Bjarkey Olsen leit við í dag

Kjördæmadagar hafa staðið yfir síðustu daga, það er frá 3.– 6. október og því hafa engir þingfundir verið á Alþingi þessa vikuna. Kjördæmadagana nýta þingmenn til að fara út í kjördæmi sín og hitta kjósendur, sveitarstjórnafólk, fulltrúa fyrirtækja og fleiri. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG í Norðausturkjördæmi og formaður Fjárlaganefndar leit við hjá formanni Framsýnar í dag. Það er alltaf ánægjulegt þegar þingmenn sína málefnum kjördæmisins áhuga og koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem er til staðar víðtæk þekking á málefnum svæðisins sem tilheyrir félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Yfir volgum kaffibolla var farið yfir málefni svæðisins, þing ASÍ í næstu viku og komandi kjaraviðræður í vetur. Þá kom formaður Framsýnar mikilvægum málefnum á framfæri við þingmanninn s.s. hvað varðar vegamál í Bárðardal, flugvallarmál og atvinnumál. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram að fundurinn var vinsamlegur í alla staði.

Því miður hafa aðrir þingmenn kjördæmisins ekki séð ástæðu til að koma við og fræðast um stöðuna á svæðinu, vonandi finna þeir sér tíma til þess í næstu kjördæmaviku eftir áramótin.

 

Deila á