Samið við Sókn lögmannsstofu

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa samið við Sókn lögmannstofu á Egilsstöðum um að þjónusta félögin frá og með næstu áramótum. Lögfræðiþjónustan fellst í því að lögmannsstofan mun veita ráðgjöf til starfsmanna stéttarfélaganna í daglegum störfum þeirra er varða hagsmuni félagsmanna, kjarasamningsbundin réttindi, innheimtumál og slysamál og eftir atvikum á málum á öllum sviðum lögfræðinnar er starfsmenn stéttarfélaganna ákveða að vísa til lögfræðistofunnar. Sókn lögmannsstofa var stofnuð haustið 2010 af þremur lögmönnum, Hilmari Gunnlaugssyni, Jón Jónsson og Evu Dís Pálmadóttir. Áður höfðu þau starfað saman í lögmennsku um árabil. Öll hafa þau leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti og Hæstarétti Íslands.  Hjá Sókn lögmannsstofu  er að finna breiða þekkingu á ýmsum sviðum lögfræðinnar. Framkvæmdastjóri Sóknar lögmannsstofu er Eva Dís Pálmadóttir sem jafnframt verður aðallögmaður stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Það eru; Framsýn stéttarfélag, Starfsmannafélag Húsavíkur, Þingiðn félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Deila á