Eins og kunnugt er fer mikið starf fram á vegum Framsýnar stéttarfélags og fjölmargir félagsmenn koma að því að sitja í stjórnum, trúnaðarráði og nefndum á vegum félagsins. Hefð hefur verið fyrir því að færa þessum aðilum á jólafundi félagsins hangikjöt að gjöf fyrir frábær störf í þágu félagsins, sem örlítinn þakklætisvott fyrir þeirra óeigingjörnu störf í þágu annarra félagsmanna sem telja yfir þrjú þúsund. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu hafa viðkomandi aðilar sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Framsýn afþakkað jólagjöfina frá félaginu og óskað eftir að andvirði hangikjötslæranna kr. 150.000 renni til Velferðarsjóðs Þingeyinga. Sjóðurinn hefur verið að auglýsa eftir styrkjum fyrir jólin þar sem þörfin er mikil um þessar mundir hjá mörgum einstaklingum og fjölskyldum sem Velferðarsjóðurinn hefur verið að styrkja.
Arna Þórarinsdóttir tók við gjöfinni fyrir hönd Velferðarsjóðs Þingeyinga. Með henni á myndinni er Elísabet Gunnarsdóttir fjármálastjóri stéttarfélaganna.