Samstarf við ASÍ um ábyrgð fyrirtækja innan Vakans

Ferðamálastofa, fyrir hönd Vakans, og Alþýðusamband Íslands skrifuðu í dag undir samstarfssamning með það að markmiði að þátttakendur í Vakanum starfi eftir gildandi kjarasamningum. Með þessu er leitast við að styrkja það hlutverk Vakans að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan ferðaþjónustunnar.

Þátttakendur í Vakanum virði kjarasamninga

Í samningnum er kveðið á um þegar fyrirtæki sækir um þátttöku í Vakanum, verður aflað upplýsinga hjá ASÍ um hvort alvarlegur ágreiningur sé á milli viðkomandi fyrirtækis og stéttarfélaga sem starfsmenn þess tilheyra. Jafnframt mun ASÍ  í byrjun hvers árs fara yfir þátttakendalista Vakans þannig að tryggt sé, eins og kostur er, að þátttakendur séu ekki brotlegir við kjarasamninga og lög um réttindi starfsmanna. Séu gerðar alvarlegar athugasemdir vegna brota fyrirtækis á gildandi kjarasamningum, getur það ekki verið þátttakandi í Vakanum fyrr en úr hefur verið bætt.

Yfirlýsing um sjálfboðaliðastörf

Í þessu sambandi má einnig nefna yfirlýsingu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá því síðastliðið haust um sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins. Þar kemur m.a. fram að það sé sameiginlegt viðfangsefni aðila að fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga. Sérstaklega er rætt um mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur ríki um störf sjálfboðaliða og hvar þau geti átt rétt á sér, s.s. í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmálum. Áréttað er að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja, eins og það er orðað. Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands hafa undirritað sambærilegt samkomulag.

Á myndinni má sjá Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamáalstjóra og Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ undirrita samstarfssamninginn.

(frétt tekin af asi.is)

Deila á