Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Starfsgreinasambandið hélt utan um sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu meðal 18 félaga um nýjan samning, en AFL Starfsgreinafélag sá sjálft um sína atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 12. til 23. apríl. Í heildina var kjörsókn 12,78%, já sögðu 80,06% en nei sögðu 17,33%. 2,61% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 36.835 manns.
Niðurstöðurnar voru afgerandi í öllum félögunum nema einu, en í 17 af 19 félögum var samningurinn samþykktur með yfir 70% atkvæða.
Hjá Framsýn var kjörsóknin fyrir ofan meðaltalið eða 15,97%. Á kjörskrá voru 839 félagsmenn, já sögðu 102 eða 76,12. Nei sögðu 29 eða 21,64%. Þrír tóku ekki afstöðu eða 2,24%.Samningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, sem undirritaðir voru 3. apríl síðastliðinn, telst því samþykktur hjá meðal félagsmanna Framsýnar stéttarfélags og tekur því gildi frá og með 1. apríl 2019.
Þá er einnig búið að telja í atkvæðagreiðslu um kjarasamning Landssambands íslenskra verslunarmanna/Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan félagsins samþykktu samninginn en kjörsóknin var mjög léleg. Á kjörskrá voru 189, 20 greiddu atkvæði, þar af sögðu 19 já eða 95% og 1 sagði nei við samningnum eða 5%. Auð atkvæði 0. Kjörsóknin var 10,58%.