Innan Framsýnar er mikið lagt upp úr líflegu og skemmtilegu félgsstarfi, en fjöldi félagsmanna gegnir trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélagið. En þrátt fyrir alvöruna sem gjarnan fylgir daglegum störfum stéttarfélaga, er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á spaugilegu þáttunum í tilverunni.
Það er reyndar sagt er að öllu gamni fylgi nokkur alvara. Í aðdraganda jóla kom varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir færandi hendi á Skrifstofu stéttarfélaganna með sendingu frá stjórn og trúnaðarráði félagsins. Hún hafði meðferðis eftirlíkingu af formanninum og lét þau orð falla að nú væri komið að því að hann tæki sér frí. Staðgengill formanns hefur fengið nafnið Frímann, en þrátt fyrir grínið sem tilurð hans fylgir, er hann fyrst og fremst ætlaður sem ábending til Aðalsteins Árna, um að honum sem öðrum launþegum sé ætlað að taka sitt lögbundna sumarfrí. Mikið álag hefur verið á starfsfólki skrifstofunnar undanfarna mánuði og því lítið um frí hjá formanninum.
Athygli vekur hvað þeir eru líkir, Aðalsteinn Árni og Frímann sem ætlað er að leysa formanninn af hólmi meðan hann tekur ótekið sumarleyfi.