Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um orðaskipti formanns Framsýnar og framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um launakjör fiskvinnslufólks. https://www.frettabladid.is/frettir/sakar-sfs-um-arodur-og-lygar/ Því miður eins og oft áður er sannleikurinn ekki alltaf hafður með í skríninu þegar forsvarsmenn sjávarútvegsins ryðjast fram á ritvöllinn með sinn gegndarlausa áróður. Nú fullyrða samtök þeirra SFS að laun í fiskvinnslu á Íslandi séu hærri en meðallaun í landinu og þau hæstu í heiminum. Formaður Framsýnar hefur óskað eftir upplýsingum frá samtökunum varðandi forsendurnar sem útreikningarnir byggja á. Upplýsingarnar hafa ekki borist.
Framsýn fékk sérfræðing á þessu sviði sem jafnframt er hagfræðingur til að taka saman þessar upplýsingar. Í svari hans kemur fram að þegar rýnt er í tölfræði Hagstofunnar, sem heldur utan um þessar upplýsingar, megi sjá það rétta í málinu. Laun í fiskvinnslu séu ekki hærri en meðallaun á Íslandi. Á árinu 2021, voru meðallaun fullvinnandi í fiskvinnslu kr. 611.000,- ef miðað er við heildarlaun. Meðal heildarlaun á vinnumarkaði voru á sama tímabili kr. 823.000,-. Fyrir almenna vinnumarkaðinn er meðaltalið kr. 808.000,- á mánuði en hæst hjá ríkisstarfsmönnum þar sem það er kr. 903.000,-. Með heildarlaunum er átt við öll laun einstaklinga, þ.m.t. regluleg laun, auk álags, bónusa og yfirvinnu ásamt óreglulegum greiðslum s.s. orlofs- og desemberuppbót, eingreiðslur, ákvæðisgreiður og uppgjörs vegna uppmælinga. Hafa ber í huga að á bak við laun fiskvinnslufólks eru fleiri vinnustundir en gengur og gerist á vinnumarkaði. Greiddar stundir voru þannig 195 að meðaltali á mánuði hjá fiskvinnslufólki borið saman við 177 stundir að jafnaði á vinnumarkaði. Munurinn er því meiri ef skoðað er meðaltímakaup.
Í grein framkvæmdastjóra SFS er því líka haldið fram að laun í fiski séu hærri á Íslandi en í heiminum. Ótrúleg fullyrðing, þau ættu að skoða t.d. launakjör fiskvinnslufólks í Færeyjum og í Noregi í stað þess að fullyrða að allt sé betra á Íslandi.
Það verður áhugavert fyrir talsmenn fiskvinnslufólks að eiga samtal við talsmenn sjávarútvegsins í komandi kjaraviðræðum í haust. Væntanlega vilja þeir standa við stóru orðin og hækka launakjör fiskvinnslufólks verulega. Það er borð fyrir báru í íslenskum sjávarútvegi enda sá arðsamasti í heimi að þeirra sögn. Látum verkin tala og tryggjum fiskvinnslufólki mannsæmandi laun. Til fróðleiks má geta þess að föst mánaðarlaun hjá fiskvinnslufólki á Íslandi eru á bilinu kr. 370.000 upp í kr. 387.000,- samkvæmt gildandi launatöflum aðila vinnumarkaðarins. Launatöflurnar eru aðgengilegar á netinu. Skyldu reiknimeistarar SFS vita af því?