Miklar og góðar umræður urðu á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar í gær um kjaramál. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:
Ályktun um kjaramál sjómanna
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags, haldinn 29. desember gagnrýnir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) harðlega fyrir vanvirðingu þeirra í garð sjómanna. Sjómenn hafa nú verið samningslausir í tvö ár. Vegna áhugaleysis útgerðarmanna er ekki að sjá að samningar takist á næstu mánuðum og árum. Sjómenn geta ekki látið útgerðarmenn komast endalaust upp með hroka og virðingarleysi gagnvart stéttinni. Hvar væru útgerðarmenn án sjómanna?
Aðalfundurinn krefst þess að SFS gangi nú þegar til raunverulegra viðræðna við samninganefnd Sjómannasambands Íslands með það að markmiði að ljúka samningagerðinni sem fyrst.
Hagnaður útgerðarinnar hefur verið um 181.000 milljónir króna á síðustu fimm árum eða um 36.000 milljónir króna á ári að meðaltali. Það ætti því ekki að reynast SFS þung byrði að koma til móts við kröfur sjómanna s.s. með 3,5% viðbótarframlagi í lífeyrissjóði eins og aðrir launþegar hafa í dag sem þykir sjálfsagður réttur. Kostnaðaraukinn af þeirri aðgerð er innan við eitt þúsund milljónir króna á ári.
Sjómenn, hingað og ekki lengra! Það er okkar að sækja fram og krefjast þess að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi við sjómannasamtökin. Vilji sjómanna er að það verði gert með friðsamlegum hætti. Sé það hins vegar vilji SFS að hunsa sjómenn eitt árið enn sér Sjómannadeild Framsýnar fyrir sér að blásið verði til aðgerða strax á nýju ári til að knýja á um gerð kjarasamnings.