Í síðustu kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga var samið um sérstakt framlag í Félagsmannasjóð. Launagreiðanda er ætlað að greiða mánaðarlega framlag í Félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna Framsýnar. Úthlutun úr sjóðnum fer fram 1. febrúar ár hvert, það er til þeirra sem greitt var af til sjóðsins.
Félagsmannasjóðurinn er stofnaður vegna kröfu Alþýðusambands Íslands um jöfnun lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Frá upphafi, það er frá síðustu kjarasamningum, hafa greiðslur af félagsmönnum Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum þess borist til Starfsgreinasambands Íslands sem séð hefur um að halda utan um starfsemi sjóðsins og útgreiðslur úr sjóðnum til félagsmanna aðildarfélaga sambandsins sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum á þeirra vegum.
Frá og með 1. október hefur verið ákveðið að Starfsgreinasambandið hætti að sjá um að halda utan um Félagsmannasjóðinn, þess í stað taki aðildarfélögin við verkefninu að halda utan um sjóðinn fyrir sína félagsmenn. Þannig að, Framsýn, mun frá og með næstu mánaðamótum taka við greiðslum frá sveitarfélögum sem tilheyra félagsmönnum og greiða þær síðan til félagsmanna þann 1. febrúar 2023. Með þessari breytingu verður jafnframt auðveldara fyrir félagsmenn Framsýnar að nálgast sína peninga í gegnum félagið í stað þess að þeir séu hafðir hjá Starfsgreinasambandinu.