
Tímamótasamkomulag um styttingu vinnutímans náðist í kjarasamningum opinberra starfsmanna á vormánuðum 2020. Í kjölfarið opnaði Kjara- og mannauðssýsla ríkisins kynningarvef um styttingu vinnutímans undir heitinu betrivinnutími.is.
Á vefnum er farið yfir mögulegar útfærslur á styttingu vinnutíma dagvinnufólks og þær breytingar sem verða á vinnufyrirkomulagi vaktavinnufólks. Á vefnum er einnig leitast við að svara helstu spurningum og veita leiðbeiningar um framkvæmd breytinganna sem eiga að leiða til betri vinnutíma. Þá er einnig að finna svokallaðan vaktareikni sem hægt er að nota til þess að fá betri mynd af því hvaða breytingar nýtt vinnufyrirkomulag getur haft á kjör vaktavinnufólks.
Framsýn stéttarfélag hvetur félagsmenn til að kynna sér efnið á vefnum vel og vandlega enda verður útfærslan á styttingu vinnutímans með ólíkum hætti eftir því hvort fólk vinnur hefðbundna dagvinnu eða vaktavinnu.
Nú þegar haustið nálgast sér fyrir endann á árstíðarbundnum sumarstörfum af margvíslegu tagi. Starfslokum fylgir uppgjör á launum og öðrum greiðslum, svo sem orlofi. Mikilvægt er að fara yfir útreikninga og gæta þess að allar greiðslur séu í samræmi við kjarasamninga og ráðningarkjör. Ef einhver vafi vaknar um að greiðslur séu réttar eða eitthvað er óljóst hvetjum við alla til að hafa samband við sitt stéttarfélag og fá upplýsingar og aðstoð. Rangur launaútreikningur er allt of algengur og því nauðsynlegt fyrir launafólk að fara yfir alla launaseðla og tryggja að laun og greiðslur séu rétt reiknaðar og frágengnar.
(Frétt sgs.is)
Um þessar mundir er allt á fullu hjá Norðlenska á Húsavík sem rekur eitt öflugasta sauðfjársláturhús landsins. Áætlaður sláturfjöldi er rétt rúmlega 90.000 fjár og síðasti sláturdagur er áætlaður 30. október. Að slátrun og vinnslu koma milli 170-180 manns. Meðan á sláturtíðinni stendur er einnig mikið líf á Húsavík enda koma margir starfmenn um langan veg til að vinna tímabundið hjá Norðlenska meðan á vertíðinni stendur og halda síðan heima á leið aftur.

Guðmundur Flosi og meistari Sigurjón eru meðal öflugra starfsmanna hjá Norðlenska á Húsavík.
Nýlega kynnti kjaratölfræðinefnd sína fyrstu skýrslu, Samningalotan 2019-2020, fyrir aðilum vinnumarkaðarins og strax í kjölfarið birtist hún opinberlega. Hægt er að sjá fundinn og skýrsluna á www.ktn.is
Skýrslan skiptist í fjóra meginkafla sem fjalla um efnahagsmál, umgjörð kjarasamninga, gerða kjarasamninga í yfirstandandi kjaralotu og mælingar Hagstofu Íslands á launaþróun sem flokkaðar eru eftir heildarsamtökum launafólks og launagreiðenda.
Í efnahagskafla er farið yfir áhrif kórónukreppunnar á efnahag og vinnumarkað og samanburður gerður á efnahagsspám fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Viðbrögðum stjórnvalda er lýst og ljósi varpað á tvær nýlegar kreppur.
Meginefni skýrslunnar er um breytingar og dreifingu launa í yfirstandandi samningalotu samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Fjallað er um helsta inntak kjarasamninga, þ.á.m. launabreytingar og styttingu vinnutíma.
Í kafla um umgjörð kjarasamninga er lýst skipulagi samtaka á vinnumarkaði, lagaumhverfi og hlutverki ríkissáttasemjara. Þá fylgir skýrslunni yfirlit yfir gerða kjarasaminga.
Kjaratölfræðinefndin var skipuð af félags- og barnamálaráðherra 21. nóvember 2019 og samkvæmt skipunarbréfi skal hún draga saman og vinna úr talnaefni um launa- og efnahagsmál til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Markmiðið er að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og þróun hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Áformað er að skýrslur nefndarinnar komi út tvisvar á ári.
Aðild að kjaratölfræðinefnd eiga forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.
„Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar er unnin við þær óvenjulegu aðstæður að hraðar og miklar breytingar eru að verða á högum launafólks vegna kórónuveirufaraldursins. Það er von okkar að skýrslan nýtist samtökunum vel við mat á stöðu félagsmanna sinna,“ segir Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar.
Bein slóð á skýrsluna: https://65f501ee-1639-4d7b-b353-37ac1ebc2862.filesusr.com/ugd/0497ac_609df9bd2b8e4ee78e499c7cff690018.pdf
Vefsíða kjaratölfræðinefndar: https://www.ktn.is/
Slóð á fjarfundinn frá því í gær: https://www.dropbox.com/s/yu1jd22pceor15d/Kynningarfundur%2C%20sk%C3%BDrsla%20kjarat%C3%B6lfr%C3%A6%C3%B0inefndar%20-%2016.09.2020.edit2.mp4?dl=0
Á stjórnarfundi Framsýnar í dag var samþykkt að hvetja til þess að aukið fjármagn verði sett í framkvæmdir við Heimskautsgerðið á Raufarhöfn með það að markmiði að klára framkvæmdina á næstu tveimur árum. Um er að ræða mjög áhugavert verkefni sem án efa á eftir að draga til sín mikinn fjölda ferðamanna og styrkja þannig ferðaþjónustuna á svæðinu.
Heimskautsgerðið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessum vangaveltum kom hugmyndin að nota dvergatal Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi, gerði skissur og líkan sem stuðst er við.
Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál, 6 metra há hlið vísa til höfuðáttanna. Í miðju hringsins er 10 metra há súla á fjórum stöplum, sem áform eru uppi um að skarti kristaltoppi sem brýtur sólarljósið og varpar geislum sólar um allt Gerðið. Fjórir skúlptúrar eru inní Gerðinu hvert með sínu sniði. Pólstjörnubendir sem vísar á Pólstjörnuna. Hásæti sólar þar sem birtan í ákveðinni stöðu boðar sumarkomu. Geislakór er rými á milli hárra stöpla þar sem hægt verður að setjast niður, tæma hugann og endurnýja orku sína. Altari elds og vatns sem virkjar frumkraftana.
Inni Gerðinu verður árhringur dverga, steinar sem hver um sig tákna ákveðinn dverg. Þessir dvergar eru alls 72 talsins og er getið í íslenskum fornbókmenntum. Með þeim fjölda á hver dvergur sitt „vik“ í árinu, ef miðað er við 5 daga viku. Með því að tengja nöfn dverganna við árstíðir, eins og til dæmis nafnið Vetrarfaðir á fyrsta vetrardag þá ganga nöfnin upp eftir því hvar í árinu þeir lenda sem myndar 72 vikur. Árhringur dverga er þannig orðinn einskonar almanak, þar sem hver dvergur ræður 5 dögum. Til dæmis Várkaldur í viku vors, Bjartur í viku sumars þegar nætur eru bjartar og Dvalinn í haustviku þegar allt leggst í dvala fyrir veturinn. Enginn hefur getað útskýrt tilurð eða hlutverk dverganna í Völuspá nema þeirra Austra, Vestra, Norðra og Suðra, sem halda uppi himninum. Í hugmyndafræði Heimskautsgerðisins hefur öllum dvergum verið gefið hlutverk og þeir verið persónugerðir. Þannig er hægt að tengja dvergana við afmælisdaga og mynda tengsl við þá. Dvergarnir eru svo hluti af tímabilum goðanna sem eru gömlu mánuðirnir. Þegar á árið er litið sést að það eru 6 dvergar sem tilheyra hverjum (gamla) mánuði og hver mánuður tilheyrir ákveðnu goði. Hliðin, Austri, Vestri, Norðri og Suðri, á milli stöplanna vísa mót höfuðáttunum, þannig að miðnætursólin sést frá suðurhliði gegnum miðsúlu og norðurhlið, á sama hátt og sólarupprás sést frá vesturhliði í gegn um miðsúlu og austurhlið. Samspil ljóss og skugga sýnir eyktamörkin.
Nánari upplýsingar um hugmyndafræði Heimskautsgerðisins er að finna á heimasíðunni www.heimskautsgerdi.is.
Hraunsrétt í Aðaldal er ein ef ekki fallegasta og merkilegasta fjárrétt á Íslandi. Þar býr einnig fallegasta fólkið að sjálfsögðu. Í dag komu bændur og búalið í Aðaldal saman til að rétta í frekar leiðinlegu veðri. Vegna sóttvarnarreglna var aðgengi gesta að réttinni takmarkað þetta árið. Réttirnar fóru vel fram og voru bændum í Aðaldal til mikils sóma. Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag.












Eðli stofnunarinnar að vaxa í óáran, en minnka í góðæri. Svo mælti forstjóri Vinnumálastofnunnar árið 2014 þegar ákveðið var að loka starfsstöð Vinnumálastofnunnar á Húsavík þrátt fyrir mótmæli heimamanna. Nú ber svo við að atvinnuleysi á svæðinu er í sögulegu hámarki. Þess vegna ekki síst, hlýtur að teljast eðlilegt að Vinnumálastofnun bregðist við ástandinu með því að auka þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum. Sjónvarpstöðin N4 fjallaði um málið í gær, þar var talað við Soffíu Gísladóttir forstöðumann VMST á Norður- og Austurlandi og Aðalstein Árna Baldursson formann Framsýnar stéttarfélags. https://www.facebook.com/N4Sjonvarp/videos/833180370555371
Framsýn telur afar mikilvægt að Vinnumálastofnun efli þjónustu sína í Þingeyjarsýslum. Með bréfi kallar Framsýn eftir aukinni þjónustu stofnunarinnar á svæðinu er varðar almenna þjónustu við atvinnuleitendur, vinnumiðlun og vinnustaðaeftirlit. Bréfið er meðfylgjandi:
Vinnumálastofnun
Unnur Sverrisdóttir
Kringlunni 1
103 Reykjavík
Húsavík 5. september 2020
Varðar starfsemi Vinnumálastofnunnar
Þann 1. desember 2014 tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að loka skrifstofu stofnunnarinnar á Húsavík í sparnaðarskyni og þar sem atvinnuleysi hafði dregist saman í Þingeyjarsýslum. Þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar var mótmælt af sveitarfélögum og stéttarfélögum í héraðinu, en stofnunin sá ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðun sína.
Undanfarnar vikur og mánuði hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stórlega aukist og því miður virðist ekki bjart yfir komandi mánuðum, svo vitnað sé í fjölda uppsagna á svæðinu og skýrslur Vinnumálastofnunar, sem enn gera ráð fyrir vaxandi atvinnuleysi.
Segja má að síðustu ár hafi hlutverk Vinnumálastofnunnar í Þingeyjarsýslum færst að hluta inn á borð starfsmanna Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, sem daglega veita upplýsingar um stöðu og réttindi fólks sem misst hefur atvinnu sína. Upplýsingar og þjónustu sem þeir eiga að hafa greiðan aðgang að hjá Vinnumálastofnun. Er þar einkum um að ræða erlenda starfsmenn, sem vita takmarkað um réttindi sín til atvinnuleysisbóta og þjónustu Vinnumálastofnunar s.s. starfsmenn PCC og ferðaþjónustufyrirtækja. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa einnig leitað töluvert til stéttarfélaganna eftir upplýsingum er tengist uppsögnum, hlutabótum og atvinnuleysisbótum starfsmanna á tímum Covid-19.
Framsýn stéttarfélag bendir á að stjórnvöldum ber skylda til þess á hverjum tíma að tryggja Vinnumálastofnun nægjanlegt fjármagn svo hún geti staðið undir sínum skyldum. Telur félagið löngu tímabært að efla starfsemi stofnunarinnar á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Verulega hafi skort á að svo hafi verið, sérstaklega er varðar vinnumiðlun, almenna þjónustu og vinnustaðaeftirlit á svæðinu. Ekki er kveðið fast að orði þó sagt sé að ástand þessara mála sé orðið algjörlega óviðunandi.
Það sem af er ári hefur atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum stóraukist. Til að bregðast við þeirri stöðu setti Framsýn á laggirnar vinnumiðlun á félagssvæðinu, með það markmið að reyna að miðla atvinnuleitendum í aðra vinnu. Sem betur fer hefur framtakið skilað þó nokkrum árangri en vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi tekist betur til. Allt of margir hafa hafnað vinnu sem þeim hefur staðið til boða. Þörf er á aðhaldi frá Vinnumálastofnun, því að sjálfsögðu á engum að líðast að vera á atvinnuleysisbótum standi þeim vinna til boða sem samræmist getu, menntun og fyrri reynslu viðkomandi. Þá er mikilvægt að Vinnumálastofnun taki upp virkt samstarf við Þekkingarnet Þingeyinga um námskeiðahald fyrir þá sem þegar eru komnir inn á atvinnuleysisbætur og/eða eiga því miður eftir að bætast í þann hóp á komandi mánuðum. Virk fræðsla er mjög mikilvæg á tímum sem þessum.
Þá hefur lítið sem ekkert verið um vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum á vegum Vinnumálastofnunar. Enn og aftur hefur það aðallega verið í höndum Framsýnar, sem réði á sínum tíma sérstakan mann í vinnustaðaeftirlit. Eftirlitið hefur skilað góðum árangri en skort hefur á að opinberir aðilar taki þátt í því með stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum.
Með bréfi þessu kallar Framsýn eftir viðræðum við Vinnumálastofnun um að stofnunin auki þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum og aðra þá sem sækja þurfa þjónustu sem fellur almennt undir starfsemi stofnunarinnar. Til greina kemur að Framsýn komi til móts við Vinnumálastofnun með því að leggja til aðstöðu undir starfsemina á Húsavík til reynslu. Í það minnsta færi félagið með opnum huga í slíkar viðræður við Vinnumálastofnun.
Frekari upplýsingar gefur undirritaður.
Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson
Afrit:
Ásmundur Einar Daðason,
Félags- og barnamálaráðherra
Soffía Gísladóttir,
Forstöðumaður VMST á Norðurlandi eystra
Innan Framsýnar er starfandi kraftmikið ungliðaráð á aldrinum 16-35 ára sem skipað er til eins árs í senn. Skipunin fer fram á fundi Framsýnar í október á hverju ári. Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið starfar á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG og starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags. Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Frá fyrstu tíð hefur starfsemi Framsýnar-ung verið mjög kraftmikið og skemmtilegt. Við viljum skora á ungt og áhugasamt fólk að gefa kost á sér í stjórn en kjörtímabilið er eitt ár, það er frá október á hverju ári. Stjórn Framsýnar- ung á hverjum tíma gefst tækifæri á að sitja alla stjórnar- og trúnaðarráðsfundi Framsýnar. Hafir þú áhuga fyrir því að taka þátt í öflugu starfi er þér bent á að senda netpóst á netfagnið kuti@framsyn.is. Koma svo!

Það er ekkert smá frjósemi í gangi hjá stjórn Framsýnar-ung. Hér má sjá þrjár af fjórum stjórnarkonum í Framsýn-ung. Þetta eru þær Elva, Guðmunda Steina og Sunna. Á myndina vantar Heiðu Elínu sem komst ekki á aðalfund Framsýnar en myndin var tekin á aðalfundinum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heilsaði upp á formann Framsýnar á leið hennar um Húsavík. Tekin var umræða um stöðuna í þjóðfélaginu og málefni verkalýðshreyfingarinnar. Formaður Framsýnar kom ýmsu á framfæri við ráðherrann sem hann taldi að betur mæti fara í þjóðfélaginu, ekki síst varðandi þá sem búa við lökust kjörin í landinu.
Stjórn Framsýnar kemur saman til fyrsta fundar eftir aðalfund félagsins næstkomandi mánudag, 14. september kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Að venju er stjórn Framsýnar-ung boðið að sitja fundinn.
Dagskrá:
Flugfélagið Ernir hafa ákveðið að fjölga aftur ferðum til Húsavíkur, það er að bæta við flugum á þriðjudögum og fimmtudögum í tvær ferðir á dag. Þetta eru að sjálfsögðu mjög jákvæðar fréttir. Hér er linkur á nýja áætlun sem tók gildi í dag https://www.ernir.is/afangastadir/husavik. Áfram verður svo flogið einu sinni á dag; Mánudag-Föstudag-Sunnudag.
Framsýn stéttarfélag stendur mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Styrkur félagsins kemur auk þess ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.
Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir.
Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn, trúnaðarráði, trúnaðarmönnum á vinnustöðum og ungliðastarfi í gegnum Framsýn-ung. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.
Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu af öflugustu stéttarfélögunum innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga. Þetta staðfestir einnig netkönnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði fyrir Framsýn árið 2019. Niðurstaðan er frábær fyrir félagið. Til hamingju félagar og ágætu starfsmenn stéttarfélaganna, hafið kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsmanna.
Viðskiptablaðið fjallar um áhugaverða niðurstöðu er varðar svokölluð lausnarlaun sem hafa verið túlkuð svo af hinu opinbera að fólk afsali sér rétti til starfs til frambúðar.
Íslenska ríkið og eitt sveitarfélaga landsins þurftu að þola viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu sökum þess að hafa hafnað því að ráða einstakling sem kennara við grunnskóla í sveitarfélaginu haustið 2017. Dóminum var ekki áfrýjað og segir lögmaður kennarans að dómurinn geti haft talsverð áhrif til bóta á réttarstöðu launþega, sér í lagi hjá hinu opinbera.
Umræddur kennari hefur áratugareynslu af kennslu í grunnskóla. Á vormánuðum ársins 2015 kom í ljós að hann var með kransæðasjúkdóm sem þarfnaðist meðhöndlunar og var hann óvinnufær sökum þess um nokkurra mánaða skeið. Þá um haustið gekkst hann undir aðgerð vegna þess.
Á þeim tíma átti kennarinn 360 daga veikindarétt samkvæmt kjarasamningi sínum en hann átti að renna sitt skeið um miðjan janúar 2016. Skömmu áður en hann rann sitt skeið var undirritaður samningur um að honum skyldu greidd lausnarlaun en sá var gerður á þeim grunni að maðurinn ætti ekki afturkvæmt til starfa sinna. Hljóðaði samningurinn upp á greiðslu fullra mánaðarlauna í þrjá mánuði eftir að látið er af störfum.
Í ágúst 2017 sótti kennarinn um starf hjá öðrum skóla í sama sveitarfélagi en þá hafði hann náð kröftum sínum á nýjan leik. Svar skólastjóra þess skóla var á þá leið að nítján mánuðum fyrr hefði kennarinn undirritað samkomulag um greiðslu lausnarlauna á þeim grunni að hann væri varanlega ófær um að sinna starfi sínu vegna vanheilsu. Af þeim sökum kæmi umsókn hans ekki til álita við ráðningu í starfið þrátt fyrir að kennarinn hefði verið eini umsækjandinn sem hefði leyfisbréf til starfans. Þess í stað var sótt um undanþágu til ráðherra til þess að ráða leyfislausan starfsmann tímabundið við skólann.
„Það hefur tíðkast, að minnsta kosti hjá kennurum, að litið sé svo á að langveikir einstaklingar megi ekki snúa aftur til starfa, nái þeir bata, hafi þeir tekið við lausnarlaunum vegna varanlegrar óvinnufærni. Lausnarlaunaþegum var þó almennt ekki tilkynnt um þennan galla á gjöf Njarðar, það er að með móttöku lausnarlaunanna fyrirgerði viðkomandi rétti sínum til að starfa í faginu til frambúðar,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður mannsins, við Viðskiptablaðið.
Því vildi kennarinn ekki una heldur sinna starfi sínu á nýjan leik. Ótækt væri að skólar gætu túlkað slíkt tvíhliða samkomulag með slíkum hætti. Það gæti ekki staðist skoðun að um óafturkræfa yfirlýsingu, um óvinnufærni allt þar til yfir lýkur, væri að ræða.
Sveitarfélagið taldi á móti að ekki hefði verið brotið gegn rétti kennarans þar sem fyrir hefði legið yfirlýsing trúnaðarlæknis skólans þess efnis að hann væri óvinnufær ævina á enda. Ríkið krafðist síðan sýknu á þeim grunni að það gæti ekki borið ábyrgð á einstökum aðgerðum sveitarfélaga. Á þau rök féllst héraðsdómur ekki og taldi hvorki lög né kjarasamninga geyma heimild til að sniðganga kennarann með þessum hætti.
Að sögn Ingvars áfrýjuðu hvorki ríki né sveitarfélag niðurstöðu héraðsdóms og því stendur hann óhaggaður. Spurður að því hvort dómurinn geti haft áhrif út fyrir þetta tiltekna mál segir lögmaðurinn að svo kunni að vera. „Í dóminum er staðfest að skerðing á atvinnufrelsi í kjarasamningum er háð sömu skýrleikakröfum og sambærilegar skerðingar í lögum. Þannig er ljóst að atvinnufrelsi einstaklinga verður ekki skert með ótvíræðu orðalagi í kjarasamningum, enda um grundvallarréttindi einstaklinga að ræða,“ segir Ingvar Smári. „Fordæmisgildi dómsins kann að vera umtalsvert, sérstaklega fyrir launþega hjá hinu opinbera.“
Sannað þótti að maðurinn hefði orðið fyrir fjártjóni vegna þessa og skaðabótaskylda ríkisins og sveitarfélagsins því viðurkennd. Gjafsóknarkostnaður mannsins, 1,8 milljónir króna án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Frétt: Viðskiptablaðið 3. september 2020
Til fróðleiks má geta þess að Framsýn stéttarfélag aðstoðar reglulega félagsmenn sem átt hafa í langvarandi veikindum og starfað hafa hjá ríkinu eða sveitarfélögum að ná fram kjarasamningsbundum rétti til lausnarlauna. Ekki síst í ljósi þess er dómurinn mjög áhugaverður.
Í gegnum tíðina hefur verið mikið aðhald í rekstri Framsýnar. Aðhaldið hefur ekki síst skilað sér í því að félagsmenn Framsýnar búa við góða þjónustu og gott aðgengi að sjóðum félagsins, það er sjúkrasjóði, orlofssjóði, vinnudeilusjóði og starfsmenntasjóðum á vegum félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins á árinu 2019 var með ágætum þrátt fyrir verulegar hækkanir úr sjúkrasjóði til félagsmanna milli ára.
Rekstrarafgangur var á öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sveitament, Sjómennt og Fræðslusjóði verslunarmanna. Félagsgjöld og iðgjöld lækkuðu um 0,13% milli rekstrarára.
Rekstrartekjur félagsins námu kr. 278.337.904,- sem er aukning um 1,76% milli ára. Rekstrargjöld námu 214.865.064,- sem er hækkun um 18% milli ára. Þessi hækkun er einkum tilkomin vegna hækkunar styrkja úr sjúkrasjóði. Fjármagnstekjur námu kr. 58.321.709,-. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 233.054.138,- á móti kr. 233.346.473,- á árinu 2018. Í árslok 2019 var tekjuafgangur félagsins kr. 114.939.909,-. Heildareignir félagsins námu kr. 2.146.256.344,- í árslok 2019. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 60.524.956,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.170.050,- til rekstursins. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.
Framsýn stéttarfélag á orlofshús í Dranghólaskógi sem er við Lund í Öxarfirði. Húsið er afar vinsælt enda á mjög fallegum stað í skóginum. Orlofshúsið var í fullri leigu í sumar. Áhugasamir félagsmenn geta fengið það leigt í september og jafnvel í október líka enda verði tíðafarið í lagi, það er einstaka daga, viku- eða helgarleigu. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.