Hvetja til samninga sjómanna og að fyrirtæki í fiskvinnslu haldi fólki á launaskrá í verkfalli sjómanna

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi til að ræða stöðuna, það er verkfall sjómanna og ákvörðun sumra fiskvinnslufyrirtækja að senda starfsfólk heim á atvinnuleysisbætur þrátt fyrir metgróða í greininni í stað þess að halda þeim á launaskrá. Dæmi eru um að fyrirtæki í fiskvinnslu fullyrði að það sé hagstæðara fyrir starfsfólk að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að vera á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum sem er fásinna. Sé það rétt eins og ákveðin fyrirtæki hafa haldið fram er það ámælisvert fyrir verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins að það sé hagstæðara að vera á atvinnuleyisbótum en að vera á launaskrá hjá viðkomandi fyrirtækjum. Hér má lesa ályktunina:

Ályktun

Um verkfall sjómanna og lokun fiskvinnslufyrirtækja

 Framsýn, stéttarfélag hvetur forystu Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) að setjast þegar niður við samningaborðið með það að markmiði að ná fram ásættanlegum kjarasamningi fyrir sjómenn.

Sanngjarnar kröfur sjómanna eiga ekki að þurfa að standa í vegi fyrir því að gengið verði frá nýjum kjarasamningi. Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu SFS að spyrna við fótum og kenna gengi krónunnar um óánægju sjómanna með sín kjör, vandinn er mun stærri en það og endurspeglast í kröfugerð sjómanna.

Framsýn gagnrýnir þau fiskvinnslufyrirtæki sem beina starfsfólki á atvinnuleysisbætur vegna verkfalls sjómanna, fyrirtæki sem bera því jafnvel við og alhæfa að starfsfólkið sé betur komið á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Fyrirtæki sem skilað hafa sögulegum rekstrarhagnaði.

Framsýn hvetur fiskvinnslufyrirtæki til að halda starfsmönnum á launaskrá í verkfalli sjómanna og virða þannig sjálfsögð réttindi vinnandi fólks.

 

 

 

 

 

 

Fyrirtæki misnota orlofsrétt starfsmanna

Framsýn, stéttarfélag hefur óskað eftir áliti lögmanns á því hvort atvinnurekanda sé heimilt að ákveða einhliða að starfsfólk hans taki orlof meðan fyrirtæki er lokað yfir jól- og áramót. Dæmi eru um að fyrirtæki þrýsti á starfsmenn að taka sér orlof á þessum tíma til að losa sig undan launagreiðslum. Samkvæmt umsögn lögmanna félagsins er slíkt óheimilt, sjá meðfylgjandi umsögn:

„Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 skal veita orlof á tímabilinu frá 2. maí til 15. september. Það er þannig meginregla að orlof skuli veitt að sumri til.  Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekandi skuli ákveða í samráði við starfsmenn hvenær orlofið skuli veitt. Atvinnurekanda ber að verða við óskum einstakra starfsmanna í því efni eftir því sem honum er unnt vegna starfseminnar. Að lokinni þessari könnun er atvinnurekanda skylt að tilkynna starfsmönnum um tilhögun orlofstöku, svo fljótt sem verða má og aldrei seinna en mánuði fyrir töku þess.

Atvinnurekanda er heimilt að loka fyrirtæki sínu meðan starfsmenn eru í orlofi. Æskilegt er að ákvörðun um slíka lokun liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl ár hvert þannig að öllum starfsmönnum sé kunnugt um hana áður en að orlofstímabili kemur.  Ákvörðun atvinnurekanda um að loka í orlofi ber annars að tilkynna með sama hætti og tilkynningu um orlof endranær, þ.e. tilkynna ber um fyrirhugaða lokun með minnst eins mánaðar fyrirvara

Ef atvinnurekandi hyggst flytja hluta orlofs yfir á vetrartímann verður hann að færa fyrir því sérstök rök sem byggja á rekstrarástæðum fyrirtækis, enda er meginreglan sú sem fyrr greinir að sumarið sé tími orlofstöku og af þeirri ástæðu hefur einnig verið samið um sérstakar skorður í þessu efni í kjarasamningum, þannig að sumarorlof sé ekki skert nema að vissu marki.

Telji atvinnurekandi nauðsynlegt að loka fyrirtæki yfir hátíðir, eins og um var spurt, ber honum í ljósi fyrrgreindra reglna að gera ráð fyrir því þegar við skipulagningu orlofs að vori þannig að starfsmenn geri sér grein fyrir því fyrirfram að orlof þeirra verði skipt í sumar og vetrarorlof og með þeim fyrirvara sem áður var lýst. Undir engum kringumstæðum standa rök til þess að atvinnurekanda sé tækt að ákveða undir lok árs að fyrirtæki loki yfir hátíðir og starfsmenn hefji þá orlofstöku, sem þeir ella hefðu átt að taka á næsta sumri eftir lokunina.“

 

Um 20.000 farþegar um Húsavíkurflugvöll

Um tuttugu þúsund farþegar hafa farið um Húsavíkurflugvöll á árinu 2016 sem er veruleg fjölgun frá fyrri árum sem er afar gleðilegt. Fulltrúar Framsýnar fögnuðu þessum merkilega áfanga í dag með starfsmönnum á Húsavíkurflugvelli og tveimur flugmönnum hjá Flugfélaginu Erni sem voru staddir á vellinum þegar fulltrúar félagsins komu færandi hendi með tertu og konfekt handa starfsmönnum flugvallarins. Sjá myndir:

ernir1216-004ernir1216-009ernir1216-001

 

Stjórn Framsýnar boðuð á fund vegna verkfalls sjómanna

Nú liggur fyrir að sjómenn innan Framsýnar eru komnir í verkfall. Í tilefni af því hefur stjórn félagsins verið kölluð saman til fundar til að ræða stöðuna og verkfallsbætur til sjómanna innan Sjómannadeildar félagsins standi verkfallið fram yfir áramót sem flest bendir til. Jafnvel er talað um langt verkfall enda útgerðarmenn ekki tilbúnir að gefa neitt eftir. Þá hafa staðið yfir viðræður við Flugfélagið Erni um áframhaldandi samning um afsláttarkjör fyrir félagsmenn Framsýnar. Reiknað er með að gengið verði frá nýjum samningi við flugfélagið í næstu viku. Fleiri stór mál verða til umræðu s.s. breytingar á húsnæði stéttarfélaganna og lífeyrismál.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning sjómanna

Atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning sjómanna lauk í gær. Meðlimir í sjómannadeild Framsýnar voru meðal þeirra sem greiddu atkvæði um samninginn.

Úrslit voru þau að já sögðu 177 eða 23,82% en nei sögðu 562 eða 75,64%. Á kjörskrá voru 1.098 og kjörsókn var 67,7%.

Auðir seðlar voru fjórir.

Samningur var því fellur með miklu öryggi. Verkfall hófst í gær, 14. desember klukkan 20:00.

Desemberuppbót til atvinnuleitenda

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sett reglugerð um greiðslu desemberuppbótar til atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Óskert desemberuppbót er 60.616. Nýmæli er að atvinnuleitendur með börn á framfæri fá jafnframt sérstaka uppbót sem nemur 4% af óskertri desemberuppbót, eða rúmum 2.400 kr. fyrir hvert barn yngra en 18 ára.

Rétt á fullri desemberuppbót eiga þeir atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins, hafa verið skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2016 og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember. Greiðsla desemberuppbótar til þeirra sem eiga ekki fullan bótarétt reiknast í hlutfalli við rétt þeirra til atvinnuleysisbóta á árinu og fjölda mánuða sem viðkomandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

Uppbót vegna barns eða barna tekur engum skerðingum, heldur nemur í öllum tilvikum 4% af óskertri desemberuppbót sem eru rúmar 2.400 kr. fyrir hvert barn.

 

Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli

Nú í haust var haldin stór flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli þar sem um 60 manns tóku þátt. Þar var sett á svið flugslys þar sem 33 sæta flugvél átti að hafa farist með 26 manns innanborðs. Þetta var mjög krefjandi verkefni en góð æfing sem reyndi á marga þætti.

Ísavia heldur svona stórar æfingar á 4 ára fresti og er þetta mikilvægur þáttur í þjálfun björgunarfólks á svæðinu.

Þeir sem tóku þátt í æfingunni vor Slökkvilið Langanesbyggðar, Björgunarsveitin Hafliði, Unglingadeild Björgunarsveitarinnar Hafliða, Björgunarsveitin Vopni, Lögreglan, Rauði Krossinn í Þingeyjarsýslum, vettvangsliðar og björgunarfólk úr Öxafirði, starfsfólk Heilsugæslunnar, sjúkraflutningamenn og flugvallarstarfsmenn.

Voru það ráðgjafar frá Isavía, Landspítala, Rauðakrossinum, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra sem settu upp æfinguna og voru skipuleggjendum innan handar. Þá tók Landhelgisgæslan þátt í æfingunni með því að senda þyrlu á vettvang.

Eftir æfinguna var komið saman og farið yfir það sem mátti betur fara enda æfingin haldin til að læra af henni.

Óhætt er að segja að æfingin hefi gengið vel en svona æfingar nýtast öllum þeim sem koma að einhverskonar hópslysum. Eru æfingar sem þessar því mjög mikilvægar og eru þeir sem tóku þátt í æfingunni eru því reynslunni ríkari. (Meðfylgjandi myndir tók Gréta B. Jóhannesdóttir)039 011 004

Allir velkomnir í jólaboð stéttarfélaganna: Opið 14:00-17:00

Stéttarfélögin standa fyrir sínu árlega jólaboði næsta laugardag, það 10. desember. Opið verður frá kl. 14:00 til 17:00. Að venju eru allir velkomnir í jólakaffið. Nemendur Tónlistarskólans verða á svæðinu og spila og syngja eins og enginn sé morgundagurinn. Sjáumst hress á laugardaginn með kveðju frá starfsmönnum stéttarfélganna.

Desemberuppbót

Upplýsingar um desemberuppbót til félagsmanna.

Félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum eiga rétt á að fá greidda desemberuppbót samkvæmt kjarasamningum. Upphæðin er mismunandi eftir samningum og við hvaða tímabil er miðað til skilgreiningar á fullu starfi. Uppbótina skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof.

  • Full desemberuppbót árið 2016 er kr. 82.000 hjá þeim sem vinna á almennum vinnumarkaði.
  • Full desemberuppbót árið 2016 er kr. 82.000 hjá þeim sem vinna hjá ríki.
  • Full desemberuppbót árið 2016 hjá þeim sem vinna hjá sveitarfélögum er kr. 106.250.

Með því að smella á línurnar hér fyrir neðan má sjá töflu miðað við viðkomandi samning yfir upphæð desemberorlofsgreiðslu miðað við starfshlutfall og starfstíma.

Jólalegt hjá pólskum fjölskyldum

Pólskar fjölskyldur sem búsettar eru í Þingeyjarsýlum komu saman í fundarsal stéttarfélaganna á laugardaginn og héldu jólahátíð, börnin fengu gjafir og jólasveinninn kom alla leið frá Póllandi til að heilsa upp á ungu kynslóðina sem kunni vel að meta heimsóknina. Um var að ræða samstarfsverkefni Pólverja sem búa á svæðinu og Framsýnar sem lagði til húsnæði, hátíðartertu og kaffiveitingar. Hátíðin tókst í alla staði mjög vel og voru gestir almennt ánægðir með gleðskapinn, sjá myndir:

polskjol1216-003polskjol1216-004polskjol1216-005polskjol1216-007polskjol1216-010

Stéttarfélögin þátttakendur í kaupum á reiðhjóli fyrir aldraðra

“Það skýtur nú kannski skökku við að vera að afhenda reiðhjól svona á aðventunni”. Sagði Halla Rún Tryggvadóttir en það var nú samt raunin þegar íbúar Dvalarheimilisins Hvamms fengu nýstárlegt reiðhjól að gjöf.

Halla Rún og Björg Björnsdóttir sjúkraþjálfari stóðu fyrir söfnun til að fjármagna kaupin á hjólinu en um er að ræða hjól sem heitir Christania Bike og kemur frá Danmörku. Fremst á hjólinu er eins konar kerra bæði með svuntu og skyggni og þá er það með rafmótor og því ætti að vera hægt að hjóla langar leiðir þótt farþegarnir séu tveir.

Í máli Höllu rúnar kom fram að forsaga málsins sé sú að hún heyrði af þessu annars skemmtilega verkefni í slyddu og skítakulda í Húsavík eystri sumarið 2015.

„Mér þótti þetta strax virkilega áhugavert verkefni. Hingað kom svo Sesselja Traustadóttir forstýra Hjólafærni á Íslandi sem flytur inn hjólin, á vordögum á þessu ári. Hún átti fund með starfsfólki Hvamms og sjúkraþjálfunar Húsavíkur sem leiddi það af sér að leiðir okkar Bjargar lágu saman og við einhentum okkur í söfnun fyrir hjólinu. Það var nú vægast sagt skemmtileg vinna þar sem allir sem við töluðum við tóku okkur svo vel. Hver vill ekki gera eitthvað góðverk og það fyrir eldri borgara?

Það tók ekki langan tíma að safna fyrir hjólinu. Þeir sem styrktu okkur voru bæði einstaklingar og fyrirtæki í bænum og nágrenninu. Gospelkór Húsavíkur, Framsýn stéttarfélag og Starfsmannafélag Húsavíkur. Landsbankinn og Íslandsbanki lögðu okkur lið. Sömuleiðis Norðurþing og Urðarprent. Og svo flutti Samskip hjólið hingað norður fyrir okkur, okkur að kostnaðarlausu.

Þeir einstaklingar sem tóku þátt í söfnuninni voru Elísabet Sigurðardóttir, Jóel Friðbjörnsson og Sigríður Björnsdóttir, Hlöðver Stefán Þorgeirsson, Agnieszka Szczodrowska og Dýrleif Andrésdóttir.

Mig langar að þakka þeim kærlega fyrir þeirra framlög til hjólakaupanna.

Nú þegar hjólið er hingað komið þá verður næsta verkefni að virkja hjólara í bænum. En við höfum veturinn til þess. Þeir sem hér eru mega gjarnan láta það berast að öllum íbúum bæjarins sem áhuga og getu hafa býðst að gerast hjólarar. Ekki þarf að hafa einhver persónuleg tengsl við íbúa Hvamms til að geta gerst hjólari. Það má hafa samband við okkur Björgu, við skráum hjólarana.

Í mars-apríl, allt eftir snjóalögum í vor verður haldinn fundur eða eins konar námskeið með tilvonandi hjólurum. Þar förum við yfir bókunarkerfi og annað sem lítur að því að vera hjólari. Hugmyndin er að stofna hóp á fésbókinni góðu fyrir hjólara.

Verkefninu Hjólað óháð aldri fylgir ákveðið bókunarkerfi, GO heitir það og við höfum veturinn til að kynna okkur það“ Sagði Halla Rún en eftir athöfnina fór Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings í fyrstu ferðina á hjólinu og farþegar voru Viðar Vagnsson frá Hriflu og Dýrleif Andrésdóttir frá Leirhöfn. (fréttin er tekin af þeim ágæta miðli 640.is fyrir utan fyrirsögnina, myndir og myndtexta)

jolafundur2016-068

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stéttarfélögin á Húsavík tóku þátt í kaupum á reiðhjóli fyrir aldraðra sem afhent var á dögunum.

jolafundur2016-057

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hópur fólks var saman komin þegar hjóið var afhent.

jolafundur2016-077

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings lagði svo í hann með tvo heimilsmenn á Hvammi í fallegu vetrarveðri.

 

Stéttarfélögin taka þátt í forvarnarverkefni með Lionsklúbbi Húsavíkur og HSN

Í morgun undirrituðu fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og Lionsklúbbur Húsavíkur undir áframhaldandi samstarf um stuðning félaganna við verkefni vegna forvarna gegn ristilkrabbameini sem Lionsklúbbur Húsavíkur og HSN á Húsavík hafa sammælst um að standa fyrir áfram það er á árunum 2017 til 2021. Sömu aðilar hafa staðið fyrir sambærilegu verkefni síðustu 5 árin. Í ljósi reynslunnar og mikilvægi þessara forvarna hafa aðstandendur verkefnisins ákveðið að halda því áfram með stuðningi úr samfélaginu þar á meðal frá stéttarfélögunum sem leggja verkefninu til kr. 1.000.000,-. Þannig verður áfram hægt að bjóða öllum einstaklingum sem verða 55 ára á ári hverju og búsettir eru á svæði HSN á Húsavík, sem er frá Stórutjörnum í vestri að Brekknaheiði í austri, að gangast undir endurgjaldslausa  ristilspeglun hjá HSN á Húsavík.

Stéttarfélögin sem standa að verkefninu eru: Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Aðalsteinn Árni Baldursson forstöðumaður Skrifstofu stéttarfélaganna og Huld Aðalbjarnardóttir skrifstofu- og fjármálastjóri stéttarfélaganna eru hér ásamt Birgi Þórðarsyni frá Lionsklúbbi Húsavíkur eftir undirskriftina í morgun. Við það tækifæri þakkaði Aðalsteinn Lionsklúbbnum fyrir frumkvæði þeirra að þessu mikilvæga og þarfa verkefni sem væri til mikillar fyrirmyndar.

Starfsmenn Jarðborana teknir húsi

Fulltrúar frá Framsýn, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitinu fóru í vinnustaðaeftirlit fyrir helgina. Meðal vinnustaða sem voru heimsóttir var athafnasvæði Jarðborana á Þeistareykjum en þar vinna starfsmenn fyrirtækisins við jarðboranir ásamt undirverktökum. Að vanda voru starfsmenn í góðu skapi og með sín mál í lagi. Sjá myndir sem teknar voru í heimsókninni.

jolafundur2016-039jolafundur2016-046

Gleði á jólafundi Framsýnar

Síðasta föstudag var haldinn síðasti fundur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu 2016. Í tilefni af því var starfsmönnum félagsins, trúnaðarmönnum og stjórnum deilda innan Framsýnar boðið að taka þátt í fundinum sem fór vel fram. Eftir venjuleg fundarstörf skemmtu fundarmenn sér saman auk þess að borða veislumat frá Fosshótel Húsavík sem klikkaði ekki. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í gleðskapnum.

jolafundur2016-089jolafundur2016-201jolafundur2016-195jolafundur2016-196jolafundur2016-192 jolafundur2016-083jolafundur2016-148jolafundur2016-093jolafundur2016-171jolafundur2016-101jolafundur2016-139jolafundur2016-175jolafundur2016-167

Þrýsta á ráðherra með bréfi

Eins og fram kom á heimasíðu stéttarfélaganna fyrir helgi samþykkti Framsýn að senda frá sér ályktun vegna stöðu Framhaldsskólans á Húsavík. Til að þrýsta enn frekar á málið fór bréf frá félaginu til menntamálaráðherra enda málið mjög alvarlegt. Hér má lesa bréfið:

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson
Sölvhólsgötu 4
101 Reykjavík
Húsavík 30. nóvember 2016

Efni: Framhaldsskólinn á Húsavík
Hlutverk og markmið skólagöngu er samkvæmt lögum að stuðla m.a. að alhliða þroska nemenda, þjálfa margvísilega hæfni og miðla þekkingu. Framhaldsskólar gegna þar mikilvægu hlutverki og eru ein af grundvallarstoðum þess samfélags sem þeim er ætlað að þjóna.
Framhaldsskólinn á Húsavík hefur í gegnum tíðina þróast að breyttum kröfum eftir því sem við hefur átt. Hann hefur verið vel rekinn og oftar en ekki skilað fjárhagslegum afgangi miðað við fjárframlög. Eins og menntamálaráðherra er vel kunnugt um krafðist ný og metnaðarfull aðalnámskrá gagngerra breytinga á skipulagi náms nemenda með tilætlaðri vinnu og álagi á skólana. Eðlilega skarast þessi tvö kerfi á meðan nemendur úr eldra námsskipulaginu klára sitt nám. Þessi skörun kallar á aukið framboð á áföngum og ætla mætti að yfirvöld menntamála hefðu tekið tillit til þessa við úthlutun fjármagns til skólanna, ekki síst til smærri skólanna sem hafa minni möguleika á hagræðingu og hafa jafnar skyldur til að uppfylla hlutverk laga um framhaldsskóla. Jafnframt hækkuðu laun framhaldsskólakennara umtalsvert sem kallaði enn frekar á aukin fjárframlög.
Þessar forsendur þekkja yfirvöld menntamála mjög vel og er því með öllu óskiljanleg sú staða sem framhaldsskólarnir eru settir í með tregðu á fjármagni þannig að skólarnir geti staðið við skuldbindingar sínar og greitt eðlilega reikninga. Framhaldsskólinn á Húsavík hefur vissulega brugðist við þrengri fjárframlögum, fækkað stöðugildum og dregið saman í rekstri. Samt sem áður vantar upp á svo endar nái sama. Ekki er um að ræða stórar fjárhæðir sem gerir málið enn vandræðalegra fyrir yfirvöld menntamála í landinu sem bera ábyrgð á þessu skólastigi.
Aukin fjárframlög vegna launahækkana til FSH námu aðeins um 30% af raunhækkunum auk þess sem fjárframlög vegna skipulagsbreytinga að kröfu aðalnámskrár voru ekki í takti við þær áætlanir. Af hverju fjármagn fylgir ekki ákvörðunum ráðuneyta sem krefjast fjárúthlutunar vekur furður Framsýnar stéttarfélags og vekur upp spurningar um faglegan metnað menntamálayfirvalda gagnvart skólanum. Á meðan stjórnendur skólans þurfa að nýta allan sinn tíma til að finna leiðir til að endar nái saman fjárhagslega, slökkva elda og aðlaga skólann að nýrri aðalnámskrá gefst enginn tími til að leiða skólann til frekari faglegrar þróunar.
Frá því í mars 2016 hefur verið ljóst að staða skólameistara skólans yrði laus frá ágúst 2016. Þessi staða var ekki auglýst og skipaður var skólameistari til 31. desember 2016 á síðustu metrunum fyrir skólabyrjun í haust. Enn er staða skólameistara ekki auglýst sem augljóslega skilur skólann og skólaumhverfið eftir í mikilli óvissu. Hvað menntamálaráðherra gengur til með slíkum vinnubrögðum er erfitt að ráða í en bendir til áhuga- og metnaðarleysis gagnvart skólanum og menntun ungmenna á svæðinu.
Þessi staða Framhaldsskólans á Húsavík sem yfirvöld menntamál í landinu bera ábyrgð á er í besta falli vandræðaleg og kallar á augljósar aðgerðir til bóta þegar í stað. Skólasamfélagið á rétt á samkvæmt lögum á að rekstrarumhverfi Framhaldsskólans á Húsavík ýti undir faglega forystu á traustum fjárhagsgrunni.
Meðfylgjandi er ályktun Framsýnar stéttarfélags.

Virðingafyllst

f.h. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður

Afrit:
Skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík
Sveitarfélagið Norðurþing

Ályktun um fjárhagsvanda FSH og stöðu skólameistara

Eftirfarandi ályktun var samþykkt af stjórn Framsýnar, stéttarfélags miðvikudaginn 30. nóvember 2016.

Ályktun um fjárhagsvanda Framhaldsskólans á Húsavík og stöðu skólameistara

Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir áhyggjur Skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík sem lýsir yfir þungum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu skólans og kallar eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja rekstrargrundvöll skólans til framtíðar.

Þrátt fyrir að stjórnendur hafi sýnt mikla ábyrgð í rekstri skólans hefur það ekki dugað til þar skólanum hefur ekki verið gert kleift að standa undir daglegum rekstri sem rekja má til þess að framlög ríkisins hafa ekki verið í takt við skuldbindingar skólans ekki síst vegna launahækkana kennara. Að sjálfsögðu er það á ábyrgð stjórnvalda að tryggja skólanum rekstrarfé til starfseminnar á hverjum tíma og gildandi laga um framhaldsskólamenntun á Íslandi.

Þá krefst Framsýn þess að Menntamálaráðuneytið auglýsi nú þegar eftir skólameistara við Framhaldsskólann á Húsavík og eyði þannig þeirri óvissu sem myndast hefur um framtíð skólans sem gegnir greiðalega mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Núverandi skólameistari var ráðinn tímabundið fram að næstu áramótum.

Framsýn auglýsir jafnframt eftir skoðunum þingmanna kjördæmisins á þessari alvarlegu stöðu sem í aðdraganda kosninga töluðu fyrir mikilvægi menntunar í heimabyggð, þingmenn sem í dag eru hljóðir um stöðu mála.

Heimsókn í Kröflu

Í gær fóru starfsmenn stéttarfélaganna í heimsókn í Kröflu. Þar er verktakafyrirtækið Ístak að byggja tengivirki. Um 25 starfsmenn hafa verið í Kröflu upp á síðkastið en framkvæmdir hófust í ágúst.

Heimsóknin var hin ánægjulegasta. Ístak lagði fram ósk sína um að eiga gott stamstarf við stéttarfélögin og þeirra einlæga vilja til að hafa hlutina í góðu lagi.

Hér á eftir eru nokkrar myndir frá heimsókninni. Á forsíðumyndinni eru frá vinstri, Helgi Valur staðarstjóri í Kröflu, Karl framkvæmdarstjóri Ístaks og Bjarki mannauðsstjóri. Hjá þeim stendur svo Aðalsteinn Á. Baldursson.img_0999img_0994 img_1009 img_1011 img_1013 img_1022

Jakob áfram í vara sambandsstjórn SSÍ

Þing Sjómannasambands Íslands fór fram fyrir helgina. Þingið fór vel fram og voru kjaramál og önnur mál til umræðu auk þess sem kosið var í trúnaðarstöður fyrir sambandið. Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar hlaut kjör í vara sambandsstjórn. Hér má lesa ályktanir þingsins.

Ályktanir 30. þings Sjómannasambands Íslands 24. og 25. nóvember 2016.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að skattfríðindi íslenskra sjómanna verði lögfest að nýju þannig að þeir njóti sambærilegra skattfríðinda og sjómenn annarra fiskveiðiþjóða.

30. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands. Með því móti er hægt að treysta því að mælingar á breytingum á afurðaverði séu réttar á hverjum tíma.

30. þing Sjómannasambands Íslands fagnar fyrirhugaðri könnun á hvíldar- og vinnutíma íslenskra sjómanna. Þingið telur að aðkoma sjómannasamtakanna að könnuninni sé algert lykilatriði og að hún verði unnin í nánu samstarfi við sjómennina sjálfa eins og fyrirhugað er. Að mati þingsins þarf að gera slíkar athuganir reglulega þannig að fyllsta öryggis sé ávallt gætt um borð í skipum. Í framhaldi af þeim athugunum verði settar reglur um lágmarks mönnum fiskiskipa við veiðar eftir stærð, gerð og veiðiaðferðum þeirra.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntunarsjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði veiðiskylda aukin verulega.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. Þingið telur nauðsynlegt að öll áhöfnin staðfesti með undirskrift að æfing hafi verið haldin um borð. Þannig er komið í veg fyrir málamyndaæfingar. Einnig skorar þingið á yfirmenn fiskiskipa að sjá til þess að nýliðar fái lögbundna fræðslu um öryggibúnað og hættur um borð.

30. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt rekstrarfé á hverjum tíma. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. Til að öryggi sé sem best tryggt þarf að mati þingsins að staðsetja þyrlur víðar um landið en nú er gert.
30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland

30. þing Sjómannasambands Íslans hvetur til þess að fjarskiptamál sjófarenda verði skoðuð með það að markmiði að lækka kostnað sjómanna vegna fjarskipa þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annarra landsmanna.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir og skipstjórnarmenn til að virða lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lagmarks hvíldartíma sjómanna.

30. þing Sjómannasambands Íslands hvetur Samgöngustofu til að fylgjast vel með öryggisbúnaði skipa og afnema allar undanþágur vegna ágalla í öryggisbúnaði. Einnig hvetur þingið til þess að allar reglur um öryggisbúnað verði samræmdar burtséð frá aldri skipa.

30. þing Sjómannasambands Íslands þakkar Slysavarnarskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.
30. þing Sjómannasambands Íslands skorar á Íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samkiptum.