Ánægjuleg heimsókn til Björgunarsveitarinnar Stefáns

Nýverið heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir Björgunarsveitina Stefán í Mývatnssveit. Var tilgangur heimsóknarinnar að afhenda sveitinni 250.000,- peningagjöf frá Framsýn, líkt og öðrum björgunarsveitum á félagssvæðinu hefur verið veitt undanfarið ár. Framsýn hefur árlega lagt talsverða upphæð til samfélagsmála og tók  aðalfundur félagsins um það ákvörðun síðastliðið vor að leggja tæpar tvær milljónir króna í það verkefnið. Vill félagið með því leggja sitt að mörkum til að styðja við starf björgunarsveitanna, sem eins og öllum ætti að vera ljóst gegna lykilhlutverki í almannavarnarkerfi okkar Íslendinga.

 Það voru nokkrir galvaskir meðlimir björgunarsveitarinnar með formann sinn, Kristján Steingrímsson í fararbroddi, sem tóku á móti gestunum frá Framsýn og veittu gjöfinni viðtöku. Voru þeir afar þakklátir fyrir fjárstuðninginn og sögðu hann koma sér vel. Til þess að björgunarsveitirnar gætu uppfyllt sem best það hlutverk sem þær gegna, þyrftu þær að hafa yfir að ráða góðum búnaði, en viðhald og endurnýjun á tækjum og búnaði væri mjög fjárfrekt verkefni. Stefánsmenn leiddu gestina um hýbýli sín og fræddu þá um starfsemi sveitarinnar. Það gefur auga leið að björgunarsveitir á jaðri hálendisins þurfa að hafa yfir að ráða öflugum tækjabúnaði til að geta sinnt þeim margvíslegu verkefnum og tekist á við beljandi jökulfljót, misviðri og óblíða náttúru. Tækjakostur Stefáns eru heldur engin barnaleikföng, en í skemmu stendur í stafni 6 hjóla Ford Econoliner á 46 “ásamt fleiri stæðilegum tækjum, s.s. Hagglund snjóbíl, fjórhjóli, vélsleðum, slöngubátum og alls kyns skyndihjálpar og björgunarbúnaði.

„Hálendið hefur mikið aðdráttarafl” segja Stefánsmenn. „Mývatnssveitin er á jaðri hálendisins, sveitina heimsækir gríðarlegur fjöldi ferðamanna og fjöldi útkalla er í samræmi við það“.  

Björgunarsveitin Stefán er með höfuðstöðvar að Múlavegi 2, í suðurenda áhaldahúss og slökkvistöðvar.  Sveitin er einnig með aðstöðu að Múlavegi 3 undir tæki og tól. Félagar í Stefáni eru um 40 talsins.

Til gamans má geta þess að nafn sveitarinnar; Stefán, er tilkomið vegna björgunarafreka Stefáns Stefánssonar á Ytri Neslöndum. Stefán þótti forspár og bjargaði hann oftar en einu sinni mönnum úr lífsháska, er fallið höfðu niður um ís á Mývatni. Voru Stefáni veitt verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir björgunarafrek sín.

Deila á