Að venju fjörugur fundur hjá sjómönnum

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gær. Fundurinn var fjörugur og urðu snarpar umræður ekki síst um kjaramál. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér tvær ályktanir um kjaramál. Þá var stjórn deildarinnar endurkjörin, hana skipa; Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari, Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi, Héðinn Jónasson meðstjórnandi.

Undir liðnum kjaramál á fundinum kom fram að núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir í tvö ár. Því miður hafa SFS dregið lappirnar í samningaviðæðunum í stað þess að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna.

Varðandi kjarasamning milli LS og SSÍ þá hefur sá samningur verið laus frá 1. febrúar 2014. Upp úr viðræðum við LS slitnaði á vormánuðum 2017 og hafa viðræður ekki farið af stað aftur milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Um þessar mundir eru hins vegar fyrirhugaðar viðræður við LS sem ber að fagna.

Viðræður við útgerðarmenn innan SFS hafa vægast sagt gengið mjög illa og því lítið að frétta. Allar tillögur frá samtökum sjómanna til samtakanna varðandi það að liðka til í samningamálum hafa verið slegnar út af borðinu nánast án þess að þær væru skoðaðar frekar. Vegna heimsfaraldursins COVID-19 og ástandsins í þjóðfélaginu reyndi Sjómannasambandið að koma með mjög hógværar enn sanngjarnar kröfur svo hægt yrði að ganga frá nýjum kjarasamningi. Í því sambandi var helstu ágreiningsmálum lagt til hliðar til að liðka fyrir gerð kjarasamnings til tveggja ára, því var hafnað af hálfu SFS.

Hvað kjarasamningsgerðina varðar skulum við hafa í huga að háleit markmið voru sett þegar núverandi kjarasamningur var undirritaður á sínum tíma þess efnis að á samningstímanum yrði unnið við heildarendurskoðun á kjarasamningnum, s.s. athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í skipum sem og um skiptimannakerfið. Þessari vinnu er langt frá því að vera lokið. Staðan í dag er sú, að aðeins ein bókun hefur verið kláruð sem fólst í athugun á mönnun og hvíldartíma sjómanna. Öllum þessum atriðum átti að ljúka fyrir sumarið 2019 og þá átti að hefjast handa við gerð nýs kjarasamnings en vegna ágreinings milli aðila þá gekk þetta ekki eftir sem er miður fyrir sjómenn.  Það tók svo steininn úr þegar SFS ákvað einhliða að hluti kjarasamnings, það er grein 1.29.1. gildi ekki lengur og falli út úr samningnum sem felur í sér lækkun á skiptaprósentunni um 0,5% þegar landað er hjá skyldum aðila. Slík vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi, það er að annar samningsaðilinn taki út grein úr kjarasamningi þar sem hún hentar honum ekki lengur. Þessi vinnubrögð endurspegla vinnubrögð SFS og þurfa ekki að koma mönnum á óvart sem þekkja til vinnubragða útgerðarmanna.

Þegar ákveðið var við undirritun kjarasamningsins í febrúar 2017 að lengja samningstímann frá því að vera til loka árs 2018 til 1. desember 2019 var hækkun á kauptryggingunni sem vera átti 1. desember 2018 frestað til 1. maí 2019. Samhliða var sett inn ákvæði um að launahækkun sem yrði á almenna vinnumarkaðnum á árinu 2019 kæmi einnig á kauptryggingu og kaupliði hjá sjómönnum. Þegar á reyndi stóðu útgerðarmenn ekki við þetta 9 ákvæði kjarasamningsins og neituðu að hækka kauptrygginguna um þá hækkun sem varð á launatöxtum á almenna vinnumarkaðnum. SSÍ vísaði deilunni til Félagsdóms, en tapaði málinu þar. Fulltrúi ASÍ í Félagsdómi greiddi atkvæði með atvinnurekendum í málinu og því tapaðist málið. Með hjálp fulltrúa ASÍ í Félagsdómi komust því útgerðarmenn upp með að sniðganga það sem samið var um varðandi hækkun kauptryggingar sjómanna á árinu 2019.

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar sem var að mati Sjómannadeildar Framsýnar löngu tímabært. Að sjálfsögðu eiga sjómenn ekki að láta bjóða sér svona framkomu í þeirra garð. Höfum í huga að með samstöðuna að vopni geta útgerðarmenn ekki brotið niður sanngjarnar kröfur sjómanna. Sjómenn um land allt krefjast þess að samið verði þegar í stað, undir það taka sjómenn á Húsavík.  

Þá má geta þess að Sjómannadeild Framsýnar tókst ekki að klára endurskoðun á sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar á árinu vegna sinnuleysis Samtaka atvinnulífsins fh. hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík. Staðan er óþolandi en áfram verður þrýst á gerð kjarasamnings.

Deila á