Hér má lesa minningargrein eftir formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson um Kristján Ásgeirsson – F. 26. júlí 1932 – D. 12. apríl 2019. Kristján hafði lengi afskipti af störfum Verkalýðsfélags Húsavíkur sem nú ber nafnið, Framsýn stéttarfélag. Kristján verður jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju í dag:
Góður félagi og vinur er fallinn frá. Verkalýðsforingi, félagsmálamaður, bæjarfulltrúi, útgerðarmaður, en fyrst og fremst góður og gegnheill maður sem vildi öllum vel. Kristján Ásgeirsson, eða Kiddi Ásgeirs eins og hann var ávallt kallaður kom lengi að störfum fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur, sem stjórnarmaður, formaður og varaformaður. Reyndar má segja að Kiddi hafi drukkið í sig áhugann fyrir verkalýðsbaráttu með móðurmjólkinni. Þegar saga verkalýðsbaráttu á Húsavík er sögð koma ættir Kidda fyrir, allt frá stofnun fyrstu verkalýðsfélaga á Húsavík þar til hann ákvað að stíga til hliðar árið 1992, eftir 27 ára farsælt starf í þágu Verkalýðsfélags Húsavíkur. Föðuramma Kidda, Þuríður Björnsdóttir, var fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Vonar og Ásgeir Kristjánsson faðir hans var lengi formaður Verkamannafélags Húsavíkur.
Kiddi kynntist ungur atvinnuleysi og þeirri staðreynd að þorpið við Skjálfanda tæmdist reglulega á haustin þegar ungir menn leituðu suður á vertíðir, þar sem almennt var ekki gert út frá Húsavík yfir vetrarmánuðina. Honum var því mjög umhugað um að efla atvinnulífið á Húsavík, vissi að örugg atvinna væri forsenda alls. Hann beitti sér fyrir því innan bæjarstjórnarinnar og Verkalýðsfélags Húsavíkur að ráðist yrði í kaup á togara til að draga úr atvinnuleysinu í bænum og efla þar með Húsavík sem útgerðarbæ. Það var ekki síst vegna þrautseigju Kidda og annarra sem lögðust á árarnar með honum innan bæjarstjórnar og öflugustu fyrirtækjanna á svæðinu, að grunnur var lagður að togaraútgerð frá Húsavík með kaupum á Júlíusi Havsteen ÞH 1 sem kom til heimahafnar haustið 1976.
Kiddi mótaði einnig starf Verkalýðsfélags Húsavíkur, enda kom hann lengi að stjórn félagsins með góðu og samhentu fólki. Hann kom að því að opna fyrstu skrifstofuna fyrir verkalýðsfélagið í Félagsheimili Húsavíkur árið 1971. Áður hafði fólk lagt leið sína heim til hans til að leita aðstoðar er viðkom verkalýðs- og velferðarmálum, en Kiddi tók öllum vel og opnaði heimili sitt fyrir þeim sem á þurftu að halda.
Á þessum tíma var Kiddi kominn í mjög sérstaka stöðu, þar sem hann var formaður í verkalýðsfélagi, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Höfða hf. sem stofnað var um rekstur Júlíusar Havsteen. Þessi tengsl vöktu eðlilega upp margar spurningar á þeim tíma og voru ekki óumdeilanlegar. Hann var sagður sitja hringinn í kringum borðið. Ekki var vilji meðal félagsmanna til þess að Kiddi hætti afskiptum af Verkalýðsfélagi Húsavíkur, enda alltaf verið góður og gegn málsvari þeirra sem minna máttu sín og skilað góðu starfi fyrir félagið. Þess í stað ákvað hann að stíga til hliðar sem formaður, en taka að sér varaformennsku í félaginu. Kiddi sagði þetta ekkert mál, menn mættu bara aldrei gleyma uppruna sínum og fyrir hvað þeir stæðu. Orðin sem hann mælti eitt sinn í útvarpsviðtali lýsa manngerð Kristjáns Ásgeirssonar kannski best: „ Ég hef sem betur fer alltaf verið í þeirri stöðu að geta talað frá hjartanu og hef aldrei haft verulegar áhyggjur af eigin heilsu. En aftur á móti hef ég verið voðalega viðkvæmur andspænis veikindum annarra“.
Því hefur verið haldið fram að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Húsavíkur hafi almennt verið betri en hjá sambærilegum stéttarfélögum á þessum tíma. Það hafi ekki síst verið Kristjáni Ásgeirssyni að þakka, enda hafði hann góða yfirsýn yfir málin og lagði ríka áherslu á atvinnuöryggi, góð laun og félagslega hugsun í rekstri fyrirtækja.
Kiddi var virtur fyrir störf sín að verkalýðsmálum. Hann þótti mikill málafylgjumaður og var einlægur baráttumaður fyrir ýmsum mikilvægum réttindamálum sem þykja sjálfsögð í dag, s.s. atvinnuleysistryggingum, stofnun lífeyrissjóða og að félagsmenn stéttarfélaga hefðu aðgengi að öflugum sjúkrasjóðum í alvarlegum veikindum. Fyrir þessu barðist Kiddi ekki eingöngu innan Verkalýðsfélags Húsavíkur, heldur gegndi hann lengi trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna á landsvísu, sem áhrifamaður innan Verkamannasambandsins og Alþýðusambands Íslands. Auk þess sat hann í stjórn Lífeyrissjóðsins Bjargar um árabil.
Það fór því vel á því að baráttumaðurinn Kristján Ásgeirsson væri hylltur fyrir vel unnin störf í þágu verkafólks og samfélagsins alls, en á 95 ára afmæli Verkalýðsfélags Húsavíkur var hann gerður að heiðursfélaga þess. Athöfnin fór fram þann 1. maí 2006 á baráttudegi verkafólks, en stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir hátíðardagskrá í Félagsheimili Húsavíkur.
Fyrir mig sem ungan og róttækan mann voru mikil forréttindi að fá að kynnast Kidda og hans lífsskoðunum. Enda fór það svo að ég fylgdi honum í gegnum þau ár sem hann gaf kost á sér til áhrifa í bæjarstjórn Húsavíkur, sat með honum í stjórn verkalýðsfélagsins um tíma auk þess að fara með honum á fyrsta þingið sem ég tók þátt í á vegum Verkamannasambands Íslands, sem haldið var í Vestmannaeyjum árið 1988. Verkalýðsfélag Húsavíkur átti rétt á tveimur fulltrúum. Til stóð að Helgi Bjarnason formaður verkalýðsfélagsins færi með Kidda en hann forfallaðist á síðustu stundu og var ég kallaður inn sem varamaður. Það var mikil lífsreynsla fyrir ungan fiskvinnslumann frá Húsavík að fara á þingið með Kidda og upplifa hvernig þing sem þessi færu fram.
Það var einnig mikill heiður þegar Kiddi og Helgi Bjarnason komu að máli við okkur Kára Arnór Kárason árið 1992 og lögðu að okkur að taka við Verkalýðsfélagi Húsavíkur, enda væri stuðningur við það innan félagsins. Það væri kominn tími á breytingar. Við tókum slaginn, Kári tók við af Helga sem formaður og ég tók við keflinu frá Kidda sem varaformaður. Vissulega stór stund sem gefið hefur mér mikið frá upphafi til dagsins í dag. Hafðu kærar þakkir fyrir það Kristján Ásgeirsson, það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri til að sameina áhugamál og vinnu.
Fyrir mína hönd og Framsýnar stéttarfélags votta ég fjölskyldu Kristjáns Ásgeirssonar dýpstu samúð. Við minnumst látins félaga með miklu þakklæti fyrir hans óeigingjörnu störf í þágu verkafólks í Þingeyjarsýslum. Megi minning um góðan mann lifa um ókomna tíð.
Aðalsteinn Árni Baldursson