Snýst um völd og ekkert annað

Sama hvar komið er á fólk ekki til orð yfir ummælum tveggja formanna stéttarfélaga í fjölmiðlum síðustu daga í garð annarra forystumanna innan hreyfingarinnar, það er Bárunnar á Selfossi og Öldunnar á Sauðarkróki. Formennirnir sem ekki eru beint þekktir fyrir mikla sigra í réttindabaráttu verkafólks hafa hins vegar skotist fram á sjónarsviðið með skítkast í garð félaga sinna innan hreyfingarinnar. Þeim hefur tekist að koma sínum svívirðingum vel á framfæri sem andstæðingar verkalýðshreyfingarinnar kunna að sjálfsögðu vel að meta og hafa hampað þeim í fjölmiðlum. Eðlilega er mörgum formönnum innan Alþýðusambands Íslands brugðið við lýsingar sem þessar, það er að ofbeldismenning hafi tekið yfir verkalýðshreyfinguna og hópur fólks hafi komist til valda innan hreyfingarinnar með of­forsi og ein­eltis­til­burðum. Gárungarnir halda því fram að formennirnir tveir rauli saman lagið með Bubba Morthens; „Ekki benda á mig.“ Að sjálfsögðu ættu viðkomandi formenn að hafa vit á því að skammast sínn fyrir ummæli sem þessi í garð annarra forystumanna innan hreyfingarinnar. Verkafólk á Íslandi þarf ekki á svona umræðu að halda í aðdraganda kjarasamninga. Til viðbótar má geta þess að í Fréttablaðinu í dag vísar Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, á bug ásökunum Halldóru Sveinsdóttur, formanns Bárunnar stéttarfélags og 2. varaforseta ASÍ, um of beldi og einelti innan verkalýðshreyfingarinnar af hans hálfu og formanna VR og Eflingar. „Hún hefur verið hluti valdaklíkunnar sem hefur stýrt ASÍ langa hríð og reynt að þagga niður alla umræðu. Við höfum verið á öndverðum meiði um lífeyrissjóðakerfið, verðtrygginguna og SALEK,“ segir Vilhjálmur. Hann segir eðlilegt að tekist sé á um markmið og leiðir innan verkalýðshreyfingarinnar. Í 100 ára sögu hreyfingarinnar sé hefð fyrir slíkum átökum. „Ég hét því þegar ég var kjörinn formaður Starfsgreinasambandsins að lítil lokuð klíka skyldi ekki fá að ráða öllu áfram,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að ástæðan fyrir upphlaupi Halldóru nú sé að valdahlutföllin í verkalýðshreyfingunni séu að breytast. Vilhjálmur frábiður sér ávirðingar hennar um of beldi og einelti og rifjar upp hótanir um að slökkt yrði á hljóðnema hans þegar hann gerði grein fyrir tillögum í ræðustól á ASÍ-þingi fyrir nokkrum árum. Vilhjálmur gefur lítið fyrir gagnrýni Halldóru á að í viðtali á Bylgjunni í kjölfar afsagnar Drífu Snædal hafi hann ekki haft umboð til að tala í nafni Starfsgreinasambandsins. Hann hafi vitaskuld verið að tala sem einstaklingur, líka þegar hann nefndi þau Ragnar Þór og Sólveigu Önnu sem möguleg í embætti forseta ASÍ. „Halldóra Sveinsdóttir barðist gegn kjöri mínu sem formanns Starfsgreinasambandsins. Niðurstaða lýðræðislegrar kosningar var hins vegar skýr og ég mun sitja sem formaður á meðan ég hef lýðræðislegt umboð til þess,“ segir Vilhjálmur Birgisson og bætir því við að það skjóti skökku við að Halldóra, sem áður hafi sagt opinberun ágreinings innan verkalýðshreyfingarinnar vera vatn á myllu andstæðinga hennar, standi nú sjálf fyrir upphlaupum og svívirðingum í sinn garð og fleiri. „Þetta snýst um völd og ekkert annað. Hún hefur óhikað tekið þátt í jaðarsetningu annarra en óttast nú að verða jaðarsett sjálf.“

Deila á