Förum varlega – takmörkum samskipti á tímum Covid

Staðfest hefur verið covid smit meðal nemenda Borgarhólsskóla á Húsavík og er hópur fólks þegar komin í sóttkví. Því miður er ekki ólíklegt að tilfellum vegna Covid geti fjölgað á næstu dögum á svæðinu. Þess vegna ekki síst, hvetjum við viðskiptavini Skrifstofu stéttarfélaganna til að notast við tæknina þurfi þeir á þjónustu stéttarfélaganna að halda. Það er að hringja eða senda okkur tölvupósta í stað þess að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna í leit að upplýsingum. Beðist er velvirðingar á þessari skertu þjónustu sem vonandi er bara tímabundin.

Lífskjarasamningurinn í gildi áfram

Lífskjarasamningur SA og aðildarfélaga ASÍ hvílir á forsendum sem ekki stóðust fullkomlega þar sem stjórnvöld efndu ekki öll fyrirheit í yfirlýsingu sinni dags. 4. apríl 2019.

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins hittust nýlega á fundi til að ræða framhald Lífskjarasamningsins, en bregðist forsendur getur hvor aðili sagt honum upp fyrir kl. 16. þann 30. september.

Á fundi aðila kom fram vilji af beggja hálfu til þess að samningar standi og halda þeir því gildi sínu þar til þeir renna út þann 1. nóvember 2022. Þess má geta að bæði Framsýn og Þingiðn eiga aðild að samningnum. Mat félaganna er að ekki hafi verið rétt að segja samningnum upp í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu sem tenjast Covid.

Samningur um kaup á timbri úr norðlenskum skógum

Samningur milli Skógræktar­innar og PCC á Bakka Silicon um kaup 2.000 rúmmetrum af timburbolum á ári næstu árin hefur verið undirritaður.

Þreifingar hafa staðið yfir í nokkur misseri um möguleg kaup PCC á timbri frá norðlenskum skógareigendum. Fyrirtækið taldi í upphafi að einungis væri hægt að nota innfluttan við af lauftrjám í framleiðsluna á Bakka en fékk til prófana sýnishorn af íslensku timbri að því er fram kemur í tilkynningu.

„Þessi sýnishorn sýndu að hægt er að nota timbur af öllum helstu trjátegundum í íslenskri skógrækt. Í kísilveri eins og verksmiðju PCC á Bakka er mjög mikilvægt að forðast öll aðskotaefni, svo sem þungmálma og steinefni sem kunna að leynast í timbrinu.“ Timbrið sem kemur úr norðlenskum skógum er nægilega hreint til vinnslu á Bakka m.a. þar sem loftmengun er lítil hér á landi.

Skógarnir verða verðmætari

Auðveldara verður nú eftir samninginn að grisja norðlenska skóga jafnvel þó svo að timbursala til fyrirtækisins standi ekki að fullu undir kostnaði við grisjunina. Slík grisjun stuðlar að því að í skóginum standa áfram bestu trén sem mynda til framtíðar liðið verðmætara timbur. Þannig verða skógarnir verðmætari og eigendur fái meiri arð út úr þeim í fyllingu tímans.

Með því að nota innlent timbur í stað innflutts timburs eða kola í framleiðslu sinni dregur PCC úr umhverfisáhrifum starfsemi sinna. Minni flutningar á timbri leiða til minni losunar á hverja timbureiningu og ef íslenskt timbur leysir af hólmi innflutt kol eru áhrifin enn meiri.

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir, Bændablaðið

Orlofshús í boði í næsta nágrenni

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að fara í sumarhús á félagssvæðinu. Framsýn á tvö orlofshús á svæðinu, annars vegar í Dranghólaskógi við Lund í Öxarfirði og hins vega á Illugastöðum í Fnjóskadal.

Orlofshúsið í Dranghólaskógi verður í útleigu í október enda verði veðrið í lagi. Um er að ræða vinarlegt hús á einum fallegasta stað landsins. Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík sér um útleiguna.

Varðandi orlofshús Framsýnar á Illugastöðum, þá sjá starfsmenn Orlofsbyggðarinnar um útleiguna fyrir félagið yfir vetrartímann en orlofshúsið verður í útleigu í vetur fyrir félagsmenn. Best er að hringja í síma 4626199 vilji menn panta dvöl í orlofshúsi félagsins á Illugastöðum.

Hvað gera flokkarnir fyrir iðnaðarfólk?

Samiðn hefur spurt stjórnmálaflokka um stefnu þeirra í málum sem snúa að iðnaðarsamfélaginu. Kosið verður til Alþingis 25. september næstkomandi.

Þegar þetta er skrifað hafa svör borist frá Pírötum, Viðreisn, Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og  Vinstri grænum.

Spurningarnar eru fimm talsins.

1. Hver er afstaða flokksins til löggildingar iðngreina?

2. Hvernig ætlar flokkurinn að bregðast við aukinni aðsókn í iðngreinar?

3. Telur flokkurinn æskilegt að framlengja úrræðið „allir vinna“?

4. Til hvaða aðgerða hyggst flokkurinn grípa til að tryggja atvinnustig iðnmenntaðra í nánustu framtíð?

5. Telur flokkurinn mikilvægt að framlengja möguleika fólks á að nýta séreignasparnað sinn til innágreiðslu húsnæðislána?

Hér má sjá svör flokkanna þegar kemur að spurningunni um aukna aðsókn í iðngreinar:

Píratar:
„Stefna Pírata hefur verið að nemendur hafi jafnan aðgang að bóknámi, verknámi og listnámi. Það þýðir að menntakerfið hafi svigrúm til þess að taka á móti nemendum sem vilja komast í nám. Í menntastefnu sinni leggja Píratar jafnframt mikið upp úr aukinni símenntun samhliða fyrirsjáanlegum tæknibreytingum, enda er áætlað að menntakerfi 21. aldarinnar muni hvíla á smærri og fjölbreyttari gráðum – eins og sjá má í skýrslu framtíðarnefndar Alþingis sem laut formennsku Pírata.“

Viðreisn:
„Það er til vansa að vísa þurfi jafnmörgum frá iðnnámi og raun ber vitni. Sömuleiðis að þeir sem eldri eru séu nánast útilokaðir frá iðnnámi. Það er hvergi gert annars staðar í framhalds- eða háskólum. Til þess að bregðast við þessum vanda þarf að fjölga nemendaígildum í þessum greinum, bæta húsnæðis- og tækjakost. Marka þarf skýra stefnu um að verk- og tækninám sé jafnsett öðru námi og að þeir sem það stundi séu að mennta sig til mikilvægra starfa sem samfélagið þarfnast.“

Sjálfstæðisflokkurinn:
„Aukin aðsókn í iðnnám er mikið fagnaðarefni, en hún er meðal annars afleiðing af öflugu samstilltu kynningarstarfi og ýmsum laga- og reglugerðarbreytingum sem marka tímamót í iðnnámi. Nýleg reglugerðarbreyting um vinnustaðanám er gott dæmi um hvernig hægt er að auðvelda iðnnemum aðgang að námi og þannig í reynd auka námsframboðið. Halda þarf áfram að leita slíkra lausna ásamt því að efla þá mörgu aðila sem sinna iðnmenntun.“

Samfylkingin:
„Það er mikilvægt og ánægjulegt fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf að aðsókn að starfsmenntun sé að aukast. Það þarf hins vegar að bæta aðstöðu til að taka á móti nemendum í verkmenntaskólum og gera þeim kleift að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð. Það skýtur skökku við að fréttir berist af því að 700 áhugasömum nemum hafi verið vísað frá þegar ákall er eftir fólki inn í iðngreinar. Samfylkingin vill efla iðnnám, verkmenntun og starfsþjálfun í landinu.“

Vinstri grænir:
„VG telur að tryggja þurfi jöfn tækifæri til fjölbreyttrar menntunnar óháð búsetu og að þar þurfi sérstaklega að huga að aðgengi að iðn- og listnámi. Greina þarf möguleika á fleiri heimavistarrýmum í tengslum iðnnámsskóla og nýta möguleika til fjarnáms til hins ýtrasta. Fjölga þarf möguleikum á menntun og þróun í starfi til þess að launafólk hafi aukin tækifæri og betri kjör. Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu þannig að hún taki mið að áskorunum samtímans, ekki síst tæknibreytingum og grænni umbreytingu. Tryggja þarf að komandi breytingar í atvinnuháttum vegna tækniþróunar verði til hagsbóta fyrir almenning og verði ekki til þess að skerða kjör launafólks. Endurskoða þurfi fyrirkomulag iðnnáms með það að markmiði að fjölga útskrifuðum iðnnemum og taka þannig markviss skref í átt að aukinni samvinnu framhaldsskóla, vinnustaða, stéttarfélaga og annarra sem koma að skipulagi og framkvæmd starfsnáms.”

Hér má sjá svör við öllum spurningunum fimm.

Ályktun til stuðnings kjaradeilu sjómanna

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn í kjaraviðræðum þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Framganga útgerðarinnar í viðræðum við sjómenn vekur furðu og er með öllu óásættanleg.

Þann 6. september slitu sjómenn kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hjá ríkissáttasemjara. Sýnt var að vilji stórútgerðarinnar til að finna lausn á kjaradeilunni var ekki fyrir hendi. Sérhverri tillögu sjómanna var svarað með gagntilboðum sem voru með öllu óaðgengileg.

Steininn tók úr þegar útgerðin lýsti sig ekki tilbúna til að auka framlag í lífeyrissjóð nema sá kostnaður yrði að fullu bættur með skertum kjörum sjómanna. Minnt skal á að krafan um aukið framlag í lífeyrissjóð felur það eitt í sér að sjómenn njóti þess sama og samið hefur verið um við aðra hópa. Vart getur það talist undrunarefni að sjómenn neiti að taka á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samningsins.

Sjómenn hafa nú verið samningslausir í 19 mánuði. Miðstjórn ASÍ telur þá stöðu mála ólíðandi og krefst þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi láti af þvermóðsku og óbilgirni í viðræðum við sjómenn. Álögur á sjávarútveginn eru ekki slíkar að sú framganga geti með nokkru móti talist réttlætanleg, hvað þá eðlileg.

Gaflarar og giggarar

Forseti ASÍ skrifar áhugaverð grein á heimasíðu sambandsins fyrir helgina um gaflara og giggara:

Í fjölmiðlum í vikunni mátti lesa um nýútgefna bók þar sem farið er fögrum orðum um uppbyggingu þess sem hefur verið kallað harkhagkerfi (e. gig economy). Höfundar bókarinnar, sem nefnist Völundarhús tækifæranna, láta þó nægja að vísa til giggara, það er þeirra einstaklinga sem starfa sjálfstætt og taka að sér ákveðin verkefni. Það er talið gigginu til tekna að þá geti starfsmenn stýrt sínum vinnutíma sjálfir, til dæmis unnið mikið á veturna og minna á sumrin. Til þess þurfi bæði „hugrekki“ og „skipulagsgáfu“.

Vissulega eru ákveðnir hópar sem eru í góðri samningsstöðu gagnvart fyrirtækjum og stofnunum og geta selt þeim þjónustu sem fáir aðrir geta. En sé litið á þróun harkhagkerfisins í löndum heims þá er það svo að þorri giggara er í þeirri stöðu að þurfa að stunda undirboð og bjóða og vinnu sína á lakari kjörum en þeir fengju væru þeir í föstu ráðningarsambandi. Enn fremur þarf fólk að taka því starfi sem býðst, þegar það býðst og lítið fer fyrir frelsinu. Þess vegna er þetta hark.

Þetta er ekki nýr veruleiki. Hugtakið Gaflarar – sem í dag er notað um Hafnfirðinga almennt – á rætur sínar að rekja til kreppuáranna þegar menn héngu undir gafli í Hafnarfirði í von um vinnu þann daginn. Íslendingar þekktu líka vel að ganga niður á bryggju upp á von og óvon hvern dag, með þá nagandi tilfinningu að kannski færu börnin aftur svöng að sofa í kvöld. Konur þekktu að bíða heima og reyna að taka að sér öll möguleg verk til að eiga nóg fyrir salti í grautinn. Þetta var veruleikinn sem verkalýðshreyfingin barðist gegn og kostaði meiriháttar átök að breyta. Það er barnaskapur að halda að samfélagið sé komið á svo allt annan stað í dag að þetta skipti engu. Lífið er ekki ein línuleg framför; sagan er uppfull af dæmum um réttindi sem eru plokkuð af fólki um leið og færi gefst. Harkhagkerfið hefur reynst ein leið til þess.

Staðreyndin er sú að harkhagkerfið hentar best þeim sem „kaupa þjónustuna“ af giggurunum; atvinnurekendum sem geta fengið ódýrara vinnuafl og án skuldbindinga, stórfyrirtækjum sem neita að viðurkenna réttindi fólksins sem býr til verðmæti þeirra og færa arðinn í skattaskjól; og jafnvel neytendum sem geta fengið far um bæinn eða mat sendan heim án þess að greiða fyrir vinnuaflið sem til þess er kallað. Þetta er hinn kerfisbundni veruleiki giggsins.

Víða um heim hafa giggarar verið algjörlega réttlausir gagnvart þeim hömlum sem Covid-faraldurinn hefur sett á atvinnulífið. Hér á landi hafa fjölmargar stéttir þar sem fólk er almennt sjálfstætt starfandi sótt í að vera launafólk til að tryggja réttindi sín. Þessi réttindi kostuðu mikla baráttu og eru undirstaða þeirra lífskjara sem við búum við á Íslandi í dag. Það er hvorki hugrekki né skipulagsgáfa að gefa slík réttindi eftir í stórum stíl, jafnvel þótt dæmi séu um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafa það gott.

Góða helgi!
Drífa

Miklar og góðar umræður

Frambjóðendur Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar, sem fram fara þann 25. september næstkomandi, litu við hjá starfsmönnum stéttarfélaganna fyrir helgina. Það voru þau Eiríkur Björn Björgvinsson, Sigríður Ólafsdóttir og heimamaðurinn Kristján Gunnar Óskarsson.

Frambjóðendurnir gáfu sér góðan tíma til að ræða helstu áherslumál Viðreisnar auk þess að hlusta eftir skoðunum starfsmanna stéttarfélaganna. Fundurinn var áhugaverður í alla staði enda mikilvægt að frambjóðendur hlusti eftir skoðunum kjósenda og talsmanna stéttarfélaga. Á meðfylgjandi mynd eru frambjóðendurnir með formanni Framsýnar.

Stytting vinnuvikunnar hjá hinu opinbera

Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku.

Styttingin átti að koma til framkvæmda 1. janúar 2021.

Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.

Helstu atriði

  • Allir fá að lágmarki 65 mín. styttingu á viku (13 mínútur á dag)
  • Stytting getur orðið að hámarki 4 klst. á viku
  • Við 4 klst. styttingu missa starfsmenn forræðið yfir kaffitíma, en geta tekið pásur þegar færi gefst
  • Vinnuhópur, sem speglar allan starfsmannahópinn auk yfirmanna, skal vinna að útfærslu styttingu vinnuvikunnar á hverjum vinnustað
  • Styttingin skal vera lýðræðisleg ákvörðun þar sem allir starfsmenn greiða atkvæði um útfærslu vinnuhópsins
  • Ef ekki tekst að stytta vinnuvikuna um meira en 65 mín. skal tilkynna það til viðeigandi stjórnvalda og stéttarfélaga
    • Í framhaldi verður innleiðingahópurinn kallaður saman til að aðstoða starfsfólk og stjórnendur stofnana við að ná fram gagnkvæmum ávinningi með breyttu skipulagi vinnutíma
  • Laun eiga ekki að skerðast við styttingu vinnuvikunnar
  • Styttinginn átti að taka gildi 1. janúar 2021.

Reiknivél til að bera saman vaktarúllur fyrir og eftir styttingu vinnuvikunnar er aðgengileg hér.

Á betrivinnutimi.is má finna ýmsar leiðbeiningar og fræðsluefni og algengustu spurningum sem upp koma við innleiðingu betri vinnutíma svarað.

Þing BSRB með breyttu sniði

Þing BSRB, það 46. í röðinni, fer fram eftir tvær vikur. Síðasta þing sambandsins var haldið haustið 2018. Upphaflega stóð til að halda þriggja daga þing með hefðbundnum hætti en vegna óvissu tengdri sóttvarnaraðgerðum ákvað stjórn BSRB að halda rafrænt þing miðvikudaginn 29. september næstkomandi um afmörkuð mál og boða til framhaldsþings á næsta ári.

Þing bandalagsins eru haldin þriðja hvert ár og fara þau með æðsta vald í öllum málum BSRB. Þingið tekur til umfjöllunar öll þýðingarmikil málefni og mótar stefnu BSRB. Þá er kosið í helstu embætti bandalagsins á þingum þess. Að þessu sinni verður dagskráin afmörkuð og allri stefnumótun frestað til framhaldsþings.

Á dagskrá þingsins 29. september verður skýrsla stjórnar, takmarkaðar lagabreytingar og kosningar í embætti. Kosið verður um embætti formanns og 1. og 2. varaformanns. Þá verða kjörnir aðalmenn og varamenn í stjórn bandalagsins.

Þingfulltrúar fá sendar upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast gögn og taka þátt í þinginu með rafrænum hætti frá sínum stéttarfélögum. Starfsmannafélag Húsavíkur á rétt á tveimur fulltrúum á þinginu. Fulltrúar félagsins verða Hermína Hreiðarsdóttir og Fanney Hreinsdóttir.

Þúsund þakkir frá hópnum

Framsýn og Þingiðn komu nýlega að því að styrkja 3 fl. kvenna og karla innan Völsungs í knattspyrnu til kaupa á æfingafatnaði. Til stóð að hópurinn færi erlendis í æfingaferð en hætt var við það vegna Covid. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina komið að því að styrkja æskulýðs- og íþróttastarf á félagssvæðinu. Félögunum hafa borist kærar kveðjur frá unglingunum og foreldrum þeirra með þessum orðum, „Þúsund þakkir frá hópnum“.

Húfur í boði

Starfsmenn stéttarfélaganna taka vel á móti félagsmönnum sem vantar hlýjar og góðar húfur fyrir veturinn. Vorum að fá sendingu. Áhugasamir eru velkomnir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Víða réttað um helgina

Um síðustu helgi var víða réttað í Þingeyjarsýslum. Ljósmyndari heimasíðu stéttarfélaganna tók nokkrar skemmtilegar myndir á Húsavíkurrétt á laugardaginn sem eru meðfylgjandi þessari frétt. Ekki var annað að heyra en að göngurnar hefðu almennt gengið vel.

Frambjóðendur í heimsókn

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna komandi Alþingiskosninga litu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag og heilsuðu upp á starfsmenn og formann Framsýnar. Fengu þau leiðsögn um starfsemi stéttarfélaganna og helstu baráttumál félaganna er varða, byggða-, atvinnu- og velferðarmál. Stéttarfélögin óskuðu eftir góðu samstarfi við verðandi þingmenn flokksins enda afar mikilvægt að byggja upp gott traust milli þeirra sem kjörnir eru á þing á hverjum tíma og alþýðunnar í landinu. Heimsóknin fór vel fram og var ánægjuleg í alla staði.

Gengið frá samkomulagi við Fjallalamb

Í gær undirrituðu forsvarsmenn Framsýnar og Fjallalambs á Kópaskeri samkomulag um launakjör við sauðfjárslátrun hjá fyrirtækinu í haust. Sláturtíðin hefst þann 16. september og er áætlað hún standi yfir í um 5 vikur. Slátrað verður um 25.000 fjár. Frekar illa hefur gengið að manna sláturhúsið í ár en um 70 starfsmenn koma að slátrun. Að staðaldri starfa um 17 starfsmenn hjá fyrirtækinu sem er þekkt fyrir góðar og vandaðar kjötvörur.

Hermína nýr formaður STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur fór fram síðasta mánudag, 6. september. Fundurinn var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26.

Hermína Hreiðarsdóttir var kjörin formaður félagsins og er hún boðin velkomin til starfa. Hermína starfar á skrifstofu Norðurþings sem þjónustu- og skjalafulltrúi. Aðrir í stjórn eru; Bergljót Friðbjarnardóttir, Fanney Hreinsdóttir, Berglind Erlingsdóttir og Sylvía Ægisdóttir.

Hér má lesa frekar um fundinn og samþykktir fundarins.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir     aðalfund
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
f) Kosning félagslegra endurskoðenda samkvæmt 6. grein
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd

2. Önnur mál

Niðurstöður fundarins:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár

Bergljót Friðbjarnardóttir sitjandi formaður félagsins gerði grein fyrir skýrslu stjórnar.

Fundir
Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 27. ágúst 2020. Frá þeim tíma hafa verið haldnir þrír formlegir stjórnarfundir. Starfsemin hefði mátt vera miklu öflugri en formaður félagsins sagði sig frá störfum fyrir félagið 22. júní 2021 og urðu því aðrir stjórnarmenn að taka að sér að leiða félagið í gegnum starfsárið með góðum stuðningi frá starfsmönnum Skrifstofu stéttarfélaganna sem tóku auk þess að sér að skipuleggja aðalfundinn.  Ákveðið var að Bergljót Friðbjarnardóttir yrði í forsvari fyrir félagið fram að aðalfundinum í forföllum formanns.

Fullgildir félagsmenn
Fullgildir félagsmenn í Stafsmannafélagi Húsavíkur þann 31. desember 2020 voru 120, það er greiðandi félagar. Þess ber að geta að fjöldi virkra félagsmanna STH sem greiddu í félagssjóð í janúar 2021 skv. félagatali í DK voru 82. Samkvæmt lögum BSRB skal tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reyndist í janúar það ár sem halda skal þing BSRB.

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2020 námu kr. 14.979.546,  en voru kr. 16.440.832 árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 11.566.093, og hækkuðu því milli ára úr kr. 10.720.399.

Fjármunatekjur voru kr. 192.125 samanborið við kr. 774.831 árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 3.605.578, samanborið við 6.495.264 tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 71.420.810,- og eigið fé nam kr. 68.754.171 og hefur það aukist um 5,5% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.684.028. Gerð verður frekari grein fyrir helstu niðurstöðum úr ársreikningi félagsins undir b-lið þessa liðar, Venjuleg aðalfundarstörf.

Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. STH á eina íbúð í Sólheimum og gengur rekstur hennar vel. Komið er því að laga íbúðina sem bíður komandi stjórnar félagsins að framfylgja. Þá á félagið eitt orlofshús á Eiðum, líkt og með íbúð félagsins í Sólheimum hefur rekstur orlofshússins gengið vel. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna sér um að halda utan um úthlutun og rekstur á eignunum. Þá fengu 7 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 170.200,-.

Fræðslumál og heilsurækt
Á síðasta ári fengu 24 félagsmenn styrki úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 1.859.067,-. Þá fengu félagsmenn greiddar kr. 178.000,- í heilsustyrki frá félaginu.

Kjaramál
Lítið fór fyrir kjarasamningsgerð á síðasta starfsári enda kjarasamningar ekki lausir fyrr en á árinu 2023. Hins vegar hefur töluverður tími farið í aðstoð við félagsmenn vegna innleiðingar á vinnutímastyttingum og eftirfylgni með félagsmannasjóðnum Kötlu. Það er að tryggja að greiðslur úr sjóðnum skiluðu sér til félagsmanna.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá félagsmönnum hefur almennt verið með miklum ágætum enda Covid ekki haft veruleg áhrif á starfsmenn sveitarfélaga og ríkisins.

Hátíðarhöldin 1. maí
Í annað skiptið síðan 1923 hafði íslenskt launafólk ekki tækifæri á að safnast saman 1. maí 2021 til að leggja áherslur á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Árið 1923 fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972. Eðlilega urðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum að fella niður hefðbundna dagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík í ár. Hátíðarhöldin voru því með óhefðbundnu sniði vegna þessara sérstöku aðstæðna. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna slógust í hóp heildarsamtaka launafólks sem voru með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu 1. maí. Að dagskránni stóðu: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

Starfsemi félagsins
STH hefur komið að nokkrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:

Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.

Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á leiksýningu á vegum Leikfélags Húsavíkur.

Dagana 19. og 20. apríl stóðu stéttarfélögin fyrir langþráðu trúnaðarmannanámskeiði, en námskeiðinu hefur ítrekað verið frestað sökum heimsfaraldursins. Alls tóku 19 trúnaðarmenn þátt í námskeiðinu frá Framsýn, STH og Þingiðn. MFA sá um námskeiðið fh. stéttarfélaganna.

Gerðar voru breytingar á réttindaákvæðum Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar sem félagið kom að. 

Til stóð að ráðast í endurskoðun á lögum félagsins en þar sem félagið hefur ekki starfað af fullum þunga á starfsárinu tókst ekki að hefja þá vinnu. Vonandi verður hægt að ráðast í þessa vinnu í vetur.

Félagið kom að því að styrkja Soroptimistaklubb Húsavíkur um kr. 100.000 vegna sjálfstyrkingarnámskeiðs fyrir ungar konur.

Samkomulag við Flugfélagið Erni
Í desember 2019 endurnýjuðu stéttarfélögin samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn sína  þegar horft er til þess að stéttarfélögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan þau hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið í árslok 2019 hafa stéttarfélögin tryggt félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2021. Verð til félagsmanna hefur verið kr. 10.300,- per flugmiða/kóða.

Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Ágúst Sigurður Óskarsson, ráðgjafi í starfsendurhæfingu hefur annast þá þjónustu. Hann er ávallt reiðubúinn til að veita félagsmönnum nánari upplýsingar um starfsemina en markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu. 

Málefni skrifstofunnar
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. STH er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Framsýn og Þingiðn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Huld Aðalbjarnardóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum á síðasta ári og eru henni þökkuð vel unnin störf í þágu félaganna. Í hennar stað var Elísabet Gunnarsdóttir ráðin sem fjármálastjóri. Þá hætti Aðalsteinn J. Halldórsson störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta ár. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmenn við stjórnir félaganna, starfsmenn og félagið í heild sinni. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Tekin var ákvörðun um að hafa hana opna þrátt fyrir Covid en gæta um leið að öllum sóttvarnarreglum heilbrigðisyfirvalda. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Félögin fjárfestu saman í nýlegri bifreið Toyota Rav4 árgerð 2015 sem kom í staðinn fyrir bifreið sem var seld. Bifreiðin kemur að góðum notum í starfsemi stéttarfélaganna. Kaupverðið er kr. 2.850.000,- sem skiptist þannig milli félaganna, Framsýn 75,5%, Þingiðn 14,5% og STH 10%. Um er að ræða sama eignarhluta og er á húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, neðri hæð.

Fulltrúaráð stéttarfélaganna
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna mynda með sér Fulltrúaráð sem skipað er formönnum þessara félaga. Fulltrúaráðinu er ætlað að fylgjast með sameiginlegri starfsemi félaganna, ekki síst sem viðkemur rekstri skrifstofunnar. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar eftir þörfum.

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
Elísabet Gunnarsdóttir gerði grein fyrir ársreikningum félagsins. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi. Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2020 námu kr. 14.979.546,  en voru kr. 16.440.832 árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 11.566.093, og hækkuðu því milli ára úr kr. 10.720.399.

Fjármunatekjur voru kr. 192.125 samanborið við kr. 774.831 árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 3.605.578, samanborið við 6.495.264 tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 71.420.810,- og eigið fé nam kr. 68.754.171 og hefur það aukist um 5,5% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.684.028.

Eftir yfirverð Bergljótar og Elísabetar um starfsemi og rekstur félagsins gaf fundarstjóri orðið laust. Umræður urðu um starfsemi félagsins. Eftir umræður var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða.

Tillaga um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2021 var samþykkt samhljóða.

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var samþykkt samhljóða.

c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
Tillaga um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum var samþykkt samhljóða.

d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
Þar sem ekki lágu fyrir fundinum breytingar á lögum félagsins var þessi liður ekki til afgreiðslu. Hins vegar liggur fyrir að ráðast þarf í verulegar breytingar á lögum félagsins. Ný stjórn mun taka málið upp í vetur.

e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
Fyrir liggur að kjósa þarf formann, ritara og einn meðstjórnanda. Bergljót Friðbjarnardóttir  gefur áfram kost á sér sem ritari og Berglind Erlingsdóttir gefur áfram kost á sér sem meðstjórnandi. Þá hefur Hermína Hreiðarsdóttir ákveðið að gefa kost á sér sem formaður félagsins. Ekki komu fram aðrar tillögur og skoðast þær því sjálfkjörnar í stjórn. Fundarstjóri óskaði þeim til hamingju, sérstaklega nýjum formanni félagsins, Hermínu Hreiðars.

f) Kosning félagslegra endurskoðenda samkvæmt 6. grein
Ása Gísladóttir og Guðmundur Guðjónsson voru kjörin sem félagslegir skoðunarmenn reikninga vegna ársins 2021.

g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
46. þing BSRB fer fram í Reykjavík dagana 29. september og 1. október á Hilton Reykjavík Nordica. STH á rétt á tveimur þingfulltrúum. Samþykkt var að Hermína Hreiðarsdóttir og Fanney Hreinsdóttir verði fulltrúar félagsins á þinginu.

h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd
Samþykkt var að eftirtaldir verði í orlofsnefnd félagsins: Sveinn Hreinsson, Karl Halldórsson og Arna Þórarinsdóttir.

Samþykkt var að eftirtaldir verði í ferðamálnefnd félagsins: Fanney Hreinsdóttir, Arna Þórarinsdóttir og Helga Þuríður Árnadóttir.

Samþykkt var að eftirtaldir verði í stjórn Starfsmenntasjóðs félagsins en Norðurþing skipar jafnframt fulltrúa í stjórn: Frá STH komi Hermína Hreiðarsdóttir og Bergljót Friðbjarnardóttir.

2. Önnur mál

a) Þóknun vegna starfa fyrir félagið
Fundarstjóri lagði fram eftirfarandi tillögur um laun aðalstjórnar, annarra stjórna, nefnda og ráða á vegum félagsins sem eftir umræður voru samþykktar samhljóða:
Laun stjórnar og varastjórnar

Tillaga er um að laun stjórnar og varastjórnar fyrir setinn stjórnarfund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Formaður hafi einn tíma til viðbótar í yfirvinnu per fund vegna undirbúnings og frágangs stjórnarfunda.
Laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi
Tillaga er um að laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir per setinn fund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi.

b) Kveðjugjöf til fráfarandi stjórnarmanna
Samþykkt var að færa þeim stjórnarmönnum sem hættu störfum fyrir félagið á síðasta aðalfundi smá gjöf frá félaginu sem þakklætisvott fyrir góð störf í þágu félagsins. Bergljót Friðbjarnardóttir tók að sér að koma gjöfunum til hlutaðeigandi.

Allt í strand í kjaraviðræðum sjómanna

Eftir árangurslausar viðræður við SFS um endurnýjun kjarasamninga sjómanna frá því að samningarnir losnuðu þann 1. desember 2019 til febrúar 2021 var ákveðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara í von um að eitthvað færi að ganga í viðræðunum. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara með bréfi dags. 17. febrúar 2021.

Helstu kröfur sjómanna voru hækkun kauptryggingar og kaupliða hjá sjómönnum til jafns við hækkanir skv. lífskjarasamningnum sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, fiskverðsmál, aukið mótframlag í lífeyrissjóð og fleira er snýr að réttindamálum og lagfæringum á samningnum til að gera hann einfaldari og auðskildari fyrir þá sem eiga að vinna eftir honum.

Nú hafa verið haldnir yfir 20 fundir hjá ríkissáttasemjara og á fundi þann 6. september síðastliðinn slitnaði upp úr viðræðunum þar sem of mikið ber í milli aðila. Helst strandar á að útgerðarmenn eru ekki tilbúnir til að auka mótframlagið í lífeyrissjóði sjómanna um 3,5% stig nema fá þann kostnað að fullu bættan og rúmlega það með auknum álögum á sjómenn með meiri þátttöku þeirra í ýmsum kostnaði útgerðarinnar. Sem dæmi hefur SFS ítrekað reynt að fá sjómenn til að samþykkja lækkun á hlutaskiptunum, samþykkja þátttöku í veiðigjöldum útgerðarinnar, samþykkja aukna þátttöku í kostnaði vegna slysatryggingar sjómanna og að samþykkja nýtt ákvæði um afslátt af skiptahlut vegna nýrra skipa. Þetta hafa þeir viljað fá gegn því að auka framlag útgerðarinnar í lífeyrissjóð sjómanna.

Helstu atriði síðasta tilboðs útgerðarinnar til sjómanna var að hækka kauptryggingu og kaupliði um aðeins tæpan helming af því sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum, aukið framlag í lífeyrissjóð kæmi til sjómanna  í 7 þrepum, 0,5% ári frá undirritun samnings og að samningstíminn yrði 12 ár. Gegn þessu fóru þeir fram á að þátttaka sjómanna í kostnaði við slysatrygginguna hækkað á samningstímanum þannig að sjómenn greiddu þriðjung iðgjaldsins og að útgerðin fengi 10% afslátt á aflahlutum í fjögur ár fyrir ný skip. Auk þess yrði frystiálag á nýjum frystitogurum lækkað varanlega úr 7% í 5%.

Þessum tillögum SFS höfnuðu fulltrúar sjómanna að sjálfsögðu.

Aðilar hafa verið sammála um að afnema olíuverðstenginguna og skipta úr heildar verðmætinu. Sjómenn buðu að skiptaprósentur yrðu reiknaðar niður m.v. 70% samhliða afnámi olíuverðsviðmiðunarinnar á móti auknu framlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóðinn. Útgerðin hefur ekki fallist á það og vill meira eins og hér hefur komið fram. Jafnframt hafa sjómenn boðið 6 ára samning, en vilja að sjálfsögðu leiðrétta kauptrygginguna og hækka hana til jafns við almennar launahækkanir í landinu og tryggja að á samningstímanum hækki kauptryggingin í takt við launahækkanir á almenna vinnumarkaðnum.

Þokast hefur í samkomulagsátt varðandi að breyta stærðarviðmiðun báta í kjarasamningnum úr brúttórúmlestum í skráningarlengd, en eins og menn vita er hætt að mæla ný skip og skip sem hafa farið í breytingar í brúttórúmlestum og veldur þetta vandamálum varðandi hvaða skiptaprósentur eiga að gilda fyrir þessa báta í hinum ýmsu veiðigreinum. Samkvæmt kjarasamningi á útgerðin að kaupa þessa mælingu, en gerir ekki enda kostar slík mæling mikið. Jafnframt hefur þokast í samkomulagsátt varðandi styrkingu á Verðlagsstofu skiptaverðs og  lagfæringar varðandi verðlagningu á uppsjávarfiski.

Viðræður um endurnýjun kjarasamnings sjómanna hafa nú siglt í strand vegna kröfu útgerðarinnar um að sjómenn taki á sig meiri kostnað en ávinningur þeirra yrði með undirritun samnings á forsendum útgerðarinnar. Í yfirlýsingu frá útgerðinni segir að ef fallist yrði á kröfur sjómanna hlypi kostnaður útgerðarinnar á milljörðum árlega. Þetta er rangt. Á móti stærsta kostnaðarliðnum, auknu mótframlagi útgerðarinnar í lífeyrissjóð, hafa sjómenn boðið ýmislegt sem kemur útgerðinni til góða. Má þar nefna afnám olíuverðsviðmiðunar og 6 ára samningstíma.  Auk þess er rétt að fram komi að í kjarasamningum á almenna markaðnum um jöfnun lífeyrisréttinda var gert samkomulag við stjórnvöld um lækkun tryggingagjalds á atvinnureksturinn til að létta fyrirtækjunum að mæta hækkuðu mótframlagi í lífeyrissjóð sem samið var um á árinu 2016. Útgerðin fékk lækkunina eins og annar atvinnurekstur á Íslandi en hefur ekkert lagt á móti til lífeyrismála sjómanna. Að lokum má nefna að með breytingu á stærðarviðmiði skipa sparar útgerðin sér kostnað við að láta mæla skipin í brúttórúmlestum. Allt það hagræði sem útgerðin fengi með því að ganga að tilboði sjómanna virða þeir einskis enda markmið þeirra að lækka laun sjómanna í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Nýtt kynningarefni til félagsmanna

Framsýn hefur látið gera nýja kynningarbæklinga á ensku, pólsku og íslensku um helstu réttindi félagsmanna hjá Framsýn. Það er úr sjóðum félagsins s.s. úr sjúkra- orlofs og starfsmenntasjóði. Þá er einnig búið að uppfæra bæklinga á ensku og íslensku fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu. Félagsmönnum er velkomið að nálgast bæklingana á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fundað með Vegagerðinni

Formaður Framsýnar tók þátt í samningafundi Starfsgreinasambands Íslands/SGS og Vegagerðarinnar vegna endurnýjunar á stofnanasamningi aðila. Fundurinn fór fram í síðustu viku. Viðræður gengu vel og vonandi verður nýr stofnanasamningur undirritaður á næstu dögum. Stofnanasamningar eru hluti af kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og ríkisjóðs. Þess vegna þurfa aðildarfélög SGS að gera stofnanasamninga við allar ríkistofnanir þar sem félagsmenn starfa. Í stofnanasamningum er m.a. kveðið á um launaröðun og framþróun til launa s.s. vegna starfsaldurs, ábyrgðar og menntunar. Þegar stofnanasamningurnn verður klár verður hann kynntur fyrir starfsmönnum Vegagerðarinnar á Húsavík sem flestir eru í Framsýn.