Segir afsögn Drífu hafa komið honum á óvart

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson, vegna afsagnar forseta ASÍ. Hann segir tíðindin hafa komið á óvart. „Hins vegar hefur legið fyrir að Drífa hefur ekki notið trausts hjá hluta hreyfingarinnar og hjá stóru félögunum. Hún tapaði klefanum. Þarna er verið að tala um einhverjar blokkamyndanir en menn hefðu kannski mátt vinna í því að reyna að sameina þessar blokkir,“ segir Aðalsteinn.

Kveður hann nokkuð hafa skort á átak á þeim vettvangi enda þekki hann söguna vel. „Gegnum tíðina hafa verið alls konar víg fram og til baka, ég kannast vel við það sjálfur, þessi armur sem er að gefa eftir núna hefur sótt á mann gegnum tíðina svo þetta er ekkert nýtt,“ heldur formaðurinn áfram.

„Það þarf að laga til í hreyfingunni og það þarf að koma á kraftmeiri og betri verkalýðshreyfingu. Við skulum ekki gleyma því að einir merkilegustu samningar sem hafa verið gerðir síðan þjóðarsáttarsamningarnir 1990 voru lífskjarasamningarnir síðast þar sem verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, Seðlabankinn og stjórnvöld settust við sama hringborðið og töluðu sig niður á niðurstöðu. Þeir samningar fleyttu okkur býsna vel áfram fram til dagsins í dag. Ef þessir aðilar setjast niður aftur og semja er ég ekkert að óttast að ekki verði samið um framhald á lífskjarasamningunum öllum til hagsbóta,“ segir Aðalsteinn og bætir því við að brýnt sé að þjóðin beiti þeim tækjum sem hún hafi til að tryggja kaupmátt launa og berjast gegn verðbólgu. „Við eigum bara að nota þessi tæki. Það er bara brandari að tala um að það sé ekki svigrúm þegar við sjáum methagnað úti um allt í þjóðfélaginu,“ segir formaður Framsýnar að lokum.

 

Deila á