Frjáls samningsréttur- burt með SALEK

Stjórn Framsýnar, stéttarfélags samþykkti í dag að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu kjaramála og SALEK samkomulagið sem félagið varar eindregið við enda hættulegt tilvrurétti stéttarfélaga. 

Ályktun um kjaramál
-Framsýn vill SALEK samkomulagið út af borðinu-

 Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir með samtökum launafólks sem gagnrýnt hafa haftastefnu Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands og endurspeglast í SALEK samkomulaginu.

 Framsýn telur SALEK samkomulagið hættulega aðför að frelsi og tilverurétti stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör félagsmanna og þess sem atvinnulífið þolir á hverjum tíma. Félagið telur einnig að ekki eigi að vera á forræði ákveðins þrýstihóps að ákveða launamyndun í þjóðfélaginu. Í ljósi þess er mikilvægt að afgreiða SALEK samkomulagið út af borðinu þegar í stað.

Opinberir starfsmenn eiga að sjálfsögðu að hafa heimild til að semja um sín kjör á eigin forsendum sem oftar en ekki taka mið af löngu og kostnaðarsömu háskólanámi. Þannig á fiskvinnslufólk einnig að hafa fullan rétt á að sækja launahækkanir í vasa sjávarútvegsins, sem malað hefur gull á síðustu árum og skilað tugum milljarða til hluthafa. Á sama tíma hefur fiskvinnslufólk setið eftir enda innrammað inn í SALEK samkomulagið líkt og annað verkafólk.  Það eiga allir að standa jafnir þegar kemur að því að semja um kaup og kjör, burtséð frá atvinnugreinum.

Norræna samningamódelið hefur verið rómað af forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem er merkilegt í ljósi þess að það er mjög umdeilt á Norðurlöndunum. Samningalíkanið er ekki síður umdeilt innan verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi samanber ályktun 42. þings ASÍ frá 26.-28. október 2016.

Á Íslandi er almenn þátttaka í stéttarfélögum, vinnumarkaðurinn þroskaður og flestir launþegar starfandi eftir kjarasamningum.  Því miður er því ekki þannig farið hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Þar stendur stór hópur launþega utan stéttarfélaga og án kjarasamninga.

               Er þetta fyrirkomulagið sem ber að innleiða á Íslandi, NEI TAKK

 

 

 

„Berjumst fyrir virðingu og réttlæti“ sagði Helgi Pétursson fulltrúi Gráa hersins.

„Við erum aðeins að biðja um réttlæti, virðingu og sanngirni, sagði Helgi Pétursson, einn forvígismanna Gráa hersins á fjölmennum hádegisfundi Framsýnar á Fosshótel Húsavík. Fundurinn fór fram í gær.

Helgi lagði áherslu á það tómlæti sem ríkti í þjóðfélaginu gangvart eldra fólki, sem gjarnan væri allt sett undir sama hatt, – þótt gríðarlegur munur sé á félagslegri stöðu, heilsu og fjárhag fólks í kringum sextugt og þeirra sem komnir væru á miklu efri ár. „Það er okkur öllum til skammar, meðferð okkar á langveiku fullorðnu fólki sem við látum híma á göngum, í geymslum og vera fyrir á hátæknideildum Landspítalans – um eitthundrað manns á hverjum tíma. Það er með ólíkindum að eitthvað reikningsséni geti fundið það út að svo sé hægt að hafa hlutina í stað þess að byggja hjúkrunarheimili. Það vantar 570 hjúkrunarheimilispláss, – það er löngu vitað og það vita allir sem eiga að vita“, sagði Helgi.

Það úrlausnarmál sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir er að sem betur fer er eldra fólk hraustara og við betri heilsu og lifir miklu lengur en fyrri kynslóðir. En öll kerfin sem eiga að þjóna þessum aldurshópi, virka ekki.

Kerfin virka ekki.

„Heilbrigðiskerfið er skaddað, tryggingakerfið er margstagbætt óskiljanlegt fyrirbæri og húsnæðiskerfið er á engan hátt að svara óskum eldra fólks um liltar íbúðir, ekki frekar en fyrir yngsta aldurshópinn““, sagði Helgi. „Gróðasjónarmið steypuaðalsins og hótelbransans hafa lengi ráðið ferð og fjárvana sveitarfélög spilað með, enda hlunnfarnin af ríkinu eftir bestu getu þar á bæ, t.d. með því að neita sveitarfélögunum um hlutdeild í virðisaukaskatti.“

Meginágreiningsefni Gráa hersins og hins opinbera segir Helgi hins vegar vera skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun með hliðsjón af tekjum, t.d. af lífeyristekjum. „Þessar skerðingar eru fyrir löngu komnar út fyrir öll þjófamörk“, sagði Helgi. „Við gerðum samkomulag um greiðslu skatta til Tryggingarstofnunar  árið 1946 og stofnuðum síðan til eigin lífeyrissjóða í áföngum frá 1949.  Það eru okkar eigin peningar, hluti af launum okkar og hefur ekkert með Ríkið að gera. Það, að Ríkið skuli síðan velta greiðslum yfir á okkar eigin lífeyriskerfi með skerðingum á greiðslum frá Tryggingastofnun, er einfaldlega eignaupptaka – sumir segja þjófnaður. Á þetta verðum við á láta reyna fyrir dómstólum, það er ekki hægt að draga þetta svona árum saman“, sagði Helgi.

Fáránlegt frítekjumark.

Helgi benti einnig að, að verkefnin væru ærin og alltaf að bætast við. Það nýjasta væri lækkun frítekjumarks í nýjum lögum úr 108 þús. Í 25. þús „allt afgreitt nánast á færibandi með gríðarlegum göllum í gegnum þingið um áramót, enda viðurkenndu stjórnmálakrakkarnir hver á fætur öðrum að hafa ekki lesið málið. Það segir allt um áhuga þeirra á málefnum eldra fólks“  Með því sagði Helgi að hlutur þess sem ynni sér inn 100 þús. Kr. yrði 30 þús. eða 70% skattheimta og skerðingar.

Í lok fundarins færði Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, Gráa hernum yfirlýsingu stjórnar þess efnis að ef til málaferla kæmi, myndi Framsýn styðja Gráa herinn vegna þeirra um 100 þús. Kr. sem Helgi sagði að væri upphafið að mjög spennandi tímum í málefnum eldra fólks.

2153

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalsteinn færir Gráa hernum styrk frá Framsýn til að fara í mál við ríkið.

2028

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fjölmenni var á fundi sem Framsýn stóð fyrir á Fosshótel Húsavík í hádeginu í gær.

„Okkar tími mun koma……….“

María Axfjörð sem starfar sem bókari á Akureyri flutti magnaða ræðu á fjölmennum fundi Framsýnar í gær um málefni eftirlaunafólks. Hún gaf okkur leyfi til að birta hana.

Fundarstjóri, ágætu Húsvíkingar

„Okkar tími mun koma……….“ var yfirskrift ráðstefnu sem Háskólinn á Akureyri hélt í október s.l. og ég flutti þennan fyrirlestur á. Þessi yfirskrift minnti mig strax á orð sem ég las einu sinni í viðtali við þá mætu konu Vilborgu Dagbjartsdóttur. Mér fannst þau svo umhugsunarverð: “Fólk er alltaf að tala um að tíminn sé að fljúga frá því. En líf okkar er ekki að styttast, líf okkar lengist á hverjum degi um heilan dag og við eigum að gleðjast yfir því. Ég finn yfir gleði yfir því á hverjum degi að ég skuli vera búin að fá einn dag í viðbót“

Þetta finnst mér svo falleg hugsun um tímann, sem er svo skemmtilegt fyrirbæri.

Til að hafa það á hreinu, strax í upphafi máls, þá vil ég taka það fram að ég gef mig ekki út fyrir að vera sérfræðingur í neinu af því sem mér er ætlað að tala hér um, hvorki í öldruðum, störfum, né störfum aldraðra.

En hver er ég þá ? ………………………… 63 ára kona með reynslu. Mér vefst alltaf tunga um tönn þegar ég er beðin um að þegar ég er beðin um að segja hver og hvað ég er. Ég lenti í smá vandræðum þegar verið var að kynna ráðstefnuna þarna í haust, og aftur í rauninni núna þegar Aðalsteinn vinur minn vildi frá titil til að setja í auglýsingu. Hvað á eiginlega að titla mig? Kona sem býr í Klettaborg segir ekki margt. Ég er 63 ára gömul, fædd á Akureyri, bjó lengi á Húsavík, lengst af í Sólbrekkunni og flutti til Akureyrar fyrir nærri því fimmtán árum síðan. Þegar maður hefur verið svo lánsamur að ná þessum merkilega aldri, þá ber maður auðvitað marga titla. Ég er mamma, amma, eiginkona, dóttir og fósturdóttir, barnabarn, systir, frænka…. og svo framvegis.

Ég hef líka borið nokkra titla  sem tengjast þátttöku minni í atvinnulífinu, fyrsta starfið var í sjoppunni á gamla hótelinu sem brann svo seinna, ég hef verið skrifstofustúlka og launafulltrúi, bókari, fjármálastjóri, móttökustjóri, aðstoðarhótelstjóri, og hótelstjóri í afleysingum, ritstjóri og reddari, auk þess að vera bensíntittur, ræstingakona og leiðsögumaður. Ég hef skipulagt ráðstefnur og fundi, stýrt öflugu félagi, setið í ýmsum stjórnum bæði innanlands og utan, sem sagt stjórnað í ýmsu og skipulagt allt mögulegt. Svo hef ég meira að segja stundum verið leikari og söngkona, hef svokallaða „víðtæka reynslu“ skyldi maður halda.

En, svo það sé sagt, þá hef ég ekki háskólamenntun, hvorki sem nýtist í leik eða starfi, það er alveg satt. Ég hef reyndar nokkrar einingar í Nútímafræðinni, sem ég varð að hætta í af heilsuástæðum á sínum tíma. En sennilega nýtist það illa í starfi.

En nú ætla ég að segja ykkur reynslusögu.

Fyrir rúmlega tveimur árum, á fallegum haustdegi í september 2014 mætti ég  í vinnuna mína eins og venjulega, þar sem ég hafði starfað undanfarin 11 ár. Þetta var vinnustaður og starfsumhverfi sem ég þekkti og var mér kært. Ég hafði notið þess í þessu starfi að vera með flinku og góðu fólki í að byggja upp fyrirtæki alveg frá grunni í vaxandi atvinnugrein og naut þar trausts og velvilja. Sem sagt, ég naut mín virkilega í vinnunni og vissi ekki annað en að allt væri í blóma. En þennan fallega morgun kom framkvæmdastjórinn í vinnuna með tilbúið uppsagnarbréf til mín, eftir stjórnarfund daginn áður. Og hlutirnir gerðust hratt. Áður en vikan var liðin þá var ég hætt í vinnunni. Komin „út á götuna“ svo það sé orðað svolítið dramatískt. Auðvitað með minn uppsagnarfrest og allt það á hreinu, allt gert löglega og rétt, en enga vinnu lengur. Ástæður uppsagnarinnar voru………………  skipulagsbreytingar!

Að segja að mér hafi brugðið við uppsögnina er ekki rétt. Ég fékk áfall. Ég hefði aldrei trúað því fyrirfram hvað þetta var erfitt. Það reyndi verulega á mín lífsmottó að vera alltaf jákvæð og bjartsýn, hafa trú á sjálfri mér, taka áskorunum og sjá alltaf stóru myndina. Gefa öllu séns.

En það verð ég að segja að þetta var heilmikil lífsreynsla.

Ég hóf strax leit að nýrri vinnu. Og þá byrjaði nú fjörið, og þá reyndi verulega á þetta með bjartsýnina og jákvæðnina.

Ég sótti strax um alla þá vinnu sem var auglýst. Sendi ferilsskrána mína með, taldi að þar kæmi vel fram hversu fjölbreytta og langa reynslu ég hefði. Til að gera langa sögu stutta, þá fékk ég ekki mikil viðbrögð,stundum engin, en þó komst ég í nokkur viðtöl. Ég var býsna góð með mig til að byrja með, enda taldi ég mig hafa góða og langa og fjölbreytta reynslu, gott orðspor í vinnu, vissi að ég var hraust og til í ýmislegt. Mjög áhugasöm um lífið og tilveruna og fylgist vel með. Einhver spurði mig hvort ég vildi ekki bara hætta alveg að vinna, komin á þennan aldur, en mér fannst ég alls ekki vera komin að þeim tímamótum. Mig langaði bara til að finna góða, krefjandi vinnu þar sem ég væri metin að verðleikum, þar sem ég gæti mætt á morgnana á snyrtilegan vinnustað, fengið mér gott kaffi, kveikt á útvarpinu og byrjað að vinna. Ég lét það ekkert aftra mér frá því að sækja um störf, þótt beðið væri um háskólamenntun, taldi mig hljóta að eiga alveg möguleika á við einhvern nýútskrifaðan úr háskóla…. ég með alla mína reynslu !

Til að gera mjög langa sögu stutta, þá sótti ég um milli 20 og 30 störf á þessum tíma, og þurfti að éta ýmislegt ofaní mig. Mér hefur, satt best að segja, aldrei á ævinni nema á þessu atvinnuleitartímabili, fundist ég vera ómenntuð kelling.

Og ég sem er svo ánægð með að hafa náð þessum aldri, ég er orðin eldri en báðir foreldrar mínir náðu að verða.

En það var auðvitað ekki bara aldurinn, heldur líka þessi skortur minn á háskólamenntun. Og reynslan virtist ekki telja neitt upp á móti því.

Ég er hugsi yfir því sem ég lærði þarna. Ég hafði auðvitað oft heyrt talað um að það væri erfitt fyrir eldra fólk sem missir vinnuna að  finna nýja vinnu. En þarna upplifði ég það í fyrsta skipti á eigin skinni.

Erum við virkilega svona ríkt samfélag að við höfum efni á því að hafna allri reynslu og þekkingu fólks sem farið er að nálgast fimmtugs-og sextugsaldurinn? Varla getur það talist þjóðhagslega hagkvæmt að fólk með fulla starfsorku og gífurlega reynslu fari hálfnauðugt á eftirlaun um sextugt?… eða fyrr? Vissulega er til fullt af fólki sem getur ekki beðið eftir því að geta hætt að vinna, og allt fínt með það. Sem betur fer eru ekki allir eins með það. Hann bróðir minn sem var einn af þeim sem RÚV sagði upp í stóru uppsögnunum fyrir nokkrum árum, er mjög reyndur og fær tæknimaður. Hann er menntaður í sínu fagi og hafði verið yfirmaður á sinni deild í a.m.k. 10-15 ár, með mikil mannaforráð, stýrt mörgum mjög tæknilega flóknum beinum útsendingum, hann hefur unnið við það í vetur að keyra út kjöt. Hann hefur að öðru leyti verið atvinnulaus síðan RÚV sparkaði honum.

Þeta er auðvitað RUGL. Þetta er sóun á reynslu og þekkingu og kröftum fullfrísks fólks.

Mér fannst ég líka upplifa í viðbrögðum, og skorti á viðbrögðum við mínum atvinnuumsóknum, hlut sem ég kýs að kalla menntahroka. Og ég ákvað að segja það bara upphátt, tala hreinskilnislega um það. Ekki láta eins og það sé ekki hluti af þessu öllu. Því það er það nefnilega.

Það er endalaust auglýst eftir „háskólamenntun sem nýtist í starfi“….. fyrir ólíklegustu störf.

Iðnmenntum sem nýtist í starfi er sjaldnar nefnd, eða bara almennt góð menntun sem nýtist í starfi. Nei, háskólamenntun skal það vera.

Ég er þannig skapi farin að þetta gerir mig reiða og pirraða. Mér finnst þetta vera þröngsýni – og hroki.

Núna síðast fannst mér þessi viðhorf koma fram s.l. haust í umræðum um það að eldri borgarar gætu kannski hjálpað til og komið inn á leikskóla og frístundaheimili. Þar sem sárvantar vinnuafl svo til vandræða horfir. Þar komu strax fram þessi pappakassalegu viðhorf. Og urðu auðvitað til þess að þær hugmyndir sem þarna komu fram, komust ekki í framkvæmd. Samt vantar fólk á leikskólana og ekki fást þar nægilega margir starfsmenn með „háskólamenntun sem nýtist í starfi“

Og alls ekki misskilja mig,í guðanna bænum! Ég er auðvitað alls ekki á móti því að fólk sé menntað. Að sjálfsögðu á fólk að mennta sig vel, helst líka að vera að mennta sig allt lífið. Ég vil t.d. að heimspeki og siðfræði séu kennd strax í grunnskóla, held að það myndi búa blessuð börnin okkar vel bæði undir lífið sjálft og auðvitað líka frekara nám. En ég fæ því ekki komið inn í minn haus að það sé eitthvað merkilegra að hafa svokallaða „æðri menntun“ eins og háskólamenntun er gjarnan kölluð, heldur en að hafa annars konar menntun. Og líka þetta, af hverju heitir þetta „æðri“ menntun?

Nú er ég sennilega komin út fyrir efnið, svona er þetta þegar maður brennur fyrir einhverju.

­Til að halda áfram með söguna mína og atvinnuleitina: Eftir níu mánuði án atvinnu, kom að því að ég sá enn eina auglýsinguna þar sem auglýst var eftir bókara, og viti menn, einmitt með sérþekkingu á því bókhaldskerfi sem ég þekki best og hef unnið mest með. Og ég sendi strax inn umsókn.

Og undrið skeði, allt í einu hitti ég þar fyrir stjórnendur sem litu á það sem kost að ég hefði mikla og fjölbreytta reynslu, að ég væri heilsuhraust og ekki með lítil börn lengur. Og kennitalan mín, hún glansaði þarna.

Og þar er ég í dag. Í góðri krefjandi vinnu, þar sem ég mæti á morgnana á snyrtilegan vinnustað, fæ mér kaffi, kveiki á útvarpinu og byrja að vinna.

En vissilega hefur þetta haldið áfram að velkjast í kollinum á mér. Þetta með að samfélagið hafi efni á að hafna vinnukröftum einhvers á forsendum kennitölunnar. Því það er virkilega þannig. Hugsið ykkur bara hvað það kostar mikið að þjálfa upp nýtt starfsfólk, og hvað reynsla í starfi er í raun dýrmæt í peningum. Hugsið ykkur hvað væri hægt að nýta þessa einstaklinga til hags fyrir samfélagið okkar?

Og líka þetta: af hverju er ég heppin að hafa fengið nýja vinnu eftir sextugt ??? Er það rétt hugsun að það sé heppni?  Mér finnst eiginlega að ég hafi alveg átt það skilið að fá þessa góðu vinnu, fyrst ég sóttist eftir því. Ég gæti haldið tveggja tíma tölu um þetta, en hlífi ykkur við því.

Fósturmóðir mín, hún  Krumma mín, sem var nærri því 96 ára, sístarfandi, hress og ern fram á síðasta dag sagði einu sinni við mig: „ég skil aldrei hvaða gamla kona þetta er sem ég sé þegar ég lít í spegilinn, ég er alltaf ung stúlka inní mér“

Kannski var það vandamálið þegar ég var í atvinnuleitinni: Ég sá fríska, reynslumikla, kraftmikla konu, á besta aldri, en atvinnurekendurnir sáu  gamla konu. – Takk fyrir.

 

 

 

Þau sem mörkuðu sporin með blóði sínu, svita og tárum

Ósk Helgadóttir varaformðaur Framsýnar opnaði fundinn sem félagið stóð fyrir á Fosshótel Húsavík í gær um málefni eftirlaunafólks. Hér má lesa ávarpið hennar.

Góðir gestir

Mér er það afar ljúft að standa hér í dag og fá að bjóða ykkur velkomin til þessa fundar sem er sá fyrsti í fyrirhugaðri fundarröð sem við Framsýnarfólk höfum áætlað á næstu vikum, en framundan hjá okkur eru einnig fundir um atvinnumál, landbúnaðarmál og efnahagsmál.

Mál málanna í dag er sannarlega þarft að taka til umræðu. Það eru starfslok og önnur málefni eldra fólks. Þjóðin eldist, um það verður ekki deilt, en ríflega 12 % þjóðarinnar er nú 67 ára eða eldri og fer það hlutfall stöðugt hækkandi.

Á síðustu áratugum hefur svo ótal margt breyst sem gerir það að verkum að fólk lifir almennt lengur. Við búum til dæmis í dag í betra húsnæði, höfum betra atlæti hvað varðar fæði og klæði, auk þess sem við vinnum styttri vinnutíma en áður tíðkaðist. Við höfum læknisþjónustu fyrir allan almenning og heilbrigðiskerfið okkar ætti að geta verið það besta í heimi. Erum upplýst þjóð með hátt menntastig og aukin menntun auðveldar okkur að ná fótfestu í flóknum og breytilegum heimi. Við erum rík.

Nokkur þúsund manns innan verkalýðshreyfingarinnar eru komin „út af vinnumarkaði“ eða á mörkum þess sökum aldurs. Við nefnum þennan hóp ævinlega á baráttudegi verkalýðsins, þann 1. maí og tölum þá með mikilli virðingu um „þau sem mörkuðu sporin með blóði sínu, svita og tárum. Eldra fólk er einmitt fólkið sem fjölmennir á  hátíðarhöldin 1. maí, kannski af því að það voru þau sem  greiddu þann fórnarkostnað sem þurfti til að byggja upp hið íslenska velferðarkerfi sem við búum við í dag. Og þau skilja gildi samstöðunnar.

Stéttarfélögin í landinu hafa skyldum að gegna gagnvart þessum hópi ekki síður en öðrum félagsmönnum, og stéttarfélög hafa vald og geta nýtt það til að berjast fyrir jafnrétti og gegn hvers kyns óréttlæti í samfélaginu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki eingöngu um launamun kynjanna.

Við hjá Framsýn viljum vekja fólk til umhugsunar á þessum málefnum, þau eru okkur öllum mikilvæg, enda komumst við flest væntanlega einhvern tímann á  þennan stað í lífinu.

Við höfum boðið til okkar í dag öndvegisfólki til að ræða þessi mál við okkur. Þar ber fyrstan að nefna Helga Pétursson tónlistarmann, sem vakið hefur athygli fyrir skeleggan málflutning og farið fyrir baráttusamtökum eftirlaunafólks sem nefnist Grái herinn. Samtökin berjast fyrir virðingu og réttlæti, þau hafa verið ötul  að vekja athygli á kjörum eldra fólks og vilja stuðla að hugarfarsbreytingu í garð þessa aldurshóps.

María Axfjörð er hér á heimavelli, Húsvíkingur að upplagi og hana þekkja eflaust margir hér inni. María ætlar að segja okkur frá sinni upplifun af því að missa vinnuna, orðin fullorðin. Hún segir okkur frá því hvernig það er að vera fullorðin kona í atvinnuleit og ræðir atvinnumöguleikana sem fólk á þessum aldri hefur, en atvinnurekendur virðast ekki bíða í röðum eftir því að ráða fullorðið fólk til starfa.

Það er engin ástæða til þess að leggja árar í bát eingöngu fyrir það að árin færast yfir. Öflugt starf er unnið innan félaga eldri borgara í Þingeyjarsýslum, en þau eru nokkur. Eitt þessara félaga er starfandi hér í bæ. Anna Sigrún Mikaelsdóttir er formaður Félags eldri borgara á Húsavík. Hún ætlar að segja okkur frá starfsemi félagsins sem hefur verið mjög kraftmikið á undanförnum mánuðum.

Við tökum fundarhlé á milli dagskráliða þegar fer að líða á og bjóðum þá upp á veitingar, hressum okkur á súpu og brauði. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar mun leiða okkur áfram hér og halda utan um fundarstjórnina og ég efast ekki um að við komum til með að eiga hér saman ánægjulega stund.

En áður en ég kasta boltanum til Aðalsteins langar mig að kynna upphafsatriðið, en þar er fólk í yngri kantinum, en þau hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir tónlistarflutning sinn og gert mikla lukku hvar sem þau hafa komið. Í Þingeyjarskóla í Aðaldal er einstök menning, eiginlega fjölmenning. Þar er spilað á hljóðfæri sem ég hef fyrir víst að séu ættuð frá Zimbabwe og suðurhluta Afríku, ásláttarhljóðfærið Marimba og fleiri sem ég reyni ekki einu sinni að nefna. Það væri fróðlegt að vita hvaða menningarstraumar báru Marimbatónlistina frá Afríku í litla þingeyska sveitaskólann, en við getum komist að því síðar. Það geislar af þessum ungu og efnilegu tónlistarmönnum gleðin og hamingjan, og þau eru samstíga og skemmtileg í flutningi sínum. Við skulum taka vel á móti þeim.                                                            Krakkar mínir, gerið svo vel.

 

 

 

Fjölmennur baráttufundur eftirlaunafólks – Framsýn styrkir málsókn

Framsýn, stéttarfélag stóð fyrir fjölmennum fundi í gær á Fosshótel Húsavík um málefni eftirlaunafólks. Frummælendur á fundinum voru Helgi Pétursson frá Gráa hernum, María Axfjörð bókari og Anna Sigrún Mikaelsdóttir formaður Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni. Ávörp þeirra vöktu mikla athygli og var baráttuhugur á fundinum. Auk þeirra tók Örn Jóhannsson til máls á fundinum og hélt þrumandi ræðu um stöðu eftirlaunafólks á Íslandi sem hann taldi ekki vera viðunandi.

Í upphafi fundar spiluðu unglingar úr Þingeyjarskóla nokkur frábær lög undir stjórn Guðna Bragasonar. Það er eftir að varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, hafði farið yfir tilgang fundarins sem væri að styðja við bakið á ört stækkandi hópi fólks sem kæmist á eftirlaunaaldur, fólki sem ætti allt gott skilið ekki síst virðingu, réttlæti og ásættanleg lífskjör.

2068

2157 20612133214221242052216321302159214620282126

Sérlaunastefna alþingismanna

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í dag samantekt frá Hagstofu Íslands um þróun launakjara alþingismanna undanfarin áratug. Í þeim tölum er staðfest að á árunum 2013-2016 hafa regluleg laun þingmanna hækkað umtalsvert meira en hjá öðrum hópum eða um 68% á sama tíma og laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 26% og laun opinberra starfsmanna um ríflega 31%. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra lækkunar á starfstengdum greiðslum til þingmanna, sem forsætisnefnd samþykkti í janúar, hafa launa þingmanna samt sem áður hækkað umtalsvert umfram almanna launaþróun, eða um 42,5%.
Í samanburði ráðuneytisins eru laun þingmanna borin saman við þróun launavísitölu aftur til ársins 2006. Í þeim samanburði er þannig með öllu horft fram hjá því að rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins, sem ríki og sveitarfélög undirrituðu, byggir á sameiginlegri launastefnu til ársloka 2018 um að launakostnaður aukist ekki umfram 32% á tímabilinu frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Það tímabil sem miðað er við í rammasamkomulaginu er ekki tilviljun. Með því að horfa til tímabilsins frá 2013 var verið að verja sérstakar hækkanir lægstu launa í kjarasamningum undanfarin áratug. Þau skilaboð sem felast í því að miða launaþróun alþingismanna við tímabilið aftur til ársins 2006 eru því þau, að alþingismenn eigi að njóta þeirra sérstöku hækkana sem samið hefur verið um fyrir láglaunahópa undanfarin áratug í sínum launum. Þetta skýtur nokkuð skökku við í ljósi þess að laun þingmanna jafngilda launum um fimm fullvinnandi verkamanna á lágmarkslaunum.
Með undirritun rammasamkomulagsins árið 2015 undirgengust ríki og sveitarfélög að fylgja ofangreindri launastefnu í kjarasamningum við sína starfmenn. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa að slíkt hið sama eigi við um þjóðkjörna fulltrúa. Í sameiginlegri yfirlýsingu ASÍ og SA við undirritun samkomulagsins um frestun á uppsagnarheimild kjarasamninga til loka febrúar 2018 var sérstaklega áréttuð krafa samtakanna um að æðstu embættismenn og kjörnir fulltrúar fylgi sömu launastefnu og samið var um í rammasamkomulaginu. Þessar upplýsingar sem ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála gefa tilefni til að árétta þá kröfu.

(frétt tekin af asi.is)

Skattaframtal einstaklinga – styrkir úr sjúkrasjóði

Upplýsingar um heildarupphæð útgreiddra styrkja úr sjúkrasjóði Framsýnar og Þingiðnar má finna inn á svæði einstaklinga á www.skattur.is . Ef valið er „Almennt“ og „innkomnar upplýsingar“ koma þessar upplýsingar upp ásamt öðrum innsendum upplýsingum til skattsins. Frekari upplýsingar um sundurliðun á útgreiddum styrkjum er hægt að nálgast á skrifstofu stéttarfélaganna á Garðarsbraut 26 eða í síma 464-6600.

2.3.6  Aðrar greiðslur (reitur 96)

Styrkir til líkamsræktar frá launagreiðanda og stéttarfélögum færast til tekna hér, en heimilt er að færa kostnað til frádráttar að hámarki 50.000 kr. í reit 157.

Styrkir úr styrktar- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga svo sem vegna gleraugnakaupa, heyrnartækjakaupa, glasafrjóvgunar, krabbameinsskoðunar, ættleiðinga, tannviðgerða, sjúkraþjálfunar, sálfræðiþjónustu, dvalar á heilsustofnunum og útfarar. (reitur 96, Annað, hvað?)

Samstarf við ASÍ um ábyrgð fyrirtækja innan Vakans

Ferðamálastofa, fyrir hönd Vakans, og Alþýðusamband Íslands skrifuðu í dag undir samstarfssamning með það að markmiði að þátttakendur í Vakanum starfi eftir gildandi kjarasamningum. Með þessu er leitast við að styrkja það hlutverk Vakans að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan ferðaþjónustunnar.

Þátttakendur í Vakanum virði kjarasamninga

Í samningnum er kveðið á um þegar fyrirtæki sækir um þátttöku í Vakanum, verður aflað upplýsinga hjá ASÍ um hvort alvarlegur ágreiningur sé á milli viðkomandi fyrirtækis og stéttarfélaga sem starfsmenn þess tilheyra. Jafnframt mun ASÍ  í byrjun hvers árs fara yfir þátttakendalista Vakans þannig að tryggt sé, eins og kostur er, að þátttakendur séu ekki brotlegir við kjarasamninga og lög um réttindi starfsmanna. Séu gerðar alvarlegar athugasemdir vegna brota fyrirtækis á gildandi kjarasamningum, getur það ekki verið þátttakandi í Vakanum fyrr en úr hefur verið bætt.

Yfirlýsing um sjálfboðaliðastörf

Í þessu sambandi má einnig nefna yfirlýsingu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá því síðastliðið haust um sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins. Þar kemur m.a. fram að það sé sameiginlegt viðfangsefni aðila að fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga. Sérstaklega er rætt um mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur ríki um störf sjálfboðaliða og hvar þau geti átt rétt á sér, s.s. í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmálum. Áréttað er að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja, eins og það er orðað. Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands hafa undirritað sambærilegt samkomulag.

Á myndinni má sjá Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamáalstjóra og Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ undirrita samstarfssamninginn.

(frétt tekin af asi.is)

Uppfærðir kauptaxtar sérsamninga Framsýnar

Búið er að uppfæra kauptaxta sérsamninga Framsýnar. Hækkunin tekur gildi 1. maí. Sjá má nýjustu uppfærsluna með því að velja kauptaxta hér á síðunni eða með því að smella hér.

Uppfærðir kauptaxtar kjarasamnings SGS og SA eru væntanlegir á allra næstu dögum.

Telja ekki ástæðu til að sameinast öðrum sjóðum

Framsýn fór þess á leit við stjórn Stapa að skoðað yrði hvort ekki mæti hagræða í starfsemi sjóðsins með sameiningu við aðra lífeyrissjóði þannig að auka mætti um leið réttindi sjóðfélaga til lífeyris.
Félaginu hefur nú borist svar frá Stapa. Þar kemur fram að sjóðurinn hafi í kjölfar bréfsins frá Framsýn látið kanna rekstrarkostnað sjóðsins í samanburði við rekstrarkostnað annarra lífeyrissjóða.
Samanburðurinn hafi leitt í ljós að rekstrarkostnaður Stapa, sem hlutfall af eignum, væri nokkuð sambærilegur við kostnað hjá mun stærri sjóðum og talsvert lægri en hjá þeim sjóðum sem koma næstir á eftir Stapa í stærð.
Að þessu gefnu telur stjórn sjóðsins ekki ástæðu til að hefja viðræður við aðra sjóði um sameiningu við aðra sjóði. Þá sé styrkur fólginn í því að hafa sterkan landsbyggðarsjóð með höfuðstöðvar á landsbyggðinni.
Stjórn Framsýnar tók svar sjóðsins fyrir á stjórnarfundi í gær. Umræður urðu um málið sem ekki verða tíundaðar sérstaklega í þessari frétt.

 

5,5 milljónir greiddar í verkfallsbætur

Stjórn Vinnudeilusjóðs Framsýnar kom saman til fundar í gær til að úthluta verkfallsbótum til sjómanna í Sjómannadeild Framsýnar vegna febrúar. Alls bárust 32 umsóknir um verkfallsbætur en verkfalli sjómanna lauk þann 20. febrúar. Upphæð verkfallsbóta til þessara 32 sjómanna nam 5,5 milljónum fyrir febrúar. Sjómenn innan félagsins höfðu áður fengið 7,7 milljónir í verkfallsbætur fyrir janúar. Samtals greiðslur til sjómanna innan Sjómannadeildar Framsýnar námu því í heildina um 13 milljónum. Til fróðleiks má geta þess að Framsýn greiddi sjómönnum innan félagsins hærri verkfallsbætur en almennt gerist meðal sjómannafélaga innan Sjómannasambands Íslands.

Gamli tíminn_0022

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í heildina fengu sjómenn innan Framsýnar greiddar um 13 milljónir í verkfallsbætur fyrir janúar og febrúar.

Öskudagur á Húsavík

Það komu margir við á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík í gær. Gestir voru flestir í yngri kantinum og í hinum ýmsustu gervum. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í gær af gestunum.11

13 12 10 9 8 7  5 4 3 2 1

Fjör à öskudaginn

Fjörugir og glađir krakkar litu viđ à skrifstofu Verkalýđsfèlags Þòrshafnar ì dag og sungu. Er òhætt ađ segja ađ þau hafi veriđ mishræđileg. Skrifstofa Verkalýðsfélags Þórshafnar er ekki stòr en međ gòđum vilja komust allir hòparnir inn og sungu fyrir starfsmann skrifstofunnar af hjartans list. Alltaf gaman ađ fà gòđa gesti. 20170301_125709 20170301_124522 20170301_124301 20170301_123953

Hnyklum vöðvana á laugardag – fjölmennum á fund

Framsýn stendur fyrir opnum fundi um starfslok og önnur málefni eftirlaunafólks á Fosshótel Húsavík á laugardaginn. Meðan á fundi stendur verður boðið upp á veitingar.  Gestir fundarins verða, Helgi Pétursson, María Axfjörð og Anna Sigrún Mikaelsdóttir.  Skorað er á áhugasama og eftirlaunafólk að fjölmenna á fundinn þar sem samstöðu þarf til að lagfæra stöðu eftirlaunafólks. Sjá auglýsingu hér að neðan.

Hefur þú tillögur að fundarefni?

Síðasta vetur stóð Framsýn fyrir nokkrum opnum fundum um mikilvæg málefni í okkar samfélagi og voru fundirnir almennt mjög vel sóttir. Í vetur er hugmyndin að standa fyrir nokkrum slíkum fundum. Þegar eru fjórir fundir á dagskrá, byrjað verður á fundi um málefni eldra fólks um næstu helgi en málefni þeirra hafa verið mikið í umræðunni undanfarið þar sem þessi hópur telur sig ekki verðskulda það sem þau eiga skilið. Sá fundur verður haldinn næsta laugardag. Í næstu viku verður síðan væntanlega opinn fundur um starfsemi Norðursiglingar á Húsavík. Fulltrúar frá fyrirtækinu munu koma og gera grein fyrir þeim mikla vexti sem verið hefur í starfsemi fyrirtækisins á undanförnum árum. Síðan eru tveir fundir á teikniborðinu er varða annars vegar landbúnaðarmál og hins vegar efnahagsmál. Ef þið lesendur góðir hafið góðar hugmyndir handa okkur varðandi fundarefni eruð þið vinsamlegast beðin um að koma þeim á framfæri við formann Framsýnar, Aðalstein Árna, á netfagnið kuti@framsyn.is

Grái herinn hnyklar vöðvana- opinn fundur um málefni eftirlaunafólks á vegum Framsýnar

Framsýn stéttarfélag stendur fyrir opnum fundi um málefni eftirlaunafólks laugardaginn 4. mars. Fundartími: 11:00 til 13:00. Gestir fundarins verða  Helgi Pétursson sem kenndur er við Ríó Tríó. Helgi mun fjalla um kjör eldri borgara og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og virðingu. Þá mun María Axfjörð fjalla um störf aldraðra en María er Húsvíkingur. Hugsanlega verður einn frummælandi til viðbótar en það mun skýrast á næstu dögum. Þá mun Anna Rúna Mikaelsdóttir formaður Félags eldri borgara á Húsavík segja aðeins frá starfi félagsins. Fundurinn verður nánar auglýstur á heimasíðu stéttarfélaganna www.framasyn.is og í næstu Skrá. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir á fundinn enda mikilvægt að fólk á eftirlaunum standi vörð um sín hagsmunamál.  Vonandi sjáumst við sem flest á fundinum.

Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga

Stóra gleraugnamálið

Hér á Skrifstofu stéttarfélaganna hefur einhver gleymt þessum gleraugum sem sjást á myndinni sem fylgir þessari frétt. Þau verða hér í afgreiðslunni þangað til eigandinn gefur sig fram.

Eftirlitsferð til Þórshafnar

Á dögunum áttu starfsmenn Framsýnar leið til Þórshafnar. Þar var meðal annars farið í vinnustaðaeftirlit en samstarf er við Verkalýðsfélag Þórshafnar um eftirlit á þeirra starfssvæði. Eftirlitsaðilum var vel tekið. Í bakaleiðinni var komið við á Raufarhöfn og staðan tekin þar. Myndavélin var með í för og sjá má afraksturinn hér að neðan.

sjomenn0217 006 sjomenn0217 010 sjomenn0217 013 sjomenn0217 022 sjomenn0217 023 sjomenn0217 027 sjomenn0217 031 sjomenn0217 036

Fiskvinnslufólk, hafið eftirfarandi í huga

Vinnumálastofnun hefur komið þeim skilaboðum áleiðis til stéttarfélaganna:
„Áríðandi tilkynning til þeirra sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur vegna rekstrarstöðvunar í sjómannaverkfalli!

Sjómannaverkfallinu er nú lokið góðu heilli. Vinnumálastofnun vill minna starfsfólk fiskvinnslustöðva sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur vegna rekstrarstöðvunar í sjómannverkfallin á að afskrá sig af atvinnuleysisbótum um leið og vinna hefst.

Afskráning er afar mikilvæg því ef það gleymist þá kunna greiðslur bóta til einstaklinga að halda áfram og þá getur komið til skuldamyndunar hjá stofnuninni vegna ofgreiddra bóta með óþarfa eftirmálum.

Hægt er að afskrá sig með tilkynningu á ,,Mínum síðum“, senda tölvupóst á ,,postur@vinnumalastofnun.is“, hringja í síma  515-4800 eða koma á næstu þjónustuskrifstofu stofnunarinnar‟.

 

Yfirlýsing Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtaka Íslands

SGS og BÍ hafa undirritað yfirlýsingu um starfsemi sjálfboðaliða í landbúnaði. Í stuttu máli er eining samtakanna á milli að sjálfboðaliðastarfsemi í landbúnaði sé bönnuð. Allir starfsmenn í landbúnaði skulu fá greitt samkvæmt kjarasamning SGS og BÍ.

Þessi yfirlýsing er í fullu samræmi við túlkun Framsýnar stéttarfélags, en þessum sjónarmiðum hefur margsinnis verið komið á framfæri af félaginu.

Frétt SGS um málið má lesa hér.

Yfirlýsingin í heild sinni má lesa hér.