Kynningar fyrir skóla og vinnustaði

Töluvert hefur verið um að fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafi verið beðnir um að koma með fræðslu inn á vinnustaði á félagssvæðinu. Það er fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og ákvæði kjarasamninga. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar talsmaður Framsýnar var beðinn um að flytja erindi fyrir sumarstarfsmenn á Hvammi og HSN á Húsavík í byrjun sumars.  

Fjölmenni í sumarkaffi Framsýnar á Raufarhöfn

Framsýn stóð fyrir árlegu sumarkaffi í félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn í byrjun júní eins og gert hefur verið í aðdraganda Sjómannadagsins mörg undanfarin ár. Íbúar staðarins ásamt nærsveitingum hafa verið mjög duglegir að mæta í sumarkaffið og svo var einnig nú, en um 70 til 80 gestir komu og þáðu veitingar og áttu góða stund með forsvarsmönnum félagsins.  Með kaffinu var boðið upp á konfekt og hnallþórur af allra bestu gerð, en það voru konur úr Kvenfélaginu Freyju á Raufarhöfn sem höfðu veg og vanda af tertubakstrinum. Framsýn þakkar rekstraraðilum Hnitbjarga, þeim Ingibjörgu Hönnu Sigurðardóttur og Gunnari Páli Baldurssyni  fyrir afnotin af húsnæðinu og öllum þeim sem lögðu leið sína í sumarkaffið hjartanlega fyrir komuna.

Meistari Jakob

Jakob Gunnar Hjaltalín kom að sjálfsögðu á aðalfund Framsýnar sem haldinn var í lok maí. Um þessar mundir eru ákveðin tímabót í hans lífi þar sem hann fagnar 70 ára afmæli. Að sjálfsögðu var Jakob hylltur á fundinum auk þess sem fundarmenn færðu honum smá glaðning á þessum merku tímamótum í hans lífi. Það gerði Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – árgjaldið áfram óbreytt milli ára

Félagsgjaldið hefur verið óbreytt til fjölda ára, það er 1% af launum félagsmanna. Til að öðlast full félagsréttindi þurfa félagsmenn að greiða mánaðarlegt félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar á hverjum tíma, nú 1% af heildarlaunum enda séu þeir á vinnumarkaði.

Aðalfundurinn samþykkti einnig að lágmarksfélagsgjaldið vegna ársins 2023 verði sem svarar til 0,3% byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma. Lágmarksgjaldið tekur breytingum í samræmi við umsamdar breytingar á launataxta LÍV-SA. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði. Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – félagið aðstoðaði flóttafólk frá Úkraínu

Því miður geisar stríð í Úkraínu þar sem stríðsglæpamaður frá Rússlandi heldur heilli þjóð í heljargreipum með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Reyndar fyrir heimsbyggðina alla. Hörmungarnar hafa ratað inn á borð Framsýnar. Alþjóðasamfélagið verður að gera allt til að stoppa þetta ömurlega stríð. Hvað það varðar getur enginn setið hjá. Almenningur verður að gera allt til að aðstoða flóttafólkið frá Úkraínu um leið og þjóðarleiðtogar heimsins eru hvattir til að stuðla að friði í heiminum með öllum tiltækum ráðum. Hvað Framsýn varðar hefur félagið ekki setið hjá. Félagið kom að því að leggja flóttafólki frá Úkraínu til íbúð í Asparfelli í Reykjavík í gegnum hjálparsamtök. Mæðgur með lítið barn frá Úkraínu fluttu inn í íbúðina 1. maí 2022 sem er táknrænt enda ber dagurinn upp á alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Flóttafólkið var í íbúðinni til 1. mars 2023. Félaginu hafa borist kærar kveðjur frá flóttafólkinu sem þakkar kærlega fyrir hlýhug þess í þeirra garð á þessum erfiðu tímum.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar –  Hátíðarhöldin 1. maí vel sótt

Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2023. Eftir hátíðarhöldin í höllinni í fyrra var ákveðið að breyta til og færa hátíðina á Fosshótel Húsavík til prufu. Ástæðan er að fólki hefur frekar fækkað sem sækir viðburði sem þennan auk þess sem samfélagsgerðin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Þeir sem eldri eru hafa verið mjög duglegir við að sækja hátíðarhöldin meðan þeir sem yngri eru búa ekki yfir sama áhuga sem og erlendir félagsmenn. Þess vegna var ákveðið að færa hátíðarhöldin á hótelið þar sem góð þjónusta er í boði til að halda samkomu sem þessa. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar auk þess sem þekktir og óþekktir tónlistarmenn tendruðu fram áhugaverða tónlist og söng. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Óhætt er að segja að breytingarnar hafi tekist vel og voru hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík vel sótt og öllum til mikils sóma. Salurinn á Fosshótel Húsavík hefur þegar verið tekinn frá fyrir hátíðarhöldin á næsta ári.

Norðurþing hækkar laun ungmenna í Vinnuskólanum

Framsýn óskaði nýlega eftir upplýsingum frá Norðurþingi um hækkanir á launum ungmenna í Vinnuskóla sveitarfélagsins milli ára. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum samþykkti Reykjavíkurborg að hækka ekki laun ungmenna í Vinnuskóla Reykjavíkur milli ára sem er með miklum ólíkindum og rúmlega það. Reyndar til mikillar skammar fyrir sitjandi borgarstjórn.

Samkvæmt upplýsingum frá Norðurþingi hækka laun Vinnuskólans um 9% milli ára sem er í takt við almennar launahækkanir starfsmanna sveitarfélaga sem starfa eftir launatöflu SGS/Framsýnar og Sambands ísl. sveitarfélaga sem er afar ánægjulegt. Framsýn hefur komið þeim skilaboðum á framfæri við Norðurþing að mikilvægt sé að gera samanburð á launakjörum ungmenna í Vinnuskólum á landinu með það að markmiði að Norðurþing verði örugglega samanburðarhæft við önnur sambærileg sveitarfélög hvað varðar launakjör ungmenna í Vinnuskólum. Þeirri málaleitan hefur verið vel tekið af hálfu sveitarfélagsins.

Ekkert smá hress –  framtíðin björt

Í morgun komu nemendur úr Vinnuskólanum á Húsavík í heimsókn til stéttarfélaganna. Tilgangurinn með heimsókninni var að fræðast um starfsemi stéttarfélaga og réttindi þeirra á vinnumarkaði. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, tók vel á móti ungu gestunum sem tóku virkan þátt í kynningunni með fyrirspurnum og öðrum skemmtilegheitum. Heimsóknin var í alla staði mjög skemmtileg og rúmlega það.  Ekki þarf að taka sérstaklega fram að kynning sem þessi er ekki síst mikilvæg fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar –  21 milljón í námsstyrki til félagsmanna

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2022 fengu 327 félagsmenn greiddar kr. 21.394,858,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2021 var kr. 21.959.258,-.

Námsstyrkir árið 2022 skiptast þannig milli fræðslusjóða sem Framsýn á aðild að:

198 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt                                                     kr. 13.197.541,-.

    6 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt                                                           kr.      354.410,-.

  14 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt                                                        kr.      698.693,-.

 71 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði LÍV                                                kr.   4.408.067,-.

 35 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt                                                      kr.   2.436.147,-.

3 styrkir voru greiddir úr Fræðslusjóði Framsýnar á árinu 2022, samtals kr. 300.000,-.

Samtals fengu félagsmenn því greiddar kr. 21.394,858,- í námsstyrki á árinu 2022.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um í kjarasamningum. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn. Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á félagssvæðinu. Þó nokkuð er um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar eftir fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt.  Þá eru starfsmenn stéttarfélaganna reglulega beðnir um að kenna á námskeiðum er tengjast vinnurétti.

Félagsmenn Framsýnar samþykktu ríkissamninginn

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 15. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 16.-21. júní. Á kjörskrá voru 1.418 manns og var kjörsókn 24,26%. Já sögðu 92,44%, nei sögðu 4,65% og 2,91% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: Framsýn stéttarfélag, AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu

Kjarasamningur SGS og ríkisins 2023-2024

Kauptaxtar 1. apríl 2023 – 31. mars 2024

Falleg kveðja frá Stórutjarnaskóla

Framsýn færði nýlega Tónlistardeild Stórutjarnaskóla gjöf vegna aðkomu nemenda skólans að hátíðahöldunum 1. maí sem fram fóru á Fosshótel Húsavík á baráttudegi verkafólks.  Félaginu hefur borist þakkarbréf þar sem fram kemur þakklæti fyrir höfðinglega gjöf sem beri vott um hlýhug gefanda. Þakkað er fyrir gjöfina. Fram kemur að búið er að fjárfesta í fiðlu og cajontrommu sem mun nýtast tónlistarnemum skólans afar vel að sögn stjórnenda skólans um leið og óskað er eftir áframhaldandi farsælu samstarfi.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – við förum í fríið!

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Verkalýðsfélagi Þórshafnar hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Stéttarfélögin eru með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið á liðnum árum með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Framsýn á tvö orlofshús,  á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og fjórar íbúðir í Kópavogi, eina á Akureyri og eina í Reykjavík. Orlofshúsið í Dranghólaskógi hefur verið notað í leiguskiptum á sumrin fyrir annað orlofshús í Svignaskarði í Borgarfirði sem er í eigu Eflingar. Leiguskiptin hafa komið vel út. Þá eiga Þingiðn og Framsýn saman íbúð í gegnum Hrunabúð sf. að Garðarsbraut 26, efri hæð sem hefur verið útleigu. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 45.000 fyrir viku dvöl í þeim húsum sem félagið er með á leigu hjá öðrum aðilum. Þá fengu 86 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 1.441.806,-. Árið áður fengu 78 félagsmenn þessa styrki, samtals kr. 1.506.910,-. Ekki var boðið upp á sumarferð 2022 þar sem ekki náðist þátttaka í sögu- og gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti. Unnið er að því að skipuleggja ferð í sumar. Ferðin verður auglýst frekar þegar nær líður sumri. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 15.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur Framsýnar við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Þá gekk Framsýn frá samningi við Icelandair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samningurinn felur í sér að flugfélagið veitir stéttarfélaginu 10% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiðir stéttarfélagið flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá Icelandair.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – Stöndum vaktina með vinnustaðaeftirliti

Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Í heimsfaraldrinum var starfið lagt niður tímabundið. Félögin hafa nú endurráðið í starfið. Hugmyndin er að tveir starfsmenn sinni starfinu í hlutastörfum með öðrum störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þannig vilja stéttarfélögin halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – vantar fólk og húsnæði

Á árinu 2022 var atvinnuástandið á félagssvæði Framsýnar með miklum ágætum enda flestar atvinnugreinar búnar að ná sér eftir heimsfaraldurinn. Eins og staðan er í dag vantar starfsfólk til starfa í flestar atvinnugreinar. Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur verið ferðaþjónusta, iðnaður, sjávarútvegur, landbúnaður og opinber þjónusta. Framsýn hefur átt gott samstarf við Vinnumálastofnun um að veita atvinnuleitendum á félagssvæðinu góða þjónustu. Hvað það varðar hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lagt starfsmanni Vinnumálastofnunar til skrifstofu að kostnaðarlausu en stofnunin hefur séð um að greiða starfsmanninum laun. Núverandi starfsmaður hefur bæði starfsstöðvar á Akureyri og Húsavík. Það er, hann er í hlutastarfi á Húsavík. Það sem stendur atvinnulífinu fyrir þrifum á svæðinu er vöntun á starfsmönnum og íbúðarhúsnæði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – PCC greiðir mest til félagsins

Fyrirtækið PCC BakkiSilicon hf. greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar árið 2022 eða samtals um kr. 34,6 milljónir, það er heldur meira en sveitarfélagið Norðurþing. Árið 2021 greiddi Sveitarfélagið Norðurþing mest allra fyrirtækja eða um 25,7 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar og í starfsmenntasjóði atvinnulífsins. Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2022 eftir röð:

PCC BakkiSilicon hf.

Sveitarfélagið Norðurþing

GPG. Seafood ehf.

Þingeyjarsveit

Hvammur, heimili aldraðra

Norðlenska matarborðið ehf.

Íslandshótel hf.

Ríkissjóður Íslands

Eimskip ehf.

Samherji fiskeldi ehf.

Samkaup hf.

Kjarasamningur undirritaður og verkfalli aflýst hjá STH

Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning á áttunda tímanum í morgun. Lauk þar með 14 klukkustunda samningatörn samninganefndar BSRB. Verkfallsaðgerðum 2500 félagsmanna aðildarfélaga BSRB í 30 sveitarfélögum hefur verið aflýst.

Mánaðarlaun hækka að lágmarki um 35.000 kr. og desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 kr. Samkomulag náðist um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 kr. eftir að ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu á fjórða tímanum í nótt. Auk þess var samið um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 og nær til um 7000 félagsmanna BSRB.

„Það hefur verið magnað að upplifa kraftinn, samstöðuna og baráttuþrekið meðal félagsfólks okkar síðustu vikur sem og stuðning samfélagsins,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Margt jákvætt má finna í samningnum. „Við getum verið hóflega sátt við þessa niðurstöðu. Lægstu laun hækka verulega auk þess sem við fengum sáttagreiðslu samþykkta og hækkun á tiltekin starfsheiti.“

Félögin sem gera kjarasamninginn eru:

Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi

FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu

Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu

Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu

Starfsmannafélag Garðabæjar

Starfsmannafélag Húsavíkur

Starfsmannafélag Hafnarfjarðar

Starfsmannafélag Mosfellsbæjar

Starfsmannafélag Kópavogs

Starfsmannafélag Suðurnesja

Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar

Á næstu dögum munu aðildarfélög BSRB, þar á meðal Starfsmannafélag Húsavíkur, kynna samningana fyrir sínu félagsfólki. Eftir það verða samningarnir bornir undir atkvæði félagsmanna. Frekari upplýsingar verður hægt að nálgast á heimasíðu stéttarfélaganna.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – félagsmönnum fjölgar og fjölgar

Aðalfundur Framsýnar var haldinn 25. maí og var hann nokkuð vel sóttur.  Á næstu dögum munum við gera grein fyrir helstu málefnum fundarins í stuttum fréttum. Reyndar er þegar komin inn ein frétt á heimasíðuna um hækkun styrkja til félagsmanna úr sjúkrasjóði sem samþykkt var á aðalfundinum sem mikil ánægja er með.

Á aðalfundinum kom fram að alls greiddu 3.016 launamenn til Framsýnar á árinu 2022 en greiðandi félagar voru 2.731 árið 2021. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði því umtalsvert milli ára sem staðfestir að atvinnulífið er að taka við sér eftir heimsfaraldurinn auk þess sem mikil ásókn er í félagið enda félagið eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Án efa á félagsmönnum eftir að fjölga enn frekar á komandi árum. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.843 karlar og 1.173 konur, sem skiptist þannig að konur eru 39% og karlar 61% félagsmanna. Athygli vekur að karlmönnum heldur áfram að fjölga á kostnað kvenna. Hér á árum áður var kynjaskiptingin nánast jöfn. Vissulega hefur það áhrif að starfsmenn PCC á Bakka eru í miklum meirihluta karlmenn, en verksmiðjan hóf starfsemi 2018. Þá virðist sem erlendum karlmönnum í ferðaþjónustu sé einnig að fjölga umfram það sem verið hefur undanfarin ár. Full ástæða er til að greina þessa þróun betur enda áhugaverð. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 302, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 3.318 þann 31. desember 2022, það er greiðandi og gjaldfrjálsir félagsmenn.

Góðar hækkanir á styrkjum til félagsmanna Framsýnar úr sjúkrasjóði

Vegna aðhalds í rekstri og góðrar afkomu Framsýnar samþykkti aðalfundur félagsins, sem fram fór í lok maí, að stórhækka styrki úr sjúkrasjóði félagsins. Þannig vill félagið koma til móts við félagsmenn sem fyrir hafa eina bestu styrki úr sjúkra- og starfsmenntasjóðum sem þekkjast meðal almennra stéttarfélaga á Íslandi. Samþykkt var að hækka eftirfarandi bótaflokka í starfsreglum sjúkrasjóðs frá og með 1. júní 2023 fyrir félagsmenn á vinnumarkaði. Þá komi til hækkun á útfararstyrk aðstandenda félagsmanna sem falla frá eftir fimm ár frá því að þeir hættu að greiða félagsgjald til félagsins. Fram að þeim tíma hafa aðstandendur fullan rétt eins og viðkomandi hafi verið á vinnumarkaði þegar hann féll frá:

Núverandi úthlutunareglur verða þær sömu en hlutfall endurgreiðslna úr sjúkrasjóði taka þessum breytingum:

  • Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var félagi við starfslok eiga aðstandendur hans rétt á endurgreiðslu allt að kr. 150.000,- vegna útfararkostnaðar í stað kr. 130.000,-. Með starfslokum er átt við að sjóðfélagar láti af stöfum vegna aldurs eftir 60 ára aldur eða viðkomandi félagsmaður hafi látið af störfum vegna örorku.
  • Endurgreiðslur til félagsmanna vegna heilsueflingar verði kr. 40.000,- í stað kr. 35.000,-.
  • Fæðingarstyrkur hækki og verði kr. 160.000,-. Var áður kr. 150.000,-.
  • Niðurgreiðslur til félagsmanna sem fara í glasafrjóvgun verði kr. 160.000,-. Var áður kr.  150.000,-.
  • Styrkir til félagsmanna vegna aðgerða á augum verði kr. 70.000,-. Var áður kr. 60.000,-.
  • Gleraugnastyrkur til félagsmanna verði kr. 70.000,-. Sama regla gildi fyrir þá sem kaupa sér linsur. Var áður kr. 60.000,-.
  • Styrkur til félagsmanna vegna kaupa á heyrnatækjum verði kr. 100.000,-. Var áður kr. 80.000,-. Upphæðin getur samtals orðið kr. 200.000,- vegna kaupa á tveimur tekjum. Var áður kr. 160.000,-.