SGS vísar kjaradeilu við SA til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa átt í viðræðum um nýjan kjarasamning frá því í október 2018. Á þeim tíma hafa aðilar átt tæplega 80 fundi um sértæk mál, sem og hátt í 30 fundi viðræðunefnda SGS og SA, um forsendur og innihald nýs kjarasamnings.

Ýmislegt hefur þokast áfram á undangegnum vikum í einstökum málum og umræðugrundvöllur til staðar á öðrum sviðum. Þrátt fyrir það er það mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra nema með aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni, sem er eðlilegt skref í áframhaldandi vinnu.

Í samræmi við umboð frá samninganefnd Starfsgreinasambandsins frá 14. febrúar síðastliðnum, samþykkir viðræðunefnd SGS að vísa kjaradeilu Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir eftirtalin 16 aðildarfélög þar á meðal frá Framsýn stéttarfélagi;

AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.

Samstaða á félagsfundi Framsýnar

Framsýn stéttarfélag stóð fyrir félagsfundi um kjaramál í dag. Fyrir fundinum lá tillaga um að félagið afturkallaði samningsumboðið frá Starfsgreinasambandi Íslands og vísaði deilunni til ríkissáttasemjara. Í ljósi atburðarásar dagsins var tillaga þess efnis dregin til baka þar sem viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins samþykkti fyrr í dag að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara en Framsýn er aðili að Starfsgreinasambandinu.

Fundurinn var mjög góður og hiti var í fundarmönnum, ekki síst vegna þeirrar miklu misskiptingar sem þrífst í þjóðfélaginu, tilboðs SA um launahækkanir og tillagna stjórnvalda um skattkerfisbreytingar. Þar sem færðin í Þingeyjarsýslum er ekki með besta móti um þessar mundir stóð félagsmönnum Framsýnar utan Húsavíkur að taka fundinn í gegnum síma og nýttu menn sér það. Eftir líflegan fund var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða.

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir miklum vonbrigðum með þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem innlegg inn í yfirstandandi kjaraviðræður aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Framsýn hafði vænst þess að tillögur stjórnvalda kæmu þeim lægst launuðu best, enda afar mikilvægt að auka ráðstöfunartekjur þeirra umfram aðra hópa launamanna er búa við mun betri kjör.

Í stað þess að svigrúm til skattalækkana sé notað til að koma til móts við þá hópa sem skrapa botninn í tekjum virðist það einlægur vilji ríkistjórnarinnar að það gagnist öllum, ekki síst þeim sem taka árslaun verkafólks á einum mánuði. Til að kóróna vitleysuna er ætlunin að frysta hækkun á persónuafslætti í þrjú ár. Félagsmenn Framsýnar mótmæla þessum vinnubrögðum.

Framsýn stéttarfélag skorar á stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að láta af þeim hroka sem endurspeglast í tillögum þeirra er varðar skattamál, velferðarmál og launahækkanir til lausnar kjaradeilunni. Vatnsgusurnar eru heldur kaldar sem ráðamenn þjóðarinnar senda verkafólki þessa dagana. Er það ekki öfugsnúið að bankastjórar ríkisbankana njóti svo mikilla launahækkana að þeir telji jafnvel ástæðu til að skila þeim að hluta, skuli nærast á brjósti þeirrar sömu ríkisstjórnar og setur hóflegar kröfur launafólks upp sem ógnun við efnahagslegan stöðugleika.

Miðað við þá stöðu sem uppi er í dag er afar mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands, Landssambands íslenskra verslunarmanna og iðnaðarmannafélögin innan Alþýðusambands Íslands standi saman í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samstaðan hefur í gegnum tíðina verið það afl sem fært hefur verkafólki bestu kjarabæturnar.“

Áríðandi: Félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur athugið

Aðildafélög Samflots, FOSA, Fos-Vest., SDS, St. Fjallabyggð, St. Fjarðabyggð, STAVEY og Starfsmannafélags Húsavíkur, leita nú til félagsmanna sinna með vandaða viðhorfskönnun um kröfur og önnur helstu atriði í komandi kjarasamningum. Félögin eru að vinna að kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga við sveitarfélög og ríki og mun þitt svar hafa áhrif á þá vinnu. Einnig er spurt um annað, s.s. líðan í starfi, um starfsumhverfi og launakjör, um afstöðu til stéttarfélags og um sameiningu stéttarfélaga ásamt öðru.

Það er fyrirtækið Zenter-rannsóknir sem sér um þessa könnun fyrir okkur og vinnslu úr henni og þátttaka tekur um 7 til 9 mínútur.

Formannaráð Samflots hvetur félagsmenn aðildarfélaganna til að taka þátt í þessari könnun sem verður send á netfang félagsmanna og hægt að svara á netinu.

 

Heilsað upp á félagsmann

Framsýn á víða glæsilega félagsmenn sem gegna mikilvægum störfum á vinnumarkaði. Einn af þeim er Rúnar Þór Brynjarsson sem starfar sem sölumaður hjá Vodefone. Rúnar Þór er ekki bara magnaður sölumaður heldur er hann einnig drengur góður, tónlistarmaður og knattspyrnumaður en hann er leikmaður Völsungs. Talsmaður Framsýnar átti gott spjall við Rúnar Þór um hans áhugamál og vinnuna þegar hann leit við hjá honum á mánudaginn.

Viðtöl og kjarabarátta

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að kjaraviðræður standa yfir um þessar mundir. Samningsaðilar sitja flesta daga yfir kröfugerðum verkalýðshreyfingarinnar og þá má það ekki gleymast að Samtök atvinnulífsins hafa einnig lagt fram kröfugerð gagnvart verkalýðsfélögunum sbr. þeirra áherslur varðandi neysluhlé, fleytingu á yfirvinnu milli mánaða og lengingu á daglegum dagvinnutíma. Þá hefur verkalýðshreyfingin verið með kröfur á stjórnvöld um breytingar á skattkerfinu, húsnæðismálum og nokkrum öðrum atriðum sem skipta máli fyrir velferð verkafólks. Öllu þessu fylgir síðan töluverð fjölmiðlaumræða sem aðilar vinnumarkaðarins taka þátt í því. Hvað það varðar er formaður Framsýnar oft kallaður í viðtöl í fjölmiðlum til að tjá sig um stöðuna og næstu skref. Um er að ræða mikilvægan þátt í starfseminni, það er að forystumenn stéttarfélaga komi skoðunum félagsmanna á framfæri á hverjum tíma. Vissulega er það þannig að fjölmiðlar taka mismunandi á umræðunni. Athygli hefur t.d. vakið meðal verkafólks í landinu hvernig Morgunblaðið og Fréttablaðið hafa fjallað um málið, hér er sérstaklega átt við um leiðara blaðanna sem leyfa sér að kalla talsmenn verkafólks m.a. öfgamenn fyrir það eitt að berjast fyrir bættum kjörum verkafólks. Innan þessara og annara miðla eru hins vegar mikið af hæfum og góðum blaðamönnum sem leitast við að leggja hlutlaust mat á umræðuna sem er vel.

Alls konar fyrirsögnum er slegið upp þessa dagana um stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna, nú síðast á mánudaginn. Formaður Framsýnar átti samverustund með formönnum VR og Eflingar á laugardaginn þar sem fram kom að mikil og góð samstaða er innan þessara beggja félaga að ná viðunandi kjarasamningi fyrir félagsmenn. Mikil og góð samstaða er innan þessara félaga að vinna saman að því markmiði og undir það hefur tekið Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Þátturinn Vinnuskúrinn tók fyrir verkalýðsmál og málefni öryrkja síðasta laugardag. Viðmælendur voru; Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins. Eins og við var að búast voru umræðurnar hressilegar. Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson er þáttastjórnandi þessa vinsæla útvarpsþáttar á laugardögum fyrir hádegi.

Sparisjóður Suður Þingeyinga flytur sig um set í glæsilegt húsnæði á Húsavík

Sparisjóður Suður-Þingeyinga opnaði nýja afgreiðslu á Húsavík í gær að Garðarsbraut 26, það er í húsnæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum þar sem áður var þjónustuskrifstofa VÍS. Að því tilefni færðu starfsmenn stéttarfélaganna þær Jónína Hermannsdóttir og Linda Margrét Baldursdóttir starfsmönnum sparisjóðsins blómvönd um leið og þær voru boðnar velkomnar í húsið. Starfsmenn sparisjóðsins á Húsavík eru; Helga Dögg Aðalsteinsdóttir þjónustustjóri og Gunnhildur Gunnsteinsdóttir þjónustufulltrúi. Gunnhildur og Helga Dögg þökkuðu fyrir sig og sögðu alla hjartanlega velkomna á nýja staðinn en útibú sparisjóðsins var áður í Öskjuhúsinu á Húsavík. Fyrir er sparisjóðurinn með þjónustu á Laugum og í Mývatnssveit. Sparisjóður Suður-Þingeyinga hefur verið í mikilli sókn undanfarið og verður svo vonandi áfram enda metnaðarfull fjármálastofnun í heimabyggð. Fjölmargir einstaklingar, sveitarfélög, fyrirtæki og félagasasamtök eins og stéttarfélög í Þingeyjarsýslum eru stofnfjárfestar í Sparisjóði Suður- Þingeyinga.

Linda og Jónína færðu Gunnhildi og Helgu Dögg blómvönd frá stéttarfélögunum.

Helga Dögg og Gunnhildur eru algjörar blómarósir.

 

Vísa á fimmtudag

Framsýn hefur boðað til félagsfundar næstkomandi fimmtudag um stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna.

SGS og LÍV fara með samningsumboð Framsýnar gagnvart Samtökum atvinnulífsins. 

Þá vilja stéttarfélögin einnig þrýsta á að gerður verði kjarasamningur milli stéttarfélaganna og PCC á Bakka en stéttarfélögin fara sjálf með samningsumboðið hvað þann samning varðar. Með því að vísa deilunni og ef ekkert gengur frekar í viðræðum félaganna við PCC gætu félögin boðað til aðgerða í mars.

Fyrir félagsfundinum liggur tillaga um að draga samningsumboðið til baka frá SGS og LÍV vísi samböndin ekki kjaradeilunni fyrir fimmtudaginn til ríkissáttasemjara. Mikillar óánægju gætir innan félagsins með að SGS og LÍV hafi ekki þegar vísað deilunni. Þess vegna hefur stjórn félagsins ákveðið að boða til félagsfundar á fimmtudaginn með það að markmiði að taka kjaramálin til umræðu og meta stöðuna með félagsmönnum.

 

Reiknað er með að félagsfundur Framsýnar samþykki að draga samningsumboð félagsins frá SGS/LÍV til baka á fimmtudaginn enda verði samböndin þá þegar ekki búin að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

 

Félagsfundur – Hvað er að frétta?

Framsýn boðar til félagsfundar um stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinsambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna fimmtudaginn 21. febrúar. Þá verður einnig gert grein fyrir viðræðum stéttarfélaganna við Samtök atvinnulífsins vegna PCC á Bakka.

Fundurinn verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 og hefst kl. 17:00.

Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að mæta á fundinn en fyrir fundinum liggur tillaga um að draga samningsumboð félagsins til baka frá SGS og LÍV vísi samböndin ekki deilunni fyrir þann tíma til ríkissáttasemjara.

Framsýn stéttarfélag

Kommúnistar og kröfuhundar

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar er höfundur meðfylgjandi greinar um kjaramál og stöðuna á vinnumarkaði. Ósk er skólaliði í Stórutjarnaskóla. Greinin er vel skrifuð og hittir í mark.

Kommúnistar og kröfuhundar

Þeir sem vinna þau störf sem í daglegu tali kallast láglaunastörf þekkja hversu mikið þarf að leggja að mörkum til að brauðfæða fjölskylduna. Það er ástæðan fyrir því að fólk í þeirri stöðu vinnur margt hvert langan vinnudag og er þess utan tilbúið að hlaða á sig aukavinnu sé hún boði, því með því móti getum það mögulega tryggt sér og sínum lágmarksþátttöku í því samfélagi sem við búum í. Þættir sem mörgum þykja sjálfsagðir, eins og það að mennta börnin sín og eignast þak yfir höfuðið er ekki einfalt fyrir þá sem lítið hafa og sama hvað hver segir, þá er það blákaldur veruleiki að við Íslendingar sitjum ekki öll við sama borð.
Vinna verka- og láglaunafólks skiptir sköpum fyrir samfélagið, því það vinnur störfin sem enginn tekur eftir að séu unnin, en það taka allir eftir því ef það er ekki gert. Líklega hugsa ekki margir út í það að þetta er einmitt fólkið sem heldur samfélaginu gangandi (með fullri virðingu fyrir öðrum stéttum). Ætli hugsi til dæmis margir út í það hvað starfsfólk á hjúkrunarheimilum ber úr býtum við að sinna andlegum og líkamlegum þörfum ástvina okkar, sem við sjálf höfum ekki tíma til að sinna? Eða hvernig við kæmust leiðar okkar í snjó og ófærð ef enginn fengist til að vinna á snjóruðningstækjunum? Ef enginn tæmdi sorptunnurnar fyrir okkur myndi fljótlega skapast vandamál og lítill yrði útflutningurinn ef ekki fengist fólk til starfa í frystihúsin og í afurðastöðvarnar við að skapa verðmæti úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Hvað ef við fengjum ekki fólk í vinnu við að þjónusta ferðamenn ? Það yrði ástand í leik- og grunnskólum ef ekki fengist þar fólk til almennra starfa. Hver ætti þá að gæta barnanna, snýta þeim, hugga þau og skeina, svo að við hin gætum sinnt okkar vinnu og aflað tekna. Öll þessi störf ásamt reyndar fjölmörgum öðrum láglaunastörfum eiga það sammerkt að vera ekki mikils metin í þjóðfélaginu, þó öllum ætti að vera ljós nauðsyn þess að þau séu ynnt af hendi. Launaseðlar verka- og láglaunafólks taka af allan vafa um hversu margra króna virði það er talið. Þó að gamla bændasamfélagið sé sem betur fer liðið undir lok, þá hangir enn yfir okkur sá illi arfur að ætla vinnufólki það hlutskipti að ná því rétt að hanga á horriminni.

Íslenskt verka- og láglaunafólk hefur lengi verið þurftalítið og hefur langoftast, allavega í seinni tíð, beðið þeirra mola er hrjóta við og við af borðum atvinnurekanda. Verið sagt að fara varlega í að rugga bátnum, ófaglært fólk hafi lítið fram að færa og mætti þakka fyrir að hafa yfirhöfuð einhverja vinnu.

Nærtæk dæmi snúa að þeim kjaraviðræðum er nú standa yfir og lúta að kostakjörum Samtaka atvinnulífsins varðandi vinnutímabreytingar og eru svar þeirra við kröfum ASÍ er varða styttingu vinnuviku. Tillögur SA byggja á þremur meginþáttum og hljóða í stuttu máli upp á: „ að víkka ramma dagvinnutímans úr 10 klukkutímum í 13, að lengja uppgjörstímabil yfirvinnu og að taka kaffitíma út úr launuðum vinnutíma“. Tillögurnar féllu líklega vel að þeirri samfélagsgerð sem hér var við lýði í árdaga verkalýðshreyfingarinnar, í upphafi 20.aldar. Þá tíðkaðist að fólk þrælaði myrkranna á milli, alltaf á sama kaupinu hversu margir tímar sem unnir voru og án nokkurra sérstakra kaffitíma. Tillögurnar ef samþykktar yrðu myndu færa verkafólk aftur til ómanneskjulegs samfélags, þar sem réttlaus lítilmagninn mátti sín lítils gagnvart ofríki atvinnurekanda.

Eins og ævinlega er styttist í að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losni og verkalýðshreyfingin krefst launahækkana fyrir verka- og láglaunafólk, bregst það ekki að á sjónvarpsskjánum birtist boðberi válegra tíðinda, í formi seðlabankastjóra. Allt hans yfirbragð ber þess merki að heimsendir sé á næsta leiti, jafnvel strax á morgun. „Það verður ágjöf, þjóðarskútan mun lenda í svarrandi brimi. Vitið þið ekki að óhóflegar launahækkanir leiða af sér hærri vexti og meira atvinnuleysi“ þrumar bankastjórinn, slær út höndum orðum sínum til áréttingar og ískaldur hrollur hríslast niður hryggsúluna á kröfuhundum og kommúnistum sem vita, en vilja ekki lengur skilja, að það er hefð fyrir því að stöðugleiki efnahagslífsins sé látinn lenda á einmitt þessum hópi.

Ég ætla, sem einn þessara meintu kommúnista og kröfuhunda að boðskap seðlabankastjóra megi skilja sem svo að þær krónur sem vinnulýðurinn nær að hrista úr launaumslaginu, séu á einhvern hátt efnismeiri og hafi meira verðgildi en hækkanir til þeirra sem gullvögnunum aka. Þeim er ekki boðið upp á launahækkanir sem tíðkast á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði þar sem prósentin teljast á fingrum annarar handar heldur hljóða þær oftast upp á tugi prósenta og svo það sé sagt hreint út af bálreiðri verkakonu, þá er líkast því að þær hækkanir séu skrifaðar með sverum skítagaffli. Siðlausar launahækkanir, árangurstengdar greiðslur og bónusar til þessara útvöldu hópa í þjóðfélaginu vekja reiði í brjóstum þeirra sem sífellt þurfa að stíga pedalana hraðar í von um að eiga fyrir mat fram að næstu mánaðarmótum. Slíkar hækkanir þó miklar séu gára ekki hafflötinn og þjóðarskútan siglir hægan byr á milli hafna. Hvar er þá samfélagsleg ábyrgð og hófsemi? Fólkinu á gólfinu bjóðast ekki slíkar greiðslur þótt margir hverjir hafi verið á vinnumarkaði árum saman og búi þar af leiðandi yfir víðtækri þekkingu og mikilli reynslu af ýmsum störfum. Árangurstengdar greiðslur til handa verka- og láglaunafólki byggjast hins vegar á stoðkerfisvandamálum og slitnum liðum. Leggi það verulega hart að sér, gæti það að auki nælt sér í bónus sem fólginn í skertum lífsgæðum sökum ótímabærrar örorku og skapast af langvarandi þrældómi.

Daginn sem Geir H. Harde bað guð að blessa Ísland fylltist almenningur í landinu réttlátri reiði í garð gráðugra auðvaldsplebba sem græddu á daginn og grilluðu á kvöldin. Hrunið kom harðast niður á þeim er síst skyldi, því án þess að hafa nokkuð til þess unnið missti fjöldi fólks atvinnuna, aðrir misstu heimili sín eða töpuðu fjármunum sem þeir voru búnir að nurla saman yfir starfsævina. Hrunið hafði samt ekki eingöngu slæmar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið, því einhverskonar hópefli varð til meðal þjóðarinnar sem stóð eftir hnípin og særð. Það urðu víðtækar breytingar á hugsunarhætti almennings, sem var réttilega nóg boðið þegar veislan fór úr böndunum, á þeirra kostnað. Því eru, í það minnsta lægri stéttir samfélagsins ekki búnar að gleyma og ætla sér ekki að kosta gleðina á ný.

Fólkið á lægstu laununum, fólkið bak við tjöldin er Íslands stærsta auðlind, því án þess myndi samfélagið einfaldlega ekki virka. Við förum ekki fram á mikið, enda kærum við okkur ekki um samfélag byggt á græðgi og efnishyggju. En við eigum fullan rétt á að okkur sé sýnd virðing fyrir það að vinna þau mikilvægu störf sem við vinnum og fyrir það krefjumst við mannsæmandi launa.

Amen og halelúja

Á ferðinni í Laxárdal

Það var vetrarlegt um að líta í Laxárdal þegar fulltrúi stéttarfélaganna átti leið þangað nú fyrr í dag. Ekki átti það síst við um veginn um dalinn. Ferðinni var heitið í veiðiheimilið á Rauðhólum en þar er verið að byggja nýja gistiálmu í stað þeirrar sem var rifinn í fyrra.

Séð yfir Aðaldal.
Nýja álman er hér á mynd með grárri klæðningu til hægri. Hún tengist svo eldri húsunum sem sést í til vinstri.
Svona er útlitið á gamla hlutanum til samanburðar.
Birningsstaðir í Laxárdál.
Aðkoman að nýja hlutanum.

Glaðbeittur hópur smiða og byggingaverkamanna tók á móti eftirlitsaðilum en þeir koma frá MVA ehf. á Egilsstöðum. Stefnt er á að nota nýju gistiálmuna núna strax í sumar en eins og sjá má á myndunum er verkið komið vel áleiðis.

Ný stjórn og góðar umræður um verkalýðsmál

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar fór fram í gær. Á fundinum var farið yfir starfsemi deildarinnar á síðasta ári auk þess sem kjaramál fengu góða umræðu. Þá var gengið frá kjöri á nýrri stjórn og hana skipa; Jónína Hermannsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Trausti og Kristbjörg Vala koma ný inn í stjórnina. Jóna Matthíasdóttir og Dómhildur Antonsdóttir voru áður í stjórn en voru ekki í kjöri á fundinum í gær. Var þeim báðum þakkað fyrir vel unninn störf í þágu deildarinnar.

Formaður deildarinnar, Jónína Hermannsdóttir fór yfir skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár.

 Skýrsla stjórnar:

Fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags býð ég ykkur velkomin til aðalfundar deildarinnar. Eins og þið þekkið eru innan raða Framsýnar stéttarfélags tvær sjálfstæðar deildir, Sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Á síðasta starfsári var stjórn deildarinnar þannig skipuð; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir varaformaður, Dómhildur Antonsdóttir ritari og í varastjórn sátu Anna Brynjarsdóttir og Karl Hreiðarsson.

Eins og kunnugt er lét Jóna Matthíasdóttir af störfum sem formaður á síðasta ári þar sem hún skipti um starf sem fellur ekki undir starfssvið Framsýnar. Full ástæða er til að þakka Jónu fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar en hún var góður félagi og sinnti starfi sínu mjög vel sem formaður deildarinnar og ritari stjórnar Framsýnar. Þá gegndi hún trúnaðarstörfum fyrir LÍV. Jónína Hermannsdóttir varaformaður deildarinnar tók við formennsku af Jónu og hefur gengt því embætti fram að þessu.

Ef við snúum okkur að starfseminni þá var lítið um formleg fundarhöld hjá stjórn á síðasta ári. Einn stjórnarfundur var skráður. Þess í stað var notast við tölvupósta og símtöl. Hluti stjórnar tók þátt í jólafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar sem fram fór 15. desember. Samkvæmt félagslögum er formaður deildarinnar einnig tilnefndur í aðalstjórn Framsýnar á hverjum tíma til tveggja ára í senn. Núverandi kjörtímabil er 2018-2020. Aðalstjórn fundar reglulega eða að jafnaði einu sinni í mánuði.

Jónína Hermannsdóttir fór á þing Alþýðusambands Íslands sem haldið var í Reykjavík 24-26. október 2018. Þá tók hún þátt í fundi sem LÍV boðaði til í Reykjavík um mótun kröfugerðar. Sá fundur var haldinn 5. október 2018. Annar fundur um kjaramál var haldinn 16. október 2018 í Reykjavík sem Huld Aðalbjarnardóttir sat fyrir hönd deildarinnar.

Ástæða er til að þakka stjórn og trúnaðarráði, starfsmönnum og formanni félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu til stjórnar og félagsmanna. Eðli málsins samkvæmt leita félagsmenn í flestum tilfellum beint til skrifstofu stéttarfélaganna með sín mál.

Félagatal
Á árinu 2018 greiddu 344 manns til félagsins, þar af voru konur 179 á móti 165 körlum.

Fjármál
Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum; Framsýn, Þingiðn og STH auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með samstarfssaming við félögin. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári.  Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Með auknum fjölda starfsmanna á svæðinu hefur fjöldi félagsmanna og greiðenda aukist með auknum tekjum til félagsins en þýðir einnig aukna vinnu og kostnað fyrir félagið. Endurskoðaður ársreikningur Framsýnar verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á næstu mánuðum. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til.

Þá má geta þess að samkvæmt 3.mgr. 49. gr. laga ASÍ skulu stjórnir sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ fá tryggingafræðing eða löggiltan  endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Framsýn lét nýlega framkvæma þessa athugun og sá PWC um skoðunina.

Niðurstaðan er skýr: „ekkert bendi til annars en að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á allra næstu árum sé litið til eiginfjárstöðu í árslok 2017, afkomu sjóðsins á undanförnum árum og þess að bótagreiðslur úr sjóðnum og iðgjöld til sjóðsins verði áfram með líkum hætti og verið hefur.“ Þá kemur fram í fylgisjali að staðan sé í raun öfundsverð.

Óráðstarfað eigið fé/styrkjum hjá sjúkrasjóði Framsýnar er 22,8 á árinu 2017

Þessi niðurstaða staðfstir enn frekar að vel er haldið utan um fjármálin hjá Framsýn stéttarfélagi.

Kjara og samningamál
Um síðustu áramót runnu kjarasamningarnir út, það er milli LÍV og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að. Framsýn samþykkti síðastliðið haust að veita LÍV samningsumboð félagsins gagnvart SA. Frá áramótum og reyndar fyrir þann tíma hafa staðið yfir viðræður milli aðila um nýjan kjarasamning. Því miður hefur lítið sem ekkert þokkast varðandi launaliðinn. Viðræðurnar hafa snúist um kröfugerð LÍV fyrir hönd aðildarfélaganna, breytingar á vinnutíma og neysluhléum sem Samtök atvinnulífsins vilja ná fram auk viðræðna við stjórnvöld um breytingar á skattkerfinu og aðgengi fólks að húsnæði. Það er að venjulegu fólki verði gert kleift að kaupa eða leigja sér íbúðarhúsnæði án þess að setja sig endanlega á hausinn.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af tillögum Samtaka atvinnulífsins að fella niður neysluhlé. Markmiðið á að vera að draga úr virkum vinnutíma en ekki að fella niður neysluhlé. Fyrir þessum fundi liggur ályktun um hugmyndir SA um niðurfellingu neysluhléa og stöðuna í kjaraviðræðunum. Meðan ákveðin stéttarfélög hafa sem betur fer hafnað þessari leið hafa önnur félög lýst því yfir að þau séu tilbúin að skoða hugmyndir Samtaka atvinnulífsins sem eru töluverð vonbryggði.

Orlofsmál
Líkt og fyrri ár hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna með sér gott samstarf í orlofsmálum sem eru sem fyrr mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á hótelum og farfuglaheimilum auk endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum.

Jöfn og góð nýting er á íbúðum okkar á höfuðborgarsvæðinu og er það vel. Framsýn festi kaup á nýrri íbúð í Þorrasölum á síðasta ári og á nú fjórar íbúðir í húsinu. Fyrir á Þingiðn eina íbúð. Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun en eins og þið vitið er ekkert punktakerfi við lýði hjá stéttarfélögunum okkar.

Okkur til mikillar ánægju var skrifað undir áframhaldandi samning milli Framsýnar og flugfélagsins Ernis um kaup á flugmiðum fyrir félagsmenn Framsýnar og tengdra aðila. Um er að ræða eina bestu kjarabót sem okkur félagsmönnum stendur til boða. Nýr samningur er áætlaður að tryggja okkur verð á flugmiða aðra leið milli Húsavíkur og Reykjavíkur fyrir kr. 10.300 út árið 2019 og er það vel. Óhætt er að segja að með samningi þessu séu Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslu að styrkja við og stuðla að frekari flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll. Þjónusta Ernis er til fyrirmyndar, boðið er upp á daglegar ferðir milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Reiknað er með að stéttarfélögin selji félagsmönnum milli fjögur og fimm þúsund flugmiða á árinu 2019.

Þá má geta þess að stéttarfélögin tóku upp nýjan orlofsvef á síðasta ári til að auka enn frekar þjónustu við félagsmenn. Vefurinn er mjög aðgengilegur og ekki annað að heyra en að félagsmenn séu mjög ánægðir með hann.

Fræðslu- og kynningarmál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Umsækjendum um styrki fjölgaði milli ára. Á síðasta ári fengu 38 félagsmenn starfsmenntastyrki, alls að upphæð kr. 2.680.362.– Við viljum minna félagsmenn á að kynna sér fjölmörg önnur réttindi sem eru einnig í boði og nýta það sem til staðar. Starfmenn skrifstofu félagsins liðsinna ykkur með þær upplýsingar og þær má einnig finna á vefsíðu og í kynningarbæklingi Framsýnar sem er uppfærður reglulega. Deild verslunar – og skrifstofufólks hefur ekki almennt staðið fyrir sérstökum fundum fyrir félagsmenn sína, heldur eru haldnir opnir almennir félagsfundir Framsýnar um margvísleg málefni, m.a. kjarasamninga sem og annað fræðsluefni.

Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Stöðugt birtast fréttir á vefsíðu Framsýnar www.framsyn.is úr starfi félagsins og aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélagana auk þess sem fréttir um málefni líðandi stundar í samfélaginu slæðist stundum með. Á um tveggja mánaða fresti er gefið út Fréttabréf stéttarfélaganna sem dreift er frítt til allra heimila á félagssvæðinu.  Fréttabréfið tekur á helstu málefnum úr starfi stéttarfélaganna. Þar koma m.a. fram upplýsingar til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna auk úrdráttur helstu frétta sem birtast á heimasíðunni.

Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári sem fyrr. Þar eru starfandi 5 starfsmenn í fullu starfi með starfsmanni Virk starfsendurhæfingarsjóðs, einn starfsmaður er í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í hlutastörfum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn.

Viðburðir á árinu
Framsýn kom að nokkrum stórum viðburðum á árinu. Í apríl stóð félagið fyrir viðburði í Menningarmiðstöð Þingeyinga þar sem haldið var upp á 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar. Félagið gaf út ljóðabók í tilefni af afmælinu með ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur sem fór fyrir þeim konum sem stofnaði Von. Hátíðarhöldin 1. maí voru haldinn í Íþróttahúsinu á Húsavík og fóru vel fram enda mikið fjölmenni samankomið í höllinni. Föstudaginn fyrir sjómannadag stóð Sjómannadeild félagsins fyrir heiðrun sjómanna og í desember var gestum og gangandi boðið í aðventukaffi á vegum stéttarfélaganna. Þá fóru fulltrúar frá Framsýn í heimsókn til Solidarnosc í Gdansk í lok september. Kynnisferðin til Póllands var virkilega áhugaverð og skemmtileg í alla staði. Eins og heyra má var starfið lifandi á umliðnu starfsári.

 Lokaorð
Með þessari stuttu samantekt hefur verið gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Starf deildarinnar sem slíkt, er ekki kraftmikið eða viðburðaríkt en við erum ómissandi í starfi félagsins.  Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í starfsemi félagsins, láta ykkur umræðu um kjaramál og velferð í starfi máli skipta og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur eða fræðslu á framfæri við félagið.  Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.

 

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, haldinn mánudaginn 11. febrúar samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun.

 „Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar telur löngu tímabært að vísa kjaradeilu Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Svo virðist sem lítið sem ekkert sé að gerast í kjaraviðræðum aðila annað en að ræða breytingar á vinnutilhögun með niðurfellingu á neysluhléum sem félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki.

Í ljósi frétta um ofurhækkanir til bankastjóra Landsbankans er mikilvægt að LÍV endurskoði framlagða kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Ný kröfugerð taki mið af því svigrúmi sem bankaráð Landsbankans telur vera til staðar, svigrúm sem virðist hafa farið algjörlega fram hjá Seðlabankastjóra, sem varað hefur við kröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Á sama tíma og almenningur í landinu býr við okurvexti telur bankaráð Landsbankans eðlilegt og sanngjarnt að hækka laun bankastjórans þessi launahækkun uppá 82% ógni ekki stöðugleikanum, eða valdi óðaverðbólgu að ógleymdu hinu margfræga höfrungahlaupi.sem flokkast undir sturlaðar launahækkanir.

Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr kr. 2.089.000 í kr. 3.800.000. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt tæp 82% á þessu tíu mánaða tímabili.

Í ljósi þessara tíðinda verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Seðlabankastjóri, fjármálaráðherra og leiðarahöfundar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins bregðast við. Landsbankinn er að mestu í eigu íslenska ríkisins og þá hafa leiðarahöfundar Fréttablaðsins kallað forystumenn í verkalýðshreyfingunni öfgamenn fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum tugþúsunda félagsmanna um bætt kjör, það er að þeir þurfi ekki að búa við fátæktarmörk öllu lengur, það er innan við kr. 300.000 á mánuði.

Enn og aftur kallar Framsýn eftir jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. Í landi eins og Íslandi á enginn að þurfa að líða skort eða búa við það hlutskipti að geta ekki búið í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Annað verður aldrei liðið.“

Trausti Aðalsteins kemur nýr inn í stjórn deildarinnar.

Anna Brynjars tók þátt í fundinum eins og fleiri félagsmenn innan Deildar verslunar- og skrifstofufólks.

 

Kalla eftir endurskoðaðri kröfugerð í ljósi ofurhækkana til bankastjóra Landsbankans

Það var þungt hljóð í fundarmönnum á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks Framsýnar sem fram fór í gærkvöldi vegna frétta um sturlaðar hækkanir til bankastjóra Landsbankans. Landssamband íslenskra verslunarmanna fer með samningsumboð Framsýnar er viðkemur verslunar- og skrifstofufólki innan félagsins. Ljóst er að mikil reiði er út í þá misskiptingu sem þrífst í þjóðfélaginu og endurspeglast í launahækkunum til bankastjórans á sama tíma og ákveðnir leiðarahöfundar vara við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að lægstu laun hækki upp í um 400.000 krónur á mánuði. Því fylgi óðaverðbólga og upplausn í íslensku þjóðfélagi.

Í lok fundar í gær og eftir góðar umræður um kjara- og efnahagsmál samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu mála um kjaramál og ákvörðun bankaráðs Landsbankans að hækka yfirmann bankans langt umfram allt sem eðlilegt getur talist.

 Ályktun

„Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar telur löngu tímabært að vísa kjaradeilu Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Svo virðist sem lítið sem ekkert sé að gerast í kjaraviðræðum aðila annað en að ræða breytingar á vinnutilhögun með niðurfellingu á neysluhléum sem félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki.

Í ljósi frétta um ofurhækkanir til bankastjóra Landsbankans er mikilvægt að LÍV endurskoði framlagða kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Ný kröfugerð taki mið af því svigrúmi sem bankaráð Landsbankans telur vera til staðar, svigrúm sem virðist hafa farið algjörlega fram hjá Seðlabankastjóra, sem varað hefur við kröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Á sama tíma og almenningur í landinu býr við okurvexti telur bankaráð Landsbankans eðlilegt og sanngjarnt að hækka laun bankastjórans þessi launahækkun uppá 82% ógni ekki stöðugleikanum, eða valdi óðaverðbólgu að ógleymdu hinu margfræga höfrungahlaupi.sem flokkast undir sturlaðar launahækkanir.

Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr kr. 2.089.000 í kr. 3.800.000. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt tæp 82% á þessu tíu mánaða tímabili.

Í ljósi þessara tíðinda verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Seðlabankastjóri, fjármálaráðherra og leiðarahöfundar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins bregðast við. Landsbankinn er að mestu í eigu íslenska ríkisins og þá hafa leiðarahöfundar Fréttablaðsins kallað forystumenn í verkalýðshreyfingunni öfgamenn fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum tugþúsunda félagsmanna um bætt kjör, það er að þeir þurfi ekki að búa við fátæktarmörk öllu lengur, það er innan við kr. 300.000 í mánaðarlauni.

Enn og aftur kallar Framsýn eftir jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. Í landi eins og Íslandi á enginn að þurfa að líða skort eða búa við það hlutskipti að geta ekki búið í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Annað verður aldrei liðið!“

Á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks var kjörin ný stjórn. Hana skipa; Jónína Hermannsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir.

Til hamingju Ragnar Þór

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er sjálfkjörinn til áframhaldandi formennsku félagsins til næstu tveggja ára. Kjörstjórn fundaði síðdegis og úrskurðaði að hans framboð væri það eina sem væri löglega fram borið. Önnur framboð bárust ekki, segir í tilkynningu.

Framboðsfrestur rann út klukkan tólf á hádegi í dag. Kjörstjórn VR bárust 16 einstaklingsframboð til stjórnar VR fyrir kjörtímabilið 2019-2021 og vinnur í að kanna lögmæti þeirra.

Fundur með frambjóðendum verður í hádeginu á miðvikudag og verða nöfn frambjóðenda birt á vef VR að honum loknum. Alls verður kosið til sjö sæta í stjórn og þriggja manna í varastjórn. (ruv.is)

Framsýn óskar Ragnari Þór til hamingju en Framsýn stéttarfélag og VR hafa átt mjög gott samstarf um verkalýðsmál eftir að Ragnar Þór tók við félaginu.

Þingiðn varar við breytingum á yfirvinnuálagi

Stjórn Þingiðnar hefur samþykkt að senda frá sér ályktun vegna yfirstandandi kjaraviðræðna milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem virðast snúast nánast eingöngu um vinnutímabreytingar, það er niðurfellingu á neysluhléum og lækkun á yfirvinnuálaginu. Þingiðn hefur áhyggjur af stöðunni og telur jafnframt löngu tímabært að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara. Samiðn fer með samningsumboð félagsins. Stjórnin samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu mála.

Ályktun
-Vegna yfirstandandi kjaraviðræðna Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins-

„Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hafnar alfarið hugmyndum Samtaka atvinnulífsins sem byggja á því að fella niður neysluhlé, lengja dagvinnutímabil og heimilt verði að fleyta yfirvinnutíma milli mánaða og gera að dagvinnu. Þá er breytingum á yfirvinnuálagi, það er úr 80% í 66% hafnað.

Slíkar hugmyndir eru fráleitar að mati Þingiðnar og ber að vísa út af borðinu þegar í stað.

Þess í stað er mikilvægt að samninganefnd Samiðnar tryggi iðnaðarmönnum viðunandi lífskjör í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld. Kjör sem taki mið af menntun og ábyrgð iðnaðarmanna til samræmis við aðrar sambærilegar stéttir þar sem menntunar er krafist.“

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks í kvöld- félagar fjölmennið

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn mánudaginn 11. febrúar kl. 20:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    1. Skýrsla stjórnar
    2. Kjör formanns og stjórnarmanna
  2. Kjaramál
  3. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffiveitingar.

Framsýn stéttarfélag

Jóna Matt verður ekki í kjöri á fundinum sem formaður DVS þar sem hún hefur skipt um starf. Nú er leitað að nýjum og öflugum formanni deildarinnar. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við formann Framsýnar, Aðalstein Árna.

 

Alþýðusambandið skorar á stjórnvöld að stofna samfélagsbanka

Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka enda er almenningur langþreyttur á skorti á samkeppni á fjármálamarkaði, miklum kostnaði og háu vaxtastigi hér á landi.

Með eignarhlut sínum í ríkisbönkum eru stjórnvöld í kjörstöðu til að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka, þar sem hagsmunir neytenda verði hafðir að leiðarljósi og skilið sé á milli áhættusækins bankareksturs og almennrar inn- og útlánastarfsemi. Miðstjórn ASÍ telur að stofnun slíks samfélagsbanka geti verið mikilvæg leið til að auka heilbrigði fjármálamarkaðar og færa vaxtastig og kostnað nær því sem þekkist í nágrannalöndum.

Nemendur Borgarhólsskóla í heimsókn

Nemendur í 10. bekk Borgarhólsskóla komu í heimsókn í Skrifstofu stéttarfélaganna í gær, miðvikudaginn 6. febrúar. Fulltrúi stéttarfélaganna fór yfir helstu atriði sem tengjast stéttarfélögum og vinnumarkaði. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fólk á þessum aldri að gera sér grein fyrir sinni stöðu á vinnumarkaði til þess að vera með á nótunum frá upphafi.

Heimsóknin var ánægjuleg og ekki er nokkur spurning um að þessum heimsóknum mun verða haldið áfram í framtíðinni eins og verið hefur.

Formaður Framsýnar í viðtali á Rás 1

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun en Ágúst Ólafsson tók viðtalið. Mikill áhugi er meðal fjölmiðla með gang mála í kjaraviðræðum, ekki síst vegna verksmiðju PCC á Bakka. Í viðtalinu er farið yfir sviðið í þeim efnum sem og öðrum tengdum málum.

Hlusta má á viðtalið með því að smella hér.

Afsláttarkjör í boði fyrir félagsmenn á leiksýsningu Eflingar í Reykjadal

Leikdeild Eflingar er að hefja sýningar á leikritinu Brúðkaup eftir Guðmund Ólafsson í leikstjórn Völu Fannell. Tónlistarmaðurinn Jaan Alavere sér um tónlistarstjórn. Um er að ræða gamanleikrit með söngvum og gríni. Frumsýning verður 9. febrúar kl. 16:00. Miðaverð er kr. 3000 en Framsýn/Þingiðn hafa ákveðið að niðurgreiða leikhúsmiðana. Þannig fá félagsmenn þessara félaga fá miðann á kr. 2.000. Skilyrði fyrir því er að félagsmenn komi við á skrifstofu stéttarfélaganna og fái afsláttarmiða áður en þeir fara á leiksýninguna, að öðrum kosti gilda ekki afsláttarkjörin. Miðarnir gilda einungis fyrir félagsmenn.