Viljum við einokun í innanlandsflugi?

Það var mikið gæfuspor þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur vorið 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi þess að búa við góðar samgöngur.

Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með hléum. Þar á meðal var Flugfélag Íslands sem lagði af  flug til Húsavíkur og beindi farþegum þess í stað í gegnum Akureyri, þyrftu þeir á flugsamgöngum að halda við Reykjavík. Eðlilega voru menn ekki ánægðir með þessa ákvörðun flugfélagsins á sínum tíma enda um mikla þjónustuskerðingu að ræða fyrir flugfarþega um Húsavíkurflugvöll.

Allt frá fyrstu tíð hefur Framsýn stéttarfélag fylgst vel með framvindu mála hvað flugið varðar milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ferðaþjónustuaðilar, einstaklingar, sveitarfélög, talsmenn fyrirtækja og þjónustuaðila hafa jafnframt talað fyrir mikilvægi flugsamgangna milli þessara landshluta enda miklir hagsmunir í húfi.

Framsýn steig mikilvægt skref vorið 2014 með því að gera samkomulag við Flugfélagið Erni um magnkaup á flugmiðum fyrir félagsmenn til að tryggja þeim aðgengi að ódýrum flugfargjöldum. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið uppfærður reglulega með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi og samfélagsins í Þingeyjarsýslum. Samningsaðilar eru sammála um að báðir aðilar hafi hagnast á samstarfinu.

Þegar best hefur látið í seinni tíð hafa allt að 20.000 farþegar flogið um Húsavíkurflugvöll á ári, það er árið 2016. Þess ber að geta að þá stóðu yfir miklar framkvæmdir á svæðinu við uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum. Eðlilega hefur farþegum fækkað frá þeim tíma, ekki síst á tímum Covid.

Ljóst er að heimamenn hafa miklar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum, ekki síst frá stéttarfélögum, ferðaþjónustuaðilum og Norðurþingi. Svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni útaf markaðinum með ýmsum brögðum sem Framsýn hefur þegar komið á framfæri við stjórnvöld og Samkeppniseftirlitið og er efni í aðra grein.

Brögð í tafli

Allt stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeim mikla mótbyr sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi.

Nú er svo komið að nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti nú þegar ákveðið hef­ur verið að samþætta rekst­ur Air Ice­land Conn­ect og Icelanda­ir. Starf­semi flugfé­lag­anna tveggja hefur verið sam­einuð, svo sem flugrekstrar­svið, sölu- og markaðsmál. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni. Vitað er að stjórnvöld hafa verið með beina ríkisstyrki varðandi ákveðnar flugleiðir; Þórshöfn, Vopnafjörður, Grímsey, Gjögur, Bíldudalur, Höfn og Vestmannaeyjar. Þar fyrir utan kemur ríkið myndarlega að stuðningi við Icelandair með ríkisábyrgð upp á um 16 milljarða og er Icelandair eftir samþættingu við dótturfélagið Air Ice­land Conn­ect með áætlunarferðir til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja.

Eftir því sem best verður séð, er eina áætlunarflugið sem ekki er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar, flugleiðin Reykjavík-Húsavík með Flugfélaginu Erni sem skekkir verulega samkeppnisstöðuna.

Framsýn hefur á fundum með stjórnvöldum talað fyrir því að flugsamgöngur við Húsavík verði tryggðar með sambærilegum hætti og gert er í dag til annarra áfangastaða á Íslandi. Stjórnvöld geta ekki komið sér hjá því að styðja við bakið á þeirri áætlunarleið líkt og gert er til allra annarra áætlunarstaða á Íslandi. Það stenst einfaldlega ekki skoðun.

Um er að ræða afar mikilvægt mál fyrir íbúa Þingeyjarsýslna og aðra þá sem velja að ferðast til og frá svæðinu svo ekki sé talað um atvinnulífið sem treystir á öruggt áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll. Framsýn mun ekki skorast undan og því halda áfram að styðja við flugið með samningum við Flugfélagið Erni um sérkjör fyrir félagsmenn með sambærilegum hætti og verið hefur. Að mati félagsins þarf meira að koma til svo hægt verði að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Þrýsta á stjórnvöld

Hvað það varðar hafa forsvarsmenn Framsýnar þegar fundað með forsætisráðherra og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um áhyggjur félagsins auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart. Farið verður fram á að Samkeppniseftirlitið skoði þetta mál sértaklega. Ráðherrarnir tóku heilshugar undir áhyggjur Framsýnar varðandi fákeppnina sem væri að myndast í innanlandsfluginu. Þingmönnum Norðausturskjördæmisins hefur einnig verið gerð grein fyrir málinu. Áhugavert er að sjá hvaða þingmenn það eru sem hafa sýnt málinu áhuga með því að hafa samband við félagið og hverjir sá ekki ástæðu til að blanda sér í málið enda hugsanlega viðkvæmt fyrir þá, vegna hagsmunaárekstra.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp er vörðuðu ríkisábyrgð til handa Icelandair kemur skýrt fram að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni. Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru þegar komnar fram nú þegar Icelandair og Air Iceland Connect hafa sameinað krafta sína auk þess sem Norlandair er hluti af samsteypunni þar sem Flugfélag Íslands ehf. á eignarhlut í Norlandair svo vitnað sé í ársreikninga félagsins 2019. Flugfélagið Ernir á því miður ekki roð í þennan sameinaða risa sem drottnar nú nánast yfir öllu áætlunarflugi á Íslandi með ríkisstyrkjum og/eða ríkisábyrgð í boði stjórnvalda. Það stefnir því í einokun í áætlunarflugi á Íslandi. Er það æskileg þróun eða hvað?

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Verkalýðshreyfingin hafnar því að stéttarfélög verði svipt samningsrétti áhafna á íslenskum farskipum

Alþýðusamband Íslands tekur ekki að svo stöddu afstöðu til þess hvort eða hvernig skattlagningu alþjóðlegrar íslenskrar skipaskrár verður háttað en leggst af miklum þunga gegn þeim áformum að svipta íslensk stéttafélög samningsrétti og mæla fyrir um að kjör áhafna á íslenskum farskipum ráðist af lögheimili þeirra skv. reglum sem ætlað er að koma í veg fyrir þrælahald og mannsal.

Í greinargerð frumvarpsins sem nú hefur verð kynnt eru alvarlegar og villandi staðhæfingar eins og hér verður rakið.

Í upphafi er vakin athygli á því, að í 4. kafla greinargerðar með frumvarpsdrögunum er fjallað um „Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar“. Þar er fullyrt í lokamálsgrein kaflans að það sé „mat ráðuneytisins að frumvarp þetta sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.“ Eins og leitast verður við að rökstyðja hér á eftir þá er þetta mat rangt og umfjöllunin villandi. Frumvarpið er andstætt 74. og 65.gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. l. 62/1994, 8.gr. Alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sbr. auglýsingu nr. 10/1979, 22.gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sbr. auglýsingu nr. 10/1979, 19.gr. b. lið 4.tl. Félagsmálasáttmála Evrópu sbr. auglýsingu nr. 3/1976 og ákvæðum Samþykktar ILO um vinnuskilyrði farmanna frá 2006 sem fullgilt var hér á landi 4. apríl 2019.

Í kaflanum um meginefni frumvarpsins segir m.a.: „Í 12. gr. er gerð tillaga um ákvæði þess efnis að um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fari eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Líkt og rakið hefur verið í 2. kafla greinargerðarinnar er talið að staða skráninga muni ekki breytast nema ákvæði af þessu tagi verði samþykkt. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um tiltekin lágmarkskjör, að þau skuli aldrei vera lakari en þau kjör og réttindi sem mælt er fyrir um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 (Maritime Labour Convention (MLC) 2006) eins og þau eru á hverjum tíma og þau lágmarkskjör sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma.“

Í kaflanum Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar segir síðan m.a.: „Jafnframt hefur íslenska ríkið fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC). … Í reglu 2.2 er mælt fyrir um laun farmanna. … Þá fjallar ákvæðið um lágmarkslaun farmanna. Þar segir að grunnkaup eða -laun fyrir þjónustu fullgilds farmanns í almanaksmánuð eiga ekki að vera lægri en sú fjárhæð sem er ákveðin reglulega af hálfu siglingamálanefndar eða annarrar stofnunar í umboði stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Að fenginni ákvörðun stjórnarnefndarinnar skuli forstjóri tilkynna aðildarríkjum stofnunarinnar um endurskoðaða fjárhæð. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna, nr. 82/2018, voru breytingar gerðar á lögum til samræmis við kröfur samþykktarinnar ….“

Hér eru staðreyndir settar fram með afskaplega villandi hætti og látið líta út sem svo að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), MLC samþykktin, mæli með skuldbindandi „reglu“ fyrir um lágmarkskjör á farskipum og að með setningu laga nr. 82/2018 hafi öllum kröfum samþykktarinnar verið fullnægt.

Hið rétta er að grundvallarregla samþykktarinnar og sú sem skuldbindandi er, er sú að um laun fari skv. kjarasamningum sbr. 3.gr. hennar þar sem segir um grundvallarréttindi og reglur:

„Hvert aðildarríki skal tryggja að í ákvæðum eigin laga og reglugerða séu virt, að því er varðar þessa samþykkt, grundvallarréttindi til:

a) félagafrelsis og virk viðurkenning á réttinum til aðildar að kjarasamningum;
b) afnáms hvers konar nauðungar- og skylduvinnu;
c) afnáms vinnu bana; og
d) afnáms misréttis með tilliti til atvinnu eða starfa.“

Í 5.tl. 4.gr. segir síðan um starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna:

„Hvert aðildarríkiskal tryggja, innan marka lögsögu sinnar, að starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna sem kveðið er á um í framangreindum málsgreinum þessarar greinar séu framkvæmd í samræmi við kröfur þessarar samþykktar. Hrinda má slíku í framkvæmd með landslögum eða reglugerðum, með viðeigandi kjarasamningum, með öðrum ráðstöfunumeða samkvæmt venju, nema kveðið sé á um það með öðrum hætti í samþykktinni.“

Hér á landi gildir sú meginreglna, að kjarasamningar ráða kaupi og kjörum vegna allra starfa sem unnin eru innan lögsögu íslenska ríkisins þ.m.t. um borð í loftförum og skipum sem skráð eru hér á landi en hvorki erlendir kjarasamningar eða leiðbeiningar alþjóðastofnana.

Í MLC samþykktinni segir síðan í þessu samhengi í 6.gr. þar sem fjallað er um „Reglur ásamt A- og B-hlutum kóðans“ að ákvæði B-hluta kóðans, séu ekki skuldbindandi en öll umfjöllun greinargerðarinnar með frumvarpinu um laun og starfskjör byggir einmitt á þeim hluta þ.e. leiðbeiningum B2.2.3. – Lágmarkslaun, og þannig gefið í skyn að verið sé að fullnægja „reglum“ samþykktarinnar.

Tilgangur þeirra B-hluta kóðans er að tryggja að um borð í farskipum sem skráð eru í ríkjum þar sem réttarstaða launafólks og stéttarfélaga er lítil eða engin og þar sem kjarasamningar eru jafnvel hvorki gerðir eða virtir þá skuli beita tilteknum viðmiðum um starfskjör og laun. Almennt eru slík ríki kölluð hentifánaríki en nýlega hefur í íslenskum fjölmiðlum verið fjallað um hvernig skipafélag í íslenskri eigu hefur nýtt sér slík ríki til þess að losa sig við skip til niðurrifs með tilheyrandi mannréttinda- og umhverfisbrotum. Þá hefur einnig nýlega verið fjallað um hvernig fyrirtæki í eigu Íslendinga misnotuðu alþjóðlegu skipaskrána í Færeyjum með því að skrá áhafnir á fiskiskipum sínum í Afríku á farskip í færeysku skránni til þess að eins að losna undan skattgreiðslum í einu fátækasta ríki heims.

Um leiðbeiningar B-hluta kóðans er jafnframt skýrt tekið fram í „Leiðbeiningum B2.2.3-Lágmarkslaun“
að „Með fyrirvara um grundvallarregluna um frjálsa karasamninga ætti hvert aðildarríki að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að mæla fyrir um málsmeðferð til að ákveða lágmarkslaun farmanna. Hlutaðeigandisamtök útgerðarmanna og farmanna ættu að taka þátt í að viðhalda slíkri málsmeðferð.“ Hér er meginreglan kjarasamningar og undantekningin samráð en frumvarpsdrög þau sem nú er veitt umsögn um virða ekki einu sinni þessar leiðbeingar en mæla fyrir um lægstu finnanlegu viðmið til þess að koma í veg fyrir þrælahald og mannsal um borð í faskipum.

Ítrekað skal einnig, að í ársbyrjun 2007 gaf ASÍ umsögn um frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá þar sem gert var ráð fyrir því að kjarasamningar farmanna á kaupskipum sem skráð væru í skránna yrðu útfærðir þ.a. að um kjör einsakra áhafnarmeðlima færi eftir kjarasamningum í því ríki sem þeir ættu lögheimili. Eins og ítarlega er rökstutt í þeirri umsögn, þá er slík útfærsla andstæð stjórnarskrá Íslands, lögum nr. 80/1938, lögum nr. 55/1980 og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Þau lögfræðilegu sjónarmið hafa ekkert breyst og reyndar má frekar merkja þróun þar sem bæði hér á landi og á alþjóðavísu er lagst gegn félagslegum undirboðum, mismunun og misnotkun á vinnuafli frá löndum sem standa höllum fæti, efnahagslega og þróunarlega hvað mannréttindi varðar.

Í fyrrgreindri umsögn ASÍ var m.a. vísað til umfjöllunar ILO um framkvæmd Danmerkur á samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega sem Ísland er einnig bundið af, hvað varðar dönsku alþjóðlegu skipaskrána (DIS). Það mál er enn til meðferðar innan eftirlitskerfis ILO, síðast á árinu 2019 og þar segir nú eftir nýjustu samskipti aðila:

“While welcoming the step taken through the amendment of the DIS Act, the Committee requests the Government to continue, in consultation with the social partners, to make every efforts to ensure the full respect of the principles of free and voluntary collective bargaining so that Danish trade unions may freely represent in the collective bargaining process all their members and that collective agreements concluded by Danish trade unions may cover all their members – working on ships sailing under the Danish flag whether they are within or beyond Danish territorial waters or continental shelf, and regardless of their activities. The Committee requests the Government to provide information on any developments in this regard.”

Í þessu felst að Danmörku er í reynd skylt að tryggja erlendum áhöfnum á farskipum í þeirra alþjóðlegu skipaskrá, rétt til aðildar að dönskum stéttarfélögum og þá um leið rétt þeirra stéttarfélaga til þess að semja um kaup þeirra og kjör.

Hyggist ríkisstjórn Íslands, eins og nú virðist raunin, feta sömu leið mannréttindabrota og sumar aðrar þjóðir hafa gert í þessu samhengi leggst sambandið af miklum þunga gegn þeim hugmyndum. (asi.is)

Fjör á trúnaðarmannanámskeiði

Síðustu daga hefur staðið yfir trúnaðarmannanámskeið á vegum stéttarfélaganna, Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur. Innan þessara stéttarfélaga eru um 40 trúnaðarmenn á öllum helstu vinnustöðum á svæðinu. Að þessu sinni taka tæplega 20 trúnaðarmenn þátt í námskeiðinu. Trúnaðarmennirnir koma víða að af félagssvæðinu, það er frá  Kópaskeri upp í Mývatnssveit. Við látum myndirnar tala sínu máli en námskeiðið kláraðist síðdegis í dag með tertu enda stóðu trúnaðarmennirnir sig vel á námskeiðinu sem MFA skipulagði fyrir stéttarfélögin.

Réttindi launamanns þegar fyrirtæki fá stuðning úr ríkissjóði

Komi til þess að launamaður taki við öðru launuðu starfi eða hefji sjálfstæðan rekstur, sem leiðir til þess að atvinnurekandi fellir niður launagreiðslur áður en uppsagnarfresti hans lýkur, fellur niður réttur atvinnurekanda til stuðnings vegna viðkomandi launamanns. Ef launamaður fær á hinn bóginn launagreiðslur áfram frá fyrri atvinnurekanda er stuðningur greiddur að skilyrðum uppfylltum.

Hafi atvinnurekandi þegið stuðning vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti ber honum að upplýsa þá launamenn, sem hann fékk greiddan stuðning vegna, um áform sín um að ráða að nýju í sambærilegt starf og gera þeim starfstilboð. Skyldan fellur niður að 12 mánuðum liðnum frá uppsagnardegi en í síðasta lagi 30. júní 2021. Viðkomandi launamaður skal eiga forgangsrétt að starfinu og skal svara tilboði um starf innan tíu virkra daga frá því að honum barst tilboðið.

Fróðleikur – tilgreind séreign

Á árinu 2020 voru allar greiðslur úr tilgreindri séreignardeild hjá Lsj. Stapa vegna umsókna sjóðfélaga 64 ára eða eldri. Heildargreiðslur lífeyris námu 1.628 þ.kr. samanborið við 1.203 þ.kr. árið áður.

Hefja má úttekt úr tilgreindri séreign við 62 ára aldur og skulu greiðslur að lágmarki dreifast fram til 67 ára aldurs. Einnig er hægt að sækja um útgreiðslu vegna örorku, ef rétthafi verður að hætta störfum vegna örorku áður en hann nær 62 ára aldri, eða vegna andláts sjóðfélaga. Við andlát rétthafa öðlast erfingjar hans rétt til innstæðunnar eftir reglum erfðalaga.

Lagfæringar á íbúð tókust vel

Nýlega var tekin ákvörðun um að skipta um parket á íbúð Framsýnar í Þorrasölum, íbúð 201, en stéttarfélögin Þingiðn og Framsýn eiga 5 íbúðir í fjölbýlishúsinu. Ástæðan var að vatn flæddi um gólfið með þeim afleiðingum að parketið skemmdist. Tryggingarnar samþykktu að leggja til nýtt parket á íbúðina. Sá mikli snillingur, Gísli Stefánsson smiður, var fenginn í verkið sem tókst í alla staði mjög vel. Gísli er ættaður úr Reykjahverfi við Húsavík.

Ótrúlegar skerðingar á lífeyrisréttindum til umræðu á þingi

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær. Meðal þess sem var til umræðu var frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um lífeyrissjóðsmál (700. mál).

Megn óánægja kom fram meðal fundarmanna með ákveðna þætti í frumvarpinu. Í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamningana vorið 2019 eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem lúta að lögfestingu 15,5% iðgjalds, heimildar til að skipta lögbundnu iðgjaldi þannig að allt að 3,5,% geti farið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign og varanlegum heimildum til að ráðstafa séreign til húsnæðiskaupa og til að lækka höfuðstól og afborganir lána. Stjórn Framsýnar gerir ekki athugasemdir við þennan hluta frumvarpsins.

Hins vegar er verið að læða inn í frumvarpið öðrum breytingum sem verkalýðshreyfingin hefur ekki verið höfð til samráðs um og skerða lífeyrisrétt almennings og þar með kjör vinnandi fólks. Af greinargerð má engu að síður skilja að fullt samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna en það er alvarlegt mál að halda slíku fram þegar reyndin er önnur. Þar með brýtur fjármálaráðherra blað í sögunni með því að fara fram með tillögur um breytingar á lífeyriskerfinu án samráðs við fulltrúa vinnandi fólks en lætur í veðri vaka að svo hafi verið.  Stjórn Framsýnar mótmælir harðlega vinnubrögðum sem þessum og eftirfarandi atriðum:

Fyrst ber að nefna hækkun lífeyrisgreiðslualdurs úr 16 árum í 18 ár sem gengur í berhögg við kjarasamning ASÍ og SA um lífeyrismál. Fyrir þessari aldursmismunun eru engin haldbær rök. Þessum áformum fékk verkalýðshreyfingin fyrst veður af þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi.

Í öðru lagi er lagt til að breyta verðbótum lífeyrisréttinda þannig að þær reiknast árlega í stað mánaðarlega. Þessi breyting kann að láta lítið yfir sér en kann að hafa þau áhrif á lífeyrisréttindi fólks að þau taki ekki leiðréttingum vegna verðbólgu jafnóðum. Frumvarpið tekur ekki af vafa um hvort slíkt yrði leiðrétt eftir á eða ekki.

Í þriðja lagi er veitt áframhaldandi undanþága í lögum frá 15,5% lífeyrisframlagi með ótímasettu bráðabirgðaákvæði. Kemur þetta til vegna lífeyrismála sjómanna sem enn er ósamið um og er framlag í lífeyrissjóði þeirra aðeins 12%. Framsýn telur rétt að sett séu tímamörk á bráðabirgðaákvæðið, svo sem eðlilegt er, þannig að sjómönnum og viðsemjendum þeirra gefst kost á að ganga frá kjarasamningi þar sem sjómenn njóta sömu lífeyrisréttinda og annað launafólk.

Framsýn skorar á fjármálaráðherra að taka upp símann og heyra í verkalýðshreyfingunni um áherslur hreyfingarinnar varðandi endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Félagi Bjarni, svona vinnubrögð eru ekki í boði.

Við þökkum fyrir okkur

Framsýn stéttarfélag þakkar kærlega fyrir allar kveðjurnar sem bárust í gær í tilefni af því að 110 ár eru liðin frá því að Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað þann 14. apríl 1911, nú Framsýn stéttarfélag. Einn af þeim sem kom við á skrifstofunni og færði félaginu blómvönd var Kristbjörn Óskarsson, sá mikli höfðingi. Miðað við stöðuna í dag á Framsýn bara eftir að eflast til framtíðar, félagsmönnum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Takk fyrir okkur.

Fundað með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Formaður Framsýnar átti fund með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í gær ásamt þremur öðrum úr ráðuneytinu sem sátu fundinn.  

Framsýn hafði áður óskað eftir fundi með ráðherra um framtíð áætlunarflugs til Húsavíkur, ekki síst í ljósi þess að allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar nema flugið til Húsavíkur. Að mati Framsýnar stefnir allt í einokun á flugi á Íslandi í boði stjórnvalda nema brugðist verði við þegar í stað. Framsýn treystir því að núverandi stjórnvöld bregðist við og forði stórslysi í þessum málum. Á fundinum í gær skiptust ráðherra og formaður Framsýnar á skoðunum um málið. Í máli ráðherra kom meðal annars fram, sem styður fullyrðingar Framsýnar, að hann hafi verulegar áhyggjur af fákeppni á markaðinum.

Formaður mun gera stjórn Framsýnar grein fyrir fundum sínum með forsætisráðherra, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forstjóra Samkeppniseftirlitsins á stjórnarfundi síðar í dag.

Fundað með forsætisráðherra um áætlunarflug – stefnir í einokun á flugi innanlands

Það var mikið gæfuspor þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur 12. apríl 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi þess að búa við góðar samgöngur. Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með hléum. Þar á meðal var Flugfélag Íslands sem lagði af  flug til Húsavíkur og beindi farþegum þess í stað í gegnum Akureyri, þyrftu þeir á flugsamgöngum að halda við Reykjavík. Eðlilega voru menn ekki ánægðir með þessa ákvörðun Flugfélags Íslands á sínum tíma enda um mikla þjónustuskerðingu að ræða fyrir flugfarþega um Húsavíkurflugvöll.

Allt frá fyrstu tíð hefur Framsýn, sem telur yfir 3.000 félagsmenn, fylgst með framvindu mála hvað flugið varðar milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ferðaþjónustuaðilar, einstaklingar, sveitarfélög, talsmenn fyrirtækja og þjónustuaðila hafa jafnframt talað fyrir mikilvægi flugsamgangna milli þessara landshluta, enda verið töluverður uppgangur á svæðinu.

Framsýn steig mikilvægt skref vorið 2014 með því að gera samkomulag við Flugfélagið Erni um magnkaup á flugmiðum fyrir félagsmenn til að tryggja þeim aðgengi að ódýrum flugfargjöldum. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið uppfærður reglulega með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Í máli forsvarsmanna Ernis hefur komið skýrt fram að samningurinn við Framsýn skipti þá verulega miklu máli, það er, báðir aðilar hagnist á samstarfinu.

Í eðlilegu árferði hafa verið að seljast um 4000 flugmiðar til félagsmanna í gegnum Framsýn. Þegar best hefur látið hafa í heildina um 20.000 farþegar flogið um Húsavíkurflugvöll á ári, það er árið 2016 þegar 20.199 farþegar fóru um völlinn. Þess ber að geta að þá stóðu yfir miklar framkvæmdir á svæðinu við uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum. Síðan þá hefur farþegum eðlilega fækkað, ekki síst á tímum Covid.

Ljóst er að heimamenn hafa miklar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum, ekki síst frá stéttarfélögum, ferðaþjónustuaðilum og sveitarfélögum s.s. Norðurþingi.

Svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni útaf markaðinum með ýmsum brögðum sem Framsýn hefur þegar komið á framfæri við stjórnvöld og Samkeppniseftirlitið.  

Allt stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeirri andstöðu sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi.

Nú er svo komið að nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti nú þegar ákveðið hef­ur verið að samþætta rekst­ur Air Ice­land Conn­ect og Icelanda­ir. Starf­semi flugfé­lag­anna tveggja hefur verið sam­einuð, svo sem flugrekstrar­svið, sölu- og markaðsmál. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni.

Vitað er að stjórnvöld hafa verið með beina ríkisstyrki varðandi ákveðnar flugleiðir; Þórshöfn, Vopnafjörður, Grímsey, Gjögur, Bíldudalur, Höfn og Vestmannaeyjar auk þess að koma myndarlega að stuðningi við Icelandair með ríkisábyrgð upp á um 16 milljarða, sem er eftir samþættingu við dótturfélagið Air Ice­land Conn­ect með áætlunarferðir til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja.

Eftir því sem best verður séð, er eina áætlunarflugið sem ekki er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar, flugleiðin Reykjavík-Húsavík með Flugfélaginu Erni sem skekkir verulega samkeppnisstöðuna.

Framsýn kallar eftir umræðu um áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur um leið og félagið hvetur stjórnvöld til að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur með sambærilegum hætti og gert er í dag til annarra áfangastaða á Íslandi. Að mati Framsýnar þarf að koma til stuðningur frá ríkinu svo hægt verði að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur á komandi árum.

Um er að ræða afar mikilvægt mál fyrir íbúa á svæðinu og þá sem velja að ferðast til og frá svæðinu svo ekki sé talað um atvinnulífið sem treystir á öruggt áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll. Framsýn mun ekki skorast undan og því halda áfram að styðja við flugið með samningum við Flugfélagið Erni um sérkjör fyrir félagsmenn með sambærilegum hætti og verið hefur. Að mati félagsins þarf meira að koma til svo hægt verði að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Hvað það varðar hefur Framsýn þegar fundað með forsætisráðherra auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart um í hvað stefni í innanlandsfluginu. Þingmönnum kjördæmisins hefur einnig verið gert viðvart og þá var fundað með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrr í dag um sama mál.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp er vörðuðu ríkisábyrgð til handa Icelandair kemur skýrt fram að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connekt myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni. Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru þegar komnar fram nú þegar Icelandair og Air Iceland Connekt hafa sameinað krafta sína auk þess sem Norlandair er hluti af samsteypunni þar sem Flugfélag Íslands ehf. á eignarhlut í Norlandair svo vitnað sé í ársreikninga félagsins 2019. Flugfélagið Ernir á því miður ekki roð í þennan sameinaða risa sem drottnar nú nánast yfir öllu áætlunarflugi á Íslandi með ríkisstyrkjum og/eða ríkisábyrgð í boði stjórnvalda.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson og Hörður Guðmundsson framkvæmdastjóri Ernis funduðu með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir helgina í Stjórnarráðinu um áætlunarflug til Húsavíkur og samkeppni í innanlandsflugi á Íslandi.

Þó líði ár og öld – stórafmæli í dag

Í dag fögnum við 110 ára sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum en húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín þann 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur. Sömu leið ákváðu verkakonur á Húsavík að ganga er þær nokkrum árum síðar, eða 28. apríl 1918 stofnuðu með sér eigið félag undir nafninu Verkakvennafélagið Von. Er tímar liðu taldi verkafólk við Skjálfanda hag sínum betur borgið í einni öflugri fylkingu með sameiningu félaganna vorið 1964 sem fékk heitið Verkalýðsfélag Húsavíkur.

Saga verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum er um margt mjög merkileg. Allt frá fyrstu tíð höfðu bæði Verkamannafélagið og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaupgjaldsmálum félagsmanna. En þeim var jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, s.s. með samtryggingarsjóðum, hagkvæmri verslun, samhjálpar- og menningarstarfi fyrir félagsmenn og afskiptum af málefnum bæjarfélagsins. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna. Eftir sameiningu verkakvenna- og karla árið 1964, þar sem allt almennt verkafólk fór fram undir sama merki jókst slagkraftur félagsins til muna.

Síðan þá hafa enn frekari sameiningar orðið innan hagsmunasamtaka verkafólks í Þingeyjarsýslum og starfsemin vaxið og dafnað. Þann 1. maí 2008 sameinuðust Verkalýðsfélag Raufarhafnar,  Verkalýðsfélag Öxarfjarðar,  Verslunarmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Húsavíkur endanlega undir heitinu  Framsýn stéttarfélag og spannar

félagssvæðið um 18% landsins, allt frá Vaðlaheiði í vestri að Raufarhöfn í austri.

Rúmlega öld er liðin frá því að frumherjarnir stigu fram og sýndu það áræði að stofna með sér félag sem hafði það að markmiði að gæta hagsmuna verkafólks. Það þurfti kjark í þá daga fyrir fátækt fólk og skuldugt að rísa upp og krefjast bættra kjara af vinnuveitendum sínum. Eitt af því sem okkur ber að varðveita er saga þessa fólks sem markaði sporin og lagði þann grunn sem við byggjum á í dag.

Strax í upphafi snerust helstu umræðuefni á fundum félaganna um eflingu atvinnulífs, mannlífs, vöxt og viðgang svæðisins. Með tímanum rótfestist sú áhersla í starfi þeirra og allar götur síðan hafa þau, og síðar Framsýn- stéttarfélag, haft mikil áhrif á alla umræðu um atvinnu- og kjaramál enda notið mikillar virðingar, ekki bara meðal félagsmanna heldur alls samfélagsins svo vitnað sér í orð þáverandi forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar sem lét þessi orð falla á 100 ára afmælishátíð Framsýnar þegar hann lauk lofsorði á starfsemi og málflutning félagsins.

„Rödd Framsýnar sem netmiðlar og ljósvakinn varpa um þjóðartorgið, hefur verið rómsterk og áhrifarík og á stundum verið sú samviska launafólks sem á þurfti að halda þegar miklar ákvarðanir voru í vændum. Á slíkum stundum þarf sterka rödd til að flytja skoðanir fólksins á vinnustöðunum. Það er rödd fólksins sem þarf að heyrast. Í þessum efnum hefur verkalýðsfélagið ykkar á síðustu misserum og árum verið til fyrirmyndar. Það er merkilegt hlutverk og mikilvægt verkefni fyrir félag sem hefur náð þessum virðulega aldri en er samt ungt í anda og athöfn, að verða þannig, í krafti sinnar eigin getu og upplýsingatækninnar, áhrifaríkur málsvari fyrir launafólk í landinu öllu.“   

Sem fyrr ber það hæst í starfi Framsýnar, sem það tók í arf frá forverum sínum þar sem helstu áhersluatriðin snúa að vexti og viðgangi atvinnulífsins auk samhjálpar, sem nú er rekin í mynd lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og margvíslegra félagslegra réttinda og fræðslustarfs. Félagið hefur verið virkur þátttakandi og jafnvel verið frumkvæðisaðili að ýmsum meiriháttar atvinnufyrirtækjum í Þingeyjarsýslum, fyrirtækjum sem skipt hafa sköpum fyrir viðgang svæðisins.  Þráðurinn til upphafsins hefur ekki slitnað. Velferð félagsmanna og samfélagsins alls er enn þann dag í dag það markmið sem félagið setur í öndvegi.

Á síðari áratugum hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf verkalýðsfélaga orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Hreyfing launafólks í Þingeyjarsýslum hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Framsýn hefur vaxið og eflst og starfsemi þess orðið margþættari með tímanum. Á fjórða þúsund félagsmanna er innan félagsins sem í dag er talið eitt af öflugustu stéttarfélögum landsins enda hafa umsvif þess aldrei verið meiri en um þessar mundir, félagsmönnum til hagsbóta. Verulega hefur fjölgað í félaginu á umliðnum árum enda eftirsóknarvert að vera félagsmaður.  Það kraftmikla starf sem fram fer á vegum félagsins er ekki síst því að þakka að mikill áhugi er meðal félagsmanna að starfa fyrir félagið, sem er virðingarvert og ber að þakka sérstaklega fyrir.

Á tímamótum sem þessum er full ástæða til að óska félagsmönnum og Þingeyingum öllum til hamingju með afmælið, það er árangursríka verkalýðsbaráttu vinnandi fólks í 110 ár.

Baráttan fyrir fullum jöfnuði og almennu jafnrétti mun fylgja okkur áfram inn í framtíðina auk þess sem við komum til með að þurfa að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja breyttu samfélagi. Við höfum mikið verk að vinna hvað þessa þætti varðar og aðra þá sem stuðlað geta að því að gera samfélagið okkar enn betra fyrir komandi kynslóðir. Rödd Framsýnar verður án efa áfram rómsterk og áhrifarík um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Formaður fundaði með stjórnendum Húsasmiðjunnar

Athygli vakti á dögunum þegar fréttir bárust af því að Húsasmiðjan hefði sagt upp leigu á verslunarhúsnæði fyrirtækisins á Húsavík. Viðbrögð heimamanna létu ekki á sér standa enda afar mikilvægt að Húsasmiðjan haldi úti öflugri verslun á Húsavík. Mikill uppgangur hefur verið á svæðinu á undanförnum árum sem ekki er séð fyrir endann á. Hér er ekki síst verið að vísa til uppbyggingarinnar á Bakka og Þeistareykjum. Samhliða hafa verið töluverðar framkvæmdir í byggingariðnaði á svæðinu auk þess sem milljarða framkvæmdir standa nú yfir í Kelduhverfi og Öxarfriði er tengjast uppbyggingu í fiskeldi á landi. Þá eru stórar framkvæmdir á teikniborðinu s.s. uppbygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, Þörungaverksmiðja auk annarra smærri verkefna.  Óhætt er að segja að það sé bjart framundan í byggingariðnaði í Þingeyjarsýslum og því ekki síst mikil þörf fyrir öfluga byggingarvöruverslun. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að síðasta ár hefði verið eitt það besta í sögu Húsasmiðjunnar, byggingarvöruverslunin hefði velt um 20 milljöðrum og hagnaður fyrir skatt hefði verið um 900 milljónir og þá hafi veltan aukist um 7% milli ára sem eru afar jákvæðar fréttir.

Með þessar upplýsingar í bakpokanum gekk formaður Framsýnar á fund yfirmanna Húsasmiðjunnar í Reykjavík og hvatti þá til þess að efla starfsemi verslunarinnar á Húsavík. Fundurinn fór fram síðasta fimmtudag. Áður hafði málið verið til umræðu innan stjórna Framsýnar og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum auk þess sem formaður Framsýnar fundaði með starfsmönnum Húsasmiðjunnar á Húsavík. Einnig náðist að funda með nokkrum verktökum í Þingeyjarsýslum um stöðuna. Alls staðar kom fram mikill velvilji í garð Húsasmiðjunnar. Að sjálfsögðu höfðu menn skoðanir á vöruúrvalinu og þjónustu við viðskiptavini. Það mætti alltaf bæta þann þátt.

Fundur formanns Framsýnar með forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar var vinsamlegur í alla staði. Skilaboðunum var vel tekið. Fram kom að Húsasmiðjan væri með verslunarreksturinn til skoðunar og ekkert hefði verið ákveðið endanlega varðandi starfsemina á Húsavík en staðbundni reksturinn hafi reynst þungur undanfarin ár í harðri verðsamkeppni við stærri verslanir, pantanir afgreiddar annars staðar frá og aukna netverslun. Stéttarfélögin óskuðu eftir því að fá að fylgjast með framvindu mála og starfsmenn Húsasmiðjunnar á Húsavík yrðu upplýstir um stöðuna á hverjum tíma.

Vilt þú vera fulltrúi Framsýnar á ársfundi Lsj. Stapa?

Ársfundur Lsj. Stapa verður haldinn miðvikudaginn 5. maí í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Framsýn á rétt á 12 fulltrúum á fundinn. Hér með er skorað á félagsmenn sem jafnframt eru sjóðfélagar í Lsj. Stapa til að gefa kost á sér á fundinn fh. félagsins. Áhugasamir hafi samband við formann Framsýnar, Aðalstein Árna sem fyrst en Framsýn þarf að tilkynna fulltrúa félagsins í síðasta lagi 21. apríl. Til viðbótar má geta þess að ársfundurinn er opinn öllum sjóðfélögum með málfrelsi og tillögurétti.

Fundað um flugmál og verslunarrekstur

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar fimmtudaginn 15. apríl kl. 17:00 ásamt stjórn Framsýnar- ung. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Málefni Flugfélagsins Ernis – áætlunarflug til Húsavíkur

-Fundur með forsætisráðherra

-Fundur með forstjóra Samkeppniseftirlitsins

-Fundur með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

-Bréf til þingmanna

4. Ársfundur Lsj. Stapa

5. Málefni Húsasmiðjunnar

-Fundur með stjórnendum Húsasmiðjunnar

6. Fréttabréf stéttarfélaganna

7. Frumvarp um lífeyrissjóðsmál

8. Kjör trúnaðarmanns hjá Eimskip

9. Afmæli félagsins

10. Heimsókn forsetateymis ASÍ

10. Önnur mál

-Innleiðing á vinnutímabreytingum hjá ríki/sveitarfélögum

-Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum

-Afmælishátíð

Skráning stendur yfir á námskeiðið Áfram ég !

Félagsmönnum aðildarfélaga Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar bjóðast þetta námskeið sér að kostnaðarlausu. Það þýðir að félagsmenn Framsýnar eru í góðum málum og geta tekið þátt í þessu magnaða námskeiði.

Vefnámskeið í beinni

Námskeiðið verður haldið dagana:

21. apríl – 28. apríl – 5. maí – 12. maí

Kl.16.00.-19.00.

Stutt kynning á námskeiðinu má sjá HÉR

Frekari upplýsingar má sjá HÉR

Skráning á www.rmradgjof.is

Gamli og nýi tíminn

Þegar fréttaritari heimasíðu stéttarfélaganna átti leið um Hafnarfjarðarhöfn í dag máti sjá tvö öflug fiskiskip í höfninni sem tengjast hingað norður. Annars vegar  var það Þorsteinn ÞH 115 sem hefur alla tíð heitið þessu nafni, fyrst EA 15, því næst GK 15 og nú síðustu árin ÞH 115. Útgerð og eigandi er útgerðarfyrirtækið Önundur ehf. á Raufarhöfn. Bát­ur­inn er einn af minni Svíþjóðarbát­un­um svo­nefndu, en hann var smíðaður árið 1946 og er elsti bát­ur flot­ans sem gerður er út til fisk­veiða. Þorsteini ÞH hefur alla tíð verið vel við haldið og var glæsilegur í Hafnarfjarðarhöfn eftir góða vertíð.

Við næsta bryggjukant í Hafnarfirði mátti sjá Jökul ÞH 299 sem  GPG Seafood ehf. á Húsavík festi nýlega kaup á og verður gerður út frá Raufarhöfn. Skipið hét áður Nanok og er ísfisk- og frystiskip. Það er smíðað árið 1996 og er 45×11 metrar á lengd og breidd. Um er að ræða hreina viðbót við skipaflota GPG og til þess ætlað að auka hráefnisöflun fyrirtækisins. GPG starfrækir flaka- og hrognavinnslu á Raufarhöfn, saltfiskvinnslu og fiskþurrkun á Húsavík og dótturfélagið Þórsnes í Stykkishólmi starfrækir salfiskvinnslu í Stykkishólmi og útgerð.  Fyrir réttu ári keypti GPG Halldór fiskvinnslu á Bakkafirði. Eftir því sem best er vitað mun Jökull sigla til heimahafnar á Raufarhöfn á næstu vikum en unnið er að alls konar viðgerðum um borð í skipinu sem hafa tekið lengri tíma en áætlað var í fyrstu. Til viðbótar má geta þess að GPG er að láta smíða nýjan línubát. Reiknað er með að nýi línu­bát­urinn verði af­hent­ur á árinu. Um er að ræða plastbát sem verður 13,25 metr­ar að lengd, 5,5 metr­ar að breidd og vega 29,9 brútt­ót­onn. Báturinn verður mjög glæsilegur í alla staði. Sem betur fer er mikill kraftur í starfsemi GPG Seafood, ekki síst á Húsavík og Raufarhöfn.

Þorsteinn ÞH á sér langa og farsæla útgerðarsögu frá Raufarhöfn og fleiri höfnum á Íslandi þar sem báturinn hefur verið gerður út á veiðar.

Gamli og nýi tíminn, Þorsteinn ÞH 115 frá Raufarhöfn sem er elsta skipið sem gert er út á fiskveiðar á Íslandi og nýjasta skipið í flotanum hér norðan heiða, Jökull ÞH 299 sem gerður verður út frá Raufarhöfn en skipið er væntanlegt til heimahafnar á næstu vikum eftir því sem best er vitað.

Vinnustaðaheimsókn

Formaður Framsýnar fór í vinnustaðaheimsókn til starfsmanna Húsasmiðjunnar í gær. Mikilvægur þáttur í starfi félagsins eru heimsóknir sem þessar auk þess sem mikið er lagt upp úr kynningu á tilgangi stéttarfélaga fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hefur ekki mikið verið um vinnustaðaheimsóknir eða almenna fræðslu um verkalýðsmál undanfarna mánuði. Vonandi kemur fljótlega að því að menn geti farið að lifa eðlilegu lífi og tímabili Covid ljúki.

Á fundi formanns Framsýnar með starfsmönnum Húsasmiðjunnar var almennt farið yfir stöðuna og þær fréttir sem birtust í fjölmiðlum um að til skoðunar væri að loka verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík. Sú frétt kom mörgum á óvart, ekki síst starfsmönnum. Framsýn hefur kallað eftir upplýsingum frá forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar um stöðu mála og framtíðaráform hvað verslunarrekstur varðar á Húsavík.

Þeir fiska sem róa

Það hefur víða aflast vel undanfarið. Einn af þeim togbátum sem hefur fiskað vel er Pálína Þórunn GK 49 sem er í eigu Nesfisks og gerður út frá Sandgerði. Pálína Þórunn hefur verið á veiðum á grunnslóð uppá síðkastið og fiskað vel og flestir túrar endað með fullfermi eftir stutta útiveru. Trúnaðarmaður um borð er Aðalsteinn Pálsson sem sendi okkur þessar skemmtilegu myndir af lífinu um borð. Hann sagði í nægu að snúast um borð enda fiskiríið afar gott.

Vilja sjá Húsasmiðjuna eflast á Húsavík

Stjórn Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum kom saman til fundar í gær. Tekin voru fyrir nokkur mál. Umræður urðu um fréttir sem borist hafa um að Húsasmiðjan sé með til skoðunar að fækka verslunum fyrirtækisins á Íslandi, þar á meðal á Húsavík. Í máli stjórnarmanna kom fram að það væri verulega óheppilegt. Sögðust þeir vonast til þess að svo yrði ekki. Þess í stað væri mikilvægt að efla starfsemina á Húsavík. Í máli Aðalsteins Árna starfsmanns félagsins kom fram að hann hefur verið í sambandi við stjórnendur Húsasmiðjunnar um áform fyrirtækisins hvað frekari verslunarrekstur varðar á Húsavík.

Á fundinum urðu einnig umræður um Rekstraráætlun Skrifstofu stéttarfélaganna,

fjármál Þingiðnar og ávöxtun á fjármunum félagsins en gengið hefur verið frá samningum við Íslandsbanka og Sparisjóð Suður Þingeyinga um vaxtakjör á innistæðum félagsins hjá þessum fjármálastofnunum. Að mati stjórnar eru þau ásættanleg miðað við aðstæður í þjóðfélaginu.

Ákveðið var að stefna að því að halda aðalfund félagsins í lok maí en unnið er að því að klára bókhaldið fyrir árið 2020.

Miklar umræður urðu um stöðuna á áætlunarfluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur með Flugfélaginu Erni. Stjórnarmenn höfðu áhyggjur af stöðunni þar sem ákveðin öfl virðast vinna gegn áframhaldandi flugi til Húsavíkur. Ákveðið var að fylgja málinu eftir og kalla eftir upplýsingum vegna málsins frá yfirvöldum.

Fyrir liggur vegna aðstæðna í þjóðfélaginu að ekki verður hægt að halda hátíðarhöldin á Húsavík í ár á baráttudegi verkafólks 1. maí sem er miður að mati stjórnar.

Hins vegar fagnar stjórnin ákvörðun PCC um að hefja á ný framleiðslu í apríl sem skiptir verulega miklu máli fyrir samfélagið við Skjálfanda.

Þá urðu umræður um heimsókn forsetateymis ASÍ á dögunum til Húsavíkur þar sem fundað var með stjórnum Þingiðnar og Framsýnar um starfsemi Alþýðusambandsins auk þess sem almenn umræða varð um starfsemi og helstu áherslur í starfi Þingiðnar og Framsýnar á þessum undarlegu tímum. Forsetateymið er á ferðinni um landið í sömu erindagjörðum, það er að heyra hljóðið í stjórnum aðildarfélaga sambandsins. Í máli stjórnarmanna sem tóku þátt í fundinum kom fram að þeir hefðu verið ánægðir með fundinn. Meiri skilningur virtist vera á málefnum stéttarfélaganna á landsbyggðinni, væri tekið mið af fyrri fundum með forsvarsmönnum ASÍ. Heimsóknir sem þessar væru gagnslausar með öllu ef forsvarsmenn ASÍ hlustuðu ekki á raddir félagsmanna aðildarfélaga sambandsins.

Það hefur mikið verið byggt á félagssvæði Þingiðnar á síðustu árum, ekki er annað sjá en að uppbygging á svæðinu haldi áfram á komandi árum. Ekki síst þess vegna kallar stjórn Þingiðnar eftir því að Húsasmiðjan efli verslun fyrirtækisins á Húsavík. Málið var til umræðu á stjórnarfundi í gær.

Líf á ný við höfnina

PCC á Bakka mun hefja framleiðslu á ný í næsta mánuði. Síðustu vikurnar hefur fyrirtækið unnið að því að ráða starfsmenn sem eru afar gleðilegar fréttir enda mikið atvinnuleysi til staðar á Íslandi um þessar mundir. Starfsemi PCC  fylgir mikil umsvif á svæðinu, ekki síst hjá þjónustufyrirtækjum og undirverktökum og þá fylgir starfseminni jafnframt töluverðir flutningar í gegnum höfnina. Í morgun máti sjá skip í Húsavíkurhöfn sem var að koma með aðföng til PCC. Annað skip beið á Skjálfanda eftir því að komast að bryggju. Það er því óhætt að segja að aukið líf sé að færast yfir samfélagið við Skjálfanda sem er hið besta mál í alla staði. Síðan væri óskandi að ferðaþjónustan næði sér á strik í sumar og Covid léti sig hverfa.

Það skiptir verulega miklu máli fyrir Húsavíkursvæðið og nærliggjandi sveitir og byggðarlög að PCC hefji starfsemi á ný eftir páska.