COVID 19 – spurt og svarað

Ríkisstjórn Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa náð þríhliða samkomulagi um aðgerðir til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 veirunnar hér á landi með því að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
Mikill fjöldi launafólks hefur að tilmælum yfirvalda farið í sóttkví sem felur það í sér að það getur ekki sótt vinnu auk þess sem öll samskipti eru takmörkuð. Slíkt felur í sér mikla röskun á högum og daglegu lífi. Miklir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að sóttkví sé haldin og hægt á útbreiðslu veirunnar. Af þeim ástæðum verður að tryggja að það launafólk sem sætir sóttkví  þurfi ekki að óttast um afkomu sína meðan á henni stendur.Aðilar hafa því orðið ásáttir um eftirfarandi:

  1. Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
  2. Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
  3. Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekendi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Unnið verði að útfærslu á þeirri aðkomu stjórnvalda og gildistíma og stefnt verði að því að þeirri vinnu verði lokið 13. mars.

Meðan á sóttkví stendur reynir ekki á veikindarétt almenns launafólks, frekar en opinberra starfsmana, en sjúkrasjóðirnir þurfa að vera reiðubúnir til að taka við þeim sem veikjast og tæma veikindarétt sinn af þeim ástæðum.

Sameiginleg yfirlýsing forsætisráðuneytisins, ASÍ og SA

Ítarlegar upplýsingar um COVID-19 er að finna á vef landlæknis

Áhættumat og forvarnir vinnustaða vegna COVID-19 smithættu – Leiðbeiningar Vinnueftirlitsins

COVID-19 Handþvottur

Spurt og svarað

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning við Ríkið hafinn

Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn sem undirritaður var við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs 6. mars síðastliðinn er hafinn. Til þess að taka þá í henni skal smellt á hlekkinn í bleika borðanum hér að ofan. Til þess að geta greitt atkvæði verður svo að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Atkvæðagreiðslan hófst í dag klukkann 12:00 og lýkur 26. mars næstkomandi klukkan 16:00.

Hægt er að kjósa utankjörfundar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Allur er varinn góður – samið við sérstakar aðstæður

Undanfarið hafa staðið yfir viðræður milli stéttarfélaganna Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur um endurskoðun á stofnanasamningum við Framhaldsskólann á Húsavík sem að mestu hafa farið fram í gegnum netið vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og tengjast Covid veirunni. Fulltrúar félaganna  hittust í morgun til að undirrita samninganna. Eins og sjá má var fyllsta öryggis gætt við undirskriftina af samningsaðilum.

Félagsmenn Framsýnar hjá ríkinu athugið! – Kynning á samningi/atkvæðagreiðsla

Kosning um kjarasamning Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að hefst á morgun kl. 12:00, það er 19. mars og lýkur fimmtudaginn 26. mars kl. 16:00. Hægt verður að kjósa með því að fara í gegnum tengill á heimasíðu Framsýnar. Tengillinn kemur inn á morgun, fimmtudag þegar kosningin hefst formlega.

Eins og fram hefur komið var kynningarfundi um helstu atriði samningsins sem til stóð að halda á morgun, fimmtudag, felldur  niður vegna Covid 19 veirunnar.  Þess í stað höfum við komið fyrir góðu kynningarefni inn á heimasíðuna fyrir félagsmenn, sjá eftirfarandi slóðir:

https://www.sgs.is/kjaramal/kjarasamningar/kjarasamningur-sgs-og-rikisins-2019-2023/

Ákveðið var að fitja upp á þeirri nýjung að gera stutt kynningarmyndband um helstu atriði samningsins:

https://www.youtube.com/watch?time_continue=13&v=FD9ReT_SA1g&feature=emb_logo

Kynningarbæklingur um helstu atriði samningsins eru í prentun Bæklingurinn mun berast félagsmönnum sem hafa kjörgengi með pósti. Kjörskráin er byggð á skrá sem  fengin var frá fjársýslu ríkisins.

Kosningin hefst kl. 12:00 á morgunn 19. mars og lýkur fimmtudaginn 26. mars kl. 16:00.

 

 

 

STH – Kynning á kjarasamningum

Eins og fram hefur komið hefur Starfsmannafélag Húsavíkur fellt niður kynningarfund sem til stóð að halda í dag vegna nýgerðra kjarasamninga við ríkið og sveitarfélögin. Til að koma til móts við félagsmenn Starfsmannafélagsins er hægt að skoða þessa frétt og netslóðir inn á kynningarefni sem tengjast samningunum. Kosningin fer af stað í dag, miðvikudaginn 18. mars kl. 12.00 og líkur sunnudaginn 22. mars kl. 12.00.  Við hvetjum alla til að nota atkvæðarétt sinn og senda skýr skilaboð um viðhorf sitt til samninganna.

Kynning á kjarasamningnum – heildarpakkinn

Kjarasamningurinn við sveitarfélögin

Kjarasamningurinn við ríkið

 

Frekari upplýsingar um kjarasamning SNS/sveitarfélögin:

Kjarasamningur við SNS/sveitarfélögin með gildistíma frá 1. jan. 2020 – 31.mars 2023.

Þann 1. ágúst 2019 var eingreiðsla upp á 105.000 kr. og verður önnur eingreiðsla vegna tímabils frá 1. ágúst til áramóta 105.000 kr. til útgreiðslu 1. apríl 2020.

Launhækkanir eru þannig að frá 1. janúar síðastliðnum hækka laun um  17.000 + 0,2% á launatöflu.

1. apríl 2020 hækka laun um 24.000 kr.
1. janúar 2021 hækka laun um 24.000 kr.
1. janúar 2022 hækka laun um 25.000 kr.

  • desember 2019 desemberuppbót kr. 115.850.
  • maí 2020 orlofsuppbót kr.   50.450.
  • desember 2020 desemberuppbót kr. 118.750.
  • maí 2021 orlofsuppbót kr.   51.700.
  • desember 2021 desemberuppbót kr. 121.700.
  • maí 2022 orlofsuppbót kr.   53.000.
  • desember 2022 desemberuppbót kr. 124.750.

Útborgun launa

Nýtt

Beri fyrsta dag mánaðar upp á frídag skal útborgun launa vera síðasta virka dag þar á undan.

Skil milli einkalífs og atvinnu  Sjá fræðslumyndband BSRB

Mikilvægt er að stofnanir setji sér viðverustefnu þar sem m.a. er skerpt á skilum milli vinnu og einkalífs.

Stytting á vinnuvikunnar  Sjá fræðslumyndband BSRB og fylgiskjal 2 í samningnum.

Styttingin getur náð allt að 4 stundum á viku, úr 40 stunda vinnuviku í allt að 36 virkar vinnustundir fyrir starfsfólk í 100% starfshlutfalli. Vinnutími starfsmanna í hlutastarfi styttist hlutfallslega. Samhliða því verður grein 3.1 í kjarasamningi óvirk. Niðurstaða samtals getur einnig verið á þá leið að óbreytt vinnufyrirkomulag henti best, enda telji starfsmenn sig nú þegar búa við betra fyrirkomulag.

  • Dagleg stytting
    • Hver vinnudagur styttur í upphafi eða lok dags og hefðbundin neysluhlé eru hluti af vinnutímanum.

Dæmi: Vinnutími kl. 8:00 -15:12.

Nánar í fylgiskjali 2

Útfærsla á styttingu vinnutíma vaktavinnufólks sjá fræðslumyndband frá BSRB og fylgkiskjal 3 í samningi þessum

Helstu breytingarnar eru að vinnuvikan styttist úr 40 í 36 virkar stundir og launamyndun vaktavinnufólks tekur mið af fleiri þáttum en áður. Í nýju launamyndunarkerfi fjölgar vaktaálagsflokkum og vægi vinnustunda er metið eftir áhrifum á heilsu og öryggi starfsfólks, sem getur leitt til aukinnar styttingar vinnutíma allt að 32 tímum á viku. Þá verður greiddur sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.

Breytt yfirvinna Sjá fræðslumyndband BSRB

Yfirvinna er greidd með tímakaupi fyrir vinnu umfram 40 stundir á viku (173,33 stundir miðað við meðalmánuð).

Yfirvinna skiptist í yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2. Tímakaup yfirvinnu 1 er 0,9385% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi en tímakaup yfirvinnu 2 er 1,0385% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi.

Greiðsla fyrir yfirvinnu skal vera með eftirtöldum hætti:

Yfirvinna 1 kl. 08.00 – 17.00 mánudaga – föstudaga.

Yfirvinna 2 kl. 17.00 – 08.00 mánudaga – föstudaga.

Yfirvinna 2 kl. 00.00 – 24.00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga.

 

Félagsmannasjóður

Stofnaður er sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar við aðra starfsmenn sveitarfélaga. Vinnuveitandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,24% af heildarlaunum félagsmanna og verður úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður 1. febrúar 2021 um 80.000 kr.

Orlof

Lágmarksorlof skal vera 30 dagar (240 vinnuskyldustundir) og gildir fyrir alla

Þannig verður orlofsréttur sumarið 2020 í dögum talið:

yngri en 30 ára = 26 dagar-  sumarið 2020

30 – 38 ára = 28 dagar – sumarið 20202

eldri en 38 ára  – 30 dagar sumarið 2020

Frá og með sumrinu 2021 munu allir fá 30 daga orlof.

Lenging á sumarleyfi að beiðni yfirmanns lækkar úr 33% í 25%

Ný grein
Ferðir með íbúa/þjónustuþega

Ferðist starfsmenn með og annast íbúa á ferðalögum innanlands og til útlanda, sem búa á heimilum fyrir fatlað fólk og njóta sólarhringsþjónustu skal unnið samkvæmt vaktskrá og skal, áður en ferð er hafin liggja fyrir vinnuskipulag ferðarinnar. Starfsmönnum skal greitt með yfirvinnu utan þess tíma sem vaktskrá/vinnuskipulag nær til á meðan ferð stendur. Sama á við ef dvalið er yfir nótt.

Ekki er gert ráð fyrir að rof sé í vinnutíma nema sérstaklega sé um það samið enda starfsmenn stöðugt á vakt óháð fjölda starfsmanna.

Ef starfsmaður er á ferð með íbúa/þjónustuþega og annast hann einn skal greitt fyrir allan sólarhringinn á meðan á ferð stendur. Ef starfsmaður fer í ferðalag með íbúa/þjónustuþega að beiðni yfirmanns á frídegi sínum skal hann bættur með öðrum frídegi eða greiðslu yfirvinnu.

Þessi grein á ekki við um forstöðumenn stofnana sbr. gr. 1.5.3.

Við skipulag ferða með íbúa/þjónustuþega skal taka tillit til ákvæða um lágmarkshvíld sbr. grein 2.4.

 

Breytingar á 8. kafla Fatnaður

Nýtt ákvæði fyrir starfsfólk íþróttahúsa og sundstaða: …einnig venjuleg sólgleraugu eða smellt sólgleraugu þar sem við á.

 

Kalfi 10 menntamál

Launað námsleyfi

Nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.

 

Heimilt er að meta BA/BS próf þar sem ekki er gerð krafa um umrætt háskólapróf til starfsins í allt að 12% persónuálag

Einnig þar sem gerð er krafa um háskólamenntun er hægt að meta viðbótarmenntun allt að 16% persónuálag.

Nýtt!

Heimilt er vinnuveitanda að framlengja ráðningu eða endurráða starfsmann, sem hefur náð 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi samkvæmt gr. 11.1.7.1, í annað eða sama starf óski starfsmaður þess.

Vegna slysa og alvarlegra atvika

Endurgreiða útgjöld

 

Grein 12.1.6   Viðbót nýtt!

Sama gildir um þau útgjöld starfsmanns vegna atvika sem hann hefur orðið fyrir vegna atvika sem reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum gildir um og lög nr. 46/1980 ná til.

Viðbót vegna veikinda barna

Nýta má að hluta eða að öllu leyti framangreindan rétt vegna barna undir 16 ára aldri í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar.

Nýtt Mæðraskoðun

12.9.1  Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

Bókanir

Hér eru birtar þær bóknair sem samið var um og hvað þær innihlada sjá bókanir í samningi

Bókun 1 [2020]

Mismunandi meðferð vegna aldurs

BÓKUN 2 [2020]

Endurskoðun 12. Kafla sem er um veikindarétt

BÓKUN 3 [2020]

Mötuneyti þar sem stéttarfélag viðkomandi starfsmanna getur óskað eftir skoðun á mönnun

BÓKUN 6 [2020]

Símenntun starfsfólks sundlauga um að forstöðumaður sundlaugar beri að skapa sundlaugarvörðum svigrúm til sundþjálfunar, verklegra æfinga vegna björgunar í laug og æfingum vegna neyðaráætlunar.

BÓKUN 7 [2020]

Starfsmennt þá mun Samband íslenskra sveitarfélaga stefna að aðild að Fræðslusetrinu Starfsmennt.

Forsenda aðildar Sambands íslenskra sveitarfélaga að Starfsmennt er að samhliða verði mannauðsjóðir Samflots, Kjalar og KSG sameinaðir í einn Mannauðssjóð bæjarstarfsmannafélaga.

BÓKUN 8 [2020]

Starfsmatskerfið Samstarf

Aðilar eru sammála um að á árinu 2020 hefji fagleg samráðsnefnd Samstarfs reglulega endurskoðun og uppfærslu starfsmatskerfisins.

Við minnum alla á að nota atkvæðarétt sinn og kjósa rafrænt þegar opnað verður fyrir kosningu og kjörseðill birtist í tölvupósti eða með SMS en kosningu lýkur á sunnudaginn 22. mars nk. kl: 16.00

 

 

 

Laun í sóttkví – aðgerð til að hægja á útbreiðslu COVID-19

Í samræmi við þríhliða yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar frá 5.3 2020 um nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 hefur á undanförnum dögum verið unnið að lagafrumvarpi sem tryggja á launarétt launafólks sem þarf að sæta sóttkví skv. fyrirmælum yfirvalda. Frumvarpið hefur nú verið lagt fram á Alþingi og er þar til meðferðar.

Meginreglan verður sú að atvinnurekendur haldi áfram að greiða laun en ríkið endurgreiði þeim allt nema launatengdu gjöldin. Kanna ber möguleika á að starfsmenn fari í fjarvinnu og skerðast þá endurgreiðslur sem því nemur. Greiði atvinnurekandi ekki laun meðan á sóttkví stendur geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur. Ef fjarvinna er möguleg skerðast greiðslur sem því nemur. Gert er ráð fyrir að greiðslur verði aldrei hærri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð og hámarkgreiðsla fyrir hvern almanaksdag því 21.100 kr. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.

Eftir að vinna hófst við gerð frumvarpsins var sett á tímabundið samkomubann. Af þeim ástæðum hefur orðið alvarleg röskun á skólastarfi þannig að nemendum er gert að sækja ekki skóla tiltekna daga eða tilteknar stundir dagsins. Af þeim ástæðum munu margir foreldrar ekki geta komið við gæslu barna sinna. Jafnframt hafa heilbrigðisyfirvöld hvatt til þess að samgangur barna og eldri kynslóða, afa og ömmu, verði takmörkuð til verndar þeim síðarnefndu. Samkomubann yfirvalda getur þannig haft sömu beinu áhrifin á launafólk eins og sóttkví þess sjálfs. Af þessum ástæðum hefur ASÍ að höfðu samráði við SA gert tillögur um að frumvarpinu verði breytt til þess að ná utan um þennan hóp launafólks.

Heilbrigðisyfirvöld leggja mikla áherslu á að smit nái ekki til viðkvæmra hópa. Sá hópur sætir ekki sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda en ASÍ telur brýnt að haga málum þannig að úrræði frumvarpsins nái einnig til þeirra enda fari það í sóttkví að læknisráði. Breytingar hafa verið lagðar til í þessu efni.

Framsýn aflýsir kynningarfundi á fimmtudaginn með ríkisstarfsmönnum

Vegna Covid 19 veirunnar hefur Framsýn ákveðið að fella niður kynningarfund sem vera átti í dag, fimmtudaginn 19. mars, um nýgerðan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs sem félagið á aðild að. Félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningum munu fá kjörgögn til sín í pósti auk þess sem hægt er að nálgast upplýsingar um samninginn inn á heimasíðu Framsýnar www.framsyn.is. Kjarasamningurinn er einnig fáanlegur á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag

Funduðu í gær um viðbrögð við Covid 19

Samtök atvinnurekanda í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir fundi í gær með sveitarstjóra Norðurþings og formanni Framsýnar stéttarfélags um stöðuna á vinnumarkaðinum. Fundurinn var vinsamlegur og árangursríkur og fór fram á skrifstofu stéttarfélaganna. Fullur vilji er meðal aðila að vinna saman og miðla málum er varðar stöðu fyrirtækja í Norðurþingi og þar með starfsmanna. Næsti stöðufundur er hugsaður næsta föstudag.

Aðgerðir vegna samdráttar á vinnumarkaði

Mikil óvissa ríkir nú á íslenskum vinnumarkaði eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum og stöðugt berast upplýsingar um aðgerðir erlendis frá sem leiða til frekari samdráttar. Hér er um fordæmalausar og tímabundnar aðstæður á vinnumarkaði að ræða sem mikilvægt er að bregðast hratt við af festu og framsýni.

Markmið ASÍ er að verja launafólk og fyrirtæki vegna tímabundinna áfalla þannig að einstaklingar verði fyrir sem minnstum skaða, bæði fjárhagslegum og félagslegum, og að fyrirtæki komist í gegnum tímabundinn samdrátt og komi sterk til baka þegar úr rætist. Mikilvægur þáttur þess er að fyrirtæki grípi ekki til uppsagna eða aðgerða sem ganga á rétt starfsmanna. Það gildir jafnt um íslenskt og erlent launafólk.

Nú er unnið að löggjöf sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki geti samið tímabundið við starfsfólk sitt um skert starfshlutfall en að starfsmenn fái á móti greiddar atvinnuleysisbætur. Útfærsla á slíkri löggjöf liggur ekki fyrir en þess er vænst að ný lög um þetta efni verði samþykkt síðar í þessari viku.

Stéttarfélögin, þar á meðal Framsýn, STH og Þingiðn, munu upplýsa félagsmenn sína um efni laganna um leið og það liggur fyrir og leiðbeina félagsmönnum sínum um framhaldið. Við hvetjum launafólk til að fylgjast vel með framvindu mála og bíða með að ganga til samninga við atvinnurekendur sína um mögulegar aðgerðir þar til þetta liggur fyrir.

 

STH aflýsir kynningarfundum

Starfsmannafélag Húsavíkur hefur ákveðið að aflýsa tveimur kynningarfundum um nýgerða kjarasamninga sem félagið á aðild að og tengjast félagsmönnum sem vinna hjá ríkinu og sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Til stóð að halda fundina á miðvikudaginn í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Þetta er gert til að verjast Covid 19 veirunni.

Félagsmönnum er bent á að fara inn á heimasíðu BSRB til að kynna sér helstu atriði samninganna. Þá verður einnig reynt að upplýsa félagsmenn í gegnum heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is.

Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn fá frekari upplýsingar til sín á næstu dögum en atkvæðagreiðslan hefst síðar í þessari viku. Sé eitthvað óljóst er félagsmönnum STH velkomið að hafa samband við formann félagsins, Helgu Þuríði, og/eða Skrifstofu stéttarfélaganna.

 

Framsýn hefur áhyggjur af atvinnulífinu – kallar eftir samstöðu meðal hagsmunaaðila

Eins og kunnugt er herjar Covid 19 veiran á heimsbyggðina, þar á meðal á Ísland. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi og víða um heim vinna markvist að því að bregðast við þessum alvarlega vanda með öllum tiltækum ráðum.

Það er ekki bara ástæða til að hafa áhyggjur af heilsufari fólks heldur er atvinnulífið líka undir og þar með lífsviðurværi fólks og rekstur sveitarfélaga.  Undanfarna daga hefur töluvert álag verið á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík þar sem atvinnurekendur í Þingeyjarsýslum hafa verið að leita ráða er varðar stöðuna og starfsmannahald. Fyrirtæki hafa skuldbindingar gagnvart sínum starfsmönnum og sjá fram á erfiða tíma og tekjusamdrátt. Vissulega standa fyrirtækin misvel en sum þeirra reikna með að þurfa að bregðast við með uppsögnum eða með því að semja við starfsmenn að taka á sig kjaraskerðingar og jafnvel skert starfshlutfall. Vitað er að ríkistjórnin er með ákveðnar hugmyndir sem ganga út á að koma til móts við fyrirtæki í þessum mikla vanda sem verða væntanlega kynntar á allra næstu dögum.

Með bréfi til sveitarfélaga á félagssvæði Framsýnar, sem fór frá félaginu í gær, hvetur félagið sveitarfélög í Þingeyjarsýslum til að bregðast við þessum alvarlega vanda með því að setja á fót aðgerðarhóp sem hafi það að markmiði að vinna að hagsmunum atvinnulífsins á svæðinu. Slíkur aðgerðarhópur verði skipaður fulltrúum sveitarfélaga, stéttarfélaga, atvinnurekanda(SANA) og jafnvel fjármálastofnana á svæðinu, Íslandsbanka, Landsbankans og  Sparisjóðs Suður Þingeyinga sem hafa mikilla hagsmuna að gæta að vel fari.

Framsýn lýsir sig reiðubúið að koma að þessari vinnu með sveitarfélögunum enda hafi þau forgöngu um að slíkir starfshópar verði myndaðir í hverju sveitarfélagi eða sameiginlegur starfshópur á vegum sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum. Að mati Framsýnar er mikilvægt að slíkur starfshópur/hópar verði myndaðir þegar í stað utan um atvinnulífið í héraðinu og þar með starfsfólkið sem treystir á að halda vinnunni. Takist ekki að verja atvinnulífið mun atvinnuleysið á svæðinu aukast á næstu vikum og mánuðum.

 

Ljósmyndar fjölmenningu – áhugavert verkefni í gangi

Erlendir félagsmenn verða í forgrunni ljósmyndaverkefnis sem Framsýn stéttarfélag vinnur að með Agli Bjarnasyni ljósmyndara á Húsavík. Egill er með BA í stjórnmálafræði og MA í blaðamennsku. Verkefnið sem er afar áhugavert kemur til með að standa yfir í nokkra mánuði.

Verkefninu er ætlað að kynna bakgrunn og störf þeirra sem hafa sest að í Þingeyjarsýslum á síðustu árum eða áratugum.

Þingeyjarsýslurnar eru orðnar með fjölmenningarlegri stöðum á landinu og erlendir íbúar um þriðjungur félagsmanna í Framsýn.

Með heimildaljósmyndun og viðtölum, er markmiðið að ná utan um þessar forvitnilegu breytingar og undirstrika styrk atvinnusvæðis þar sem æ fleiri kjósa að búa.  Reiknað er með að verkefninu ljúki í sumar og þá verði opnuð ljósmyndasýning og smá umfjöllun um þá sem myndirnar eru af.

 

 

 

Orðsending til veiðifélaga í Þingeyjarsýslum

Töluvert hefur borið á því að starfsmenn sem starfað hafa hjá veiðiheimilum á félagssvæði Framsýnar hafi verið í sambandi við félagið vegna óánægju með starfskjör, önnur réttindi og aðbúnað. Framsýn brást við þessum aðstæðum síðasta sumar með því að skrifa forsvarsmönnum veiðiheimila í Þingeyjarsýslum bréf varðandi þessa þætti og ítrekaði mikilvægi þess að veiðifélögin hefðu þessi í mál í lagi samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Sum veiðifélögin brugðust vel við og ætla að bæta úr meðan önnur sögðust vera með sín mál í lagi.

Því miður sáu ekki öll veiðifélögin ástæðu til að svara erindi stéttarfélagsins.  Rétt er að geta þess að málefni starfsmanna í veiðiheimilum hafa verið til umræðu á vetfangi Starfsgreinasambands Íslands. Framkvæmdastjóri sambandsins hefur meðal annars fundað með forsvarsmönnum Landssambands veiðifélaga. Til stendur að gera átak í sumar þar sem flest ef ekki öll veiðiheimili landsins verða heimsótt og kallað eftir upplýsingum um starfsemina. Ekki er ólíklegt að opinberir aðilar verði með í för og taki þátt í eftirlitinu. Framsýn skorar hér með á veiðifélögin í Þingeyjarsýslum að hafa þessi mál í lagi eins og lög og reglur á vinnumarkaði kveða á um, nú þegar ráðningar standa yfir vegna veiðitímabilsins sumarið 2020.

Þjónusta stéttarfélaganna vegna COVID-19 / Leiðir til að hafa samband

Þar sem stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarstigi vegna COVID- 19 veirunnar vilja stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum beina þeim tilmælum til félagsmanna sinna að sækja sér þjónustu félaganna sem mest í gegnum netið www.framsyn.is eða í síma 4646600 eins og unnt er. Flesta þjónustuþætti stéttarfélaganna má nálgast rafrænt en þeir sem eiga brýnt erindi eru ávallt velkomnir á Skrifstofu stéttarfélaganna. Opnunartími 08:00 – 16:00.

Senda má fyrirspurnir á eftirfarandi netföng:

Aðalsteinn Árni:               kuti@framsyn.is

Jónína:                                 nina@framsyn.is

Linda:                                   linda@framsyn.is

Aðalsteinn J:                      framsyn@framsyn.is

Haukur:                               bokhald@framsyn.is

Ágúst:                                  virk@framsyn.is

Framsýn stéttarfélag
Starfsmannafélag Húsavíkur
Þingiðn, félag iðnaðarmanna

 

Skjól í skeggi

Það kemur sér vel um þessar mundir að hafa smá skegg til að verjast kuldatíðinni í vetur. Öðlingarnir Hörður Sigurðsson og Erlendur Hallgrímsson eiga það sameiginlegt að skarta fallegu skeggi og starfa hjá Húsasmiðjunni á Húsavík. Daglega kappkosta þeir að veita viðskiptavinnum góða þjónustu.

 

Kynningarfundur um kjarasamning við ríkið – félagsmenn Framsýnar

Framsýn boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning félagsins við ríkið fimmtudaginn 19. mars. Fundurinn verður í fundasal stéttarfélaganna og hefst kl. 17:00. Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og munu félagsmenn Framsýnar fá kjörgögn heim til sín á næstu dögum. Kjarasamningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkisstofnunum s.s. hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Vegagerðinni, framhaldsskólum og Skógrækt ríkisins.

Framsýn stéttarfélag

 

Starfsmenn Tjörneshrepps kátir

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Framsýnar og Tjörneshrepps vegna starfsmanna hreppsins er lokið. Henni lauk formlega 2. mars. Kosningaþátttaka var 66.7%. Atkvæðagreiðslan fór þannig, já sögðu 66,7%. Nei sögðu 0% og auðir og ógildir seðlar voru 0%. Samningurinn skoðast því samþykktur.  Kjarasamningurinn byggir á samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að. Kjarasamningurinn við Tjörneshrepp er nokkuð hagstæðari þar sem kveðið er á um að starfsmenn fái 4 launaflokka til viðbótar gildandi starfsmati.

 

STH boðar til kynningarfunda um nýgerða kjarasamninga

STH boðar til kynningarfundar um kjarasamning við ríkið
Starfsmannafélag Húsavíkur boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning félagsins við ríkið miðvikudaginn 18. mars. Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna og hefst kl. 17:00.

STH boðar til kynningarfundar um kjarasamning við sveitarfélögin
Starfsmannafélag Húsavíkur boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga miðvikudaginn 18. mars. Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna og hefst kl. 20:00.

Starfsmannafélag Húsavíkur