Þess var krafist á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar fyrir áramótin að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi fyrir sjómenn á hvalaskoðunarbátum. Ályktað var um málið.
Ályktun um áhugaleysi hvalaskoðunarfyrirtækja fyrir kjörum starfsmanna
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags, haldinn 29. desember skorar á hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík að klára samningagerð við félagið sem fyrst.
Framsýn hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um endurnýjun á samningi við fyrirtækin. Kjarasamningnum er ætlað að tryggja starfsmönnum á sjó ákveðin kjör fyrir þeirra störf og að þeir séu tryggðir með sambærilegum hætti og aðrir sjómenn sem gegna hliðstæðum störfum hjá öðrum hvalaskoðunarfyrirtækjum. Annað er ólíðandi með öllu.
Aðalfundurinn telur það vera algjört virðingarleysi við starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja að þeir séu samningslausir á sjó. Framsýn hefur ítrekað krafist þess að viðræðurnar yrðu kláraðar með samningi, en þrátt fyrir það hefur það ekki gengið eftir. Þess vegna ekki síst er mikilvægt að samningsaðilar setjist niður og klári viðræðurnar með samningi á næstu vikum.