Sérlaunastefna alþingismanna

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í dag samantekt frá Hagstofu Íslands um þróun launakjara alþingismanna undanfarin áratug. Í þeim tölum er staðfest að á árunum 2013-2016 hafa regluleg laun þingmanna hækkað umtalsvert meira en hjá öðrum hópum eða um 68% á sama tíma og laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 26% og laun opinberra starfsmanna um ríflega 31%. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra lækkunar á starfstengdum greiðslum til þingmanna, sem forsætisnefnd samþykkti í janúar, hafa launa þingmanna samt sem áður hækkað umtalsvert umfram almanna launaþróun, eða um 42,5%.
Í samanburði ráðuneytisins eru laun þingmanna borin saman við þróun launavísitölu aftur til ársins 2006. Í þeim samanburði er þannig með öllu horft fram hjá því að rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins, sem ríki og sveitarfélög undirrituðu, byggir á sameiginlegri launastefnu til ársloka 2018 um að launakostnaður aukist ekki umfram 32% á tímabilinu frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Það tímabil sem miðað er við í rammasamkomulaginu er ekki tilviljun. Með því að horfa til tímabilsins frá 2013 var verið að verja sérstakar hækkanir lægstu launa í kjarasamningum undanfarin áratug. Þau skilaboð sem felast í því að miða launaþróun alþingismanna við tímabilið aftur til ársins 2006 eru því þau, að alþingismenn eigi að njóta þeirra sérstöku hækkana sem samið hefur verið um fyrir láglaunahópa undanfarin áratug í sínum launum. Þetta skýtur nokkuð skökku við í ljósi þess að laun þingmanna jafngilda launum um fimm fullvinnandi verkamanna á lágmarkslaunum.
Með undirritun rammasamkomulagsins árið 2015 undirgengust ríki og sveitarfélög að fylgja ofangreindri launastefnu í kjarasamningum við sína starfmenn. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa að slíkt hið sama eigi við um þjóðkjörna fulltrúa. Í sameiginlegri yfirlýsingu ASÍ og SA við undirritun samkomulagsins um frestun á uppsagnarheimild kjarasamninga til loka febrúar 2018 var sérstaklega áréttuð krafa samtakanna um að æðstu embættismenn og kjörnir fulltrúar fylgi sömu launastefnu og samið var um í rammasamkomulaginu. Þessar upplýsingar sem ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála gefa tilefni til að árétta þá kröfu.

(frétt tekin af asi.is)

Deila á