Félagsmenn í STH athugið – upplýsingar um Félagsmannasjóðinn

Í síðustu kjarasamningum við sveitarfélögin og fleiri sjálfseignastofnanir var samið um Félagsmannsjóð sem launagreiðandi greiðir í með 1,24% framlagi. Þetta er jöfnunarsjóður sem greiðir hámarksfjárhæð sem er kr. 80.000 til einstaklinga sem ná þeirri upphæð og síðan hlutfallslega upp að þeirri upphæð, miðað við heildartekjur á árinu 2020. Allir sem voru félagsmann um lengri eða styttri tíma á árinu 2020 eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum. Sjóðurinn hefur fengið nafnið Katla félagsmannasjóður og er búið er að opna fyrir umsóknir en sjóðurinn er í umsjón allra þeirra stéttarfélaga innan BSRB og félagsmanna þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga og eru sjóðsfélagar 10.500 alls.

Félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur sækja um á rafrænni umsóknarsíðu sjóðsins og leggja fram viðeigandi upplýsingar svo sem síðasta launaseðil viðmiðunarárs, starfshlutfall og starfstíma yfir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2020.

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar. Greitt verður úr sjóðnum í apríl, nánari upplýsingar á katla.bsrb.is

Sækja um hér: minarsidurkatla.bsrb.is og þar er að finna upplýsingar um starfsemi sjóðsins.

Beðist er velvirðingar á því hversu mikið þetta hefur dregist en samkvæmt reglum átti að greiða út úr sjóðnum þann 1. febrúar sl. Von okkar er að hægt verði að greiða fyrr út úr sjóðnum en það á eftir að koma í ljós.

Sambandsstjórn Samiðnar ályktar

Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar sem haldinn var í Hannesarholti (og í fjarfundi) voru samþykktar tvær ályktanir sem annars vegar lúta að hvatningu til stjórnvalda um að ganga lengra til stuðnings þeim sem misst hafa vinnu og lent í fjárhagserfiðleikum og hins vegar átakinu „Allir vinna“ og mikilvægi þess til efnahagslegrar viðspyrnu.  Sambandsstjórnin sem Þingiðn á aðild að telur mikilvægt að átakinu verði fram haldið og sveitarfélögin standi við stóru orðin í tengslum við Covid og komi að málum með auknum fjárfestingum.

Ályktun um stuðning vegna efnahagssamdráttar
„Það eru jákvæð teikn á lofti í íslensku samfélagi með komu bóluefnis til landsins. Aukin bjartsýni er að íslenskt efnahagslíf nái auknum þunga á seinni hluta ársins 2021. Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að styðja íslenskt atvinnulíf sem ber að fagna. Hins vegar er ljóst að ekki hefur verið gengið nógu langt fyrir þá sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og eru í fjárhagslegum erfiðleikum. Mikilvægt að þar kom til frekari stuðnings. Samiðn hvetur íslensk stjórnvöld að halda betur utan um þá sem hafa orðið fyrir áföllum á þessum erfiðum tímum.“

Ályktun um átakið „Allir vinna“  
„Samiðn fagnar þeim árangri sem náðst hefur í átakinu “Allir vinna” en á síðasta ári námu endurgreiðslur vegna þess tæpum 20 m.a. kr. Ljóst er að þetta hefur verið mikilsvert innlegg í þeim árangri sem íslenskt samfélag hefur þó náð í afar erfiðu og krefjandi árferði. Samiðn vill hvetja íslensk stjórnvöld að framlengja átakið enda fara þar saman hagsmunir allra.
Samiðn telur milvægt að sveitarfélög auki við fjárfestingar sínar. Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur í ljós að þau hafa því miður ekki staðið við stóru orðin í Covid faraldrinum.“

Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun

Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir mestir hjá atvinnulausum og innflytjendum.

Um fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir mestir hjá atvinnulausum og innflytjendum, eins og fram kom á veffundi nú í hádeginu þar sem niðurstöðurnar voru kynntar.

Varða lagði nýverið könnun fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands og BSRB þar sem spurt var um stöðu launafólks og atvinnulausra. Ákveðið var að ráðast í gerð könnunarinnar meðal annars vegna þeirra miklu erfiðleika sem hluti launafólks býr við vegna heimsfaraldur kórónuveirunnar, sérstaklega sá stóri hópur sem misst hefur vinnuna.

Niðurstöðurnar sýna verulegan mun á fjárhagsstöðu félagsfólks aðildarfélaga ASÍ og BSRB eftir kyni. Alls sögðust 23,7% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að þeir ættu frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Hlutfallið var mun hærra meðal kvenna, 27,2% en hjá körlum mældist það um 19,5%.

Staða atvinnulausra var mun verri en staða launafólks. Rúmlega helmingur atvinnulausra, 50,5%, sögðust eiga frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnulausir eru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð.

Atvinnuleysi er mun hærra meðal innflytjenda en innfæddra, um 24% samanborið við 15,2% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem vitnað er til í skýrslu Vörðu og því ljóst að um viðkvæman hóp er að ræða. Alls sögðust um 34,9% innflytjenda eiga erfitt eða frekar erfitt með að láta enda ná saman. Það er mun hærra hlutfall en meðal innfæddra, þar sem 26,2% voru í sömu stöðu. Innflytjendur líða frekar efnahagslegan skort og hafa í meira mæli þurft að þiggja matar- og/eða fjárhagsaðstoð.

Í könnun Vörðu var einnig spurt um andlega og líkamlega heilsu. Niðurstöðurnar sýna að andleg og líkamleg heilsa atvinnulausra er verri en þeirra sem eru í vinnu og þeir eru líklegri til að hafa neitað sér um að sækja heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa atvinnulausra mælist einnig mun verri hjá konum en körlum en athygli verkur að um fjórðungur kvenna á vinnumarkaði, þeirra sem eru  í vinnu, sagðist búa við slæma andlega heilsu.

Hægt er að kynna sér niðurstöður könnunar Vörðu í heild sinni í meðfylgjandi skýrslu um stöðu launafólks á Íslandi.

Starfsmenn sveitarfélaga – Hafa greiðslur úr Félagsmannasjóði skilað sér til ykkar?

Allir félagsmenn Framsýnar sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélagi á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. desember 2020 áttu að fá greitt úr félagsmannasjóði 1. febrúar síðastliðinn. Svo virðist sem greiðslan hafi ekki skilað sér til allra. Því er vert fyrir viðkomandi stafsmenn sveitarfélaga að skoða hvernig stendur á því. Það er hægt með því að setja sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar eða með því að fylla út þetta rafræna eyðublað

Í núgildandi kjarasamningi við sveitarfélögin var samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er greitt úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. 

Persónuvernd opnar starfsstöð á Húsavík – spennandi störf í boði

Persónuvernd hefur auglýst tvær stöður hjá stofnuninni til umsóknar í nýrri starfsstöð á Húsavík. Um er að ræða eina stöðu lögfræðings og eina stöðu sérfræðings í þjónustuveri. Leitað er að framúrskarandi einstaklingum sem eru tilbúnir að takast á við krefjandi verkefni með samhentu teymi hjá Persónuvernd segir í auglýsingunni.  

Full ástæða er til að fagna því að Persónuvernd sem er sjálfstætt stjórnvald, hafi ákveðið að efla þjónustuna enn frekar með því að opna fjarþjónustu á Húsavík. Frekari upplýsingar eru í boði hjá Persónuvernd í síma 5109600.

Formannsskipti framundan í Sjómannadeild Framsýnar

Á síðasta aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar sem haldinn var 22. janúar gaf núverandi formaður deildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín út yfirlýsingu um að þetta væri síðasta árið sem hann gæfi kost á sér sem formaður deildarinnar. Nú væri komið að leiðarlokum eftir skemmtilegan og gefandi tíma sem formaður og því tímabært að finna nýjan og öflugan formann deildarinnar sem taki við á næsta aðalfundi deildarinnar. Jakob sem lengi var til sjós hefur alla tíð látið sig málefni sjómanna varða. Það er sem trúnaðarmaður um boð í togurum, þá hefur hann gengt stjórnunarstörfum í Framsýn til fjölda ára, trúnaðarstörfum fyrir Sjómannasamband Íslands og setið í stjórn Sjómannadeildar Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur í rúmlega þrjá áratugi. Jakob hefur verið  formaður deildarinnar í 31 ár, en hann tók við formennsku af Aðalsteini Ólafssyni á aðalfundi deildarinnar í desember 1989.

Til fróðleiks má geta þess að ungur að árum eða um 15 ára aldur réð Kobbi sig á sjó hjá Kristjáni Jónssyni sem þá rak niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Verksmiðjan átti þrjá smábáta sem voru um og yfir 10 tonn. Bátarnir voru notaðir til að veiða smásíld til niðursuðu. Veiðiskapurinn kallaðist nótabrúk. Á Akureyri störfuðu svokölluð nótabrúk hér á árum áður og voru þá aðallega notaðar landnætur. Síldin var veidd á grunnsævi. Síðan var hún geymd í svonefndum lásum á Pollinum. Úr lásunum voru síðan tekin úrköst, lítilli nót var kastað inn í lásinn og sá skammtur tekinn, sem hentaði hverju sinni. Afgangurinn var svo geymdur áfram í lásnum. Þetta voru fyrstu kynni Jakobs af veiðiskap sem þótti nokkuð sérstakur og er löngu aflagður í dag.

Eftir tveggja ára veru hjá Kristjáni eða árið 1971 lá leið Jakobs á síðutogara frá Akureyri, Sléttbak EA. Eftir það var hann í nokkur ár á togurum í eigu ÚA, Harðbak EA og Sólbak EA, það er bæði á síðutogurum og eins skuttogurum. Rétt er að geta þess að Jakob kom að því árið 1975 að sækja nýjan glæsilegan skuttogara ÚA, Harðbak EA til Þýskalands sem þótti með glæsilegustu togurum þess tíma. Harðbakur EA var smíðaður á Spáni. 

Milli þess að vera á togurum sem gerðir voru út frá Akureyri á þessum tíma réði Jakob sig tímabundið á Kristbjörgu VE árið 1972, en báturinn var gerður út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum.   

Nú var komið að ákveðnum tímamótum í lífi Jakobs G. Hjaltalíns. Hann hafði kynnst konu sem síðar varð eiginkona hans og bjó hún austan Vaðlaheiðar, það er í Aðaldal. Jakob tók því ekki lengur útstímið út Eyjafjörðinn á togurum í eigu ÚA, þess í stað hélt hann akandi yfir Vaðlaheiðina síðla sumars 1975, sem endaði með því að Jakob og tilvonandi eiginkona settust að á Húsavík.  Það er Hólmfríður Arnbjörnsdóttir og eiga þau saman einn uppkominn son.

Hugur Jakobs leitaði aftur til sjós og var hann fljótur að ráða sig til Sigga Valla á Kristbjörgu ÞH. Síðar réði hann sig til Hinriks Þórarinssonar á Jörva ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og net frá Húsavík.

Haustið 1976 ræður Jakob sig til Höfða hf. sem þá hafði fjárfest í nýjum togara, Júlíusi Havsteen ÞH. Á þeim tíma var mikið atvinnuleysi á Húsavík og kallaði samfélagið eftir byltingu í atvinnumálum svo ekki ætti illa að fara fyrir samfélaginu við Skjálfanda. Það var mikill fengur fyrir Höfða útgerðina að fá mann eins og Jakob til starfa, enda þaulvanur og duglegur sjómaður. Jakob var ráðinn sem bátsmaður. Nokkru síðar fjárfesti Höfði hf. í stærri togara, Kolbeinsey ÞH 10 sem smíðaður var á Akureyri. Við það fluttist Jakob yfir á Kolbeinsey og þar átti hann mörg góð ár, en árið 1996 ákvað hann að segja skilið við sjóinn í bili og réði sig í netagerð Höfða hf.

Þrátt fyrir það var sjómennsku Jakobs ekki alveg lokið, en  hann réði sig tímabundið eftir veruna í netagerðinni á nokkra togara og vertíðarbáta, það er á Brim ÞH og Sigurð Jakobsson ÞH sem gerðir voru út frá Húsavík. Rauðanúp ÞH sem gerður var út frá Raufarhöfn og Hjalteyrina EA sem gerð var út frá Akureyri.

Á sínum langa og farsæla sjómannsferli gegndi Jakob flestum störfum um borð, hann var; háseti, netamaður, bátsmaður og matráður ef svo bar undir. Árið 2004 hætti Jakob endanlega til sjós og fékk sér vinnu í landi. Það er eftir langan og farsælan sjómannsferil.  Hann hefur gefið út að hann muni hætta formennsku í Sjómannadeild Framsýnar á aðalfundi deildarinnar sem verður haldinn í desember næstkomandi, það er eftir farsælan feril sem formaður.

Við viljum öll taka þátt og hafa hlutverk í samfélaginu

Frá því að VIRK hóf starfsemi fyrir um 12 árum hafa þúsundir einstaklinga nýtt sér þjónustuna og náð að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. Starfsemi VIRK hefur því gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið, einstaklinga og fyrirtækin í landinu. Mikilvægt er að hjálpa og fjárfesta í fólki.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, var fyrsti starfsmaður starfsendurhæfingarsjóðsins og hóf störf rétt fyrir hrunið. „Þetta er auðvitað talsvert merkileg saga. Þá voru aðilar vinnumarkaðarins búnir að stofna VIRK og það var komin skipulagsskrá en það átti alveg eftir að útfæra starfið. Ég byrja 15. ágúst 2008, fékk lánaða eina skrifstofu hjá ASÍ, og er þá alein og fer að reyna að finna mér fagfólk til þess að vinna með.
Þegar hrunið skellur á er ég rétt svo að koma starfseminni af stað og þeir segja við mig, bæði fulltrúar verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins, að ég eigi bara að setja í fimmta gír, sem ég gerði. Það veitti ekkert af og strax á árinu 2009 vorum við farin að taka á móti fólki í þjónustu.“

Meirihluti í vinnu eða nám

Vigdís segir meirihluta þjónustuþega hafa náð virkni að lokinni endurhæfingu þó vissulega séu alltaf einhverjir sem hætti líka. „Í dag eru 2.624 einstaklingar hjá VIRK og frá upphafi hafa komið um 19.500 manns. Af þeim hafa tæplega 12.000 lokið þjónustu hjá okkur og af þeim eru 75-80% í einhverri virkni þegar þau útskrifast.“

Vigdís segir þetta auðvitað hafa áhrif á samfélagið. „Við erum að tala um mörg þúsund manns sem ná að útskrifast annaðhvort í vinnu eða nám. Við náum að sjálfsögðu aldrei árangri með alla, sumir eru kannski það illa staddir þegar þeir koma að það er ekki raunhæft að þeir komist á vinnumarkaðinn en meirihluti fólks sem fer í gegn hérna hjá okkur nær að fara í vinnu, annaðhvort að hluta eða öllu leyti. Margir ná að fara aftur í sitt fyrra starf og svo er alltaf ákveðinn hluti, sérstaklega unga fólkið, sem fer í nám og það er náttúrulega líka mjög verðmætt.“

Vigdís segir það að hjálpa og fjárfesta í fólki hafa gríðarlega mikla samfélagslega þýðingu. „Það á við um VIRK og allar aðrar stofnanir og fyrirtæki sem veita samfélagslega þjónustu og líka fyrir vinnumarkaðinn sem væri auðvitað mun fátækari ef allar þessar þúsundir einstaklinga hefðu ekki farið aftur í þátttöku á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli varðandi verðmætasköpun í landinu og ekki síst fyrir líf og lífsgæði þessa fólks, það vilja allir vera þátttakendur í samfélaginu, það vilja allir hafa hlutverk.“

Það á við um VIRK og allar aðrar stofnanir og fyrirtæki sem veita samfélagslega þjónustu og líka fyrir vinnumarkaðinn sem væri auðvitað mun fátækari ef allar þessar þúsundir einstaklinga hefðu ekki farið aftur í þátttöku á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli varðandi verðmætasköpun í landinu og ekki síst fyrir líf og lífsgæði þessa fólks, það vilja allir vera þátttakendur í samfélaginu, það vilja allir hafa hlutverk.“

Mörg úrræði í boði

Vigdís segir fjölda einstaklinga hjá VIRK um þessar mundir vera svipaðan og undanfarin tvö ár og að biðin sé ekki löng í dag. Ferlið hefst á því að fara til læknis og fá beiðni. „Ástæðan er sú að fólk kemur til okkar með heilsubrest og við þurfum að vita hver hann er svo við getum verið með ábyrga starfsendurhæfingaráætlun. Síðan er farið yfir hana af sérfræðingum hjá okkur og fólk svarar spurningalista svo við fáum sem bestar upplýsingar til þess að geta búið til góða áætlun,“ útskýrir hún.

„Því næst fær fólk úthlutað ráðgjafa en þeir eru staðsettir í flestum tilfellum hjá stéttarfélögunum um allt land. Þetta eru sérhæfðir starfsendurhæfingarráðgjafar sem eru yfirleitt með mjög góða menntun á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda. Flestir ráðgjafarnir hjá okkur eru með mastersgráðu og hafa svo allir fengið sérstaka þjálfun hjá okkur. Þeir hafa þetta mikilvæga hlutverk að hvetja einstaklinginn áfram í sínu ferli og halda utan um hann,“ útskýrir Vigdís.

„Svo höfum við tök á að kaupa alls konar úrræði fyrir fólk hjá þjónustuaðilum um allt land, ýmis námskeið, sjálfsstyrkingu, sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun og líkamsrækt. Við höfum möguleika á að veita einstaklingum mjög fjölbreytta þjónustu. Ef þjónustuþegarnir þurfa mikið utanumhald þá erum við með samninga við starfsendurhæfingarstöðvar víða um land sem veita daglega þjónustu, þá mætir fólk á hverjum degi og fær mjög mikið utanumhald og svo eru aðrir sem þurfa minna og koma þá bara til ráðgjafa öðru hvoru og eru síðan kannski að fá þjónustu frá sálfræðingi og hugsanlega einhver námskeið og líkamsrækt sem dæmi.“

Ekki okkar hlutverk að lækna

Vigdís segir mikið lagt upp úr því að kenna fólki ýmis bjargráð þannig að það geti bjargað sér sjálft. „Við erum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Hver þjónustuþegi setur sér markmið um endurkomu til vinnu í upphafi starfsendurhæfingarinnar, gerir ætlun með ráðgjafa sínum um hvernig best sé að ná markmiðum sínum og við nýtum fjölbreytta þjónustu og leiðir til að vinna að þeim markmiðum.

Margir einstaklingar glíma við ýmsar skerðingar og heilsubrest, jafnvel ævina á enda. Við getum ekki alltaf breytt því og það er ekki okkar hlutverk að lækna eða veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu en við getum aðstoðað einstaklinga við að takast á við sinn heilsubrest og auka þannig vinnugetu sína og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrestinn.“

Margir einstaklingar glíma við ýmsar skerðingar og heilsubrest, jafnvel ævina á enda. Við getum ekki alltaf breytt því og það er ekki okkar hlutverk að lækna eða veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu en við getum aðstoðað einstaklinga við að takast á við sinn heilsubrest og auka þannig vinnugetu sína og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrestinn.“

Hún segir flesta ná flugi út á vinnumarkaðinn en það sé alltaf ákveðinn hópur sem er með þannig skerðingar að hann eigi erfitt með það. „Þá erum við með svokallaða atvinnulífstengla sem fara í raun og veru svolítið út á örkina og reyna að finna störf fyrir þessa einstaklinga en oft eru þetta hlutastörf. Þetta er þjónusta sem hefur verið í þróun hjá okkur undanfarin ár og hefur gefið mjög góða raun. Við höfum náð samstarfi við nokkur hundruð fyrirtæki sem hafa verið ákaflega viljug og búa þá til hlutastörfin til að mæta þessum einstaklingum. Það hefur gengið ótrúlega vel að vera með þessa beinu tengingu við atvinnulífið þegar þess þarf.“

Forvarnir mikilvægar

Fyrir nokkrum árum var heimasíðan velvirk.is sett á laggirnar en Vigdís segir hana vera hluta af forvarnarverkefni VIRK. „Markmið þeirrar síðu er að reyna að koma í veg fyrir að fólk þurfi að koma til okkar með því að bjóða upp á fræðslu og ráðleggingar, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það er líka mikilvægt að fyrirtæki bjóði upp á heilsusamlegt starfsumhverfi og styðji fólkið sitt. Við erum alltaf að bæta við síðuna og þarna geta stjórnendur náð sér í alls konar fræðslu, tæki og tól og starfsmenn líka.“

Athygli vekur að um 80% þeirra sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvanda. „Ef þú ert að glíma við mikla verki þá hefur það áhrif á sálina og öfugt þannig að það er ekkert skrítið að þetta tvennt tengist. En þessi mikla fjölgun geðgreininga er auðvitað áhyggjuefni í samfélaginu. Það er eins og fólki líði ekki eins vel og að við séum að takast á við afleiðingar einhvers sem þarf að fara betur ofan í kjölinn á. Á sama tíma og við erum á réttri leið með marga hluti þá er þetta eitthvað sem við sem samfélag þurfum að horfast í augu við og athuga hvað við getum gert betur. Það eru margir hlutir í þessu samhengi sem þarf að skoða.“

Erfitt en ekki ómögulegt

Vigdís segir COVID hafa haft neikvæð áhrif á marga og þá ekki síst hjá þeim sem eru að glíma við atvinnumissi. „Því fylgir auðvitað mikið óöryggi og við finnum það vel hjá okkar þjónustuþegum sem eru að glíma við þunglyndi og kvíða og standa nú frammi fyrir enn meiri einangrun. Þetta hefur komið mjög illa við þá einstaklinga og það þarf að halda sérstaklega vel utan um þann hóp. Við bjóðum fólki upp á fjarviðtöl og hjá þeim sem þurfa að fá að hitta ráðgjafa er farið eftir ítrustu sóttvarnafyrirmælum. Áhrif COVID á vinnumarkaðinn hafa gert það að verkum að það er kannski erfiðara að koma fólki í vinnu en það er ekki ómögulegt.“

Við bjóðum fólki upp á fjarviðtöl og hjá þeim sem þurfa að fá að hitta ráðgjafa er farið eftir ítrustu sóttvarnafyrirmælum. Áhrif COVID á vinnumarkaðinn hafa gert það að verkum að það er kannski erfiðara að koma fólki í vinnu en það er ekki ómögulegt.“

Þá hafi þau líka orðið vör við að ákveðinn hópur hafi haft það betra í COVID, sennilega vegna þess að það hafi dregið úr hraða í samfélaginu. Það veki upp ýmsar spurningar. „Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvort við séum hreinlega að gera of miklar kröfur til okkar. Það þyki jafnvel eðlilegt að foreldrar sem eiga nokkur börn séu líka í fullu námi, stundi ræktina, sinni tómstundum og vinnu. Eru þetta eðlilegar kröfur sem við eigum að gera á okkur sjálf og aðra? Það eru margir sem hafa ekki möguleika á að uppfylla þessar kröfur eða forsendur til að standa undir svona væntingum. Þetta er margþætt og flókið og það skiptir máli fyrir okkur öll að byggja upp gott samfélag þar sem okkur líður vel.“

Viðtalið birtist í Konur í atvinnulífinu – sérblaði Fréttablaðsins 27. janúar 2021.

Loksins „snertifundur“

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar fyrir helgina til að taka fyrir þau málefni sem lágu fyrir fundinum. Venja er fyrir því að boða varamenn auk stjórnarmanna á stjórnarfundina sem og stjórn Framsýnar-ung. Þannig er á hverjum tíma tryggt gott lýðræði í félaginu, það er að fleiri en færri komi að því að taka ákvarðanir sem varða starfsemi félagsins á hverjum tíma. Undanfarna mánuði hafa fundirnir farið fram í gegnum netið en stjórnin fundar að meðatali einu sinni í mánuði. Að þessu sinni var ákveðið að hafa snertifund og gæta að öllum sóttvarnarreglum enda fundarmenn innan við tuttugu manns. Menn voru almennt ánægðir með að geta hist á ný og rætt málin yfir borðið. Reyndar komust ekki allir á fundinn vegna veðurs, þess í stað voru þeir í símasambandi.

Á fundinum voru mörg mál á dagskrá s.s. aðalfundur sjómannadeildar félagsins, fjármál félagsins, skuldir fyrirtækja vegna launatengdra gjalda til félagsins, stofnanasamningar við ríkisstofnanir, vinnutímastyttingar hjá stofnunum ríkis- og sveitarfélaga, kjörgengi félagsmanna, orlofskostir félagsmanna sumarið 2021, væntanlegt trúnaðarmannanámskeið, viðgerðir á íbúðum félagsins í Þorrasölum í Kópavogi, álag á Skrifstofu stéttarfélaganna, samstarf við Verkalýðsfélag Þórshafnar, atvinnuleysi á félagssvæðinu, félagsmannasjóður, samstaf fræðslusjóða, 110 ára afmæli félagsins og hugsanleg kaup á orlofsíbúð.

Samningslausir sjómenn á aðalfundi

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn síðasta föstudag. Til stóð að halda hann í desember en vegna COVID og fjöldatakmarkana varð að fresta fundinum fram í janúar þegar heimilt var að halda „snertifundi“ fyrir allt að tuttugu fundargesti.  Fundurinn fór vel fram og urðu að venju líflegar umræður um málefni sjómanna og stöðuna í kjaraviðræðunum við útgerðarmenn SFS. Engin gleði er innan sjómanna með það mikla virðingarleysi sem SFS sýnir samtökum sjómanna með því að ganga ekki frá nýjum kjarasamningi við sjómenn sem hafa verið samningslausir á annað ár. Stjórn deildarinnar var endurkjörin með einni undantekningu, Aðalgeir Sigurgeirsson gekk úr stjórn og í hans stað var Héðinn Jónasson kjörin í stjórn.  Stjórnina skipa eftirtaldir:

Stjórn Sjómannadeildar Framsýnar starfsárið  2021:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Börkur Kjartansson varaformaður
Gunnar Sævarsson ritari
Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi
Héðinn Jónasson meðstjórnandi

Meðfylgjandi er ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar

Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2021. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2020, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma.  Áður en lengra er haldið ber að geta þess að umliðið starfsár litaðist verulega af heimsfaraldrinum COVID-19.

Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um síðustu áramót með gjaldfrjálsum sjómönnum var um 100 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum taka mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs.

Kjaramál:
Núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir á annað ár. Því miður er staðan óbreytt, sjómenn eru samningslausir þar sem SFS hefur dregið lappirnar með því að ganga ekki að sanngjörnum kröfum sjómanna. Viðræður við útgerðarmenn hafa vægast sagt gengið mjög illa og því lítið að frétta. Allar tillögur frá samtökum sjómanna til SFS varðandi það að liðka til í samningamálum hafa verið slegnar út af borðinu nánast án þess að þær væru skoðaðar frekar. Vegna heimsfaraldursins COVID-19 og ástandsins í þjóðfélaginu reyndi Sjómannasambandið að koma með mjög hógværar enn sanngjarnar kröfur svo hægt yrði að ganga frá nýjum kjarasamningi. Í því sambandi var helstu ágreiningsmálum lagt til hliðar til að liðka fyrir gerð kjarasamnings til tveggja ára, því var hafnað af hálfu SFS. Hvað kjarasamningsgerðina varðar skulum við hafa í huga að háleit markmið voru sett þegar núverandi kjarasamningur var undirritaður á sínum tíma þess efnis að á samningstímanum yrði unnið við heildarendurskoðun á kjarasamningnum, s.s. athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í skipum sem og um skiptimannakerfið. Þessari vinnu er langt frá því að vera lokið. Staðan í dag er sú, að aðeins ein bókun hefur verið kláruð sem fólst í athugun á mönnun og hvíldartíma sjómanna. Öllum þessum atriðum átti að ljúka fyrir sumarið 2019 og þá átti að hefjast handa við gerð nýs kjarasamnings en vegna ágreinings milli aðila þá gekk þetta ekki eftir sem er miður fyrir sjómenn.  Það tók svo steininn úr þegar SFS ákvað einhliða að hluti kjarasamnings, það er grein 1.29.1. gildi ekki lengur og falli út úr samningnum sem felur í sér lækkun á skiptaprósentunni um 0,5% þegar landað er hjá skyldum aðila. Slík vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi, það er að annar samningsaðilinn taki út grein úr kjarasamningi þar sem hún hentar honum ekki lengur. Þessi vinnubrögð endurspegla vinnubrögð SFS og þurfa ekki að koma mönnum á óvart sem þekkja til vinnubragða útgerðarmanna. Málið hefur verið kært til félagsdóms sem tekur málið væntanlega fyrir 2. febrúar nk. Ekki er ólíklegt að kjaradeilunni verði jafnframt vísað til ríkissáttasemjara í febrúar nk. ef ekkert hreyfist í samningaviðræðunum fyrir þann tíma. Að mati stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar er það reyndar löngu tímabært. Eins og fram hefur komið í þessari samantekt um kjaramál er beðið eftir niðurstöðu Félagsdóms og í kjölfarið má reikna með að Sjómannasambandið vísi deilunni til ríkissáttasemjara þar sem SFS hefur ekki haft mikinn metnað fyrir því að setjast að alvöru við samningaborðið með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings. Að sjálfsögðu eiga sjómenn ekki að láta bjóða sér svona framkomu í þeirra garð.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar tókst ekki að klára endurskoðun á sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar á síðasta ári. Kjaraviðræðum var frestað í mars þegar COVID náði tökum á þjóðarskútunni og reyndar heimsbyggðinni allri. Sem betur fer kom það ekki á sök enda lítið um hvalaskoðun sumarið 2020 vegna heimsfaraldursins. Við höfum verið í sambandi við Samtök atvinnulífsins sem fara með samningsumboðið fyrir hönd útgerða hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík. Stefnt er að því að menn setjist að samningaborðinu í febrúar/mars og klári samninginn fyrir vorið, það er áður en hvalaskoðunarvertíðin byrjar. Að sjálfsögðu er það bundið því að búið verði að opna landið vegna COVID og frjáls för ferðamanna verði leyfð á ný milli landa.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Aðalsteinn Steinþórsson og Aðalgeir Sigurgeirsson meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og formann Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma.

Heiðrun sjómanna:
Allt frá árinu 2010 hefur Sjómannadeildin séð um heiðrun sjómanna á sjómannadaginn á Húsavík. Vegna Covid var ákveðið að standa ekki fyrir heiðrun sjómanna árið 2020 enda féllu hátíðarhöld vegna Sjómannadagsins niður af sömu ástæðu. Vonandi verður hægt að heiðra sjómenn á vegum deildarinnar í ár enda verði heilbrigðisyfirvöld búin að aflétta fjöldatakmörkunum vegna sóttvarnarreglna.

Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni og hefur þeim fækkað milli ára. Aðalsteinn J. Halldórsson lét af störfum haustið 2020 og réð sig til annarra starfa. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2020, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum. Þá vil ég þakka Aðalgeiri sem nú fellur úr stjórn deildarinnar sérstaklega fyrir vel unnin  störf í þágu deildarinnar á umliðnu starfsári.

Fh. stjórnar
Jakob Gunnar Hjaltalín

Formaður Sjómannadeildarinnar er hér þungt hugsi yfir stöðunni en hann var endurkjörinn sem formaður deildarinnar á aðalfundinum.

Gengið frá Stofnanasamningi við HSN

Síðasta föstudag undirrituðu stéttarfélögin á Norðurlandi innan Starfsgreinasambands Íslands og Heilbrigðisstofnun Norðurlands undir nýjan Stofnanasamning. Samningurinn sem gildir frá 1. janúar 2021 nær til almennra starfsmanna hjá stofnunninni, það er frá Þórshöfn á Blönduós.  Meðal þeirra sem falla undir samninginn eru félagsmenn Framsýnar.

Samkomulag þetta byggir á kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkisjóðs annars vegar og Starfsgreinasambands Íslands hins vegar frá 6. mars 2020.

Á tímum COVID fara flestir samningafundir fram á netinu. Hér má sjá samninganefndir HSN og stéttarfélaganna að störfum á föstudaginn.

Niðurstaðan liggur fyrir í getraun stéttarfélaganna

Í síðasta Fréttabréfi stéttarfélaganna sem kom út fyrir jólahátíðina var myndagáta sem lesendum gafst tækifæri á að leysa. Mikill fjöldi lesenda skilaði inn lausnum á gátunni.  Í dag var komið að því að draga þann heppna út. Niðurstaðan liggur fyrir sem verður kunngerð eftir helgina.

Gunnhildur Gunnsteinsdóttir starfsmaður Sparisjóðs Suður- Þingeyinga var fengin til að draga þann heppna út. Hver vann? meira um það eftir helgina. Linda Bald starfsmaður stéttarfélaganna er með Gunnhildi á myndinni en hún hélt utan um getraunina.

Launahækkanir hjá PCC

Samkvæmt sérkjarasamningi Framsýnar/Þingiðnar við PCC hækka laun starfsmanna fyrirtækisins um kr. 24.000 frá 1. janúar 2021. Eftirfarandi launatafla hefur tekið gildi:

Launatafla – gildir frá 1. janúar 2021

Framleiðslustarfsmenn

ByrjunE. 1 árE. 3 árE. 5 ár
Grunnlaun á mánuði365.681384.742394.272402.959

Iðnaðarmenn, ráðnir á grundvelli viðurkenndra réttinda til starfa í iðn sinni

 
ByrjunE. 1 árE. 3 árE. 5 ár
Grunnlaun á mánuði466.959492.096504.665513.044

Iðnaðarmenn með sveinspróf eða iðnmenntun sem PCC metur sambærilega, ráðnir til starfa í iðn sinni

ByrjunE. 1 árE. 3 árE. 5 ár
Grunnlaun á mánuði495.432522.277535.700544.649

Útkall

Sjómenn innan Framsýnar, munið áður auglýstan aðalfund Sjómannadeildar félagsins kl. 17.00 á morgun föstudag. Á fundinum verða venjuleg aðalfundarstörf til umræðu og staðan í kjaramálum nú þegar sjómenn hafa verið samningslausir á annað ár. Koma svo ágætu sjómenn.

Við höldum áfram að bjóða upp á áhugaverð námskeið

Fjarnámskeið NTV sem haldin verða í samstarfi við starfsmenntasjóðina Landsmennt, Sveitamennt, Sjómennt og Ríkismennt  sem Framsýn á aðild að hefjast í febrúarmánuði. Frekari upplýsingar um námskeiðin og upphafsdagsetningar má finna á eftirfarandi slóð: http://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

NámskeiðdagsetningarVikur
Bókhald Grunnur  5.febrúar til 9.apríl(8 vikur)
Digital Marketing19.febrúar til 26.mars(7 vikur)
Frá hugmynd að eigin rekstri (Gerð viðskiptaáætlunar)19.febrúar til 26.mars(5 vikur)
App og vefhönnun17.febrúar til 17.mars(6 vikur)
Vefsíðugerð í WordPress19.febrúar til 19.mars(4 vikur)
Skrifstofu og tölvufærni12.febrúar til 26.mars(6 vikur) 

Opnað hefur verið fyrir skráningar á námskeiðin á slóðinni: http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags

Þessi frábæru námskeið eru opin fyrir félagsmenn Framsýnar sem starfa eftir almennum kjarasamningum og kjarasamningum ríkis og sveitarfélaga.  

Samráðsfundur um málefni starfsmanna PCC

Forsvarsmenn Framsýnar funduðu í morgun með fulltrúum PCC um málefni framleiðslustarfsmanna og annarra starfsmanna fyrirtækisins í hliðarstörfum. Unnið er að því að gera breytingar á vinnutíma starfsmanna, það er að áfram verði unnið á 12 tíma vöktum við framleiðsluna á sólahringsvöktum þegar framleiðslan fer aftur á stað í apríl, það er ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir. Jafnframt verði starfsmönnum boðið að ráða sig á dagvaktir og/eða í dagvinnu sem yrði mikið framfaraspor og auðveldaði um leið fleirum að sækja vinnu á Bakka, ekki síst heimamönnum.

Reiknað er með að ráða þurfi um 50 til 60 starfsmenn til starfa á næstu mánuðum. Framsýn hefur allt frá upphafi lagt mikið upp úr því að starfsmenn PCC hefðu val um það að ráða sig á sólahringsvaktir, dagvaktir og/eða í dagvinnu. PCC hefur tekið þeim hugmyndum afar vel og hafa unnið að því fylgja þeim eftir enda gæti það einnig hentað starfsemi fyrirtækis vel. Fundurinn í morgun snerist meðal annars um það að hrinda þessum breytingum í framkvæmt enda stjórnendur fyrirtækisins opnir fyrir breytingum á núverandi vinnutíma starfsmanna. Til viðbótar má geta þess að áhugi er meðal aðila að gera breytingar á núverandi bónuskerfi og ákvæðum um hæfniramma sem varðar framgang starfsmanna í starfi. Þeirri vinnu verður framhaldið á næstu vikum.  Að venju var fundurinn í morgun vinsamlegur enda markmið beggja aðila að eiga gott samstarf um málefni starfsmanna og fyrirtækisins.

Það var vetrarlegt út á Bakka í morgun þegar viðræður Framsýnar og forsvarsmanna PCC fóru fram.

VÞ óskar eftir áframhaldandi samstarfi

Framsýn og Verkalýðsfélag Þórshafnar hafa um árabil átt gott samstarf um verkalýðsmál. Vegna endurskipulagningar á starfi Framsýnar sagði félagið upp samstarfssamningi við VÞ á síðasta ári. Í kjölfarið óskaði VÞ eftir viðræðum við Framsýn um áframhaldandi samstarf félaganna er viðkemur þjónustu við starfsmenn og félagsmenn innan Verkalýðsfélags Þórshafnar. Þjónustan hefur einnig falist í því að veita stofnunum og fyrirtækjum á Þórshöfn ákveðna ráðgjöf er tengist ákvæðum kjarasamninga á hverjum tíma. Fulltrúar frá stéttarfélögunum funduðu á dögunum þar sem ákveðið var að skoða frekara samstarf með gerð þjónustusamnings milli aðila. Meðfylgjandi þessari frétt er mynd af hressum félagsmönnum innan Verkalýðsfélags Þórshafnar.

Veikindadagar teljast í vinnudögum – ekki almanaksdögum

Á síðustu árum hefur ítrekað komið til ágreinings milli aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) um hvernig telja skuli veikindadaga. SA hefur haldið því fram að telja skuli almanaksdaga í forföllum en ASÍ haldið því fram að einungis skuli telja þá daga sem launamaður hefði að óbreyttu átt að vinna. Félagsdómur staðfesti túlkun ASÍ með dómi sínum þann 17. desember sl. í máli Verkalýðsfélags Snæfellinga gegn Íslandshótelum.

Deilan hefur aðallega lotið að því hvernig telja skuli úttekt veikindadaga á fyrsta starfsári þ.e. þegar starfsmenn ávinna sér tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Niðurstaða Félagsdóms var mjög afgerandi og þar segir að leggja verði til grundvallar „… að starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vera að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann átti að vera í fríi.

Fyrir Félagsdómi var deilt um fleira. Atvik málsins voru þau að starfsmaður hafði samið um að taka sitt fulla starf út með því að vinna lengri vinnudaga og eiga því fleiri frídaga á móti. Í þeim tilvikum segir Félagsdómur að atvinnurekanda geti verið „… heimilt að telja forföll í klukkustundum og draga þær frá áunnum veikindarétti í klukkustundum.“ Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er Félagsdómur ekki að tala um talningu yfirvinnustunda í ávinnslu eða úttekt, heldur einungis þær stundir sem færðar eru skv. heimild í kjarasamningum. Starfsmaður sem t.d. skilar 100% starfi á 4 dögum í stað fimm, ávinnur sér áfram 2 daga fyrir hvern unnin mánuð en þegar að úttekt kemur kann að vera eðlilegt, veikist hann í heila viku, að telja hann taka út 5 veikindadaga en ekki 4. Dómurinn breytir hins vegar engu fyrir hlutavinnustarfsmann sem vinnur t.d. 4 daga í viku (80%). Í hans tilviki myndi úttektin áfram vera 4 dagar en ekki fimm.

Um talningu veikindadaga og dóminn er nánar fjallað á Vinnuréttarvef ASÍ.

Rétt er að íteka að hér er verið að tala um veikindarétt á almenna vinnumarkaðinum enn ekki hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga.

Umdeild einkavæðing á óvissutímum

Greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um áformaða sölu Íslandsbanka

Röksemdir og skýringar skortir fyrir þeirri ákvörðun að hefja söluferli vegna Íslandsbanka á miklum óvissutímum. Enn er óljóst hversu stóran hlut stendur til að selja og ekki er skýrt til hvaða verkefna áformað er að nýta fjármunina sem fást fyrir sölu á bankanum. Þá veldur fyrri reynsla af einkavæðingu fjármálastofnana á Íslandi tortryggni og því sérstaklega mikilvægt að ítarleg samfélagsleg umræða skapist um kosti og galla slíkrar ráðstöfunar.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri greinargerð sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins sem birt er í dag. Hópurinn hóf störf um miðjan september og hefur frá þeim tíma sent reglulega frá sér skýrslur um áhrif COVID-kreppunnar.

Auk megin niðurstöðu hópsins að skýringar og röksemdir skorti fyrir þeirri ákvörðun að hefja sölu bankans eru fjölmargar efnislegar athugasemdir gerðar við fyrirhugaða sölu. Vakin er athygli á því að aðstæður séu nú allt aðrar en þegar boðað var í stjórnarsáttmála árið 2017 að hlutur ríkisins í fjármálakerfinu yrði minnkaður. Óvissa vegna COVID-faraldursins sé enn í algleymingi og upprisa ferðaþjónustu muni að öllum líkindum tefjast með tilheyrandi óvissa fyrir íslenskt efnahagslíf og bankakerfið þar með.

Hópurinn gerir athugasemdir við þann hraða sem einkennir ferlið og telur röksemdir fyrir sölu eins og þær hafa verið kynntar af hálfu Bankasýslu ríkisins og stjórnvalda ófullnægjandi. Ástæða söluferlisins virðist öðru fremur vera að standa við gefin fyrirheit í stjórnarsáttmála og hraðinn skýrast af komandi Alþingiskosningum. Slíkar röksemdir nægja ekki til að einkavæða banka.

Skiptaverð til sjómanna lækkar í janúar 2021

Vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á gasolíu lækkar skiptaverð til sjómanna í janúar 2021 frá því sem það var í desember 2020.

Skiptaverð í viðskiptum milli skyldra aðila fer úr 72,5% í 70,5% af verðmæti aflans.

Skiptaverð í viðskiptum milli óskyldra aðila fer úr 72,0% í 70,0% af verðmæti aflans.

Þegar afli er frystur um borð verður skiptaverðið 72,0% af FOB verðmæti aflans og 66,5% af CIF verðmæti aflans.

Þegar rækja er unnin um borð verður skiptaverðið 69,0% af FOB verðmæti aflans og 63,5% af CIF verðmæti aflans.

Skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu erlendis er óháð olíuverði og er því óbreytt. Þegar siglt er með uppsjávarfisk er skiptaverðið 70% af söluverðmæti aflans erlendis.

Þegar siglt er með botnfisk til sölu erlendis er skiptaverðið 66,0% af söluverðmæti aflans.