Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður milli Framsýnar og Framhaldsskólans á Húsavík um endurnýjun á stofnanasamningi sem er hluti af aðalkjarasamningi aðila. Viðræður hafa gengið vel og var samningurinn klár í lok desember. Vegna jólafría starfsmanna var gengið frá honum formlega í gær með undirskrift. Á meðfylgjandi mynd má sjá Valgerði Gunnars skólameistara og fulltrúa Framsýnar, þær Guðrúnu, Önnu og Alexíu, sem gengu endanlega frá samningnum í gær. Á myndina vantar formann Framsýnar, Aðalstein Árna, sem kom að samningagerðinni með starfsmönnum skólans innan Framsýnar og skólameistara. Eftir fráganginn á samningnum í gær fékk formaður Framsýnar kynnisferð um skólahúsnæðið en töluverðar framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarið við lagfæringar á skólanum bæði innan- og utanhúss. Afar ánægjulegt er að sjá hvað búið er að gera mikið varðandi endurbætur á húsnæðinu. Öll aðstaða kennara og annarra starfsmanna skólans sem og nemenda er orðin til mikillar fyrirmyndar. Vonandi tekst að fjölga nemendum enn frekar á komandi skólaárum, ekki síst þar sem skólaumhverfið er orðið til mikillar fyrirmyndar og því ætti að vera eftirsóknarvert að stunda nám við FSH.