37. þingi Alþýðusambands Norðurlands lokið

Alls tóku 77 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi innan ASÍ þátt í 37. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal í gær og í dag , þar af voru 11 fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn. Þingið var í fyrsta sinn pappírslaust og tókst það í alla staði mjög vel. Formaður Framsýnar var annar af fundarstjórum þingsins.

Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með erindi. Helga Þyri Bragadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá VIRK í Eyjafirði, fjallaði um VIRK starfsendurhæfingarsjóð og starfsemi hans. Ellen Jónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi, fjallaði um Vinnumálastofnun – stöðu og framtíðarsýn. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæðis Norðlenska ehf., fjallaði um stöðu og framtíð í kjötvinnslu á Íslandi. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, sagði frá félaginu og hvað væri á döfinni hjá þeim. Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs Stapa, fjallaði um lífeyrismál.

Þá sögðu fjórir trúnaðarmenn frá starfi trúnaðarmannsins og viðhorfinu til þess. Þetta voru þær Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir og Sigríður Þórunn Jósepsdóttir, sem eru í Einingu-Iðju, Sirrý Laxdal, sem er í FVSA og Guðmunda Steina Jósefsdóttir, sem er í Framsýn. Í lok fyrri dags var unnið í hópum þar sem fjallað var um samvinnu og samstarf Alþýðusambands Norðurlands við Orlofsbyggðina á Illugastöðum. Í upphafi vinnunnar fjallaði Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, aðeins um samvinnuna og samskiptin. Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir og Guðrún Edda Baldursdóttir, frá ASÍ, stjórnuðu vinnunni sem var með þjóðfundarfyrirkomulagi. Niðurstöður hópavinnu og atkvæðagreiðslu um hana voru kynntar að morgni föstudagsins.

 

Ný stjórn AN
Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, var kjörin nýr formaður AN til næstu tveggja ára. Með henni í stjórn eru Aneta Potrykus, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, sem er varaformaður stjórnar og Atli Hjartarsson, frá Öldunni stéttarfélagi, sem er ritari stjórnar. Varamenn í stjórn eru Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, Guðný Grímsdóttir, frá Framsýn, og Trausti Jörundarson, frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar.

Deila á