HMS og Norðurþing hafa samþykkt umsókn Bjargs íbúðafélags um stofnframlag vegna byggingu íbúða á Húsavík sem er afar ánægjulegt. Lóðinni Lyngholti 42-52 hefur verið úthlutað til verkefnisins og er þar gert ráð fyrir sex íbúðum samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Bjarg mun á næstu vikum óska eftir samstarfsaðilum vegna uppbyggingarinnar.
Bjarg er húsnæðissjálfseignastofnun rekin án hagnaðarmarkmiða. Félagið var stofnað í september 2016 af Alþýðusamband Íslands og BRSB og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Félagið hefur byggt rúmlega 1000 íbúðir á sl. 5 árum. Flestar íbúðirnar eru á höfuðborgarsvæðinu.
Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur eiga aðild að Bjargi í gegnum ASÍ og BSRB. Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg kæmi að því að byggja upp húsnæði á Húsavík fyrir tekjulágar fjölskyldur. Þess vegna ekki síst ber að fagna samstarfi aðila, HMS, Norðurþings, stéttarfélaganna og Bjargs að nú sé í burðarliðnum að byggja sex íbúða raðhús á Húsavík á komandi mánuðum.
Vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við sex íbúða raðhús á vegum Bjargs á næstu mánuðum. Lóðin er klár í Lyngholti 42 – 52.
Związki zawodowe Framsýn przesyłają wszystkim mieszkańcom Grindariku najszczersze pozdrowienia w tym trudnym okresie, w tej nieprzewidywalnej sytuacji związanej z trzęsieniami ziemi i przewidywalnym wybuchem wulkanu w rejonie Reykjanes. My, tak jak inni mieszkańcy Islandii, myślami jesteśmy z Wami.
Nasze związki przekazują serdeczne podziękowania dla wszystkich, którzy biorą udział w monitorowaniu sytuacji i w akcjach ratunkowych, życzymy Wam powodzenia w dalszych działaniach.
Mamy nadzieję, że trzęsienia ziemi i erupcje nie wniosą większych strat w codziennym życiu mieszkańców Grindaviku i że sytuacja jak najszybciej wróci do normy.
List ten został zatwierdzony na zebraniu związkowym dnia 15-go listopada.
Tveggja daga þing Sjómannasambands Íslands fór fram í Reykjavík í síðustu viku. Framsýn átti tvo fulltrúa á þinginu, þá Jakob Gunnar Hjaltalín og Börk Kjartansson. Að venju voru fjölmörg mál á dagskrá þingsins og þingið taldi fulla ástæðu til að senda frá sér fjölmargar ályktanir sem eru meðfylgjandi þessari frétt.
33. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands.
Í því sambandi má minna á bráðabirgðniðurstöðu 25. Auðlindarinnar okkar, um rafræna skráningu á rekjanleika afla í allri virðiskeðjunni, frá veiðum til neytenda. Með því móti er hægt að treysta því mun betur að mælingar á breytingum afurðaverðs séu réttar á hverjum tíma.
33. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða. Það er svívirða að Alþingi skyldi sjómenn til að inna af hendi vinnu við frágang á aflanum en heimili síðan útgerðinni að skerða laun sjómanna um 80% af því sem segir í kjarasamningi að greiða eigi fyrir þá vinnu. VS afla var ætlað að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Þingið telur að reglur um VS afla hafi ekkert með brottkast að gera, heldur noti útgerðir heimildir til að landa VS afla í öðrum tilgangi en að koma í veg fyrir brottkast. Þingið krefst þess að sjómenn fái fullan hlut skv. kjarasamningi fyrir þá vinnu sem þeir leggja á sig við að ganga frá afla um borð í skipi.
33. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lágmarks hvíldartíma sjómanna. Einnig krefst þingið þess að mönnun fiskiskipa sé ætíð í samræmi við þá vinnu sem fram fer um borð. Með það að leiðarljósi ætti að skilgreina í sjómannalögum hve marga menn í áhöfn þarf til að sinna þeirri vinnu sem fram fer um borð.
33. þing Sjómannasambands Íslands skorar á íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn og samtök þeirra. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri og ár. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir aðilar komi með reisn frá þeim samskiptum. Jafnframt minnir þingið útgerðarmenn á að fara að kjarasamningum varðandi upplýsingar sem eiga að fylgja uppgjörum um stærðarflokkun og verðmæti þess afla sem landað er þannig að sjómenn geti sannreynt að rétt sé gert upp við þá.
33. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin. Einnig krefst þingið þess að vigtunarreglur uppsjávarfisks verði samræmdar.
33. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntasjóð eins og aðrir atvinnurekendur. Það er skömm frá að segja að útgerðin í landinu greiði ekki til endurmenntunar sjómanna sinna, heldur er gjaldið greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
33. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland.
33. þing Sjómannasambands Íslandshvetur til varkárni þegar rafrænt eftirlit er stundað um borð í skipum. Augljóslega er rafrænt eftirlit til bóta þegar öryggi skipverja og skips á í hlut. Skilja verður algerlega milli vinnu og friðhelgi einkalífs skipverja. Skipið er bæði vinnustaður og heimili sjómannsins. Þingið er sammála því að aukið rafrænt eftirlit verði haft með brottkasti og löndun úr íslenskum skipum til að koma í veg fyrir löndun fram hjá vigt. Þingið fer fram á að útgerðarmenn fari að persónuverndarlögum í þessum efnum.
33. þing Sjómannasambands Íslands ætlast til þess að samtök útgerðarmanna ásamt sjómönnum skoði fjarskiptamál sjómanna með það að markmiði að lækka kostnað þeirra vegna fjarskipta þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annara
landsmanna. Kostnaðurinn í dag er almennt alltof hár.
33. þing Sjómannasambands Íslands varar mjög sterklega við því að sjómenn láti hafa sig í að taka að sér gerviverktöku til sjós. Enda er það kolólöglegt og vinna til sjós er ekki verktakavinna.
33. þing Sjómannasambands Íslands skorar á aðildarfélög SSÍ að hefja nú þegar undirbúning aðgerða til að knýja á um lausn í kjaradeilunni milli SSÍ og SFS náist ekki kjarasamningar fljótlega.
33. þing Sjómannasambands Íslands hafnar frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi til breytinga á ýmsum lögum sem banna hvalveiðar. Sjómannasamband Íslands styður eindregið sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda sem og annara auðlinda. Sjálfbærni auðlinda er meginþáttur í velmegun okkar sem þjóðar til langframa. Hvalveiðar eru þar síst undantekning. Veiðarnar byggja á vísindalegri ráðgjöf og að lögum um velferð dýra sé framfylgt.
Hvalveiðar okkar eru einungis stundaðar úr stórum stofnum sem eru í mjög góðu ástandi. Eins er lítið vitað um afrán hvalastofna úr öðrum nytjastofnum almennt, s.s. loðnu, sem leiðir til að rannsaka þarf orsakasamhengið þar á milli mun betur m.a. með veiðum og rannsóknum á hvölum. Þess vegna telur Sjómannasamband Íslands að hvalveiðar séu nauðsynlegar fyrir utan að skapa hér vel launaða atvinnu til sjós og lands. Sjómannasamband Íslands telur mjög mikilvægt að hugað sé að jafnvægi lífríkisins þegar ákvörðun um nýtingu stofna við Íslandsstrendur eru teknar.
33. þing Sjómannasambands Íslands tekur heilshugar undir með þeim sem krefjast afnáms húsnæðisliðar úr útreikningi vísitölu neysluverðs. Vaxtakostnaður heimilanna er orðinn alltof þungur. Sjómenn reka líka heimili eins og aðrir landsmenn.
33. þing Sjómannasambands Íslands tekur heilshugar undir ályktun 9. Þings SGS um að fá óháða aðila til að skoða kosti og galla íslensku krónunnar sem og kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil. Í því ljósi má minna á að stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins gera upp í erlendum gjaldmiðlum. Starfsfólk þessara fyrirtækja ætti því alveg eins að fá laun sín greidd í þeim gjaldmiðli sem viðkomandi fyrirtæki selur sínar afurðir á.
33. þing SSÍ tekur undir að að skoðað verði hvort hagkvæmt sé að Landsbanki Íslands verði samfélagsbanki, launafólki til heilla.
33. þing Sjómannasambands Íslands skorar á stjórnvöld að fylgja eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu með því að bæta þegar í stað aðgengi ALLRA þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggja þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Því samhliða verði greiðsluþáttökukerfið er varðar vinnutap, ferða- og dvalarkostnað sjúklinga endurskoðað í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma.
33. þing SSÍ minnir stjórnvöld á að sjómenn nýta heilbrigðis- og aðra opinbera þjónustu minna en aðrir landsmenn vegna fjarveru sinnar til sjós. Stjórnvöld verða að taka það inn í myndina þegar skattar eru ákveðnir á þegnana. Með þessum rökum krefst þingið þess að stjórnvöld taki upp viðræður við sjómannasamtökin um skattaafslátt til handa sjómönnum.
33. þing Sjómannasambands Íslands tekur undir áherslur 9. þings SGS um lífeyrrismál.
• Lífeyristökualdur erfiðisvinnustétta frá TR miðist áfram við 67 ára aldur.
• Ríkið dragi úr skerðingum á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfinu, fyrsta skref sé lækkun úr 45% í 30% skerðingu.
• Frítekjumark almannatrygginga vegna lífeyristekna verði með sama hætti og vegna atvinnutekna.
• Ríkið jafni að fullu örorkubyrði sjóðanna.
• Lífeyrissjóðir beiti sér gegn óraunhæfum starfskjörum og hvers konar ofurlaunum.
• Lífeyrissjóðir séu virkir eigendur í fyrirtækjum.
• Lífeyrissjóðir leggi meiri þunga í að koma réttindum fólks er flyst erlendis til skila.
33. þing SSÍ krefst þess að útgerðin greiði laun fyrir þegar sjómenn ferðast á milli staða í þágu útgerðar.
33. þing SSÍ fer fram á að sjómenn hætti yfirísun þegar afli fer erlendis í gámum, að því gefnu að fiskurinn sé seldur áður en hann kemur á áfangastað. Enda er það ekki markmið núverandi kjarasamnings að ísað sé yfir afla sem fer ekki á uppboðsmarkað erlendis.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur til fundar miðvikudaginn 14. nóvember. Að venju eru mörg og mikilvæg mál til umræðu á fundinum. Stjórn Framsýnar-ung er einnig boðið að sitja fundinn.
Stjórn Lsj. Stapa og lykilstarfsfólk hafa síðustu tvo daga setið stefnumótunarfund á Húsavík. Þau litu við á Skrifstofu stéttarfélaganna á fimmtudaginn og fengu smá kynningu á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hér er hópurinn ásamt formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna, sem fór yfir fjölbreyta starfsemi félaganna auk þess að sína þeim húsnæði aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna.
Björn Snæbjörnsson fyrrverandi formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands kom við á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík fyrir helgina. Björn lét af formennsku hjá Einingu-Iðju í apríl 2023 eftir að hafa gegnt formennsku í félaginu í 31 ár, en í heildina hefur Björn starfað í yfir 40 ár fyrir félagið. Björn hefur verið virkur í starfi Starfsgreinasambands Íslands frá upphafi og lét af störfum sem formaður sambandsins á þingi þess 2021 eftir að hafa gegnt því embætti frá árinu 2012 og þar á undan sem varaformaður.
Í gegnum tíðina hefur Björn auk þess starfað mjög náið með forsvarsmönnum Framsýnar enda liggja félagssvæði félaganna saman. Þá hafa félögin verið mjög áberandi í verkalýðsbaráttunni á Íslandi til fjölda ára. Þar sem Björn hefur nú stigið til hliðar eftir áratuga þjónustu við verkafólk þótti við hæfi að Framsýn færði honum smá gjöf í tilefni þessara tímamóta. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, færði Birni gjöfina og húfu frá Framsýn sem hann á örugglega eftir að bera á köldum vetrardögum.
Forsvarsmenn og starfsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa verið á ferðinni um landið síðustu vikurnar. Tilgangurinn hefur verið að funda með heimamönnum um komandi kjaraviðræður og stöðuna almennt í þjóðfélaginu. Á vef sambandsins kemur fram að opnu vinnufundirnir hafi verið vel sóttir og mikill samhljómur verið meðal gesta um þær áskoranir sem framundan eru og leiðirnar fram á við. Einhugur sé um að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja til langs tíma og innan svigrúms með það að markmiði að verja kaupmátt. Þá telji fólk almennt mikilvægt að hið opinbera leiði ekki launaþróun eða setji atvinnulífinu of þröngar skorður með íþyngjandi regluverki. Enn fremur hafa þátttakendur á fundunum sem flestir koma úr atvinnulífinu talið mikilvægt að almenningur og einstakir atvinnurekendur stuðli að upplýstri umræðu um samhengi launabreytinga og verðbólgu og að fræðsla um kaup, kjör og réttindi launafólks verði aukin. Í dag var komið að því að halda vinnufund á Akureyri sem var vel sóttur.
Formanni Framsýnar var boðið að taka þátt í fundinum sem og hann gerði ásamt Aðalsteini J. Halldórssyni starfsmanni stéttarfélaganna. Að þeirra sögn var fundurinn mjög áhugaverður og gott innlegg inn kjaraviðræðurnar sem eru framundan enda kjarasamningarnir á almenna vinnumarkaðinum lausir í lok janúar 2024.
Ef eitthvað er að marka þessa mynd sem er af talsmönnum SA og Framsýnar, þeim Eyjólfi Árna formanni og Sigríði Margréti framkvæmdastjóra auk Aðalsteins Árna formanni Framsýnar eiga kjaraviðræðurnar eftir að ganga vel í vetur. Hér eru þau fyrir framan lágmyndina sem nefnist; „Samvinna til sjávar og sveita“ og táknar samvinnu alþýðumanna.
„9. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Reykjavík 25.-27. október 2023, lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að grunnlífeyrir frá TR verði sambærilegur lægsta taxta SGS. Enn fremur lýsir SGS yfir fullum stuðningi við þá kröfu að frítekjumark vegna lífeyristekna verði hækkað verulega en frítekjumarkið hefur verið óbreytt í sex ár. Þing SGS skorar á heildarsamtök launafólks að standa þétt við bakið á sínum gömlu félagsmönnum í þeirra baráttu og að þeirra málefni verði á dagskrá í komandi kjarasamningaviðræðum við ríkisvaldið.“
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fordæmir þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að sitja hjá í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í Ísrael og Palestínu. Með þessari ákvörðun hafa þau stillt Íslandi upp með þeim ríkjum sem heimila ísraelskum stjórnvöldum að hafa alþjóðalög að engu í hernaðaraðgerðum sínum, stunda þjóðernishreinsanir, drepa almenna borgara, hrekja þá frá heimilum sínum og svipta þá lífsnauðsynjum. Ákvörðunin samræmist ekki stefnu Íslands um að viðurkenna og virða sjálfstæði Palestínu.
Miðstjórn tekur undir með ályktunum alþjóða verkalýðssambandsins (ITUC) frá 9. og 20. október sl. þar sem kallað er eftir tafarlausu vopnahléi og fordæmir hryðjuverk Hamas-samtakanna gegn almennum borgurum og hefndaraðgerðir Ísraela sem hafa leitt til fjöldamorða og flokkast undir stríðsglæpi. Sprengjuárásir Ísraelshers á Gaza hafa nú staðið linnulaust í tæpar fjórar vikur. Í skugga þeirra hafa Ísraelar auk þess veitt landtökumönnum, sem eru studdir af her og lögreglu, leyfi til að hrekja Palestínumenn af landi sínu og heimilum á Vesturbakkanum. Hér fer fram fullvalda ríki með einn öflugasta her heims gegn íbúum lands sem hefur búið við hernám þess sama ríkis í áratugi. Hjálparsamtök eiga í miklum erfiðleikum með að koma nauðsynjavörum til fólks og alvarlegur skortur er á vatni, mat og lyfjum. Almennir borgarar geta ekkert farið og yfir þrjú þúsund og fimm hundruð börn hafa látið lífið í átökunum.
Vopnahlé er eina leiðin til þess að bregðast við þessu ástandi – og það er skylda ríkja heims að þvinga Ísrael að samningaborðinu áður en það er um seinan. Þess í stað hafa sum valdamestu ríki heims réttlætt aðgerðir Ísraela undir þeim formerkjum að þeir eigi rétt á því að verja sig. En sá réttur veitir engum leyfi til að brjóta alþjóðalög og skeyta engu um mannfall almennra borgara. Með afstöðuleysi sínu hafa íslensk stjórnvöld veitt ofbeldisverkum blessun sína. Svonefnt „mannúðarhlé“ sem stjórnvöld hafa gert að lykilatriði í málflutningi sínum er pólitískt fegrunaryrði sem er til þess eins fallið að gera skammvinnt hlé á hernaðaraðgerðum í þeim tilgangi að koma nauðsynjum til fólks. Með því er ekki verið að krefjast vopnahlés og að árásum á almenna borgara linni.
Með viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu skipaði Ísland sér í hóp þeirra ríkja sem vilja vekja athygli á því óréttlæti sem íbúar Palestínu hafa mátt búa við í meira en hálfa öld: hernámi Ísraela, daglegu ofbeldi, skertu ferðafrelsi og aðskilnaðarstefnu. ASÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld fylgi eigin stefnu og beiti sér af fullum þunga fyrir tafarlausu vopnahléi og endalokum hernáms Ísraels í Palestínu.“
Kristján Ingi Jónsson hefur látið af störfum hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum og var síðasti starfsdagur hans í dag. Í hans stað hefur verið ráðinn, Aðalsteinn J. Halldórsson. Um leið og við þökkum Kristjáni Inga fyrir frábær störf í þágu stéttarfélaganna er Aðalsteinn J. Halldórsson boðinn velkomin til starfa.
Níunda þingi Starfsgreinasambands Íslands lauk fyrir síðustu helgi en það var haldið í Reykjavík. Framsýn átti rétt á 8 fulltrúum sem stóðu sig afar vel og tóku virkan þátt í þeim málefnahópum sem voru starandi á þinginu. Samþykktar voru sex ályktanir; um kjaramál, byggðamál, heilbrigðismál, húsnæðismál og lífeyrismál. Jafnframt samþykkti þingið ályktun um stuðning við eldri borgara og öryrkja. Þá var starfsáætlun til tveggja ára samþykkt sem og breytingar á lögum og þingsköpum sambandsins. Allar ályktanir og afgreidd mál þingsins má nálgast á þingvef SGS.
Vilhjálmur Birgisson (Verkalýðsfélagi Akraness) og Signý Jóhannesdóttir (Stéttarfélagi Vesturlands) voru í framboði til formanns SGS. Niðurstaða kosningar var á þá leið að Vilhjálmur Birgisson hlaut 81,1% atkvæða og Signý Jóhannesdóttir hlaut 18,9% atkvæða. Vilhjálmur var því endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára. Guðbjörg Kristmundsdóttir (VSFK) var ein í framboði til varaformanns og var því sjálfkjörin. Sjö voru í framboði sem aðalmenn í framkvæmdastjórn og voru þeir sjálfkjörnir. Eftirtaldir munu sitja sem aðalmenn í framkvæmdastjórn sambandsins til næstu tveggja ára:
Sem varamenn í framkvæmdarstjórn voru kosnir eftirtaldir: Guðný Óskarsdóttir Drífandi stéttarfélag Tryggvi Jóhannsson Eining-Iðja Birkir Snær Guðjónsson AFL Starfsgreinafélag Alma Pálmadóttir Verkalýðsfélagið Hlíf Silja Eyrún Steingrímsdóttir Stéttarfélag Vesturlands
Umræður um kjaramál voru áberandi á þinginu enda annasamur kjarasamningavetur framundan. Greina mátti mikinn baráttuanda meðal þingfulltrúa og ljóst að Starfsgreinasambandið fer sameinað og tilbúið í komandi viðræður. Þess má geta að SGS fer með umboð allra 18 aðildarfélaga sinna í viðræðunum um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
Félagarnir náðu kjöri á þingi SGS, sem lauk fyrir helgina, Vilhjálmur sem formaður og Aðalsteinn í framkvæmdastjórn sambandsins.
Húsavíkurstofa hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að kynna og efla sölu Húsavíkurgjafabréfa. Á síðasta ári gekk sala bréfanna með ágætum en verslun í heimabyggð skiptir gríðarlega miklu máli fyrir alla hagaðila. Nýting bréfanna er góð og ánægjulegt að fleiri og fjölbreyttari verslunar- og þjónustuaðilar hafa verið að leysa til sín bréfin. Vegna þessa og óformlegra rannsókna og umtals í samfélaginu má ætla að ánægja sé með bréfin í samfélaginu. Húsavíkurstofa stefnir ótrauð áfram áformum sínum og áætlar að halda þessari góðu þróun áfram.
Um leið og Húsavíkurstofa minnir á Húsavíkurgjafabréfin nú í aðdraganda aðal sölutíð bréfanna vill hún færa samfélaginu þakkir fyrir þeirra hlut í velgengni þeirra. Við hvetjum fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök sem og einstaklinga til að nýta sér Húsavíkurgjafabréfin til gjafa og styðja þannig við verslun og þjónustu í heimabyggð.
Eins og áður í góðu samstarfi við Sparisjóð S-Þingeyinga er hægt að kaupa bréfin í bankaútibúi sparisjóðsins á Húsavík.
Hermína Hreiðarsdóttir formaður Starfsmannafélags Húsavíkur var meðal þeirra sem kom fram á samstöðfundinum í dag. Hún flutti þrjú ljóð eftir Karitas Mörtudóttur Bjarkadóttur sem voru flutt á Arnarhóli 24. október 2018. Höfundur gaf leyfi fyrir því að þau yrðu flutt á samkomunni á Húsavík í dag. Hermína bað fólk um taka tillit til þess að tölulegar upplýsingar sem fram kæmu í ljóðinu væru ekki endilega réttar miðað við daginn í dag.
EKKI OF
ekki nóg. ekki nógu dugleg ekki nógu hávær ekki nógu ákveðin ekki nógu, þú.
allt of mikið allt of starfsdrifinn allt of hávær allt of ákveðin allt of mikið, ég.
þegar ég reyni að vera nóg, er ég of mikið. tek of mikið frá þér, plássið þitt, frelsi þitt til að kyngera mig, rétt þinn til að brjóta á mínum, tilvist mín skerðir þína.
þegar ég reyni að vera ekki of mikið er ég ekki nóg. gef of mikið eftir, plássið mitt, frelsi mitt til að standa með sjálfri mér rétt minn til að eiga rétt tilvist mín skerðir mína.
TÓLF TIL TUTTUGUOGNÍU
samkvæmt nýjustu tölum verða laun kvenna ekki jöfn karla fyrr en árið tvöþúsundfjögurtíuogsjö.
samkvæmt nýjustu tölum mun heimurinn farast í hamförum ekki seinna en árið tvöþúsundogþrjátíu.
okkur hefur í alvörunni tekist að eyða heillri plánetu á styttri tíma en okkur hefur tekist að viðurkenna konur sem menn.
TÍMI TIL KOMINN
stundin er runnin upp. heyri ég í útvarpinu, sjónvarpinu, það bergmálar
stundin er runnin upp. heyrði mamma mín í útvarpinu, sjónvarpinu, nema á fimmtudögum, og það bergmálaði.
hún er runnin upp núna, þegar við rjúkum á arnarhól, krefjumst betri kjara og eyðingu ofbeldis.
hún var runnin upp árið 1975, þegar þær ruku á lækjartorg, kröfðust betri kjara, og enginn vissi um ofbeldið
Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti barátturæðu dagsins á samstöðufundi kvenna sem stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Hún er hér meðfylgjandi:
Verið öll hjartanlega velkomin.
Við erum hér til að hafa hátt. Við minnumst þess í dag að 24.október 1975, lögðu um 90% íslenskra kvenna niður störf þeim tilgangi að sýna fram á mikilvægi kvenna og krefjast réttinda og launa til jafns á við karla. Það voru verkakonur, verslunarkonur, húsmæður, konur úr öllum stéttum og flokkum, alls staðar af á landinu.
Við erum sömuleiðis komin hér í dag til þess að benda á þá staðreynd að 48 árum síðar, erum við enn að berjast fyrir sömu réttindum. Réttindum sem ættu að vera sjálfsögð og fest voru í lög árið 1961. Með lagasetningunni var stefnt að því að fullum launajöfnuði yrði náð árið 1967.
„Í augsýn er nú frelsið og fyrr það mátti vera“ sungu þær og kjörorð þeirra voru mörg: Konum leiðist þófið. Konan er að vakna. Áfram stelpur, slítum böndin.
Konurnar, sem tugþúsundum saman yfirgáfu vinnustaði sína voru ekki einungis að berjast fyrir hærri launum. Þær töluðu fyrir jafnrétti, framþróun, friði og vildu vera raunverulegir þátttakendur á öllum sviðum samfélagsins og hvöttu um leið stúlkur og konur til að standa saman og gera breytingar, ekki bara hér á landi, heldur um allan heim. Þær gerðu uppreisn og vildu breytingar á ríkjandi samfélagsgerð sem í grunninn var staðnað bændasamfélag með konuna sem þjónandi ambátt heimilisins.
Meðalatvinnutekjur íslenskra karla í dag eru um 21% hærri en kvenna og kvára og kannanir sýna að kynbundin launamunur innan fyrirtækja og stofnana er um 9%. Hversu oft fáum við ekki að heyra að þessi launamunur eigi sér eðlilegar skýringar þar sem karlar vinni alla jafna lengri vinnudag og meiri yfirvinnu. Við séum bara ekki nægilega dugleg við að bera okkur sjálf eftir launahækkunum og framgangi í starfi. Svona fullyrðingar standast ekki, því þegar talað er um kynbundin launamun er átt við þann mun sem er á launum kynjana sem ekki er hægt að útskýra með ólíkri menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu eða vaktaálagi. Launamunurinn verður ekki skýrður á annan hátt en þann að kyn ráði þeim mun. Kynbundinn launamunur í íslensku samfélagi er staðreynd og alvarlegt mein í samfélaginu sem ber að uppræta þegar í stað!
Kynbundin launamunur verður ekki til út af engu, hann á sér því miður skýringar og er ein skýrasta birtingarmynd þess að konur og kvár eru ekki metin til jafns við karla í samfélagi okkar. Launamunur er afsprengi þess gildismats sem við höfum verið alin upp við kynslóð eftir kynslóð og beinir okkur strax í bernsku inn á ákveðnar brautir. Hann segir okkur að það sem er kvenlægt sé minna virði en það sem er karllægt, sem aftur skilar sér í því að konur og þar með hefðbundnar kvennastéttir fá lægri laun en karlar. Það gildismat er árþúsunda gamalt. Það er engin tilviljun að fólk sem starfar við ræstingar, umönnun, menntun barna og þjónustu við sjúka og aldraða skipa láglauna hópa í samfélaginu.
Frá því um miðjan sjöunda áratuginn hafa karlavígin fallið eitt af öðru. Fleiri konur sækja orðið í hefðbundin karlastörf s.s. iðngreinar, tæknigreinar og stjórnendastöður og er það vel. Þær eru hvattar til að setja markið hátt og skilja hugtökin „kvennastétt” og „karlastétt” eftir í fortíðinni þar sem þau eiga heima.
Konur og kvár eru komnar í meirihluta þeirra sem sækja sér háskólamenntun og atvinnuþátttaka þeirra hér á landi hefur farið úr því að vera mjög lítil, upp í það að verða sú mesta innan OECD-ríkjanna, um 75% prósent árið 2021. Við getum sagt að það sé ein birtingarmynd byltingarinnar sem átt hefur sér stað á vinnumarkaði og í samfélaginu síðustu áratugi. Með framþróun og þekkingaröflun hafa störf sem konur unnu áður kauplaust, þróast yfir í háskólamenntaðar stéttir og líklega eru flestir sammála um að í dag viljum við byggja upp samfélag með góðri menntun og bestu fáanlegri þekkingu. En þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kynjanna sé svipuð — eru það enn konur sem bera langmesta ábyrgð á heimilishaldi og umönnun og taka þar með hina svokölluðu þriðju vakt. Vissulega má greina hugafarsbreytingu hjá ungum karlmönnum í dag sem taka nú virkari þátt í heimilsstörfum en áður þekktist. Baráttan okkar er greinilega að skila árangri sem er góðs viti.
Kæru konur og kvár. Við erum hingað komin til að hafa hátt. Við erum hingað komin til að láta vita af að við látum ekki bjóða okkur neitt minna en jafnt. Við erum hingað komin til að mótmæla launamun og kynbundnu ofbeldi. Við erum hingað komin til að vekja sérstaka athygli á vanmetnu framlagi aðflutts verkafólks sem sem kemur að því með okkur að halda uppi velferðarsamfélaginu og tekjuöflun þjóðarbúsins. Við erum hingað komin til að benda á að konur af erlendum uppruna eru um 22% allra kvenna á íslenskum vinnumarkaði og við eigum þeim mikið að þakka. Rödd þeirra er lágstemmd í samfélaginu og staða margra innan þeirra raða viðkvæm. Við erum hingað komin til að hafa hátt og það skulum við gera, eins lengi og þurfa þykir.
Yfirskrift Kvennaverkfalls í ár: „Kallarðu þetta jafnrétti?“ vísar til þeirra skilaboða sem konur og kynsegin fólk fær gjarnan, að vegna þess hve framarlega Ísland standi í jafnréttismálum á heimsvísu, eigi þau ekki heimtingu á tafarlausum og framsæknum aðgerðum. Því miður hefur orðið dapurlegt bakslag gagnvart réttindum kynsegin og hinsegin fólks að undanförnu, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Þau upplifa sig óörugg í samfélaginu og finnst sem þau standi frammi fyrir takmarkaðri forgangsröðun á borði stjórnvalda. Þau þurfa að fást við gölluð kerfi sem ekki gera ráð fyrir þeim og þau gagnrýna takmarkaðrar og ómarkvissrar stefnumótun ríkisvaldsins í málefnum kynsegin einstaklinga.
Kæru konur og kvár. Við erum fjölbreytt flóra. Samstaða er okkur mikilvæg á hvaða hátt sem sem við upplifum okkur, hvað sem við störfum og eða stöndum í flokkum. Störf okkar eru ekki bara mikilvæg gangverki samfélagsins heldur nauðsynleg. Án okkar virkar það einfaldlega ekki. Við sjáum best hvaða áhrif vera okkar hér í dag hefur á samfélag okkar. Við erum ekkert vara vinnuafl.
Samstaða okkar gegn kynjamisrétti hefur skilað okkur áleiðis til jafnréttis. Við höfum áorkað miklu sem hefur aukið lífsgæði okkar á svo mörgum sviðum. Ég nefni hér seinni tíma sigra sem þýddu stórar breytingar í jafnréttismálum hér á landi, eins og breytingar á hegningarlögum frá árinu 2018, þar sem nauðgun er skilgreind í lagalegu tilliti út frá samþykki, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, lög um þungunarrof frá 2019, sem þýddu aukin völd kvenna yfir eigin líkama að ótalinni #MeToo byltingunni, þar sem hrikti rækilega í stoðum þeim sem svo margir ofbeldismenn hafa treyst á – þ.e. þöggun kynferðisbrota. Sögur brotaþola opnuðu glugga sem áður voru rammlega luktir aftur með þögninni og þær vörpuðu ljósi á eðli ofbeldis, áreitni og viðvarandi mismunun. #My Too breytti, vonandi til framtíðar, vitund fólks og samfélagsgerðinni allri.
Það er óumdeilanlegt að við höfum sótt fram á mörgum sviðum, en því miður er það engin trygging fyrir jöfnum tækifærum kynja framtíðarinnar. Sagan hefur sýnt okkur að ekkert gerist án baráttu og jafnrétti skapast ekki upp úr þurru. Ekki af því okkur langar heldur af því við þorum, getum og viljum berjast fyrir því. Við skulum því ekki bíða með að breyta því sem hægt er að breyta strax og tölum því áfram fyrir jafnrétti framþróun og friði sem ekki veitir af um þessar mundir. Það er ekki bara eðlilegt og sjálfsagt, heldur líka samfélagslega og efnahagslega ábyrgt.
Tæplega 300 konur voru samankomnar á samstöðufundi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem fram fór í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík í dag, það er Framsýnar, STH og Þingiðnar.
Félögin stóðu einnig fyrir samstöðufundi á Raufarhöfn þar sem konur komu saman frá Raufarhöfn, Þórshöfn, Kópaskeri og úr nærliggjandi sveitum. Hátíðin sem fór vel fram, var haldin í Félagsheimilinu Hnitbjörgum. Nánar verður fjallað um fundinn á Raufarhöfn í sérstakri frétt síðar í dag.
Á samstöðufundinum á Húsavík voru fluttar ræður, ávörp, sungið, sagðar sögur og lesin ljóð. Þá var boðið upp á kaffi, kleinur og lagtertu. Ósk Helgadóttir var aðalræðumaður dagsins. Christin Irma Schröder flutti kröftugt ávarp sem og Rannveig Benediktsdóttir sem fór yfir mikilvægi dagsins. Þá flutti Hermína Hreiðarsdóttir táknrænt ljóð og Guðný I. Grímsdóttir lagði fundinum til smá sögu úr baráttunni. Meðfylgjandi myndir segja allt sem segja þarf um stemninguna í dag sem var meiriháttar enda fundarsalurinn og allt húsnæði stéttarfélaganna fullt af baráttuglöðum konum á öllum aldri auk þess sem setið og staðið var utanhúss enda fullt út úr dyrum.
Í tilefni af Kvennafrídeginum á morgun, þriðjudag, verður Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð eftir hádegi á morgun frá kl. 12:00 til 16:00. Starfsfólk stéttarfélaganna hvetur konur og kvár til að taka þátt í samstöðufundum dagsins.
Síðasta föstudag var haldin móttaka fyrir varaformann Framsýnar, Ósk Helgadóttir. Tilefnið var að sæma hana gullmerki Framsýnar sem er æðsta viðurkenning félagsins fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna og þar með samfélagsins alls í Þingeyjarsýslum. Ósk fagnar einnig um þessar mundir 60 ára afmæli. Stjórn Framsýnar var sammála um að veita varaformanni þessa æðstu viðurkenningu félagsins enda unnið hreint út sagt frábært starf í þágu félagsins til fjölda ára. Athöfnin fór fram í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 að viðstöddum stjórn félagsins, trúnaðarráði, stjórn Framsýnar-ung, formönnum STH og Þingiðnar auk starfsmanna stéttarfélaganna. Í tilefni dagsins var boðið upp á hátíðardagskrá auk þess sem formaður félagsins, Aðalsteinn Árni Baldursson, flutti ávarp þar sem hann þakkaði varaformanni sérstaklega fyrir framlag hennar í þágu félagsmanna um leið og hann óskaði henni til hamingju með að bætast í hóp þeirra forystumanna innan félagsins sem hefðu skarað fram úr í gegnum tíðina. Ávarpið er svohljóðandi:
Ávarp
„Stjórn Framsýnar stéttarfélags hefur samþykkt að sæma Ósk Helgadóttur gullmerki félagsins fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna og þar með samfélagsins alls í Þingeyjarsýslum.
Frá árinu 1996 hafa eftirtaldir félagsmenn hlotið þessa æðstu viðurkenningu fyrir störf þeirra í þágu Verkalýðsfélags Húsavíkur eða Framsýnar, stéttarfélags sem formenn eða varaformenn; Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson og Kristbjörg Sigurðardóttir.
Ósk Helgadóttir bættist nú í þennan merka hóp sem komið hefur að því að marka sporin fyrir framgöngu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum.
Samkvæmt 6-lið 10. greinar félagslaga Framsýnar er stjórn félagsins heimilt á hverjum tíma að velja heiðursfélaga og sæma þá gullmerki félagsins. Heiðursfélagi er sæmdarheiti sem er æðsta viðurkenning félagsins og þeim einum hlotnast er lagt hafa sérstaklega mikið af mörkum til eflingar félaginu, félagsmönnum til hagsbóta.
Það er alveg ljóst að Ósk er vel að því komin að vera heiðruð með þessum hætti. Hún hefur lengi komið að stjórnunarstörfum fyrir félagið, það er sem fulltrúi í trúnaðarráði og trúnaðarmaður starfsmanna innan Framsýnar við Stórutjarnaskóla. Þá hefur hún verið varaformaður félagsins frá árinu 2014 auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Hvað það varðar má geta þess að hún var um tíma formaður Alþýðusambands Norðurlands.
Ósk hefur notið mikillar virðingar fyrir störf sín í þágu Framsýnar og alltaf verið reiðubúin að vinna þá vinnu sem þurft hefur að skila í þágu félagsmanna á hverjum tíma. Það er nánast á öllum tímum sólarhringsins. Svo virðist sem fleiri klukkutímar séu í hennar sólarhring en hjá öðru venjulegu fólki.
Eftirfarandi málsgrein er að finna í blaðinu Verkamanninum frá árinu 1961 þegar málefni Verkamannafélags Húsavíkur voru til umfjöllunar, nú Framsýnar stéttarfélags: „Félagið hefur jafnan haft á að skipa hæfum og góðum mönnum til forystustarfa. Þeir hafa borið merki félagsins hátt en þó með gætni og því hefur vel farið.“ Tilvitnun lýkur.
Að mínu mati á innihald þessarar setningar ekki síður við í dag þegar vikið er að störfum okkar ágæta varaformanns í þágu Framsýnar stéttarfélags. Starf stéttarfélaga hefur breyst verulega í gegnum áratugina. Rauði þráðurinn er þó sá sami og stofnað var til í upphafi, það er velferð félagsmanna.
Í dag stöndum við ekki og bræðum mör til að selja félagsmönnum á hagstæðu verði eins og stjórnarmenn í Verkamannafélagi Húsavíkur gerðu árið 1915. Þá keypti félagið mör fyrir 200 krónur, bræddi hann og seldi félagsmönnum tólg. Félagið útvegaði félagsmönnum einnig hey, skóleður, kartöflur, kol, smjörlíki og niðursoðna mjólk svo eitthvað sé nefnt. Á þessum árum réðst Verkamannafélagið einnig í svarðartekju og skógarhögg í þágu félagsmanna þegar erfiðast var um eldivið.
Í dag erum við ekki að takast á við verkefni sem þessi. Verkefnin eru til staðar en í öðru formi. Með árunum höfum við byggt upp öflugt starf sem byggir á sterkri liðsheild félagsmanna, aðgengi þeirra að sterkum sjóðum í veikindum, orlofsíbúðum, starfsmenntasjóðum, verðlagseftirliti, vinnustaðaeftirliti, samningagerð og almennri þjónustu s.s. fræðslu og lögfræðiþjónustu.
Kjarabótina má sækja víðar eins og dæmin sanna. Hvað það varðar er vel við hæfi að nefna aðgengi félagsmanna að sérstökum afsláttarkjörum á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Í dag seljum við ekki tólg, við seljum flugkóða.
Ósk Helgadóttir hefur komið að því með öflugu fólki innan Framsýnar að móta félagið til framtíðar. Þá hefur henni ekki síður verið umhugað um félagsmenn sem hverfa af vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Hvað það varðar, hafði hún frumkvæði að því að Framsýn héldi starfslokanámskeið síðasta vetur sem tókust afar vel og mikill sómi er af. Þá er hún um þessar mundir að skipuleggja samkomu á Húsavík vegna kvennafrídagsins 24. október sem var fyrst haldinn árið 1975 þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra fyrir samfélagið. Sem sagt, Ósk stendur ávallt vaktina með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi hvort heldur þeir eru á vinnumarkaði eða við það að setjast í helgan steinn.
Þetta er ein af ástæðum þess að Framsýn stéttarfélag er eitt öflugasta stéttarfélag landsins, það er þegar einstaklingar eins og Ósk leggja allt sitt af mörkum til að berjast fyrir jöfnuði, félagshyggju og réttlátara þjóðfélagi í þágu allra, ekki bara fárra útvaldara.
Ósk Helgadóttir hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt í þágu félagsmanna Framsýnar stéttarfélags. Vonandi fá fáum við að njóta þinna krafta um ókomna tíð þeim og félaginu til heilla. Takk fyrir allt.“
Sigurveig, Guðný og Jakob hafa lengi starfað með Ósk. Hér eru þau með henni þegar hún tók við gullmerki félagsins og blómvendi í tilefni dagsins. Ósk fékk einnig afmælisgjafir frá samstarfsfólkinu innan aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar talaði til Óskar líkt og nokkrir aðrir og þakkaði henni fyrir samstarfið í gegnum tíðina sem hefði verið ánægjulegt í alla staði.Ósk Helgadóttir er einstök kona í alla staði. Framlag hennar til Framsýnar er ómetanlegt. Því er við hæfi að sæma hana æðsta heiðursmerki félagsins.Aðalsteinn Árni fór fögrum orðum um störf Óskar í þágu félagsins í gegnum tíðina. Svo virtist sem hún hefði fleiri tíma í hverjum sólarhring en annað venjulegt fólk. Lesa má ávarpið hér að ofan.
Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar boðaði til fundar í morgun á Akureyri um atvinnu- og samgöngumál. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var einn af þremur frummælendum á fundinum sem fór vel fram. Fullt var út úr dyrum. Eftir framsögurnar var boðið upp á pallborðsumræður. Góðar umræður sköpuðust um málefni fundarins. Hér má lesa ræðu formanns Framsýnar.
Ágætu jafnaðarmenn
Í nútímasamfélagi eins og Íslandi verða samskiptatækni og samgöngur sífellt mikilvægari hluti lífsgæða og má fullyrða að samgöngur og þeir þættir sem undir þær falla, vegamál, fjarskipti, ferða-, flug- og siglingamál snerti líf okkar allra á degi hverjum.
Þegar við bætist mikil verðmætasköpun í formi útflutningsafurða og skýlaus krafa um alþjóðlega samkeppnishæfni í menntun, atvinnutækifærum sem og almennum gæðum, verða samgöngur og samskipti að mikilvægum hornsteinum sem við þurfum að hlúa að til framtíðar.
Höfum í huga að:
Greiðar samgöngur eru atvinnumál
Greiðar samgöngur eru heilbrigðismál
Greiðar samgöngur eru byggðamál
Greiðar samgöngur eru jafnréttismál
Greiðar samgöngur eru kjaramál (Svo eitthvað sé nefnt)
Því þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar 2020 kom fram í öllum helstu skoðanakönnunum meðal kjósenda að tryggar samgöngur væru eitt mikilvægasta mál kosninganna.
Áherslur kjósenda voru eðlilega misjafnar eftir búsetu varðandi almenningssamgöngur, viðhaldi vega eða þróun samgöngukerfisins.
Meðan íbúar á landsbyggðinni kölluðu almennt eftir betra vegakerfi og góðum flugsamgöngum innanlands mæltu kjósendur á höfuðborgarsvæðinu fyrir greiðari samgöngum innan svæðisins s.s. með lagningu borgarlínu.
Almenningssamgöngur hafa verið og verða áfram mikilvæg stoð byggðar í landinu enda ætlað að tengja þær saman og auka aðgengi og jafnræði íbúa að þjónustu burt séð frá búsetu.
Til framtíðar er mikilvægt að þjónustan styrkist og þróist í takt við breyttar þarfir og nýti sér um leið þá möguleika sem tækninýjungar fela í sér.
Aukin notkun og hlutdeild almenningssamgangna er að auki umhverfisvæn og stuðlar að því að markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist.
Íslendingar geta ekki setið á varamannabekknum og látið sig lofslagsmál engu varða er tengist ekki síst samgöngumálum. Ég nefni sem dæmi, við eigum ekki að láta útgerðir skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísland komast upp með að fylla firði landsins með menguðum útblæstri og státa að því á sama tíma að Ísland sé eitt hreinasta land í heimi. Er ekki eitthvað bogið við svona framsetningu?
Ágætu fundarmenn!
Umræðan um samgöngumál og mikilvægi þeirra er ekki alltaf á háu plani. Það er t.d. afar þreytandi fyrir mörg okkar sem höfum valið að búa á landsbyggðinni að heyra þingmenn, jafnvel ráðherra og „svokallaða“ sérfræðinga á samfélagsmiðlum tala endalaust um kjördæmapott detti einhverjum þingmanni/ráðherra það í hug að tala fyrir bættum vegasamgöngum utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta virðist vera lenska, því miður.
Tökum dæmi; Hvenær heyrið þið t.d. almenning með póstnúmer utan Reykjavíkur tala um Sundabrautina eða borgarlínu sem kjördæmapott þingmanna í 101 Reykjavík? Það er þrátt fyrir að framkvæmdirnar komi til með að kosta ríkissjóð tugi milljarða enda verði þær að veruleika.
Á móti nefni ég tvö þýðingarmikil samgöngumannvirki hér norðan heiða sem þegar hafa sannað sitt notagildi, það er Vaðlaheiðargöng annars vegar og Héðinsfjarðargöng hins vegar. Þeir sem öðrum fremur fóru fyrir þessum verkefnum voru, þingmennirnir og ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Kristján L. Möller. Þeir ásamt fleirum sem fóru fyrir verkefninu hafa þurft að sitja undir árásum úr ýmsum áttum sem og íbúar á Norðurlandi. Talað hefur verið um spillingu og kjördæmapott.
Fyrir Alþingiskosningar þegar Vaðlaheiðargöng voru í burðarliðnum mátti til dæmis heyra þingmann úr Hafnarfirði, sem kenndur er við Viðreisn tala fyrir mislægum gatnamótum í Hafnarfirði á kostnað ríkissjóðs um leið og viðkomandi hnýtti í þá þingmenn sem hefðu komið Vaðlaheiðargöngum í farveg, það væri kjördæmapot á háu stigi.
Það átti hins vegar ekki við um þingmanninn sjálfan sem taldi rétt að Vegagerðin kæmi að myndarlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja í Hafnarfirði. Að sjálfsögðu átti ríkið að greiða kostnaðinn af framkvæmdinni að mati þingmannsins.
Nefna má annað dæmi tengt Vaðlaheiðargöngum; Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), taldi einnig ástæðu til að tala framkvæmdina niður sem féll í grýttan jarðveg hjá heimamönnum.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi, nú SSNE, gerðu alvarlegar athugasemdir við framgöngu FÍB í málinu með yfirlýsingu þar sem bent var á að verulegur hluti þjóðarframleiðslunnar kæmi frá byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins og íbúum landbyggðarinnar þætti mikilvægt að njóta hluta afrakstursins. Í yfirlýsingunni voru forsvarsmenn FÍB jafnframt minntir á það, að af hverjum tveimur krónum, sem íbúar í Norðausturkjördæmi greiddu í skatta, léti nærri að aðeins ein króna skilaði sér aftur til baka í formi framlaga til nauðsynlegrar grunnþjónustu, vegaframkvæmda og annarra sameiginlegra þarfa. Þeirri krónu, sem yrði eftir á höfuðborgarsvæðinu, væri varið til þjónustu og uppbyggingar innviða á því svæði.
Framsýn stéttarfélag tók heilshugar undir samþykkt Eyþings/SSNE með ályktun og spurði hvort það væri ekki markmið FÍB að standa vörð um hagsmuni allra bifreiðaeigenda á Íslandi burt séð frá búsetu.
Ég kalla eftir viðhorfsbreytingu hvað þetta varðar. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á samgöngumálum enda mikilvægur þáttur í lífi okkar allra en verum málefnaleg í umræðunni.
Meðan oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi talar fyrir hálendisvegi milli landshluta og styttingu þjóðvegar 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur tala ég sem formaður stéttarfélags í Þingeyjarsýslum fyrir bættum flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll og greiðari samgöngum frá Eyjafjarðarsvæðinu austur um land þar sem núverandi ástand vegakerfisins er langt frá því að vera viðunandi með hálfónýtum og úrsérgengnum einbreiðum brúm.
Þjóðvegurinn og tengibrautir þola ekki lengur ört vaxandi ferðaþjónustu og þungaflutninga enda dæmi um að búið sé að loka brúm á fjölförnum vegum fyrir þungaumferð.
Fyrir mér eru þetta allt mikilvægar samgöngubætur en við verðum að forgangsraða með þarfir íbúa og atvinnulífsins í huga á hverjum stað, það er með sanngjörnum og eðlilegum hætti.
Tökum höndum saman, gerum íbúum landsins jafnt undir höfði og byggjum upp skilvirkar og vistvænar almenningssamgöngur um allt land. Byggjum upp Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu með góðum tengingum við landsbyggðina ásamt Byggðalínu sem tengir vegakerfin saman líkt og æðakerfi líkamans. Greiðar samgöngur eru lykillinn að því að halda landinu í byggð.
Ágætu félagar!
Hvað vegakerfið varðar geri ég mér fulla grein fyrir því að það verður ekki byggt upp nema komi til vegatollar á ákveðnum leiðum sem síðan fjari út sbr. Hvalfjarðargöng. Þetta kerfi viðgengst víða erlendis.
Hins vegar geri ég þá kröfu að aðgengi að almennri þjónustu á vegum ríkisins verði gerð aðgengilegri fyrir þegna þessa lands sem oft á tíðum þurfa að ferðast um langan veg til að sækja sér m.a. heilbrigðisþjónustu, menntun og aðra þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.
Liður í því er að bjóða upp á öflugar almenningssamgöngur með það að markmiði að það kosti ekki augun úr að ferðast milli landshluta, hvort heldur það er í lofti eða á þjóðvegum landsins.
Þá eru fyrirtækin á landsbyggðinni, mörg hver, að sligast undan stjarnfræðilega háum flutningskostnaði sem veikir samkeppnisstöðu þeirra verulega í samanburði við sambærileg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þungaskattur, skattar á eldsneyti og endalausar álögur á flutninga koma sér auk þess afar illa fyrir íbúa í hinum dreifðu byggðum landsins sem þurfa á aðföngum að halda.
Ég treysti Samfylkingunni til að taka á þessu máli enda væntanlega á leiðinni í næstu ríkisstjórn m.v. skoðanakannanir og umræðuna á vinnustöðum þar sem talað er fyrir breytingum á Alþingi.
Ég nefndi í upphafi að greiðar samgöngur vörðuðu meðal annars heilbrigðismál og kjaramál. Íbúar á landsbyggðinni hafa haft ákveðin skilning á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu.
En því miður hafa þeir mátt taka sparnað ríkisins, sem þannig hefur sparast, á kassann. Það er þrátt fyrir loforð stjórnvalda um annað. Stjórnvöld lofuðu svokölluðum mótvægisaðgerðum til að mæta auknum kostnaði viðkomandi íbúa í skjóli hagræðingar stjórnvalda.
Ég nefni, skurðstofu HSN á Húsavík sem var lokað á sínum tíma og þar með fæðingardeildinni. Nú eru sjúklingar sendir til Akureyrar eða Reykjavíkur þurfi þeir á þessari þjónustu að halda með tilheyrandi óþægindum og kostnaðarauka fyrir íbúa á svæðinu. Sömu sögu er hægt að segja víða um land. Ég auglýsi eftir mótvægisaðgerðum stjórnvalda.
Ef marka má umræðuna innan Starfsgreinasambands Íslands um þessar mundir liggur fyrir að ein helsta krafa sambandsins í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld verður að jafna aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu. Við getum ekki lengur horft upp á að láglaunafólk og öryrkjar þurfi að neita sér um læknisþjónustu vegna þess að þeir hafi ekki aðgengi eða efni á slíku.
Ég tek heilshugar undir með formanni Samfylkingarinnar sem hefur sagt.
„Öryggi er tilfinning sem er mikils virði. Við höfum öll persónulega reynslu af heilbrigðiskerfinu. Þegar það virkar sem skyldi þá veitir það fólki öryggi. Og það er á okkar viðkvæmustu stundum sem reynir á — þegar eitthvað kemur upp á hjá okkur sjálfum eða fólkinu sem stendur okkur næst. Þá reynir á hvort við búum við sterka velferð.“
Um leið og ég þakka gott hljóð þá skulum við ekki gleyma því að Samfylkingin stendur fyrir jöfnuð og sterka velferð, látum verkin tala. Takk fyrir.