“Hugsum fyrst um smáfuglana áður en við förum að fóðra ránfuglana”   

Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum standa nú yfir. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá, tónlist og ræðuhöld. Í þessum skrifuðu orðum er formaður Framsýnar að flytja þrumuræðu þar sem hann tekur sérstaklega fyrir söluna á Íslandsbanka, deilurnar í Eflingu og komandi kjaraviðræður við Samstök atvinnulífsins. Sjá má ræðuna í heild sinni hér að neðan. Þá geta þeir sem eru ekki á hátíðinni farið inn á streymið  twitch.tv/hljodveridbruar.  Þar er hægt að horfa á beina útsendingu frá hátíðinni og síðan verður efnið aðgengilegt í tvær vikur á heimasíðu stéttarfélaganna:

Ágætu félagar

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Þrátt fyrir að 1. maí sé alþjóðlegur baráttudagur verkafólks er mikilvægt að hafa í huga að allir dagar eru baráttudagar, ekki bara 1. maí.

Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni í umboði félagsmanna upplifum þetta í okkar daglegu störfum fyrir hreyfinguna. Baráttan er endalaus.

Nú þegar við fögnum vorinu er heldur þungbúið yfir landinu, það er óþefur í loftinu sem tengist peningalykt auk þess sem við höfum eignast nýja skilgreiningu á orðatiltækinu „þeir sem minna mega sín“.

Þegar ég var að alast upp hér á árum áður í sjávarplássi, þýddi orðið peningalykt að það væri verið að bræða loðnu, síld og annan fiskúrgang.

Peningalyktin var ávísun á gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið, tekjur sem í gegnum tíðina hafa verið notaðar m.a. til að byggja upp vegi, skóla, sjúkrahús og aðra innviði.

Peningalyktin sem ég upplifði á sínum tíma á ekkert skylt við peningalyktina sem svífur yfir Íslandsbankaturninnum í Kópavogi. Óþefurinn stafar af sölu „þjóðarinnar“ á hlutabréfum í bankanum sem er dapurlegur vitnisburður um vanhæfa seljendur. Um er að ræða göróttan gjörning í boði Bankasýslu ríkisins og stjórnvalda, hvert á vilja þjóðarinnar.

Svo vitnað sé áfram til fyrri tíma þá starfaði ég sem unglingur við fiskvinnslustörf með mér eldri körlum og konum sem höfðu flest fyrir fjölskyldum að sjá. Lífsbaráttan var virkilega hörð á þeim tíma. Dæmi voru um að verkamenn kæmu til vinnu, berfættir í stigvélum á köldum vetrardögum. Á þessum árum heyrði ég fyrst talað um „þá sem minna mega sín“ í þjóðfélaginu.

Ég skildi merkinguna vel, enda komandi frá alþýðuheimili og vinnandi með verkafólki sem þurfti að hafa töluvert fyrir lífinu til að komast af, vinnudagarnir voru oft langir.

Hefur eitthvað breyst? Þann tíma sem ég hef verið formaður í verkalýðsfélagi hef ég upplifað þessa tíma aftur og aftur. Það er algjör misskilningur, haldi menn að allir geti lagst á koddann á kvöldin áhyggjulaust. Fátækt er ekki liðin tíð.

Svo dæmi sé tekið þá hafði einstæð móðir á örorkubótum samband við mig um páskana og bað mig um að lána sér tvö þúsund krónur svo hún ætti fyrir mat. Svona er Ísland í dag, neyðin  er víða.

Í stað þess að stjórnvöld horfi til þess fjölmenna hóps sem býr við óboðlegar aðstæður í samfélaginu, halla þau sér upp að elítunni í fjármálageiranum. Til að innsigla vinskapinn telja þau viðeigandi að færa þeim eigur þjóðarinnar á silfurfati, það er til þeirra sem minna mega sín í merkingu stjórnvalda, kapítalistana sem ráða sér ekki fyrir græðgi.

Þessum gjörningi lýstu yfirmenn Bankasýslunnar og ráðherrar sem sérlega vel heppnaðri aðgerð enda verðlaunaðir með flugeldum, konfekti, gæða víni og dýrindis málsverðum, minna mátti það nú ekki vera.

Hlutur ríkisins var seldur á undirverði upp á nokkra milljarða króna til valins hóps kaupsýslumanna sem kættust mikið á leið sinni í bankann, tóku snúning fyrir fyrsta hanagal og seldu hlut sinn strax aftur með ofsa gróða. Á kantinum hlógu ráðgjafarnir og struku belg sinn, drjúgir með sitt, enda greiddum við þeim litlar 700 milljónir svo auðmennirnir gætu hagnast um milljarða á þessum viðskiptum.

Já þetta eru allt miklir menn, sem sannanlega standa vaktina fyrir sig og sína. Megi þeir sofa rótt.

Vaxandi ójöfnuður hefur enn og ný læst sig í íslenskt samfélag líkt og illgresi í akur.  Lærðum við eitthvað af hruninu 2008, NEI! Afleiðingarnar liggja fyrir; aukin misskipting, samþjöppun valds og auður hinna ríkustu vex og dafnar meðan lífskjör almennings standa í stað eða versna ekki síst barnafjölskyldna, öryrkja og þeirra sem minna mega sín.

Þetta er ekki ásættanleg staða í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem allir eiga að geta lifað með reisn og hér á enginn að þurfa að hokra í fátækt hvað þá að elítunni séu færðir margir milljarðar á silfurfati til að gambla með, svo þeir verði ríkari og ríkari á kostnað okkar hinna sem tilheyrum alþýðu landsins.

Það er vinnandi fólki sem hlaut sérstaka blessun þáverandi forsætisráðherra í hruninu 2008: „Guð blessi Ísland“.

Vissulega er þetta forkastanleg vinnubrögð, en það stóð ekki á svari talsmanns ríkisstjórnarinnar þegar hann var spurður út í söluna á bréfunum í Íslandsbanka. Útboðið hefði vissulega klikkað en menn lærðu af þessu, hafið þið heyrt þetta áður? Hvað heyrðum við þetta ekki oft í bankahruninu og hver er niðurstaðan. Við höfum ekkert lært.

Það er engum vafa undirorpið að almenningi er stórkostlega misboðið vegna sölunnar á Íslandsbanka. Enn og aftur koma stjórnvöld og leggja út rauðan dregil fyrir yfirstéttarelítuna sem voru gerendur í hruninu með því að bjóða þeim að kaupa hlut í Íslandsbanka  á góðu undirverði.

Það er full ástæða til að velta því upp hvort meirihluti sé fyrir því á stjórnarheimilinu að takast á við spillinguna sem reglulega poppar upp á Íslandi. Í það minnsta eru þingmennirnir við Austurvöll alltaf jafn hissa þegar þessi mál koma upp aftur og aftur, sama hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra. Það er umhugsun­ar­efni út af fyrir sig.

Sé raunverulegur vilji til þess að upp­ræta spill­ing­una þurfa allir stjórnmálaflokkar að byrja á því að líta í eigin barm í stað þess að benda á aðra.

Alþýða þessa lands mun ekki lýða annað en að flokkarnir setji skýrar reglur um fjármálamarkaðinn og sölufyrirkomulag ríkiseigna s.s. bankastofnana.

Það er okkar sem hér erum að standa vaktina og veita þeim sem við kjósum á þing á hverjum tíma fullt aðhald. Þannig vinnum við best gegn undirliggjandi spillingu í íslensku þjóðfélagi.

Ágæta samkoma

Væringar innan verkalýðshreyfingarinnar hafa undanfarið verið mikið til umræðu í fjölmiðlum. Athygli vekur að ákveðnir fjölmiðlar, í eigu fjársterkra aðila, hafa séð ástæðu til að fjalla mun meira um deilurnar í Eflingu, en brunaútsöluna á hlutabréfunum í Íslandsbanka, þar sem fimmtungur bankans „banka allra landsmanna“ var seldur á undirverði.

Menn þurfa ekki að hafa mikið á milli eyrnanna til að átta sig á því til hvers leikurinn er gerður. Það er að færa umræðuna frá braskinu og sjálftökuliðinu yfir í deilur innan Eflingar, þar sem tekist er á um persónur, stefnu og völd innan félagsins.

Svo það sé algjörlega á hreinu tel ég að lýðræðislega kjörin stjórn Eflingar hafi gert alvarleg mistök með því að ráðast í hópuppsagnir á skrifstofu félagsins. Fyrir liggur að verkalýðshreyfingin er almennt á móti hópuppsögnum. Að mínu mati hefði mátt með utanaðkomandi ráðgjöf, gera ásættanlegar breytingar á skrifstofunni í þágu stjórnar, starfsmanna og félagsmanna.

Forsendan fyrir öflugu starfi stéttarfélaga er góð samvinna stjórnar og starfsmanna. Það er síðan félagsmanna að veita stjórnendum og starfsmönnum aðhald á hverjum tíma. Umræðan um Eflingu hefur skaðað verkalýðshreyfinguna í heild sinni og það mun taka tíma að bæta úr þeim mikla skaða sem þegar er orðinn.

Hvað Eflingu varðar og formann félagsins, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, snýst málið ekki bara um hópuppsagnirnar á skrifstofu félagsins, sem eru fyrst og fremst á ábyrgð stjórnarinnar. Málið er svo miklu stærra og  þarf að skoða í samhengi vegna alls þess sem á undan er gengið. Ég þekki ágætlega til í málefnum Eflingar og blöskrar oft umræðan um félagið út í samfélaginu.

Ákveðin hægri öfl í þjóðfélaginu hafa markvist unnið að því að koma Sólveigu frá sem endurspeglast í fjölmiðlaumræðunni og á samskiptamiðlum. Menn hræðast þessa konu sem komið hefur af miklum krafti inn í verkalýðshreyfinguna með nýja sýn, slagkraft og öðruvísi nálgun á kjarabaráttu en áður hefur þekkst. Slagkraft og málflutning sem hreyfinguna hefur lengi vantað. Vissulega er Sólveig Anna kjaftfor og talar hreint út, sem fellur ekki öllum vel í geð, en það þarf kjark, þor og vilja til að ná fram réttlæti og jöfnuði í þessu landi.

Svo það sé bara sagt hreint út, þá er betri bandamaður til að berjast fyrir bættum kjörum láglaunafólks vandfundinn innan íslenskrar verkalýðshreyfingar og mættu margir aðrir verkalýðsforingjar taka hana sér til fyrirmyndar.

Þá hafa öfl innan hreyfingarinnar lagt sitt að mörkum til að koma Sólveigu Önnu frá með því að bregða fyrir hana fæti, þrátt fyrir að hún sé formaður í lang fjölmennasta stéttarfélaginu af nítján aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands. Það á bæði við um forystumenn og starfsmenn innan hreyfingarinnar.

Ég nefni síðasta þing Starfsgreinasambands Íslands þar sem Sólveig Anna náði ekki kjöri í framkvæmdastjórn sambandsins, þrátt fyrir að Efling hafi haft um 45% atkvæðavægi á þinginu,  þar sem „góða fólkinu“ svokallaða tókst að koma í veg fyrir kjör hennar með samstilltu átaki.

Ég á mér þann draum að sættir náist innan Eflingar um leið og ég kalla eftir meiri virðingu almennt innan hreyfingarinnar hvað varðar skoðanir og málstað fólks burt séð frá kyni, búsetu eða kynþætti.

Í þessu máli berum við öll ábyrgð. Hættum þessum sandkassaleik, snúum okkur þess í stað að þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru í réttindamálum verkafólks, öryrkja og aldraðra. Þar eru verkefnin óþrjótandi og markið að auknum jöfnuði er því miður ekki í sjónmáli. Höfum í huga að með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins mun okkur takast það markmið að byggja upp réttlátara samfélag umbjóðendum og samfélaginu öllu til heilla.

Ágæta samkoma

Tíminn líður hratt á gerfihnattaöld. Með haustinu falla Lífskjarasamningarnir  sem undirritaðir voru 2019 úr gildi. Að mínu mati eru Lífskjarasamningarnir merkilegustu kjarasamningar sem gerðir hafa verið allt frá undirritun Þjóðarsáttasamningana 2. febrúar 1990. Sérstaklega hvað varðar að jafna launakjör í landinu. Megininntak samningsins var að verja kaupmátt launa, vinna gegn verðbólgu og tryggja lægri vexti til frambúðar. Ég tel að megin markmiðin hafi náðst, þrátt fyrir að nokkuð skorti á að ríkistjórnin hafi staðið við gefin loforð s.s. um að setja skýrar reglur um févíti þegar fyrirtæki standa ekki við gerða kjarasamninga.

Yfirlýsing ríkistjórnarinnar sem fylgdi kjarasamningunum fólst í skattalækkunum, vaxtalækkunum, ákveðnum frystingum þjónustugjalda ríkis og sveitarfélaga, hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er sneru að húsnæðismálum ungs fólks.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að umfangi um 80 milljarðar á gildistímanum til að styðja við markmið um stöðugleika og bætt kjör launafólks.

Framsýn stéttarfélag kom að því að móta innihald Lífskjarasamninganna með öðrum aðildarfélögum ASÍ og stjórnvöldum sem lögðu sitt að mörkum svo hægt yrði að loka samningunum. Framsýn átti sérstaklega gott samstarf með Eflingu, VR og Verkalýðsfélagi Akraness. Þessi stéttarfélög voru drifkrafturinn í síðustu kjarasamningum ásamt Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Lífskjarasamningurinn byggði m.a. á krónutöluleið sem að mati Framsýnar er besta leiðin til að jafna lífskjörin í landinu. Aðrir hópar launafólks, sem búa við mannsæmandi kjör og rúmlega það verða að hafa skilning á viðleitni stéttarfélaga láglaunafólks að auka jöfnuð í landinu.  Það gera þeir best með því að taka heilshugar undir kröfuna um að allir eigi að geta séð sér farborða með sínu vinnuframlagi. Menn eiga ekki að þurfa að taka að sér aukavinnu til að geta framfleytt sér. Það eiga allir að geta lifað af 100% starfi. Annað er ekki í boði.

Sama á við um aldraða og öryrkja, þeir eiga skýlausan rétt á mannsæmandi framfærslu. Það á ekki að vera þannig að öryrkjar stelist til að vinna svart á kvöldin gegn vilja sínum svo þeir geti náð endum saman. Það er skömm fyrir íslenska þjóð, það er skömm fyrir íslenskt atvinnulíf, það er skömm fyrir íslenska velferðarkerfið.

Ég tel fulla ástæðu til að nefna þetta hér þar sem heyra má á talsmönnum stéttarfélaga sem gæta hagsmuna þeirra tekjuhærri að þeim þóknist ekki krónutöluleiðin. Þeir tala hins vegar fyrir %-leiðinni enda vitað að hún kemur betur út fyrir þá tekjuhærri. Í ljósi þessa kalla ég eftir þjóðarsátt um hækkun lægstu launa. Mín skilaboð eru skýr: Hugsum fyrst um smáfuglanna áður en við förum að fóðra ránfuglanna.

Hvað komandi kjaraviðræður varðar þá er undirbúningur hafinn hjá aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.

Kunnuglegt væl heyrist frá Samtökum atvinnulífsins um að ekkert sé til skiptanna og því ekkert um að semja. Reyndar var þessum skilaboðum komið á framfæri við þjóðina fyrir útsöluna á Íslandsbanka. Þar mátti sjá góðkunningja Samtaka atvinnulífsins slást um að kaupa sem mest af hlutabréfum í bankanum. Sem dæmi má nefna að einstök sjávarútvegsfyrirtæki keyptu fyrir yfir milljarð.

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að slík fyrirtæki geti ekki hækkað laun starfsmanna á lægstu launum. Viðhorf eigenda þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut á ekki bara að snúast um að græða og græða heldur greiða mannsæmandi laun og virða þannig framlag starfsmanna á hverjum tíma til aukins hagvaxtar í landinu.

Vissulega er það ekki nýtt að atvinnurekendur og frjálshyggjuliðið hafi hátt í aðdraganda kjarasamninga. Fyrir síðustu samninga árið 2019 fór áróðursmaskínan gegn hækkun lægstu launa á yfirsnúning. Samtök atvinnulífsins vöruðu við uppsögnum, samdrætti og gjaldþrotum næðu kröfur stéttarfélaganna fram að ganga. Þá var stórbrotið að lesa í blöðum og öðrum miðlum að forystumönnum í verkalýðshreyfingunni væri líkt við hryðjuverkamenn. Fyrir mér er Pútín Rússlandsforseti hryðjuverkamaður en ekki við sem förum fyrir kjarabaráttu verkafólks.

Það er von mín og trú að samstaða náist um að framlengja Lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og núverandi samningsforsendurnar byggja á. Samið verði um krónutöluleið og launakjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði hækkuð til jafns við opinberra starfsmenn sem búa í dag við miklu betri kjör en félagsmenn Starfsgreinasambands Íslands á almenna vinnumarkaðinum. Það á við um launakjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi. Þá þurfa stjórnvöld að koma að samningnum með sambærilegum hætti og síðast.

Hvað það varðar er mikilvægt að landsbyggðarfélögin leggi aukna áherslu á aukin jöfnuð í búsetuskilyrðum burt séð frá búsetu. Sérstaklega er hér verið að tala um aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og námi á framhalds- og háskólastigi svo ekki sé talað um þann mikla flutningskostnað sem fylgir því að búa á landsbyggðinni, fjarri Reykjavík. Reyndar er listinn langur. Stjórnvöld þurfa jafnframt að skapa leigjendum og íbúðarkaupendum á lágmarkskjörum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, sem stillt verði af í samræmi við fjárhagslega getu þeirra á hverjum tíma. Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallarþáttur í velferð launafólks.

Að lokum þetta!

Það hafa verið hörð átök innan verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er séð fyrir endann á. Framsýn mun leggja sitt að mörkum til að aðildarfélög ASÍ komi sameinuð til næstu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins íslensku launafólki og atvinnulífi til heilla. Annað er hreinlega ekki í boði.

Þá getur enginn setið hjá þegar horft er til hörmunganna í Úkraínu þar sem stríðsglæpamaður í byssuleik heldur heilli þjóð í heljargreipum með skelfilegum afleiðingum. Við verðum að gera allt til að aðstoða flóttafólkið frá Úkraínu um leið og hvetjum þjóðarleiðtoga heimsins til að stuðla að friði í heiminum með öllum tiltækum ráðum.

Hvað Framsýn varðar höfum við ekki setið hjá. Við höfum þegar komið á framfæri hörðum mótmælum við rússneska sendiráðið, við höfum samþykkt að leggja söfnun Rauða krossins á Íslandi til fjármagn til stuðnings flóttafólki frá Úkraínu auk þess sem við höfum samþykkt að leggja flóttafólki frá Úkraínu til íbúð á vegum Framsýnar í gegnum hjálparsamtök.

Það er stoltur formaður Framsýnar stéttarfélags sem stendur hér og tilkynnir að í dag munu mæðgur með lítið barn flytja inn í eina af íbúðum Framsýnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er sannarlega hjartnæmt að það skuli bera upp á daginn í dag, 1. maí, alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Takk fyrir.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Deila á