Telja ekki ástæðu til að sameinast öðrum sjóðum

Framsýn fór þess á leit við stjórn Stapa að skoðað yrði hvort ekki mæti hagræða í starfsemi sjóðsins með sameiningu við aðra lífeyrissjóði þannig að auka mætti um leið réttindi sjóðfélaga til lífeyris.
Félaginu hefur nú borist svar frá Stapa. Þar kemur fram að sjóðurinn hafi í kjölfar bréfsins frá Framsýn látið kanna rekstrarkostnað sjóðsins í samanburði við rekstrarkostnað annarra lífeyrissjóða.
Samanburðurinn hafi leitt í ljós að rekstrarkostnaður Stapa, sem hlutfall af eignum, væri nokkuð sambærilegur við kostnað hjá mun stærri sjóðum og talsvert lægri en hjá þeim sjóðum sem koma næstir á eftir Stapa í stærð.
Að þessu gefnu telur stjórn sjóðsins ekki ástæðu til að hefja viðræður við aðra sjóði um sameiningu við aðra sjóði. Þá sé styrkur fólginn í því að hafa sterkan landsbyggðarsjóð með höfuðstöðvar á landsbyggðinni.
Stjórn Framsýnar tók svar sjóðsins fyrir á stjórnarfundi í gær. Umræður urðu um málið sem ekki verða tíundaðar sérstaklega í þessari frétt.

 

Deila á