Frábær sumarferð á Borgarfjörð eystra

Um síðustu helgi fóru tæplega tuttugu félagsmenn stéttarfélaganna í sumarferð á Borgarfjörð eystra. Á leiðinni austur var litið við í Möðrudal þar sem menn fengur sér hressingu, kaffi og ástarpunga af bestu gerð. Síðar um daginn var komið við í Húsey  sem er  náttúruparadís milli fljóta við Héraðsflóa. Þar hittum við fyrir Örn Þorleifsson ferðaþjónustu – og hlunnindabónda sem er um margt einstakur maður og hafsjór af fróðleik ekki síst um lífið við Héraðsflóann. Síðan var ekið Borgarfjarðarveg um Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá. (Útmannasveit). Þegar þangað var komið komu menn sér fyrir á hóteli í bænum er nefnist Álfheimar og er staðsett úti á Bökkum sem kallað er. Síðan var farið um bæinn og ýmsir forvitnilegir staðir skoðaðir. Hópurinn safnaðist síðan saman um kvöldið og grillaði og að sjálfsögðu var sungið fram eftir kvöldi eftir langan, en ánægjulegan og fræðandi dag. Morguninn eftir voru allir komnir snemma á fætur til  gleypa í sig frekari fróðleik um sögu Borgarfjarðar sem er stórbrotin. Síðar um daginn, var síðan haldið heim á leið. Þegar komið var til Húsavíkur um kl. 17:00 á sunnudeginum var endað á því að renna út í Bakka þar sem var opinn dagur á vegum PCC sem bauð áhugasömum að skoða framkvæmdirnar sem tengjast uppbyggingu á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Fararstjóri ferðarinnar var Ósk Helgadóttir sem stóð sig að venju mjög vel.

Meistarinn með meistaraverk

Pétur Jónasson eða Pétur ljósmyndari á Húsavík var á fullu í dag ásamt iðnaðarmönnum að koma fyrir ljósmynd í fundarsal stéttarfélaganna sem hann tók af Húsavík og nágrenni. Myndin er glæsileg í alla staði enda Pétur mikill meistari þegar kemur að ljósmyndun og frágangi á myndum. Þá má geta þess að meistari Pétur hefur þjónað Húsvíkingum og Þingeyingum afar vel í gegnum tíðina, það er í marga áratugi og fyrir það ber að þakka. Myndin sem var afhjúpuð í dag er um 4 metrar að breidd og 1,37 metrar á hæð. Ekki þarf að taka fram að myndin er mikil prýði í fundarsal stéttarfélaganna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Unnið að uppsetningu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þorvaldur og Bjarni voru Pétri til aðstoðar við að ganga frá myndinni. Aðalsteinn J. Halldórsson hjálpaði einnig til.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Pétur var afar ánægður með útkomuna enda ekki hægt annað, glæsileg mynd.

Vinnustaðaheimsókn í Drekagil

Félagssvæði Framsýnar nær yfir um 18% af landinu sem þýðir að svæðið sem félagið þarf að þjóna nær vel inn til landsins. Í gær var komið að því að heimsækja landverði í Vatnajökulsþjóðgarði sem eru að hluta til með aðsetur í Drekagili. Áður höfðu starfsmenn verið í sambandi við formann Framsýnar og boðið honum að koma í heimsókn ásamt samstarfsfólki til að kynna sér starfsemina og ræða nýgerðan Stofnanasamning Starfsgreinasambands Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs sem Framsýn er aðili að fyrir sína félagsmenn í þjóðgarðinum. Hann fór í ferðina ásamt varformanni Framsýnar og formanni Þingiðnar. Ferðin tók um 12 klukkutíma og var vel þess virði og voru móttökur landvarðana í Drekagili til mikillar fyrirmyndar. Með þessari frétt fylgja nokkrar myndir sem teknar voru í ferðinni:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jónas Kristjánsson var fenginn til að vera bílstjóri í ferðinni sem kom sér vel enda þekkir hann vel til á hálendinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Klukkan 06:00 um morguninn var komið við í Heimabakaríi enda við hæfi að færa vinnandi fólki á hálendinu öndvegis brauð úr bakaríinu á Húsavík.   Friðrik Marinó sagði; Gjörið svo vel og góða ferð til fjalla.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það þurfti að fara yfir mörg vatnsföll á leiðinni s.s. Lindá, Kreppu og Jökulsá á Fjöllum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvað eruð þið að þvælast hér?  Lögreglan stendur vaktina á hálendinu með miklum ágætum og átti gott samtal við gestina frá Húsavík um stöðuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Komið heim í Drekagil eftir akstur frá Húsavík.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Farið yfir málin. Fulltrúar Framsýnar áttu gott samtal við starfsmenn Þjóðgarðsins. Fundarmenn og talsmenn Framsýnar voru sammála um að heimsóknin hefði verið ánægjuleg. Auk þess að færa starfsmönnum þjógarðsins nýbakað brauð úr Heimabakaríi fengu allir boli og húfur frá Framsýn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigurður Erlingsson er trúnaðarmaður landvarða.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fundurinn búinn og Elfar kominn á vaktina með nýju húfuna frá Framsýn sem kom sér vel enda veðrið ekki með besta móti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar fékk góða leiðsögn um svæðið með þjóðgarðsverðinum sem ber nafnið, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að sjálfsögðu gáfu menn sér tíma til að setjast niður á leiðinni til að fá sér smá snarl í rigningunni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokum var komið við í Möðrudal áður en haldið var áleiðis heim til Húsavíkur eftir góða vinnustaðaheimsókn í Drekagil.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Varaformaður Framsýnar var á svæðinu, það er í Möðrudal, ásamt öðrum góðum gesti sem ekki er vitað hvað heitir annað en Geithafur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ágætu landverðir í Drekagili, takk fyrir frábærar móttökur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Vegna forfalla eru nokkur sæti  laus í frábæra sumarferð stéttarfélaganna

Vegna forfalla eru nokkur sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna sem er um næstu helgi. Um er að ræða frábæra ferð í Borgarfjörð eystri sem enginn má missa af. Sjá frekari upplýsingar um ferðina hér að neðan:

„Sumarferð stéttarfélaganna verður að þessu sinni helgarferð og nú við höldum austur á land, nánar tiltekið á Borgarfjörð eystri. Farið verður frá Húsavík snemma morguns þann 19. ágúst og komið til baka seinnipart sunnudagsins 20. ágúst. Við munum gista í uppbúnum rúmum hóteli og þar er morgunmatur innifalinn. Grillað verður í boði Framsýnar á laugardagskvöldið, en að öðru leiti nestar fólk sig sjálft.

Borgarfjörður eystri er nyrstur hinna eiginlegu Austfjarða. Þangað er tæplega 70 km. akstur frá Egilsstöðum, um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriður. Borgarfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð og þá sérstaklega fyrir sérstæðan fjallahring. Sunnan fjarðar er ljóst líparít allsráðandi eins og í Staðarfjalli, en fyrir botni fjarðarins og norðan hans er blágrýti (basalt) mest áberandi og þá einkum í Dyrfjöllum. Inn af firðinum gengur um 10 km langur dalur, vel gróinn og nokkuð breiður. Eftir honum rennur Fjarðará. Þorpið Bakkagerði stendur við fjarðarbotninn.

Það er margt að skoða á þessum fallega stað og við munum njóta leiðsagnar staðkunnugra um svæðið. Fararstjóri verður Ósk Helgadóttir. Ferðakostnaður pr. mann í sumarferðina er aðeins 20.000-. „

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er víða fallegt í Borgarfirði eystri.

Það fjölgar og fjölgar í Norðurþingi

N4 greinir frá því að íbúum Norðurþings fjölgi hratt þessa mánuðina. Síðastliðinn maí var því fagnað að íbúi Norðurþings númer 3000 fæddist en íbúarnir voru 2963 um áramótin. Nú eru íbúarnir 3170 og hefur því fjölgað um 177 síðan um áramót. Það er fjölgun um 6,53% á einungis sex mánuðum.

Nánar má lesa á N4 vefnum.

Vaðlaheiðargöng séð úr fjallshlíð

Þessar myndir tók Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar eftir að hafa hlaupið upp að Hallgilsstaðasúlu. Fyrir þá sem ekki hafa séð gangnamunann og umhverfið þar í kring nema af jafnsléttu þá eru þessar myndir sérstaklega athyglisverðar.

Hrútaþuklið fór vel fram á Mærudögum

Að venju bauð Fjáreigendafélag Húsavíkur upp á hrútasýningu á Mærudögum. Fjöldi fólks fylgdist með spennandi keppni sem fór vel fram. Sýndir voru sjö fallegir hrútar og voru tveir þekktir bændur úr Suður-Þingeyjarsýslu  fengnir til að dæma keppnina, þeir Sigurður Ágúst Þórarinsson og Guðmundur Ágúst Jónsson. Sveitarstjóri Norðurþings, Kristján Þór Magnússon, sá svo um að lýsa því sem fram fór.

Hrúturinn Krubbur  sem kemur frá Félagsbúinu Grobbholti á Húsavík sigraði með miklum yfirburðum. Í máli dómarana kom fram að Krubbur væri sérstaklega  holdmikill hrútur með eintaklega góð læri, malir, hrygg og frampart. Í lok keppninnar fengu eigendur Krubbs bikar í verðlaun. Það var ungur áugasamur bóndi, Baldur Freyr Skarphéðinsson, sem tók við verðlaunum fyrir hönd Grobbholts. Þess má geta til viðbótar að tveir áhorfendur voru valdir til að velja þann hrút sem skartaði fallegasta pungnum.  Áslaug Guðmundsdóttir og Hróðný Lund voru kallaðar upp og eftir ýtarlega skoðun völdu þær hrútinn Ask með besta undirvöxtinn.

Reynsluboltinn Viggó

Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir 92 ára ýtumann að störfum, en Viggó Brynjólfsson frá Skagaströnd hefur þar líklega meiri reynslu en flestir aðrir. Á jarðýtum hefur hann unnið við margvíslegar framkvæmdir síðan 1947 og geri aðrir betur. Viggó var fenginn til að grípa í verk í nokkra daga og aðstoða starfsmenn Ósafls sem vinna nú hörðum höndum að veglagningu Illugastaðavegar í tengslum við Vaðlaheiðargöng. Fréttaritari Framsýnar var á ferðinni í Fnjóskadal í veðurblíðunni á  dögunum og fékk að smella mynd af kappanum sem að sjálfsögðu var á stærstu jarðýtunni og gaf hinum strákunum ekkert eftir. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af framkvæmdum við göngin Fnjóskadalsmegin.

Vaðlaheiðagöng – Viðhorf og væntingar

 

Nú í júlí eru 33 ár síðan við hjónin fluttum fyrst í Fnjóskadalinn. Það var í árdaga Víkurskarðsins sem þá þótti reyndar mikil samgöngubót. Við vorum ung og bjartsýn og höfnuðum fyrirframgefnum hugmyndum um að við værum að fara í hefðbundinn búskap. Ég man ennþá hvað fólk hér rak upp stór augu þegar fréttin barst og æði oft fengum við spurninguna: „Já en, á hverju ætlið þið þá að lifa?“ Á þeim tíma lifðu nánast allir hér á búskap.

Einhvernvegin hefur okkur það nú tekist , það hefur ekki alltaf verið auðvelt en við fundum okkar farveg. Og í gegnum árin hefur þeim fjölgað töluvert sem búa hér og starfa við annað en landbúnað.

Víkurskarðið farartálmi
En það er þetta blessaða Víkurskarð. Vissulega er gaman að fara þar um á sólríkum sumardegi og útsýnið skemmir ekki í hvora á áttina sem litið er, en þeim sem ekki þekkja til hættir til að gera lítið úr þeim aðstæðum sem skapast þar gjarnan yfir vetrartímann.

Ég mun ekki syrgja vetrarferðirnar yfir Skarðið, enda í mínum reynslubanka um þennan fjallveg minningar sem sitja fastar á sálinni en hughrifin af því að horfa yfir spegilsléttan Eyjafjörðinn. Og það eru neikvæðar minningar.

Það er til dæmis minningin um nýjársdag 2005 þegar maðurinn minn fékk hjartaáfall og Skarðið ófært – ekki sérlega góð minning. Biðin eftir Súlumönnum sem brutust frá Akureyri með lækni og sjúkraflutningamenn var löng og ferðin inn eftir tók í minningunni eilífðartíma. Það fór betur en á horfðist – en mikið hefði nú verið gott að hafa göngin þá.

Það getur skollið á fyrirvaralaust uppi í Hrossagilinu og þeir sem það hafa upplifað þekkja þá tilfinningu að komast hvorki aftur á bak né áfram vegna veðurs og vita ekkert hvort eða hvenær einhver asninn gluðar framan á, aftan á eða jafnvel inn í hliðina á manni. Skyldu menn geta sett sig í spor þeirrar konu sem lendir í þannig aðstæðum ein á ferð – og ólétt? Ég þekki það – og það er verulega vond tilfinning.

Ég gæti haldið áfram og sagt ykkur margar fleiri sögur sem tengjast baráttu fólksins hér austan við, við þennan „krúttlega“ fjallveg. Þær sögur hafa ekki endilega farið hátt eða ratað á forsíður fjölmiðlana, en oft hefur staðið tæpt og litlu mátt muna að illa færi. Það er til dæmis ekki óalgengt að vinnustaður minn, Stórutjarnaskóli breytist í fjöldahjálparstöð í vondum vetrarveðrum og margir hafa verið fegnir að skríða þar í hús þegar færðin spillist út af – og Víkurskarð lokast.

Mikilvæg samgöngubót – öryggisventill
Gerð Vaðlaheiðargangna hefur fengið mjög neikvæða umfjöllun í samfélaginu, það er talað um kjördæmapot og ég held að þar hafi öll stóru orðin verið látin falla. Ég er samt ekki viss um að þeir hinir sömu og gagnrýna framkvæmdina hvað hæst vildu endilega vera í sporum okkar hér.

Ég ætla hins vegar ekkert að dæma það hvort að einhver önnur göng hefðu átt að vera á undan í forgangsröðinni. Ég þekki líka til aðstæðna austur á landi þar sem fjallvegir liggja mun hærra en Víkurskarð. Þekki Fjarðarheiðina og veit að hún sýnir ekki alltaf sparihliðina yfir vetrartímann. Það er hins vegar mín skoðun að ætlum við að viðhalda byggð í landinu þurfi samgöngur að standast þær kröfur sem gerðar eru í dag. Við erum rík þjóð og jarðgangnagerð ætti að vera sjálfsagður þáttur í nútímavegagerð rétt eins og hjá öðrum þjóðum.

Það eru breyttir tímar og þó að þeir sem eru komnir aðeins upp á árin sætti sig við ýmislegt þá gerir unga fólkið það ekki og við ætlum þeim að taka við. Því segi ég það að skilyrði fyrir áframhaldandi búsetu fólks hér sem annarsstaðar eru tryggar samgöngur.

En Vaðlaheiðargöng – ég get sagt ykkur það að orðið bráðnar á tungu minni eins og góður konfektmoli. Mér finnst gott að segja það, það hljómar vel, það vekur mér vonir um aukin lífsgæði og tilfinningin fyrir þessari framkvæmd fyllir mig sem íbúa í þessu sveitarfélagi bjartsýni og öryggi.

Göngin eru mikið hagsmunamál fyrir alla sem búa austan Vaðlaheiðar. Þar get ég fyrst nefnt aðgengi að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem er svæðinu hér austur um gríðarlega mikilvægur öryggisventill. Þegar við mætum sjúkrabílnum í Ljósavatnsskarði er hann ekkert endilega að flytja sjúkling frá Húsavík til Akureyrar, hann getur allt eins verið að koma frá Egilsstöðum eða Norðfirði.

Margir hér austan við stunda nám á Akureyri og keyra daglega á milli. Hér þurfa foreldrar að sjá á eftir börnum sínum í framhaldsskóla inn yfir heiði, flest fara þau þangað, leigja þá ýmist eða búa á heimavist. Það er kostnaðarsamt, fyrir utan það að það er ekki æskilegt að þurfa að sleppa hendinni af börnunum sínum svo ungum. Mér finnst ekki óeðlilegt að ætla að með betri samgöngum skapist meiri líkur á að börnin okkar geti búið lengur í foreldrahúsum og farið daglega á milli. En það verður þá að vera þannig að snjómokstur á sveitavegum verði í takt við almenningssamgöngur um þjóðveg 1.

Aukin tækifæri felast í bættum samgöngum
Ég hef alveg heyrt þær raddir að sérstaða samfélagsins okkar komi til með að breytast vegna bættra samgangna. Ég kaupi alveg þau rök, en hef engar sérstakar áhyggjur af því. Við þróumst bara og það er eðlilegt. Auðvitað er þetta gagnkvæmt, því við komum einnig til með að eiga greiðari leið út úr okkar samfélagi og fáum þá aukin tækifæri til að nýta okkur þann fjölbreytileika sem nágrannar okkar í þéttbýlinu hafa upp á að bjóða og tekið þar þátt.

Það er einhæfni í atvinnulífi, erfiðar samgöngur og fjarlægð frá vinnusóknarsvæðum sem gerir það oftast að verkum að íbúum í hinum dreifðu byggðum landsins fækkar. Þetta á við um okkur, ekki satt?

Ég er sannfærð um að tilkoma Vaðlaheiðargangna eigi eftir að breyta landslaginu meira en okkur grunar. Til dæmis gæti aukið aðgengi að atvinnu komið til með að styrkja hér búskap og ég hugsa að margir vilji drýgja tekjurnar með því að stunda vinnu af bæ. Það styrkir líka samfélagið í heild að hafa greiðari aðgang að fjölbreyttum vinnumarkaði. Göngin annarsvegar og uppbyggingin á Bakka hinsvegar munu vonandi tvinna saman þráð sem tengir byggð í Þingeyjarsýslu allri og það ásamt þeim atvinnugreinum sem fyrir eru stuðla að samfelldu atvinnusvæði frá Eyjafirði og austur um. Það eru nú þegar margir sem sækja vinnu úr Eyjafirði austur og öfugt og eins og við vitum er Víkurskarðið orðið næst fjölfarnasti fjallvegur landsins. Og það sem að menn gleyma gjarnan, Víkurskarðið tengir Austur – og Norðurland og miklir flutningar eru þar um – í báðar áttir.

Með göngunum batnar aðgengi að Akureyrarflugvelli fyrir íbúa austan Vaðlaheiðar og vonandi breytast þá líka forsendur fyrir betri nýtingu og frekari uppbyggingu Aðaldalsflugvallar þannig að það verði tveir öflugir flugvellir á þessu svæði. Til hagsbóta fyrir Þingeyinga – og Eyfirðinga til framtíðar.

Ég er bjartsýn á framtíðina og trúi því að ef/þegar fólk kemur til með að flytja hér austur þegar Vaðlaheiðargöng opna ætti enginn að þurfa að spyrja „Á hverju ætlið þið að lifa?“ því þá munu leiðir liggja til allra átta.

Ósk Helgadóttir
Merki, Fnjóskadal

 

 

 

 

Ungliðastarf Framsýnar vekur athygli erlendis

Framsýn leggur mikið upp úr öflugu starfi ungliða innan félagsins. Í því sambandi er starfandi stjórn ungliða sem heldur utan um starfsemi Framsýnar-UNG.

Fyrir helgina barst Framsýn erindi frá erlendum aðilum með beiðni um að Framsýn taki þátt í Evrópsku verkefni (Erasmus+ programme) um stöðu ungs fólks, menntun og atvinnuætti í mismunandi löndum. Reiknað er með að verkefnið sem er fjölþjóðlegt verði kostað að erlendum sjóðum.

Framsýn mun taka erindið fyrir í ágúst og ákveða hvort félagið verður þátttakandi í verkefninu. Þessi beiðni er dæmi um öflugt starf félagsins sem hefur ekki bara vakið athygli innanlands heldur einnig víða erlendis.

 

Formaður Framsýnar í sumarfrí

Formaður Framsýnar og forstöðumaður Skrifstofu stéttarfélaganna, Aðalsteinn Árni Baldursson, fór í sumarfrí í morgun og verður í sumarfríi til næstu mánaðamóta. Félagsmönnum og atvinnurekendum er því bent á að hafa samband við aðra starfsmenn stéttarfélaganna á Skrifstofu stéttarfélaganna þurfi þeir á þjónustu félaganna að halda.

Samstöðu og baráttufundur í Háskólabíói í dag

Boðað hefur verið til samstöðu og baráttufundar í Háskólabíó í dag, laugardaginn 15. júlí kl. 14.00. Vaxandi ólga er í þjóðfélaginu, ekki síst vegna stöðu öryrkja, eftirlaunafólks og verkafólks. Ekki síst þess vegna er boðað til fundarins í  dag og koma frummælendur úr röðum þessara hópa. Aðalsteini Árna Baldurssyni formanni Framsýnar var boðið að flytja ræðu á baráttufundinum en hann kom því ekki við að þessu sinni. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum skora á fólk að fjölmenna í Háskólabíó í dag og sýna þannig samstöðu í verki.

 

Allt á fullu í Vaðlaheiðargöngum

Talsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum eru á ferð og flugi um félagssvæðið þessar vikurnar og hafa fjölmargir vinnustaðir verið heimsóttir. Stéttarfélögin leggja mikið upp úr góðu samstarfi við félagsmenn og atvinnurekendur á svæðinu. Þá er mikið um að talsmenn fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga leiti eftir upplýsingum frá stéttarfélögunum um réttindi á vinnumarkaði. Starfsmenn eru jafnframt duglegir við að hafa samband og óska eftir vinnustaðafundum með talsmönnum stéttarfélaganna. Einn slíkur fundur var haldin í vikunni með starfsmönnum Vaðlaheiðargangna en þeir óskuðu eftir fundi með formanni Framsýnar til að fara yfir sýn mál. Að sjálfsögðu var orðið við þeirri beiðni og fóru starfsmenn Framsýnar til fundar við starfsmenn í göngunum. Fundurinn gekk vel, nokkrar ábendingar komu fram frá starfsmönnum um réttindi og kjör sem unnið verður með á næstu vikum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Talsmenn stéttarfélaganna á Húsavík hafa áður fundað með starfsmönnum Vaðlaheiðargangna. Þessi mynd var tekin við það tækifæri þegar fundað var með erlendum starfsmönnum á vaktaskiptum. Í vikunni var hins vegar fundað með íslenskum starfsmönnum að mestu.

Vikur í sumarhúsum í boði

Nokkrar vikur í sumarhúsum á vegum stéttarfélaganna eru í boði fyrir félagsmenn í ágúst. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Lindu linda@framsyn.is á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Mörk í Grímsnesi:
28. júlí – 4. ágúst

Svignaskarð:
18. ágúst – 25. ágúst

Bjarkarsel á Flúðum:
18. ágúst – 25. ágúst

Flókalundur:
28. júlí – 4. ágúst

Svínadalur:
18. ágúst – 25. ágúst

 

 

Fosshótel Mývatn heimsótt

Glænýtt og glæsilegt Fosshótel Mývatn sem stendur á Flatskalla fékk heimsókn frá fulltrúum stéttarfélaganna dagana 6. til 7. júlí. Tvennir fundir voru haldnir, sitt hvorn daginn, til þess að ná til sem flestra starfsmanna hótelsins. Starfsmennirnir eru 40 talsins og koma víða að.

Nokkrar umræður voru á fundinum og var ánægjulegt að finna áhuga fólksins. Myndavélin var með í för og má sjá afraksturinn hér að neðan.

Vinnustaðafundur á Bakka

Í vikunni fór fram vinnustaðafundur á Bakka sem líklega er sá fjölmennasti í sögu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu. Það var útibú Beck & Pollitzer á Íslandi sem var heimsótt, en fyrirtækið hefur verið við vinnu á Bakka í um tíu mánuði og á eftir rúmlega ár af sinni vinnu. Rúmlega 180 manns mættu á fundinn en það eru allir starfsmenn fyrirtækisins á Bakka.
Fulltrúar Framsýnar fóru yfir helstu leikreglur íslensks vinnumarkaðar og réttindi launþega. Svo var boðið upp á tertur sem bakaðar voru í Heimabakarí.
Almenn ánægja var meðal viðstaddra með fundinn og greinilega áhugi á viðfangsefninu.
Myndavélin var með í ferðinni eins og sjá má hér að neðan.

Hækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð spurningar og svör

Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá launafólki og launagreiðendum vegna þeirra breytinga sem verða á mótframlagi atvinnurekenda frá og með júlílaunum og jafnframt hefur orðið vart við nokkurn misskilning sem mikilvægt er að leiðrétta. Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð á almennum vinnumarkaði hækkaði þann 1. júlí 2017 um 1,5% og er nú 10%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 14% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 10% mótframlag atvinnurekenda.
Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda kemur síðan til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkar framlagið um 1,5% til viðbótar og verður þá 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs mun frá 1. júlí 2018 nema samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.
Sjóðfélagar hafa nú val um hvernig þeir ráðstafa hækkun mótframlagsins. Þeir geta ráðstafað því í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við sinn lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.
Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 og þar er að finna ákvörðun um hvernig með skuli fara.
Hvert á að greiða hækkað mótframlag atvinnurekenda?
Atvinnurekenda er skylt að greiða hækkað mótframlagi til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið hefur verið greitt til. Þetta þýðir að greiða ber 14% frá 1. júlí 2017 og 15,5% frá 1. júlí 2018 til skyldutryggingarsjóðs. Atvinnurekendi getur ekki ákveðið að greiða hækkað mótframlag í séreign heldur getur sjóðsfélagi tekið ákvörðun um að greiða það í tilgreinda séreign í samskiptum við sinn lífeyrissjóð.
Þarft þú að taka ákvörðun um ráðstöfun hækkaðs mótframlags atvinnurekanda núna?
Hver og einn launamaður ákveður sjálfur ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, allt að 3,5% af launum, í tilgreinda séreign eða samtryggingu.
Viljir þú að hækkun mótframlags atvinnurekanda fari í tilgreinda séreign getur þú haft samband við þinn skyldutryggingarsjóð og gengið frá yfirlýsingu þar að lútandi. Hafir þú ekki samband við lífeyrissjóðinn þinn til að setja hækkun mótframlagsins eða hluta þess í tilgreinda séreign rennur það í samtryggingu og réttindi þín þar aukast.
Þú getur síðan hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gild frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.
Allar frekari upplýsingar um áhrif ráðstöfunar hækkunar mótframlags atvinnurekanda á lífeyrisréttindin má nálgast á heimasíðum viðkomandi skyldutryggingarsjóðs og á heimasíðu ASÍ

„Hvernig er veðrið þarna fyrir norðan félagi?“

Benóný Benediktsson sem gegndi formennsku í Verkalýðsfélagi Grindavíkur í tæp þrjátíu ár lést þann 6. júní 2017 en hann var fæddur 28. maí 1928. Útför Benónýs fór fram frá Grindavíkurkirkju þriðjudaginn 20. júní og var fjölmenni á jarðarförinni.

Með Benóný er genginn góður maður og ötull talsmaður verkafólks. Það var mikill heiður að fá að starfa með honum í tæpa þrjá áratugi að verkalýðsmálum. Samstarf okkar var gott í bland við gaman og alvöru. Það var eðlilega töluvert spjallað um verkalýðsmál, sjósókn og landsmálin almennt enda Benóný áhugasamur um flest milli himins og jarðar. Þá var fjölskyldan honum kær. Það var ekki hans stíll að tala fólk niður heldur byggði hans málflutningur á jákvæðni og því sem betur mæti fara í þjóðfélaginu og þar með verkalýðshreyfingunni. Hann átti það til að vera stríðinn. Honum leiddist til dæmis ekki að hringja í mig norður til Húsavíkur eftir að hafa hlustað á veðurfréttirnar þar sem fram kom að veðrið hér fyrir norðan væri afar slæmt og spyrja;Hvernig er veðrið þarna fyrir norðan félagi?

Auðvitað stóð ekki á svari hjá mér sem svaraði um hæl að staðbundið verður í Grindavík væri rigning og rok sem gerði alla menn kollruglaða, þar á meðal hann og síðan var hlegið.

Með þessum orðum vil ég þakka Benóný fyrir einstaklega gott samstarf um tíðina um leið og ég votta fjölskyldu hans innilegrar samúðar. Minning um góðan mann lifir um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, stéttarfélags

Kynningarfundur um breytingar á framlögum í lífeyrissjóði

Á dögunum boðuðu Framsýn og Þingiðn til opins fundar um samþykktar breytingar á framlögum atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Fundurinn var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík.

Huld Aðalbjarnardóttir setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundarins, sérstaklega bauð hún starfsmenn Lsj. Stapa velkomna til fundarins. Þær voru Jóna Finndís Jónsdóttir, Kristín Hilmarsdóttir og Fanney Þórarinsdóttir. Huld tók að sér fundarstjórn.

Huld sagði að þann 1. júlí 2017 tækju gildi nýjar reglur um framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði.  Hún fór yfir helstu breytingarnar en sagði að Jóna Finndís Jónsdóttir áhættustjóri Lsj. Stapa væri hingað komin til að gera fundarmönnum grein fyrir helstu breytingum á kerfinu. Stjórnir Þingiðnar og Framsýnar hefðu talið mikilvægt að standa fyrir kynningarfundi sem þessum til að fræða félagsmenn um nýja kerfið.

Jóna Finndís tók við keflinu og sagðist ánægð með að vera komin til Húsavíkur til að fara yfir þessi mál með sjóðfélögum Lsj. Stapa.  Nýlega hefði sjóðurinn staðið fyrir aukaársfundi sjóðsins á Akureyri til að fara yfir tillögur að breytingum á reglugerð sjóðsins til að geta tekið við viðbótar hækkununum. Tillögurnar hefðu verið samþykktar. Þá stæði til að kynna breytingarnar fyrir sjóðfélögum með ýmsum hætti á komandi mánuðum. Jóna Finndís kom víða við í máli sínu. Meðal annars kom fram að í síðustu kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins í maí 2015 hefði verið samið um hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð sem kemur inn í áföngum á samningstímanum. 0,5% kom til framkvæmda 1. júlí í fyrra, 1,5% kemur til framkvæmda 1. júlí 2017 og 1,5% kemur til framkvæmda þann 1. júlí 2018. Frá þeim tíma verður mótframlag orðið 11,5% eða það sama og á opinbera markaðnum. Framlag launamanns verður áfram 4%. Dregist hefur hjá Alþingi að koma saman lögum sem gilda um þetta viðbótarframlag sem kallast ,,tilgreind séreign“. Ástæðan fyrir nafngiftinni er, að launamaður þarf að tilgreina að hann óski eftir að viðbótin renni inn í lífeyrissjóðinn með þessum hætti. Jóna Finndís sagði mikilvægt að rugla henni ekki saman við hina hefðbundnu séreign sem verið hefur inni í kjarasamningum um nokkurt skeið. Þótt að lögin um tilgreinda séreign séu ekki klár liggur nú loksins fyrir með hvaða hætti þetta verður og því hafa lífeyrissjóðirnir undirbúið jarðveginn og stofnuðu á dögunum á aukaársfundum nýja deild inni í sjóðunum fyrir tilgreinda séreign. Atvinnurekendur skila viðbótarframlaginu inn í lífeyrissjóðina sem hækkun á mótframlagi. Þeir launamenn sem vilja láta viðbótina renna inn í sameignina þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir. Þeir launamenn sem vilja að viðbótin fari inn í tilgreinda séreign þurfa sjálfir að gera ráðstafanir til þess. Það er gert með því að fara inn á heimasíðu sjóðsins www.stapi.is fyrir þá sem eru í Stapa lífeyrissjóði og fylla út eyðublað til að óska eftir að viðbótin fari inn á tilgreinda séreign. Þeir sem kunna að vera í öðrum lífeyrissjóðum fara með sama hætti inn á heimasíðu síns sjóðs. Mikilvægt er að launafólk átti sig á því, að sé valið að ráðstafa viðbótinni í tilgreinda séreign, að hún veitir ekki aukinn rétt í áfallatryggingum (örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri) heldur safnast tilgreinda séreignin upp með sama hætti og hinn hefðbundni séreignarsparnaður. Inni á heimasíðum sjóðanna er að finna frekari upplýsingar og von er á reiknivél til að auðvelda fólki að átta sig á þeim mismun á réttindum sem viðbótin veitir eftir því hvort hún er sett í sameignina eða tilgreindu séreignina.

Eftir yfirferð Jónu Finndísar var orðið gefið frjálst. Töluverðar umræður urðu um málefni fundarins og fjölmargar spurningar komu fram. Þá urðu umræður um mikilvægi þess að kynna málið vel fyrir sjóðfélögum svo þeir geti tekið vel upplýsta ákvörðun.

 

Gengishækkun skilað til ferðamanna – Hrós til Ásbyrgisverslunarinnar

Ævar Ísak Sigurgeirsson og fjölskylda hefur í áratugi rekið verslun og þjónustu í Söluskálunum Ásbyrgi. Nýlega var gerði DV verðkönnun á vörum og þjónustu verslana af þessu tagi. Ein verslun hafði lækkað verð á vöru milli ára og hefur það vakið nokkra athygli. 

Í ferð um svæðið ákvað Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar – stéttarfélags að grípa tækifærið og grípa sína uppáhaldsmæru.  Að sögn Ísaks sýna nýjustu verðkannanir að Prinspóló er hvergi ódýrara en í þessari rótgrónu ferðamannaverslun. Prinspóló kostar nú kr. 130 og hefur lækkað um tæp 30% frá s.l. sumri, en þá kostaði það kr. 180. Hann segir þetta eiga mjög eðlilega skýringu, hér sé um innflutta vöru að ræða og lækkunin sé í samræmi við gengisbreytingar milli ára. Hann telur eðlilegt að skila henni til neytenda.

Aðalsteinn fagnar þessu. Þetta sýni að Ævar og hans fólk er heiðarlegir verslunarrekendur freistist ekki til að stela ábata vegna breytinga á gengi.

Aðspurður um verslun segir Ævar að hún sé ágæt og vaxandi á þessum tíma. Hjá þeim í þessari rótgrónu ferðamannaverslun er ákveðinn stöðugleiki, m.a. hafi þau áfram breitt vöruúrval í verslun og í matsölu.