Réttindi fólks til launa í sóttkví

Dæmi eru um að félagsmenn Framsýnar hafi leitað til félagsins varðandi reglur/lög  um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Samkvæmt lögunum nr. 24 frá 21. mars 2020 er heimilt að greiða atvinnurekanda launakostnað vegna starfsmanna sem þurfa í sóttkví.

Markmið laga um tímabundnar greiðslur launa til einstaklinga í sóttkví er að launafólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhagslegri afkomu sinni þegar það fylgir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví.

Meginreglan er sú að atvinnurekendi greiðir starfsmanni sem sætir sóttkví laun en ríkið endurgreiðir atvinnurekandanum kostnaðinn fyrir utan launatengd gjöld. Við sérstakar kringumstæður, eins og verktöku eða verkefnastörf, geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur á vef Vinnumálastofnunar.

Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að einstaklingur hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að hann hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví. Ef fjarvinna er möguleg skerðast greiðslur sem því nemur. Réttindin til launa taka einnig til tilvika þar sem barn undir 13 ára aldri í forsjá launamanns sætir sóttkví, sem og barn undir 18 ára aldri með langvarandi stuðningsþarfir. Hámarksfjárhæð (21.100 kr.) er greidd fyrir hvern dag í sóttkví.

Úrræði þetta var lögfest 20. mars 2020 og gilti þá fyrir tímabilið 1. febrúar til 30. apríl 2020. Haustið 2020 var það hins vegar framlengt til 31. desember 2021.

Það er lögfræðilegt mat ASÍ að fari fólk í sóttkví í sumarleyfi teljist það ekki sem orlofsdagar.

https://vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/greidslur-i-sottkvi

Nánar er hægt að lesa um skilyrðum fyrir greiðslum í sóttkví með því að lesa lögin: https://www.althingi.is/altext/150/s/1174.html.

24/2020: Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir | Lög | Alþingi (althingi.is)

Fjölmörg mál til umræðu á fundi stjórnar og trúnaðarráðs

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar eftir sumarfrí þriðjudaginn 17. ágúst kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Stjórn Framsýnar- ung er einnig boðið að sitja fundinn. Öflugu starfi félagsins fylgir löng dagskrá eins og sjá má hér að neðan en dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Dagskrá.

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Svarbréf frá Samkeppniseftirlitinu

4. Kjarasamningsbrot á vinnumarkaði

5. Breytingar á fundarsal stéttarfélaganna

6. Kjör starfsmanna við hvalaskoðun

7. Ókláraðir stofnanasamningar

8. Svarbréf frá SSNE

9. Málefni Vinnumálastofnunnar

10. Erindi frá ASÍ-móttaka ársreikninga

11. Kjör á þingfulltrúum á þing AN

12. Kjör á þingfulltrúum á Þing ASÍ-UNG

13. Kjör á þingfulltrúum á þing LIV

14. Kjör á þingfulltrúum á þing SGS

15. Framhaldsþing ASÍ

16. Starfsmannamál

17. Önnur mál

Vilt þú komast á þing?

Eins og kunnugt er, eru alþingiskosningar framundan í haust. Fjölmargir hafa gefið kost á sér á þá lista sem bjóða fram til Alþingis, sem er vel.

Það er ekki bara að kjósa þurfi nýja alþingismenn heldur stendur Framsýn frammi fyrir því að kjósa þingfulltrúa á eftirtalin þing, það er starfandi félagsmenn á vinnumarkaði:

Þing Alþýðusambands Norðurlands sem haldið verður á Illugastöðum dagana 30. september og 1. október.

Þing ASÍ-UNG sem haldið verður í Reykjavík 24. september. Kjörgengir eru þeir sem eru innan við 35 ára aldur.

Þing Landssambands ísl, verslunarmanna sem haldið verður á Hótel Hallormsstað 14. – 15. október.

Þing Starfsgreinasambands Íslands sem haldið verður á Akureyri 20.-21.- og 22. október.

Í heildina þarf Framsýn að tilnefna 23 fulltrúa á þessi þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar í haust. Félagsmenn Framsýnar sem verða fulltrúar á þinginu halda launum og fá ferða- og dvalarkostnað greiddan.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar mun ganga frá endanlegu kjöri á fulltrúum félagsins á þessi þing á fundi þann 17. ágúst. Hafi félagsmenn áhuga á því að gefa kost á sér á þingin eru þeir beðnir um að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is fyrir þann tíma. Með því að senda skilaboð á netfangið er einnig hægt að fá nánari upplýsingar.

Bæklingar uppfærðir

Um þessar mundir er unnið að því að uppfæra bæklinga á vegum Framsýnar stéttarfélags, annars vegar bækling er varðar helstu kjör og réttindi starfsmanna í ferðaþjónustu og hins vegar bækling um réttindi félagsmanna úr sjóðum Framsýnar s.s. fræðslu,- orlofs- og sjúkrasjóði. Þeir verða gefnir út á ensku, pólsku og íslensku. Bæklingarnir hafa komið að góðum nótum fyrir félagsmenn og er síðasta prentun búin. Þess vegna var talið tímabært að uppfæra þá og gefa út aftur. Hægt verður að nálgast bæklingana á Skrifstofu stéttarfélaganna síðar í þessum mánuði. Einnig er í boði að fá þá með póstinum búi menn utan Húsavíkur. Agnieszka Anna Szczodrowska hefur aðstoðað starfsmenn Framsýnar við að þýða bæklingana yfir á pólsku.

Bæklingar sem Framsýn hefur gefið út á þremur tungumálum hafa komið að góðum notum fyrir félagsmenn.

Kristján Braga framkvæmdastjóri EFFAT í heimsókn

Góður félagi, Kristján Bragason framkvæmdastóri EFFAT sem stendur fyrir Samtök launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði í Evrópu (EFFAT) leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær og heilsaði upp á formann Framsýnar og fyrrverandi varaformann félagsins Kristbjörgu Sigurðardóttir. Kristján sem býr í Svíþjóð hefur undanfarið dvalið í fríi á Íslandi.

Á þingi sambandsins í Zagreb í Króatíu í nóvember 2019 var Kristján kjörinn nýr framkvæmdastjóri EFFAT, en hann er kosinn í beinni kosningu af þingfulltrúum. Kristján var kosinn einróma í þetta mikilvæga starf en hann var fulltrúi Starfsgreinasambands Íslands á þinginu en hann var um tíma framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Trúlega er um að ræða eitt æðsta embætti sem Íslendingur hefur verið kosinn til að gegna innan alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar og Kristján hafa í gegnum tíðina átt gott samstarf um verkalýðsmál enda lengi komið að réttindamálum verkafólks. Það sama má segja um Kristbjörgu sem var virk í starfi Framsýnar á þeim tíma sem Kristján starfaði fyrir Starfsgreinasamband Íslands. Að sjálfsögðu fékk Kristján góðar móttökur hjá forsvarsmönnum Framsýnar.

Samtök launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði í Evrópu (EFFAT)

Rosa boðin velkomin til starfa

Rosa Maria Millán Roldán, hefur verið ráðin í ræstingar og þrif á Skrifstofu stéttarfélaganna en hún tekur við starfinu 1. ágúst. Um leið og Rosa er boðin velkomin til starfa er Ásrúnu Ásgeirs þökkuð vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna. Ásrún hefur séð um þrifin undanfarin ár.

Framsýn kallar eftir upplýsingum frá SSNE

Í bréfi Framsýnar til Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, kemur fram að allt frá því að sveitarstjórnarmenn á starfssvæði Eyþings settu fram fyrstu hugmyndir um sameiningu Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hafði Framsýn áhyggjur af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Fram að þeim tíma hafði Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga verið öflugur málsvari sveitarfélaga og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum enda stjórn félagsins skipuð fulltrúum frá hagsmunaaðilum á svæðinu. Samstarf aðila hafði í gegnum tíðina verið til mikillar fyrirmyndar og AÞ komið að margvíslegum verkefnum til að efla atvinnusvæðið og um leið búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum.

Því miður fyrir samfélagið hér austan Vaðlaheiðar bar sveitarstjórnarmönnum ekki gæfa til að standa í lappirnar og efla samstarfið á héraðsvísu enn frekar með því að halda í Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Ákveðið var að stíga það skref að sameina atvinnuþróunarfélögin og Eyþing, skammstafað SSNE. Í aðdragandanum að sameiningunni var því haldið fram af forsvarsmönnum sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum að höfuðstöðvar hins nýja félags yrðu á Húsavík og haldið yrði úti öflugri starfsemi er tengdist atvinnu- og byggðaþróun í Þingeyjarsýslum.

Vorið 2020 auglýsti SSNE eftir sviðstjóra atvinnu- og byggðarþróunar, með aðsetur á Húsavík. Ráðið var í starfið, en samkvæmt heimildum Framsýnar hefur sviðstjórinn sagt upp störfum og ekki standi til að ráða annan mann í hans stað á Húsavík. Er það algjörlega á skjön við allar ræðurnar sem blessaðir sveitarstjórnarmennirnir sem mæltu fyrir sameiningunni, töluðu fyrir. Menn þyrftu ekki að óttast neitt, það stæði til að efla starfsemina á svæðinu og halda störfum í héraði.

Í ljósi þessa er spurt:

1. Er það rétt að sviðstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE með aðsetur á Húsavík hafi sagt upp störfum?

2. Er það rétt að ekki verði ráðið í hans starf á Húsavík með sérstaka áherslu á atvinnu- og byggðaþróun? Ef svo er, hvað verður um þetta mikilvæga starf?

3. Athygli vekur að nýlega auglýsti SSNE eftir öflugum verkefnastjóra fjármála og reksturs hjá SSNE. Hlutverk hans er einnig að sinna atvinnuráðgjöf og nýsköpun. Tekið er fram í auglýsingu að umrætt starf sé á Akureyri. Kom ekki til greina að þetta starf yrði á Húsavík, það er í höfuðstöðvunum? SSNE hefur talað fyrir störfum án staðsetningar líkt og er með núverandi starf framkvæmdastjóra SSNE. Hvenær á það við? 

4. Þegar framkvæmdastjóri SSNE var ráðinn til starfa kom fram að ekki yrði gerð krafa um staðsetningu starfsins, þess í stað væri framkvæmdastjóranum ætlað að vera til skiptist á skrifstofum samtakanna á starfssvæðinu. Hefur það gengið eftir samkvæmt áætlun?

5. Hversu mörg stöðugildi eru hjá SSNE í höfuðstöðvunum á Húsavík? Hefur þeim fjölgað eða fækkað frá stofnun SSNE? Hverjar eru framtíðarhorfurnar varðandi mannahald og stöðuhlutföll?

Að öðru:

Á heimasíðu SSNE má sjá að samtökin hafa lagt áherslu á að Akureyrarflugvöllur komist betur inn á kortið sem millilandaflugvöllur. Beint millilandflug um Akureyrarflugvöll hafi um langt skeið verið baráttumál. Að sjálfsögðu eiga menn að setja sér markmið og berjast fyrir þeim. Hvað það varðar hefur Framsýn barist fyrir því að áætlunarflug haldist áfram milli Húsavíkur og Reykjavíkur enda mikið byggða- og atvinnumál. Í því sambandi hefur félagið verið í sambandi við forsætisráðherra, samgöngumálaráðherra, fjármálaráðherra, þingmenn kjördæmisins, sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi, ferðaþjónustuaðila í Þingeyjarsýslum og forstjóra Samkeppniseftirlitsins, þar sem stefnir í einokun í innanlandsfluginu sem Framsýn hefur varað við.

Til viðbótar skrifaði Framsýn Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra bréf þar sem óskað var eftir aðkomu samtakanna að þessu mikilvæga máli fyrir Þingeyinga og alla þá sem ferðast þurfa um Húsavíkurflugvöll. Við því bréfi hefur ekkert svar borist ! Vissulega eru það mikil vonbrigði að SSNE hafi ekki séð ástæðu til að lyfta upp litla fingri til að koma að þessu mikilvæga máli með heimamönnum. Að mati Framsýnar þarf að tryggja millilandaflug inn á svæðið auk þess að tryggja eðlilegar flugsamgöngur milli landshluta á Íslandi. Fyrir þessu eiga SSNE að berjast sem og aðrir hagsmunaaðilar. Áhugaleysi SSNE verður ekki túlkað öðruvísi en að samtökin sjái ekki ástæðu til að koma að málinu, sem eru skýr skilaboð til heimamanna um áherslur SSNE í atvinnu- og byggðamálum í Þingeyjarsýslum.

Þess er vænst að þessu bréfi verði svarað en ekki komið fyrir í möppu líkt og fyrra bréfi félagsins varðandi aðkomu SSNE að áætlunarflugi um Húsavíkurflugvöll sem ekki hefur verið svarað. Það er jú hlutverk SSNE að efla Norðurland eystra sem eftirsótt svæði til búsetu og atvinnu auk þess að vera sterkur bakhjarl aðildarsveitarfélaga og atvinnulífs í sameiginlegum málum, svo vitnað sé í samþykktir samtakanna.

Fjörugur hópur unglinga í heimsókn

Unglingar úr Vinnuskóla Húsavíkur komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær til að fræðast um starfsemi stéttarfélaga og helstu réttindi og skyldur þeirra á vinnumarkaði. Gestirnir voru áhugasamir og tóku virkan þátt í umræðunni um viðfangsefnið. Fræðsla sem þessi er afar mikilvæg fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýlsum hafa verið með reglulegar kynningar fyrir unglinga í grunnskólum, framhaldsskólum og í vinnuskólum. Þess ber að geta að stéttarfélögin eru alltaf tilbúin að koma með fræðslu inn í skóla eða á vinnustaði.

Bókað um málefni AÞ í Byggðaráði Norðurþings

Fyrr í sumar fjallaði Byggðaráð Norðurþings um málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson var kallaður til en Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, var stofnað 2020 við sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Starfssvæði samtakanna afmarkast af sveitarfélagamörkum allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, frá Siglufirði í vestri að Bakkafirði í austri, að Tjörneshrepp undanskildum.

Það er ekki bara að Framsýn hafi haft áhyggjur af stöðunni og framvindu mála, sé tekið mið af umræðunni sem varð á fundi Byggðaráðs Norðurþings og meðfylgjandi bókun ber með sér frá Hjálmari Boga Hafliðasyni.

Hjálmar Bogi óskar bókað;
„Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, var stofnað 2020 við umdeilda sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafði unnið gott starf með góða tengingu við verkalýðshreyfinguna sem og fulltrúa atvinnurekanda í Þingeyjarsýslu. Sameiningin var keyrð í gegn af meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings án fullnægjandi raka. Fram kemur á vefsíðu samtakanna að heimili og varnarþing samtakanna er á skrifstofu SSNE á Húsavík, eftir ítrekanir að hálfu minnihluta sveitarstjórnar. Hlutverk SSNE er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæði landshlutasamtakanna. Samtökin áttu m.a. að taka við hlutverki Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (AÞ) á sviði atvinnuþróunar. Dregið hefur úr mætti og starfsemi SSNE, sem tók við hlutverki AÞ. Ljóst má vera mikilvægi þess að endurmeta stöðuna og rýna til gagns. Starfsmaður SSNE sem sinna á atvinnumálum hefur látið af störfum en hann hafði ekki búsetu á Húsavík eða nágrenni, þrátt fyrir að um það hafi verið gefið vilyrði. Fram kom í erindi frá SSNE að félagið hyggst staðsetja starfsmann á Húsavík sem sinni menningarmálum félagsins. Hvar var sú ákvörðun tekin? Hvernig var stöðumati háttað þar sem fram kemur þörf fyrir slíkt starf á Húsavík umfram starf sem felur í sér aðra þætti s.s. atvinnumál og -uppbyggingu á þeim tækifærum sem hér finnast. Rétt er að benda á að ekkert samráð hefur verið haft við kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Norðurþings vegna framangreindrar breytingar. Slíkt vekur óneitanlega furðu og ekki líklegt til að skapa samstöðu og traust.“

Hægt er að lesa um afstöðu annarra fulltrúa í Byggðaráði Norðurþings varðandi starfsemi SSNE með því að fara inn á heimasíðu sveitarfélagsins, skorað er á menn að gera það. Þá má geta þess að Framsýn mun í ljósi umræðunnar á fundi byggðaráðs kalla eftir frekari upplýsingum frá SSNE um starfsemi samtakanna í Þingeyjarsýslum. Bréf þess efnis fer  frá félaginu í dag. Nánar um það á heimasíðunni á morgun.

Takk Kúti

Formaður Framsýnar var á dögunum beðinn um að vera við útskrift á nemendum Leikskólans Grænuvalla á Húsavík sem voru að ljúka veru sinni á leikskólanum, við tekur nám hjá þeim í Borgarhólsskóla í haust. Starfsmenn og börn færðu formanninum smá glaðning og skjal frá börnunum sem þökkuðu Aðalsteini fyrir að taka á móti þeim á hverju vori í Grobbholti þar sem börnin hafa fengið að upplifa sauðburð. Að sjálfsögðu þakkaði Aðalsteinn fyrir hlýleg orð í sinn garð og gjöfina frá leikskólanum.

Hlutfallslega fækkaði atvinnulausum mest milli mánaða í Skútustaðahreppi

Skráð atvinnuleysi í Íslandivar 7,4% í júní og minnkaði talsvert frá maí eða úr 9,1%. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 3.062 eða um 18% frá maímánuði. Atvinnuleysi var 10,4% í apríl, 11,0% í mars, 11,4% í febrúar og 11,6% í janúar 2021. Atvinnulausir voru alls 14.316 í lok júní, 7.528 karlar og 6.788 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 1.862 frá maílokum og atvinnulausum konum fækkaði um 1.445. Af þeim 3.307 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í júní fóru ca. 1.360 á ráðningarstyrk. Vinnumálastofnun greiddi eingreiðslu til um 3.600 atvinnuleitenda sem höfðu verið á atvinnuleysisskrá í 14 mánuði eða lengur þann 1.maí. Nam heildargreiðslan um 355 milljónum. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 13,7% og minnkaði úr 18,7% í maí. Næst mest var atvinnuleysið 7,9% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 9,4% frá því í maí. Hlutabótaleiðinni sem í boði var frá mars 2020 lauk í lok maí 2021. Alls fengu rúmlega 6.700 atvinnurekendur um 28 milljarða styrk vegna ríflega 36.500 starfsmanna. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi minnki áfram í júlí m.a. vegna sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og verði á bilinu 6,3% til 6,8%. Alls höfðu 5.818 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok júní og fækkaði um 612 frá maí. Hins vegar voru þeir 2.700 í júnílok 2020. Gera má ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í yfir 12 mánuði muni fara minnkandi næstu mánuði.

Atvinnuástand eftir svæðum. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 13,7% og minnkaði úr 18,7% í maí. Næst mest var atvinnuleysið 7,9% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 9,4% frá því í maí. Minnst var atvinnuleysi í júní á Norðurlandi vestra, 2,3%, Vestfjörðum 2,6% og á Austurlandi 2,8%. Mest dró úr atvinnuleysi á Suðurlandi eða um 30% að jafnaði. Minnst dró úr atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu eða um 14%. Á landsbyggðinni í heild minnkaði atvinnuleysi um 25%. Á Suðurnesjum, Austurlandi Norðurlandi eystra og Vesturlandi minnkaði atvinnuleysi að jafnaði um 25% milli mánaða. Á Norðurlandi eystra var atvinnuleysið 4,4% í júní. Mesta hlutfallslega fækkun atvinnulausra á landsvísu var í Skútustaðahreppi í júní eða um 63% þar sem fjöldi atvinnulausra fór úr 27 í lok maí í 10 í lok júní.

Ætlar þú með í Flateyjarferðina?

Stéttarfélögin standa fyrir félagsferð til Flateyjar á Skjálfanda í sumar. Farið verður laugardaginn 14. ágúst og er um að ræða dagsferð fyrir félagsmenn og gesti. Farið verður frá Húsavík kl. 13:00 og komið aftur heim um kvöldið.  Eins og kunnugt er þá er Flatey stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikið fuglalíf og góð fiskimið eru allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn staður fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942 bjuggu 120 manns í Flatey en síðan 1967 hefur engin verið með fasta búsetu í eynni.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að upplifa paradís Skjálfandaflóa í allri sinni dýrð, með einstakri náttúru og ríku fuglalífi.  Boðið verður upp á skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn auk þess sem grillað verður fyrir gestina í boði stéttarfélaganna.

Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 28. júlí. Verðið er kr. 8.000,- per einstakling sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 28. júlí. Innifalið er sjóferðin, grill og skoðunarferð um eyjuna. Lágmarksþátttaka í ferðina er 25 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Langar þig vestur í sumarhús á morgun?

Rétt í þessu var að losna orlofshús á vegum stéttarfélaganna í Flókalundi. Húsið sem er 42 fm. stendur í Orlofsbyggðinni í Flókalundi sem er rómað svæði fyrir fegurð og stórbrotið landslag enda á Vestfjörðum. Húsið er með 2 svefnherbergjum, stofu og borðstofu með eldhúskrók. Svefnpláss og sængur eru fyrir 6 manns og hægt er að fá lánaða dýnu hjá umsjónarmanni. Húsið er númer 2 og er laust frá föstudeginum 16. júlí. Áhugasamir hafi samband við Lindu á Skrifstofu stéttarfélaganna, 4646600.

Hitafundur á Húsavík

Nýlega lagði Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, svo eitthvað sé nefnt, leið sína til Húsavíkur. Tilgangurinn var að heimsækja formann Framsýnar og ræða við hann þjóðmálin og önnur aðkallandi mál. Eins og kunnugt er, er Guðni ekki síst áhugamaður um landbúnaðarmál, málefni eldri borgara og samgöngumál. Vel fór á með þeim félögum sem skiptust á skoðunum í blíðunni á Húsavík. Með Guðna í för voru feðgarnir Ágúst og Guðjón Ragnar Jónasson. Þrátt fyrir að fundurinn hafi farið vel fram má segja að hann hafi verið hitafundur enda um 20 gráður á mæli þegar gestirnir tóku hús á formanni Framsýnar sem bauð þeim upp á kaffi, vatn og meðlæti.  

Að sjálfsögðu var tekinn göngutúr um Húsavík. Þessir tveir snillingar eru ekki skoðanalausir, það er; Þráinn Gunnarsson og Hannes Höskuldsson sem tóku tal við Guðna sem sagði alla vera Framsóknarmenn inn við beinið. Væntanlega eru Þráinn og Hannes ekki alveg sammála því.

Guðni og félagar gáfu sér líka tíma til að líta við í Grobbholti þar sem forystuærin Elding tók vel á móti gestunum að sunnan.

Kolefnisjöfnun Framsýnar vekur athygli – Bændablaðið fjallar um málið

Í nýjasta Bændablaðinu er góð umfjöllun um ákvörðun Framsýnar að kolefnisjafna starf félagsins. Sagt er frá því að fundarmenn á aðalfundi félagsins hafi fengið að gjöf 50 plöntur til að gróðursetja sem samkvæmt útreikningum þurfti til að kolefnisjafna starf Framsýnar á síðasta ári, það er á móti akstri starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust á vegum félagsins á síðasta ári, það er keyrandi. Þá er tekið fram að með þessum táknræna hætti kolefnisjafni Framsýn líklega fyrst stéttarfélaga hér á landi akstur sinn. Samkvæmt útreikningum hafi þurft 50 plöntur til að kolefnisjafna allan akstur starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust akandi í þágu félagsins á síðasta ári.  Öll þurfum við að axla ábyrgð gagnvart því sem er að gerast í náttúrunni og við verðum að bregðast strax við, eigi komandi kynslóðir að geta átt sér framtíð og búið áfram á þessari jörð. Jafnframt því þurfum við sem verkalýðshreyfing, sem aldrei fyrr að standa fast í fætur og verja hag þeirra sem minnst mega sín segir í fréttinni. Ljóst er að þetta er góð viðurkenning fyrir starf Framsýnar sem enn og aftur sýnir ákveðið frumkvæði er snýr að verkalýðsmálum og velferð félagsmanna.

Heilt launatímabil til útborgunar 1. júlí – Betri vinnutími

Betri vinnutími í vaktavinnu tók gildi þann 1. maí síðastliðinn og þar með mesta kerfisbreyting á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu í áratugi. Nú um mánaðarmótin er önnur útborgun samkvæmt nýju kerfi, en sú fyrsta sem nær yfir heilt launatímabil.  Þá verða reglubundin mánaðarlaun greidd fyrir tímabilið 1. – 31. júní en breytileg laun greidd fyrir tímabilið 16. maí – 15. júní  eða 11. maí – 10. júní sbr. fyrri útborganir launagreiðenda.   

Fræðsluefni 

Á www.betrivinnutimi.is má finna fræðslumyndband um launaseðilinn ásamt glærukynningu til þess að auðvelda starfsfólki og stjórnendum að átta sig á breytingunum. Einnig er vísað á spurt og svarað og leiðbeiningar um yfirferð á launaseðli. Því til viðbótar er bent á myndband sem Reykjavíkurborg hefur gert þar sem farið er yfir launaseðil skref fyrir skref. Forsíða (betrivinnutimi.is)

Stjórnendur og starfsfólk eru hvattir til þess að kynna sér þetta efni vel.  

Ferill ef starfsfólk telur sig ekki fá rétt laun

Gert er ráð fyrir því að starfsfólk leiti til síns stjórnanda, eins og áður, ef það telur sig ekki fá rétt laun í launaútborgun 1. júlí. Þarfnist stjórnandi frekari útskýringa er bent á að leita svara eins og við á og unnt er innan stofnunar/vinnustaðar, hvort heldur sem er hjá launafulltrúa eða lykilaðilum á vinnustað.

Komi upp sú staða að hópur sé talinn lækka í launum vegna kerfisbreytinganna þrátt fyrir að innleiðingin hafi verið í takt við leiðarljós og markmið verkefnisins er mikilvægt að greina hópinn nánar sbr. gátlista. Þegar hópur hefur verið greindur eru gögn send til viðkomandi launagreiðanda sbr. ferli einstakra mála.

Fagnaðarfundur

Mývetningurinn Þorlákur Páll Jónsson og formaður Eflingar stéttarfélags, Sólveig Anna Jónsdóttir, hittust í Sel hótel Mývatn þegar formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fór þar fram lok maí. Láki fór strax í ættfræðina og sagði þau náskyld. Í það minnsta eru þau bæði þrælmögnuð og því þarf ekki að koma á óvart að þau séu skyld og rúmlega það.

PCC á toppnum

PCC BakkiSilicon hf. greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar árið 2020 eða samtals um kr. 17,3 milljónir. Árið áður greiddi PCC sömuleiðis mest eða um 23,7 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir ekki launatengd gjöld í sjóði félagsins s.s. í orlofs- og sjúkrasjóð af atvinnuleitendum sem greiða félagsgjald til Framsýnar af atvinnuleysisbótum. Atvinnuleysistryggingasjóður er í öðru sæti á listanum yfir þá aðila sem hafa skilað félagsgjöldum til Framsýnar en kæmist ekki á listann ef lögbundin iðgjöld atvinnurekenda væru talin með eins og er í tilvikum þeirra fyrirtækja/sveitarfélaga/ríkisins sem eru á listanum.

Stærstu greiðendur iðgjalda árið 2020 eftir röð:

PCC BakkiSilicon hf.

Atvinnuleysistryggingasjóður

Sveitarfélagið Norðurþing

GPG. Seafood ehf.

Norðlenska matarborðið ehf.

Ríkissjóður Íslands

Hvammur, heimili aldraðra

Þingeyjarsveit

Íslandshótel hf.

Samherji

Félagsmönnum fækkaði vegna Covid

Alls greiddu 2.644 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2020 en greiðandi félagar voru 3.320 árið 2019. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fækkaði verulega milli ára sem á sínar skýringar og tengist heimsfaraldrinum, Covid-19. Fækkun félagsmanna átti sér sérstaklega stað í ferðaþjónustunni enda hrundi sú atvinnugrein á árinu 2020. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.514 karlar og 1.130 konur sem skiptast þannig, konur eru 43% og karlar 57% félagsmanna.  Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 264, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 2.908 þann 31. desember 2020. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum.