Hvað gengur mönnum til?

Það er stundum erfitt að átta sig á því hvað mönnum gengur til. Hér er ég að vitna til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja það vera forgangsmál á Alþingi að brjóta niður íslenska verkalýðshreyfingu, sama hvað það kostar. Það er grátbroslegt að hugsa til þess að þingmennirnir telja að með því að skerða aðgengi launafólks að stéttarfélögum efli það félögin og vitna þeir til Norðurlandanna hvað það varðar.

Nú vill svo til að ég þekki ágætlega til þessara mála í okkar nágrannalöndum, þar sem ég sat í stjórn Nordisk Union um tíma, en það eru samtök verkalýðsfélaga í matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum. Þar hafa hægri stjórnir lengi lagt sig fram um að veikja verkalýðshreyfinguna, enda gerðar út af auðvaldinu í viðkomandi löndum líkt og á Íslandi. Því miður hefur þessum aðilum tekist það ætlunarverk sitt. Erlendum starfsmönnum sem komið hafa til starfa í Skandinavíu hefur markvisst verið haldið utan stéttarfélaga svo þeir geti ekki sótt kjarasamningsbundinn rétt sinn sé brotið á þeim sem er daglegt brauð. Aðbúnaður þessara starfsmanna hefur verið skelfilegur auk þess sem launakjörin hafa verið langt fyrir neðan skráð lágmarkslaun. Þá eru dæmi um að vegabréfum erlendra starfsmanna hafi verið haldið eftir hjá eigendum fyrirtækjanna til að koma í veg fyrir að þeir yfirgæfu vinnustaðinn án samþykkis yfirmanna. Því til viðbótar hefur mafían í austantjaldsríkjunum verið að gera út verkamenn til starfa í Skandinavíu. Verkalýðshreyfingin hefur átt erfitt með að mæta þessum veruleika vegna skorts á valdheimildum. Þetta er umhverfið sem blasir við okkur takist þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að brjóta niður öfluga verkalýðshreyfingu á Íslandi. Verkalýðshreyfingu sem flestar þjóðir heims öfunda okkar af enda hefur hreyfingin komið að mörgum framfaramálum fyrir íslenska alþýðu, sem við getum verið stolt af og rúmlega það.

Hlutverk stéttarfélaga

Á Íslandi hefur okkur tekist að byggja upp öflug stéttarfélög, félagsmönnum til góða. Launamönnum er almennt heimilt að ganga í stéttarfélög eða standa utan þeirra. Gegn vægu félagsgjaldi sem byggir á jöfnuði hafa félögin myndað öryggisnet til handa félagsmönnum. Félögin hafa ávallt verið reiðubúin að grípa inn í, hafi þess þurft með. Það er hvort heldur um er að ræða almenna aðstoð á vinnumarkaði, veikindi félagsmanna, aðbúnaðarmál, orlofsmál og/eða lífeyrissjóðsmál. Svo ekki sé talað um aðkomu félaganna að velferðarmálum og atvinnumálum. Óhætt er að segja að starfsfólk stéttarfélaga sé ávallt til staðar þegar grípa þarf inn í aðstæður. Nærtækast er að taka dæmi úr því félagi sem ég leiði sem er Framsýn stéttarfélag. Innan raða þess er um þrjú þúsund félagsmenn í Þingeyjarsýslum. Á síðasta ári greiddi félagið um 1200 félagsmönnum sjúkrastyrki sem tengdust sérstaklega erfiðum veikindum og/eða fyrirbyggjandi aðgerðum til betri heilsu. Þessar greiðslur námu um 60 milljónum. Þar sem félagsmenn þurfa í auknum mæli að sækja heilbrigðisþjónustu til Akureyrar og/eða Reykjavíkur hefur félagið komið sér upp sjúkraíbúðum á Akureyri og Reykjavík til að mæta þörfum félagsmanna. Þá aðstoðaði félagið þá félagsmenn sem fóru í nám eða sóttu námskeið til að auka hæfni sína á vinnumarkaði um 22 milljónir. Rúmlega 300 félagsmenn tóku við þessum styrkjum sem gerði þeim flestum kleift að stunda námið með vinnu. Svona mæti lengi telja og væri efni í aðra grein. Það er því alveg ljóst að stuðningur Framsýnar til handa félagsmönnum skiptir verulega miklu máli. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins átta sig ekki á þessu hlutverki stéttarfélaganna, enda ekki í þeirra heimi að þurfa að hugsa um hverja krónu áður en stofnað er til kostnaðar. Hvað þá að þurfa að leita eftir stuðningi frá stéttarfélagi til að greiða niður kostnað s.s. vegna sálfræðiþjónustu, þar sem heimilisbókhaldið leyfir það ekki nema í boði sé styrkur frá viðkomandi stéttarfélagi. Að öðrum kosti þyrftu þeir í allt of mörgum tilfellum að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu meðferð. Þetta er heimur lágtekjufólks í dag. Það væri óskandi að þingmennirnir umræddu opnuðu augun og mátuðu sig við venjulegt fólk sem býr við þessar aðstæður í stað þess að eyða sínum tíma, í að finna leiðir til að brjóta niður réttindi láglaunafólks, sem er hryggjarstykkið í íslensku þjóðfélagi. Þeir hinir sömu eru duglegir að pósta myndum af sér frá fundum og ráðstefnum sem þeir sækja um víða veröld á kostnað ríkissjóðs á háum dagpeningum, ferðir sem skipulagðar eru af ferðaskrifstofu Alþingis.

Ráfandi þingmenn

Það er alveg ljóst að styrkur stéttarfélaga mun hrynja takist villuráfandi þingmönnum að keyra frumvarpið í gegn um Alþingi. Upp í hugann kemur eitt af mörgum dæmum sem ástæða er til að nefna um mikilvægi stéttarfélaga. Það er bygging orkuvers Landsvirkjunar og kísilverksmiðju PCC á Bakka fyrir nokkrum árum. Þá kom til landsins fjöldinn allur af verkamönnum sem taldi vel á annað þúsund manns. Erlendu fyrirtækin ætluðu þessum mönnum að vera utan stéttarfélaga sem og nokkur íslensk fyrirtæki sem einnig sóttu erlenda starfsmenn. Framsýn kom í veg fyrir það og náði því fram að starfsmennirnir yrðu á íslenskum kjörum og greiddu til félagsins eins og lög og ákvæði kjarasamninga kveða á um. Vissulega voru dæmi um að erlendu starfsmennirnir væru hræddir og bæðu félagið um að skipta sér ekki af þeirra málum þar sem þeir óttuðust um fjölskyldur sínar heima fyrir. Þeir höfðu áhyggjur af því að atvinnurekendurnir eða starfsmannaleigurnar gerðu þeim illt kæmust þeir að því að þeir hefðu leitað til stéttarfélags vegna kjarasamningsbrota. Auk þess höfðu þeir áhyggjur af þeim sem þetta skrifar og spurðu „Hvað telur þú að þú haldir höfðinu lengi?“ Því miður var það þannig og er enn að við sem tökum fast á kjarasamningsbrotum sitjum reglulega undir hótunum og það jafnvel líflátshótunum. Þess vegna ekki síst höfum við kallað eftir hertari löggjöf er varðar starfsemi fyrirtækja sem ástunda launaþjófnað. Á uppbyggingartímanum á Þeistareykjum og Bakka tryggði Framsýn líka að fyrirtækin færðu lögheimili/búsetu starfsmanna til sveitarfélaganna á áhrifasvæði framkvæmdanna svo útsvarstekjurnar yrðu þar eftir, í stað þess að þeir væru skráðir til heimilis hjá þeim fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem fluttu þá inn til landsins. Þannig tryggði Framsýn sveitarfélögunum væntanlega milljónatugi í útsvarstekjur. Við fengum þakklæti frá sveitarfélögunum fyrir aðkomu okkar að málinu. Við fengum líka þakkir frá fyrirtækjum á svæðinu fyrir að koma í veg fyrir undirboð, þar sem allt of mörg fyrirtæki sem komu að verkinu ætluðu sér ekki að fara eftir settum reglum.  Já, öflug stéttarfélög eru gríðarlega mikilvæg. Stéttarfélög líkt og Framsýn hafa auk þess barist fyrir mörgum framfaramálum í gegnum tíðina er varðar byggða- og atvinnumál. Þá hefur sú barátta Framsýnar að viðhalda flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll vakið töluverða athygli enda íbúum, félagsmönnum og atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum til hagsbóta. Ég skal fúslega viðurkenna að ég skil núna af hverju oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi hefur ekki haft fyrir því að svara erindum Framsýnar um mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins komi að því með heimamönnum að efla flugsamgöngur til Húsavíkur, eða komi að því að bæta vegasamgöngur á svæðinu s.s. í Bárðardal, svo ekki sé talað um fleiri framfaramál í Þingeyjarsýslum. Greinilegt er að allur hans tími hefur farið í að setja saman frumvarp með félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum, sem ætlað er að ganga frá íslenskri verkalýðshreyfingu, sem segir okkur að forgangsröðunin er skýr hjá þingmanninum. Við skulum hafa þetta í huga kjósendur góðir, þetta er ekki boðlegt, reyndar til háborinnar skammar.

 Ríkisstjórnin í hættu

Hvað frumvarp Sjálfstæðismanna varðar tel ég að það fari aldrei í gegn um þingið. Reyndar gæti það kostað að ríkisstjórnin myndi springa. VG og Framsókn geta án efa ekki samþykkt að frumvarpið fari í gegn um þingið, enda byggja þeir flokkar á allt öðrum gildum en Sjálfstæðisflokkurinn sem með þessu frumvarpi minnir okkur ónotalega á fyrir hvað þeir standa og fyrir hverja þeir eru málpípur á þingi. Þá hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað gegn frumvarpinu sem ber að þakka fyrir. Það er nefnilega þannig að við sem förum fyrir stéttarfélögum og flestir þeir félagsmenn sem eru innan ASÍ, BSRB og annara samtaka launafólks hlusta af athygli þegar þingmenn tjá sig um eitt vitlausasta þingmál sem komið hefur fram á Alþingi á síðari tímum. Síðan geri ég þá kröfu að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem standa að frumvarpinu íhugi afsögn nái þeir ekki frumvarpinu í gegn um Alþingi. Það er ekki í boði að greiða slíkum niðurrifsöflum laun með skattpeningum verkafólks, þingmanna sem vinna gegn hagsmunum megin þorra landsmanna enda yfir 90% af fólki á vinnumarkaði í öflugum stéttarfélögum. Þeim væri nær að vinna að þarfari málum á þingi s.s. að jafna búsetuskilyrði í landinu þar sem hallar verulega á landsbyggðina ekki síst hvað varðar heilbrigðis- og menntamál.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

Framsýn styrkir TaeKwonDodeild Völsungs

Framsýn stéttarfélag og TaeKwonDodeild Völsungs hafa gengið frá samkomulagi um stuðning stéttarfélagsins við deildina sem hefur verið að eflast mjög á síðustu árum.

Mikil ánægja er innan raða deildarinnar með stuðninginn en fjármagnið verður notað til að kaupa búnað sem nýttur verður á æfingum og í keppnum. Við afhendingu gjafarinnar í gær kom fram hjá Marcin Florczyk þjálfara hjá Taekwondodeild Völsungs að með betri búnaði yrði hægt að efla deildina með betri æfingum og þá yrði hægt að undirbúa iðkendur betur til að taka þátt í keppnum á vegum deildarinnar. Fyrir hönd allra iðkenda deildarinnar þakkaði hann Framsýn fyrir stuðninginn.

Þess má geta að TaeKwonDo hefur verið stundað innan Völsungs í um 10 ár. Á æfingum er lagt mikið upp úr því að styrkja iðkendur bæði líkamlega og andlega. Iðkendur eru á öllum aldri og eru eru allir velkomnir að koma og prófa. Æfingar fara fram reglulega í litla salnum í íþróttahöllinni í tveimur aldurshópum.

Áhugavert er að sjá ungafólki sem stundar þessa skemmtilegu íþrótt.

Formanni Framsýnar var gert að prufa, sem betur fer fyrir hann, tókst honum að klára þrautina sem unga fólkið kláraði með stæl.

Samfylkingin fordæmir atlögu að samtökum og sjóðum launafólks

Það er vissulega ánægjulegt að upplifa kraftmikla Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar gegn árásum þingmanna sjálfstæðisflokksins í garð vinnandi fólks og lífeyrisréttinda.

“Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fordæmir atlögu ráðherra og stjórnarþingmanna að samtökum og sjóðum launafólks.

Atlagan birtist nú í lagafrumvarpi til höfuðs stéttarfélögum og í stefnu um að seilast í lífeyrissparnað launafólks til að borga skuldir ÍL-sjóðs. Það er óábyrg stefna.

Ríkissjóður á að jafna byrðar fólks. Það er ekki gert með því að taka 200 milljarða króna af sparnaði tiltekinna hópa launafólks til að borga fyrir afglöp óreiðustjórnmálamanna úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Samfylkingin kallar eftir því að ríkisstjórnin sýni ábyrgð í málinu og leiði það til lykta með samstöðu og jafnaðarmennsku að leiðarljósi.

Samfylkingin hafnar lagafrumvarpi um bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum og afnám greiðsluskyldu til stéttarfélaga. Í því felst hótun um að kippa fótunum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi. Þannig er vegið að viðkvæmri sátt sem ríkt hefur á íslenskum vinnumarkaði um árabil. Samfylkingin kallar eftir víðtækri samstöðu um að viðhalda sterkri verkalýðshreyfingu í landinu.

Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands vill setja réttlæti í öndvegi og að almannahagsmunir ráði för. Sérhagsmunagæsla og klíkustjórnmál eiga að vera arfleifð fortíðar.”

 

Hittust til að ræða bónusmál

Fulltrúar frá Framsýn/Þingiðn funduðu með forsvarsmönnum PCC á Bakka fyrir helgina. Unnið er að því að klára gerð bónussamnings fyrir almenna starfsmenn. Viðræður munu halda áfram eftir helgina. Vonir eru bundnar við að viðræður aðila klárist með samningi.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um félagafrelsisfrumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði.

Á Íslandi ríkir  félagafrelsi. Tengsl kjarasamninga og stéttarfélagsaðildar hafa reynst mikilvægur þáttur í linnulausri baráttu íslensks launafólks fyrir mannsæmandi kjörum, samtryggingu og velferð og tryggt meiri jöfnuð hér á landi en víðast annars staðar. Verkalýðshreyfingin hefur engan hug á að láta sérvisku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína.

Tímasetning umfjöllunar Alþingis um frumvarpið er mjög sérstök, nú þegar nokkrir dagar eru í að allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna og viðræður þegar hafnar. Við þau tímamót er frumvarpinu hleypt á dagskrá þingsins og umsagna krafist frá verkalýðshreyfingunni innan tveggja vikna. Ljóst er þessari aðför verður svarað af samhentri og sameinaðri verkalýðshreyfingu enda ráðist að tilverurétti sterkra stéttarfélaga. Augljóst virðist að stjórnvöld ætla að leiða hjá sér vaxandi og alvarlegan afkomuvanda launafólks og þekkja þá lausn eina að hækka álögur á heimilin í landinu og ráðast gegn verkalýðshreyfingunni.

Frumvarpið ber öll þess merki að horft sé til breskrar nýfrjálshyggju. Skipuleg aðför nýfrjálshyggjunnar að velferðarkerfum Breta og niðurbrot á skipulagðri verkalýðshreyfingu á síðustu áratugum veldur því að margir óttast að orkukreppa og kaupmáttarhrun muni kalla raunverulegar hörmungar yfir þjóðina á næstu misserum.

Betur færi að þingmenn axli þá ábyrgð sem starfi þeirra fylgir og leitist við að létta byrðar almennings í ríkjandi afkomukreppu. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hvetur því þingflokk sjálfstæðismanna til að beina kröftum sínum að uppbyggilegri verkefnum í stað þess að fylkja sér undir grunnfána lúinna baráttumála.“

Sofandi í bílskrjóðum við Alþingi

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með málflutningi Sjálfstæðismanna á Alþingi, en þeir berjast nú sem aldrei fyrr í nafni frelsis og mannréttinda gegn félagslegum réttindum verkafólks. Aðferðir þeirra þurfa reyndar ekkert að koma á óvart, enda hefur  flokkurinn löngum gengið erinda auðvaldsins. Einn fremsti skósveinn íhaldsins á Alþingi, Óli Björn Kárason, fylgdi nýverið úr hlaði frumvarpi Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði.

Megininntak frumvarpsins hjá illa upplýstum framsögumanni og samflokksmönnum hans er að koma á framfæri sterkum vilja flokksmanna frjálshyggjunnar um að brjóta niður samtakamátt verkafólks. Þeir ríku þurfi að græða meira til að viðhalda velferð á Íslandi, þeirra sé að skammta smælingjunum skítalaun og réttindi í þágu frjálshyggjunnar og smána íslensk stéttarfélög eins og mögulegt er. Að veikja stöðu þeirra sem barist hafa gegn ójöfnuði, óréttlæti og misskiptingu í samfélaginu, allt frá stofnun fyrstu stéttarfélaganna á Íslandi. Það sem fer fyrir brjóstið á varðhundum auðvaldsins er nákvæmlega það sem erlendar verkalýðshreyfingar öfunda okkur af. Það er að yfir 92% íslenskra launamanna skuli eiga aðild að stéttarfélögum, en það er það hæsta sem þekkist innan OECD ríkjanna.

Eitt af margþættum hlutverkum íslenskra stéttarfélaga er að fara með kynningu í grunnskóla og framhaldsskóla fyrir unga nemendur um vinnumarkaðinn, skattkerfið og tilgang stéttarfélaga, enda bíður unga fólksins í framtíðinni að taka þátt í krefjandi störfum á vinnumarkaði.

Að sjálfsögðu eru það eðlileg mannréttindi í lýðræðisríki að geta verið í öflugum og frjálsum stéttarfélögum sem í gegnum tíðina hafa byggt upp öryggisnet sem ætlað er að fanga sem flesta og veita fólki mannsæmandi afkomu og tryggingarvernd. Í dag er það þannig að menn geta gengið í stéttarfélag á Íslandi eða valið að standa utan þeirra. Velji menn að standa  utan stéttarfélaga greiða þeir samt sem áður iðgjald til viðkomandi stéttarfélags. Það tryggir þeim öfluga og endurgjaldslausa þjónustu lendi þeir í ágreiningi við atvinnurekanda hvort sem það er vegna kjarasamningsbrota, slysa, veikinda o.fl., ásamt því að tryggja lágmarkskjör og aðkomu að réttindum í gegnum kjarasamninga og samninga við stjórnvöld.  Þetta er einnig sérstaklega mikilvægt þegar í hlut á erlent verkafólk sem hingað flyst eða kemur hér tímabundið. Það er sá hópur sem veikast stendur á vinnumarkaði, en á rétt til og nýtir sér alla þjónustu stéttarfélaganna. Á hinum Norðurlöndunum er aðild þeirra að stéttarfélögum mjög lítil, staða þeirra veik og brotin gegn þeim hrikaleg.

Þegar sagan er skoðuð má sjá að verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina barist fyrir flestum þeim framfaramálum sem við búum við í dag, s.s. lífeyrissjóðakerfinu, almannatryggingarkerfinu, atvinnuleysisbótakerfinu, verkamannabústaðakerfinu, Bjargi-Íbúðafélagi, VIRK-starfsendurhæfingu, öflugu verðlagseftirliti og réttlátu skattkerfi. Það er að þeir tekjulægri beri lægri skatta en þeir tekjuhærri, sem hafa borð fyrir báru.

Í gegnum kjarasamninga hefur síðan náðst að tryggja fólki lágmarkskjör, veikindarétt, orlofsrétt, slysarétt og aðkomu að mikilvægum sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Allur þessi ávinningur og meira til hefur náðst í gegnum öflug stéttarfélög á Íslandi til handa félagsmönnum, sem við megum vera stolt af.

Þá er hlutverk stéttarfélaga að standa vörð um hagsmuni félagsmanna og styðja við bakið á þeim sé brotið á þeirra kjarasamningsbundnu réttindum. Jafnframt því að tryggja að félagsmenn hafi ávallt aðgengi að lögfræðingum í gegnum félögin, gerist þess þörf. Það má heldur ekki gleyma öflugu vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna sem ætlað er stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði, minni skattsvikum og þar með samkeppnishæfara atvinnulífi.

Það væri hollt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að fá sambærilega kynningu á mikilvægi stéttarfélaga og unga fólkið fær í skólum landsins, því svo virðist sem fáfræðin sé algjör hjá flutningsmönnum frumvarpsins.

Athygli vakti á dögunum að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tók ekki einvörðungu undir tilgang frumvarps um frjálsa stéttarfélagaaðild, heldur lagði hann sérstaka áherslu á mikilvægi þess að lækka lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði, það er í ferðaþjónustu. Laun sem slefa rétt yfir 300.000,- kr. á mánuði fyrir fullt starf. Hafi maður einhvern tíma borið virðingu fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins, er sú virðing öll. Fjármálaráðherra er greinilega í einhverjum öðrum víddum, umgengst ekki almennt verkafólk og hefur því engan skilning á stöðu þess fólks sem ekki getur skammtað sér arð og ofurlaun á diskinn eftir þörfum, eins og þekkt er úr hans nærumhverfi. Sú staðreynd er vægast sagt óhugguleg að formaður Sjálfstæðisflokksins og hans auðsveipu skósveinar séu ætíð reiðubúnir að vaða eld og brennistein fyrir hina auðugu á kostnað vinnandi fólks, neytenda og heimilanna í landinu. Þetta er ekki sá Sjálfstæðisflokkur sem nafni hans og margir forverar fóru fyrir.

Á sama tíma og þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjast á árarnar með að kippa grundvellinum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi gjamma Samtök atvinnulífsins á hliðarlínunni og krefjast þess að Vinnulöggjöfin verði endurskoðuð til að veikja stöðu launafólks enn frekar. Markmiðið samtakanna er að fjölga félagslegum undirboðum og kjarasamningsbrotum á íslenskum vinnumarkaði með veikari verkalýðshreyfingu. Það er á skjön við stefnu þeirra alvöru fyrirtækja sem vilja viðhalda samkeppnishæfum vinnumarkaði og hræðast samkeppnisstöðuna nái tillögur þeirra eigin samtaka fram að ganga. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að samtökin séu klofin í dag og eigi hugsanlega eftir að liðast frekar í sundur.

Framsögumanni Sjálfstæðisflokksins sem talaði fyrir niðurrifi íslenskrar verkalýðshreyfingar í ræðustól Alþingis var mjög tíðrætt um vinnumarkaðsmódelið á Norðurlöndunum. Taldi hann það fremra því íslenska og þangað ættu menn að horfa, því þannig væri hægt að efla starfsemi stéttarfélaga á Íslandi. Er ekki allt í lagi?

Að sjálfsögðu er þetta mjög athyglisvert í ljósi þess sem ég nefndi hér að framan, að erlend verkalýðssamtök horfa til Íslands sem fyrirmyndarsamfélags hvað varðar vinnumarkaðsmál. Framsögumaðurinn hafði greinilega ekki gefið sér tíma til að kynna sér málið í þaula og er því út á túni í sínum málflutningi.

Sjálfur sat ég í stjórn Nordisk Union til margra ára, en það eru samtök þeirra stéttarfélaga á Norðurlöndum sem hafa starfsfólk í matvælaframleiðslu innan sinna vébanda. Breytingar á vinnulöggjöfinni í viðkomandi löndum hafa orðið til þess að félögum í hefðbundnum stéttarfélögum hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum. Nærtækast er eða líta til Svíþjóðar þar sem hægrimenn hafa lagt sig fram um að veikja verkalýðshreyfinguna. Félagsmönnum í Gulu verkalýðsfélögunum, sem eru undir hælnum á atvinnurekendum, hefur hins vegar fjölgað verulega. Atvinnurekendur hafa verið að beina starfsmönnum, sérstaklega erlendum, í slík verkalýðsfélög til að losna undan eftirliti hefðbundnu stéttarfélaganna. Mörg dæmi eru um að atvinnurekendur hafi tekið vegabréf af erlendum starfsmönnum svo þeir geti ekki yfirgefið vinnustaðinn og landið þrátt fyrir alvarleg kjarasamningsbrot. Það á við um félagsmenn sem standa utan hefðbundinna stéttarfélaga, svokallaða teikara, sem eru ótryggðir og án aðildar að öryggisneti stéttarfélaga.

Mér var boðið á vinnustað þar sem ófélagsbundnir verkamenn voru við störf á byggingastað. Þar var ekki í boði að sofa í venjulegum rúmum í löglegri starfsmannaaðstöðu með salerni eins og kröfur eru gerðar um í almennum kjarasamningum og við þekkjum á Íslandi heldur var þeim gert að sofa í bílskrjóðum við verkstað án salernisaðstöðu. Sjá mátti verkamennina fara í skjól til að gera þarfir sínar á víðavangi. Þeir gátu ekkert leitað varðandi aðbúnaðarmál enda haldið frá því að vera í stéttarfélagi. Þeim var tryggð vinna gegn því að vera í Gulu verkalýðsfélagi.

Þetta er vinnumarkaðsmódelið sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins sjá fyrir sér á Íslandi, það er að almennir starfsmenn s.s. á Alþingi, sem standa utan stéttarfélaga, skreppi út fyrir húsvegginn og geri þarfir sínar við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli. Það er í anda þess sem hefur verið að gerast á Norðurlöndunum með tilkomu Gulu verkalýðsfélaganna. Í nafni lýðræðis og mannréttinda! Hver voru aftur slagorð og stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins? Var það stétt með stétt, eða auðstétt með auðstétt?  Ég er reyndar löngu hættur að átta mig á stefnu flokksins.

Þeir halda kannski að opinberar stofnanir geti  tekið að sér að framfylgja kjarasamningum, reglum um aðbúnað og öryggi og tryggja réttarstöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Það væri þá í anda flokksins að þenja út eftirlitskerfi ríkisins og stofnanir þess eða hvað? Eða vilja þeir einfaldlega minnka sjálfsprottið og frjálst eftirlit stéttarfélaganna, draga eftirlit ríkisins saman og draga þannig úr mannréttindum vinnandi fólks? Í málflutningi þeirra stangast allt hvað á annars horn.

Með þessum skrifum vil ég skora á Sjálfstæðisflokkinn að draga frumvarpið þegar í stað til baka, enda er um alvarlega aðför að íslenskum vinnumarkaði að ræða. Gerist það ekki skora ég á þingmenn annara flokka að mótmæla þessum málflutningi auðvaldsins. Þingmenn, það verður hlustað eftir ykkar viðbrögðum, þið getið ekki setið hjá meðan Róm brennur í boði þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

                                                                                                                        Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

SGS og LÍV saman í kjaraviðræður

Stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Starfsgreinsamband Íslands, hafa ákveðið að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning. Samstarfið nær til hátt í 90 þúsund einstaklinga sem starfa á almennum vinnumarkaði innan tuttugu stéttarfélaga.

Mjög ríkur vilji er innan beggja sambanda að gera sameiginlega atlögu að nýjum kjarasamningi þar sem áherslan verður á að auka kaupmátt og tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Það er ljóst að samstarf LÍV og SGS mun skila auknum slagkrafti í kjarasamningaviðræðurnar.

 

Við leitum að öflugum liðsmanni – frábært starf í boði

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík óskar eftir að ráða öflugan einstakling í almenn skrifstofustörf. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf í góðum starfsmannahóp. Kjör taka mið af menntun, reynslu og kjarasamningi Landssambands ísl. verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Starfssvið:

  • Móttaka viðskiptavina
  • Umsjón með orlofsíbúðum og orlofskostum á vegum stéttarfélaganna
  • Umsjón með sölu á flugmiðum
  • Túlkun kjarasamninga með öðrum starfsmönnum
  • Upplýsingagjöf varðandi réttindi félagsmanna úr sjóðum félagsins
  • Aðstoð við skráningu iðgjalda og annara styrkja
  • Innkaup á vörum fyrir Skrifstofu stéttarfélaganna

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla á vinnumarkaði sem nýtist í starfi
  • Áhugi fyrir verkalýðsmálum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum
  • Góð kunnátta í íslensku og ensku
  • Góð tölvukunnátta

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur eru með öflugri stéttarfélögum landsins.

Umsóknarfrestur er til og með 7. nóvember n.k.

Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið með því að senda umsókn á netfangið kuti@framsyn.is eða með því að koma upplýsingum á Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, Húsavík. Forstöðumaður, Aðalsteinn Árni Baldursson, gefur frekari upplýsingar um starfið.  Umsókninni þarf að fylgja upplýsingar fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að sinna starfinu. Um er að ræða fullt starf.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir en það er í höndum Fulltrúaráðs stéttarfélaganna.

Skrifstofa stéttarfélaganna

 

 

 

 

 

Kröfugerð Þingiðnar gagnvart SA

Á fundi með Samtökum atvinnulífsins í síðustu viku var kröfugerð Samiðnar lögð fram vegna endurnýjunar kjarasamnings aðila. Þingiðn á aðild að kröfugerðinni fyrir sína félagsmenn. Tveir formlegir fundir hafa verið haldnir en samningurinn er laus frá og með 1. nóvember nk. Í viðræðunum fara iðnaðarmannafélögin í Húsi fagfélaganna saman sem ein heild. Í kröfugerðinni er m.a. gerð krafa um eftirfarandi:

  • Aukinn kaupmátt launa
  • Hlutfallshækkanir launa (prósentuhækkanir)
  • Leiðrétting á launum iðnaðarfólks
  • Færa taxta að greiddum launum
  • Aukinn orlofsréttur
  • Frekari stytting vinnuvikunnar
  • Verk- og tækninámi sé tryggt nægjanlegt fjármagn til að mæta aukinni aðsókn
  • Vinnustaðaeftirlit verði markvissara og skilvirkara

Kröfugerð Samiðnar gagnvart SA

 

Breið og góð samstaða á formannafundi SGS

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem hafa ákveðið að fara saman í komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins funduðu í morgun um stöðuna og viðræðurnar sem hafnar eru við SA. Þá var frumvarp þingmanna sjálfstæðismanna um frjálsa félagaaðild einnig til umræðu. Ekki þarf að taka fram að veruleg óánægja er með framkomið frumvarp enda markmið þingmannanna að lama íslenska verkalýðshreyfingu. Mikil og góður baráttuandi var á fundinum og voru formenn einhuga um að standa saman í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins en núverandi kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum renna út um næstu mánaðamót. Innan Starfsgreinasambandsins eru 19 aðildarfélög, sautján af þeim hafa ákveðið að fara saman í viðræðurnar. Hin stéttarfélögin tvö eru með samningsumboðið hjá sér en munu væntanlega vinna mjög náið með félögum sínum innan SGS.

Miklar umræður um stöðuna í hreyfingunni

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær ásamt stjórn Framsýnar-ung. Meðal þess sem var til umræðu voru deilurnar í verkalýðshreyfingunni sem hafa verið til umræðu í fjölmiðlum eftir þing Alþýðusambands Íslands í síðustu viku. Eftir góðar umræður þar sem fundarmenn skiptust á skoðunum um stöðuna var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

Ályktun
um stöðuna í verkalýðshreyfingunni

„Framsýn stéttarfélag harmar þá atburðarás sem átti sér stað á nýyfirstöðnu þingi ASÍ og leiddi til þess að þingfulltrúar VR, Eflingar,Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur gengu á dyr. Það sem gerðist á þinginu var aðeins dropinn sem fyllti mælinn, eftir harðvítugar deilur innan hreyfingarinnar um langan tíma.

Félagið hafnar því alfarið að ástandið innan verkalýðshreyfingarinnar sé á ábyrgð þeirra stéttarfélaga sem gagnrýnt hafa skort á gagnsæi og lýðræðislegum starfsháttum innan ASÍ og kallað eftir breytingum þar um. Opin og lýðræðisleg umræða um það hvernig verkalýðshreyfingin eigi að starfa og hvert hún skuli stefna hlýtur að vera forsenda þess að fólk geti unnið saman.

Framsýn telur afar brýnt nú þegar mikilvæg verkefni eru framundan við gerð kjarasamninga,      að deiluaðilar slíðri sverð sín og einbeiti sér að því að komast upp úr þeim hjólförum sem deilan virðist föst í. Þar verða allir sem koma að málum að fá að njóta sannmælis.

Verkefni verkalýðshreyfingarinnar verða hér eftir sem hingað til að ná farsælum samningum fyrir  launafólk í landinu og slagkraftur hreyfingarinnar felst fyrst og síðast í því að aðildarfélögin geti tekist á um einstök atriði, en hafi þroska til að fylkja liði á bak við niðurstöðuna þegar hún er fengin.“                         

 

 

Hvað gekk mönnum til á þingi ASÍ?

Þing Alþýðusambands Íslands sem haldið var í síðustu viku fer í sögubækurnar fyrir óeiningu og átök innan hreyfingarinnar. Tekist var á um völd, áhrif, persónur og stefnumál. Vissulega voru það mikil vonbrigði að þingið skyldi leysast upp í tóma vitleysu, sem kallaði á mjög neikvæða umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Fjöldi fólks skilur eðlilega ekki málavexti og hvað það er sem veldur ríkjandi ágreiningi innan verkalýðshreyfingarinnar og kallar því eftir skýringum.

Forystumenn í lang fjölmennustu stéttarfélögum landsins stigu fram í aðdraganda þingsins og gáfu kost á sér til forystustarfa í Alþýðusambandinu. Þau eiga það sammerkt að hafa kallað eftir áherslubreytingum í verkalýðsbaráttu á Íslandi nú þegar menn eru að sigla inn í krefjandi kjaraviðræður. Eins og hendi væri veifað fór fámennur en hávær hópur formanna innan Alþýðusambandsins af stað í sögulega herferð gegn því ágæta fólki sem var tilbúið að leiða sambandið til frekari sigra fyrir íslenska alþýðu. Þar fóru fremstir formenn sem hafa orðið undir og tapað völdum í hreyfingunni á undanförnum misserum og átt erfitt með að sætta sig við orðinn hlut.

Hægri öflin í þjóðfélaginu fögnuðu þessum ófriði að sjálfsögðu með flugeldasýningu og þá hafa afskipti fyrrverandi framkvæmdastjóra ASÍ vakið töluverða athygli, en hún var ráðin til sambandsins á sínum tíma án þess að starfið væri auglýst sérstaklega, enda vinatengsl við þáverandi forseta. Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hefur átt sviðið í fjölmiðlum og fengið hvert tækifærið á fætur öðru til að tala niður forystumenn þeirra stéttarfélaga sem kallað hafa eftir breytingum í hreyfingunni. Að hennar mati bera þau ábyrgð á því hvernig komið er fyrir verkalýðshreyfingunni. Að sjálfsögðu nefnir hún ekki félaga sína og símavini í hreyfingunni sem farið hafa hamförum í orðræðunni gegn formönnum Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness. Það er mikil einföldun að halda því fram að formenn fjölmennustu aðildarfélaga ASÍ beri einir ábyrgð á því hvernig komið er fyrir hreyfingunni, þar bera fleiri ábyrgð samanber skeytasendingar í fjölmiðlum sem staðið hafa yfir um langan tíma og standa enn yfir.

Þá vakti að sjálfsögðu athygli á þinginu að ákveðinn hópur hafði safnað saman fulltrúum að baki tillögu um að þingheimur ógilti kjörbréf Eflingar sem var með um 18% af þingfulltrúum. Áður hafði Kjörbréfanefnd ASÍ staðfest að kjörbréf félagsins stæðust reglur ASÍ og lýst fulltrúa þess rétt kjörna. Samt sem áður hófst skemmdarverkastarfsemin strax í upphafi þingsins. Svo fór, reyndar eftir harða gagnrýni annarra þingfulltrúa, að flutningsmaður tillögunnar dró hana til baka með skömm. Þrátt fyrir það var tilgangnum náð, fræjum efa og tortryggni hafði verið sáð og til þess var leikurinn gerður.

Til að gera frekari usla var áfram leitað  að aðilum til að bjóða sig fram í forsetasætin, gegn þeim sem kjörnefnd hafði stillt upp í aðdraganda þingsins. Vissulega var athyglisvert að sjá konur sem talað hafa fyrir jafnrétti innan verkalýðshreyfingarinnar styðja karlmann á móti Sólveigu Önnu Jónsdóttur, einu konunni sem stillt var upp í embætti forseta af kjörnefnd ASÍ.  Já, þetta er saga til næsta bæjar og fer á spjöld sögunnar.

Svo fór að frambjóðendur til forsetakjörs að undanskildum formanni Rafiðnaðarsambandsins drógu framboð sín til baka. Eðlilega var þeim misboðið að sitja undir linnulausum árásum frá „svokölluðum“ félögum sínum í hreyfingunni og gátu því ekki hugsað sér að starfa með þessum formönnum að framfaramálum innan hreyfingarinnar.

Eftir stendur að hreyfingin er klofin. Það var mjög sérstakt að upplifa það að forystumenn innan Starfsgreinasambands Íslands hafi viljað veikja stöðu sambandsins með því að styðja fulltrúa annars sérsambands innan Alþýðusambandsins í forsetakjöri, það er á móti formanni Eflingar, sem er stærsta aðildarfélag Starfsgreinasambandsins. Ég minnist þess ekki að hafa upplifað svona nokkuð áður, hvað þá að forystumenn innan sama sambands hafi ætlað að koma í veg fyrir kjör Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambands Íslands í  sæti þriðja forseta ASÍ. Rétt er að taka fram, þetta er ekki reifari, þetta gerðist þótt ótrúlegt sé á þingi Alþýðusambands Íslands árið 2022.  Til fróðleiks má geta þess að fram að þessu hefur verið sátt um að skipta embættum, það er forsetum og miðstjórnarmönnum eftir landssamböndum og félögum með beina aðild í hlutföllum við vægi þeirra á þinginu. Það er lýðræðið sem menn hafa unnið eftir fram að þessu til að tryggja að raddir mismunandi hópa innan Alþýðusambandsins nái að heyrast á vetfangi sambandsins. Annars væri veruleg hætta á því að fjölmennustu stéttarfélögin á hverjum tíma einokuðu allar helstu trúnaðarstöður innan  Alþýðusambandsins. Um þetta fyrirkomulag hefur gilt heiðursmannasamkomulag til þessa.

Framundan eru krefjandi tímar og strax um næstu mánaðamót losna kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Búið er að fresta þingi Alþýðusambandsins fram á næsta ár í þeirri von að öldur lægi. Hvað það varðar er vert að hafa í huga að sjaldan veldur einn er tveir deila. Við, kjörnir fulltrúar í verkalýðshreyfingunni hljótum öll að bera ábyrgð á því að sverðin verði slíðruð og við virðum skoðanir hvers annars, til frekari sigra fyrir vinnandi fólk. Notum slagkraftinn í hreyfingunni til góðra verka, annað er ekki í boði fyrir félagsmenn Alþýðusambands Íslands.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

 

Innkaupastefna samþykkt fyrir Framsýn stéttarfélag

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum 18. október að setja sér skýrar reglur varðandi kaup á vörum og þjónustu af öðrum aðilum. Lögfræðingar félagsins komu að því að vinna stefnuna með forsvarsmönnum Framsýnar. Ekki er vitað til þess að stéttarfélög á Íslandi hafi sett sér sambærilegar reglur sem þessar. Eins og kveðið er á um í 1. grein stefnunnar er markmiðið að stuðla að vönduðum og hagkvæmum kaupum á vörum og þjónustu af hálfu Framsýnar og tryggja góða og viðurkennda viðskiptahætti. Þá skal Framsýn sýna samfélagslega ábyrgð og leitast við að eiga viðskipti við ábyrga aðila. Með vörum og þjónustu í stefnunni er átt við samninga í víðari merkingu, þ.á.m. stærri framkvæmdir og endurnýjanir sem Framsýn kann að ráðast í. Reiknað er fastlega með að Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur samþykki einnig að vinna eftir þessari stefnu. Félögin munu fjalla um málið í næstu viku en þau eru í sameiginlegum rekstri með Framsýn sem halda úti Skrifstofu stéttarfélaganna. 

Innkaupastefna Framsýnar stéttarfélags

  1. Tilgangur stefnu þessarar er að stuðla að vönduðum og hagkvæmum kaupum á vörum og þjónustu af hálfu Framsýnar og tryggja góða og viðurkennda viðskiptahætti. Framsýn skal sýna samfélagslega ábyrgð og leitast við að eiga viðskipti við ábyrga aðila. Með vörum og þjónustu í stefnu þessari er átt við samninga í víðari merkingu, þ.á.m. stærri framkvæmdir og endurnýjanir sem Framsýn kann að ráðast í.

 

  1. Kaup Framsýnar á vörum og þjónustu skulu vera í samræmi við ákvæði laga og reglna um eðlilega viðskiptahætti. Beita skal markvissum og skipulögðum vinnubrögðum við kaup á vörum og þjónustu til að stuðla að gagnsæi og hagkvæmni í rekstri. Áhersla skal lögð á samkeppni og jafnræði.

 

  1. Ábyrgð á kaupum á vörum og þjónustu er á hendi forstöðumanns, en hann sér jafnframt um að samningar séu gerðir í samræmi við rekstrar- og fjárhagsáætlun stjórnar.

 

  1. Þegar stjórn Framsýnar ákveður skal kaup á vörum og þjónustu fara fram með því að leitað sé tilboða frá fleiri en einum aðila eða gerð verðkönnun og að samið sé við bjóðendur á grundvelli hagkvæmni og gæða. Undantekning frá þessu er þegar um er að ræða einstök kaup, minni háttar samninga, samninga með takmarkaðan gildistíma, kaup á vörum eða þjónustu sem þola ekki bið eða aðrar ríkar ástæður eru til staðar.

 

  1. Telji forstöðumaður það hagkvæmt getur hann ákveðið að framlengja, gera viðauka eða endurnýja einstaka samninga um kaup á vörum eða þjónustu.

 

  1. Mál er varða innkaup á vöru eða þjónustu að undangengnum tilboðum eða verðkönnunum skulu vera rekjanleg eins og kostur er þannig að ef stjórn Framsýnar ákveður að skoða einstök viðskipti skal forstöðumaður leggja fram nauðsynleg gögn yfir ferli viðkomandi tilboða eða verðkannana.

 

  1. Samningar um kaup á vörum eða þjónustu skulu vera skriflegir og undirritaðir af forstöðumanni. Forstöðumaður getur þó gefið einstökum starfsmönnum umboð til að undirrita minni háttar samninga. Ef um er að ræða mjög stóra samninga eða samninga sem eru stefnumarkandi fyrir Framsýn skulu þeir einnig vera samþykktir af stjórn.

 

  1. Starfsmenn Framsýnar eða einstakir stjórnarmenn mega ekki eiga aðild að ákvörðunum um kaup eða tilboð á vörum og þjónustu er varða aðila sem þeim eru náskyldir eða hagsmunatengdir nema um sé að ræða minni háttar kaup, sbr. 2. málsl. 4. gr.

 

  1. Framsýn kaupir einungis vöru og þjónustu frá aðilum sem virða kjarasamninga og réttindi starfsmanna sinna og stéttarfélaga.

Jóla- og áramóta úthlutun íbúða

Félagsmenn stéttarfélaganna sem hafa áhuga á að dvelja í íbúðum á vegum félaganna á Akureyri, Reykjavík og í Kópavogi um jól og áramót eru beðnir um að skila inn umsóknum fyrir 1. nóvember. Í kjölfarið verður íbúðunum úthlutað til umsækjenda. Um er að ræða tímabilið frá 22. desember til 3 janúar. Nánari upplýsingar gefur Linda á Skrifstofu stéttarfélaganna, linda@framsyn.is. Sími 464-6600.

Leitað til formanns Framsýnar  

Fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum af þingi Alþýðusambands Íslands sem fram fór í vikunni. Því miður hefur umfjöllunin aðalega snúið að átökum innan hreyfingarinnar um menn og málefni. Eins og kunnugt er gengu fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Grindavíkur af þinginu eftir að formenn þessara félaga drögu til baka framboð sín til embætta innan sambandsins eftir hatursorðræðu í þeirra garð og ásakanir um ofbeldi, einelti og valdasýki frá öðrum forystumönnum sem eiga ekki við rök að styðjast. Það er frá aðilum sem haldið hafa um völdin innan Alþýðusambandsins. Kallað hefur verið eftir breytingum á forystusveit sambandsins. Því miður tókst ekki að klára verkefni þingsins og kjósa í embætti s.s. forseta sambandsins og fulltrúa í miðstjórn fyrir næsta kjörtímabil vegna útgöngu þessara félaga. Þinginu var því frestað fram á næsta ár, óvíst er hvenær það verður haldið en það er í höndum miðstjórnar að ákveða það. Í ljósi aðstæðna, eftir að fjórmenningarnir drögu framboð sín til baka, komu nokkrir þingfulltrúar að máli við formann Framsýnar og báðu hann um að gefa kost á sér sem forseti ASÍ. Auk þess sem mörgum var greinilega brugðið við fréttirnar sem upplifðu umræðuna á þinginu í gegnum fjölmiðla, sé tekið mið af öllum þeim skilaboðum sem formanni Framsýnar barst frá almenningi þar sem skorað var á hann að stiga fram og gefa kost á sér sem forseti sambandsins. Fyrir liggur að hann hefur ekki verið að sækjast eftir því að verða forseti Alþýðusambands Íslands.

Starfsemi stéttarfélaga til umræðu

Framhaldsskólinn á Laugum leitaði til Framsýnar með fyrirlestur um tilgang stéttarfélaga, staðgreiðslu skatta og lífeyrismál. Formaður félagsins fór á staðinn í morgun og messaði yfir áhugasmömum nemendum sem stunda nám við þennan frábæra skóla. Nemendur skólans sem koma víða að, enda heimavistarskóli, voru mjög áhugasamir um málefni fundarins en tæplega 40 nemendur hlustuðu á fyrirlesturinn. Eins og áður hefur komið fram eru stéttarfélögin ávalt tilbúin að koma með fræðslu inn í skóla á félagssvæðinu. Eitt símtal og við komum í heimsókn.

Bauð formanni Framsýnar í Stjórnarráðið  

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fór 45. þing Alþýðusambands Íslands fram í vikunni á Hótel Nordica. Meðan á þinginu stóð bauð Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra formanni Framsýnar stéttarfélags, Aðalsteini Árna, í heimsókn í Stjórnarráðið. Ekki þarf að koma á óvart að kjaramál, velferðarmál og málefni Alþýðusambands Íslands voru m.a. til umræðu á fundinum. Forsætisráðherra leggur mikið upp úr góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna ekki síst núna þegar kjarasamningar eru lausir um næstu mánaðamót á almenna vinnumarkaðinum.

Sjómenn samningslausir árum saman

Meðfylgjandi þessari frétt er yfirlýsing frá formannafundi Sjómannasambands Íslands um kjaramál sem haldinn var í Vestmannaeyjum um helgina.  Á fundinum var rætt um kjaramál sjómanna og stöðu viðræðnanna við SFS um endurnýjun kjarasamningsins sem hefur verið laus frá 1. desember 2019. Viðræðurnar hafa ekki skilað árangri fram til þessa og því var meðfylgjandi yfirlýsing samþykkt á formannafundinum.

 “Yfirlýsing. Fundur formanna aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, haldinn í Vestmannaeyjum 7. og 8. október 2022, ítrekar kröfugerð sína á hendur útgerðarmönnum í yfirstandandi kjaraviðræðum. Krafa aðildarfélaganna er skýr um að sjómenn fái inn í kjarasamning sinn ákvæði um að útgerðin greiði 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði sjómanna með sama hætti og launafólk á almenna vinnumarkaðnum hefur þegar samið um við atvinnurekendur. Jafnframt fái sjómenn sömu hækkanir á kauptryggingu sjómanna og aðra kaupliði og samið var um á almenna vinnumarkaðnum árið 2019. Fundurinn felur formanni Sjómannasambandsins að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarmönnum, í samráði við aðildarfélögin, til að knýja á um lausn kjaradeilunnar milli sjómanna og útgerðarmanna. Vestmannaeyjum 8. október 2022.”

Bjarkey Olsen leit við í dag

Kjördæmadagar hafa staðið yfir síðustu daga, það er frá 3.– 6. október og því hafa engir þingfundir verið á Alþingi þessa vikuna. Kjördæmadagana nýta þingmenn til að fara út í kjördæmi sín og hitta kjósendur, sveitarstjórnafólk, fulltrúa fyrirtækja og fleiri. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG í Norðausturkjördæmi og formaður Fjárlaganefndar leit við hjá formanni Framsýnar í dag. Það er alltaf ánægjulegt þegar þingmenn sína málefnum kjördæmisins áhuga og koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem er til staðar víðtæk þekking á málefnum svæðisins sem tilheyrir félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Yfir volgum kaffibolla var farið yfir málefni svæðisins, þing ASÍ í næstu viku og komandi kjaraviðræður í vetur. Þá kom formaður Framsýnar mikilvægum málefnum á framfæri við þingmanninn s.s. hvað varðar vegamál í Bárðardal, flugvallarmál og atvinnumál. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram að fundurinn var vinsamlegur í alla staði.

Því miður hafa aðrir þingmenn kjördæmisins ekki séð ástæðu til að koma við og fræðast um stöðuna á svæðinu, vonandi finna þeir sér tíma til þess í næstu kjördæmaviku eftir áramótin.