Starfsmenn sveitarfélaga fengu glaðning í gær úr Félagsmannasjóði

Í síðustu kjarasamningum milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinsambands Íslands, sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn, var samið um sérstakt framlag frá sveitarfélögum og stofnunum þess í sérstakan Félagsmannasjóð starfsmanna. Framsýn er ætlað að taka við greiðslunum frá sveitarfélögunum og greiða þær áfram til starfsmanna, það er 1. febrúar ár hvert. Þetta fyrirkomulag hefur núna verið í þrjú ár. Fyrstu tvö árin hélt Starfsgreinasambandið utan um sjóðinn og sá um að greiða út til félagsmanna en á síðasta ári var tekin ákvörðun um að stéttarfélögin innan SGS myndu taka við sjóðnum og sjá um að greiða út úr honum til sinna félagsmanna.

Í gær var komið að því að greiða út úr sjóðnum til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshrepp og stofnunum þeirra fyrir árið 2022. Samtals námu greiðslur úr sjóðnum 24 milljónum sem fóru til 497 félagsmanna. Forsenda þess að Framsýn geti greitt úr sjóðnum er að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá félaginu, þannig ef einhver hefur ekki fengið greitt en telur sig eiga inni hjá sjóðnum þá þarf viðkomandi að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og við skoðum málið. Rétt er að geta að stéttarfélagið hefur ekki tekið staðgreiðslu af upphæðinni en greiðsla þessi fer inná skattaskýrslu næsta árs sem þá reiknar staðgreiðslu hjá hverjum og einum. Félagsmenn Framsýnar sem fengu greitt í gær eiga allir að hafa fengið kvittun í tölvupósti um greiðsluna.

Zwiększone usługi dla obcokrajowców. 

Jak wiadomo, liczba osób pracujących na Islandii zwiększyła się w ostatnich latach z czym związana równie różnorodność członków Framsýn oraz innych związków zawodowych. Dlatego zauważyliśmy potrzebę dodatkowej działalności związanej z tą duża grupą członków. Wychodząc naprzeciw potrzebom obcokrajowców zatrudniliśmy Agnieszkę Szczodrowską, która zaczęła u nas dzisiaj pracę na pół etatu. Aga została wybrana z grupy 21 osób ubiegających się o stanowisko w związkach zawodowych . Jej zadaniem będzie pośredniczyć miedzy zagranicznymi członkami a związkami zawodowymi oraz ochrona obcokrajowców na rynku pracy. Rolą Agi bedzię również odwiedzanie zakładów pracy. Tym zadaniem zajmował się  nasz były pracownik Aðalsteinn J. Halldórsson. Po zakończeniu pracy przez Aðalsteina nasze wizyty w miejscach pracy były rzadkie, więc dzięki zatrudnieniem Agi będziemy mogli wznowić tą pracę. Dni, które Aga bedzie pracowała w naszym biurze to poniedziałki, środy i piątki. Bardzo chcielibyśmy przywitać Agę  naszym gronie. 

Aga bardzo dobrze zna pracę zwiazków zawodowych w Þingeyjarsýsla, ponieważ współpracowaliśmy z nią w sprawach tłumaczeń, w wydarzeniach promujących związki zawodowe oraz w sprawach zwiazanych z zagranicznymi pracownikami. Na powyzszym zdjęciu widać Agę tłumaczącą odczyt na wystawie przedstawiajacej obcokrajowców w swoich zawodach.  

Auka þjónustu við erlenda félagsmenn

Eins og kunnugt er hefur erlendum starfsmönnum sem koma til Íslands fjölgað verulega á síðustu árum, það á við um félagssvæði Framsýnar og annarra stéttarfélaga á Íslandi. Kallað hefur verið eftir því að stéttarfélögin gerðu sitt besta til að bæta þjónustuna við þennan stóra hóp verkafólks. Til að mæta þörfinni hafa stéttarfélögin ráðið Agnieszku Szczodrowsku í 50% starf hjá stéttarfélögunum og hóf hún störf í morgun. Aga var valin úr hópi 21 umsækjanda um starfið. Henni er ætlað að þjóna m.a. erlendum starfsmönnum er varðar þeirra réttindi á vinnumarkaði sem og öllum þeim öðrum sem leita til skrifstofunnar eftir upplýsingum. Þá mun hún einnig koma að vinnustaðaeftirliti fyrir stéttarfélöginn. Aðalsteinn J. Halldórsson var áður í því starfi, það er áður en hann hætti hjá stéttarfélögunum. Frá þeim tíma hefur vinnustaðaeftirlitið að mestu legið niðri en með ráðningu á Ögu verður tekið myndarlega á þeim málum. Við bjóðum Ögu velkomna til starfa en hún verður til staðar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

Aga þekkir vel til starfa stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hún hefur komið að því að túlka fyrir félögin þegar þess hefur þurft með auk þess að vera til staðar á viðburðum sem félögin hafa staðið fyrir og tengjast erlendu vinnuafli á svæðinu. Á meðfylgjandi mynd er Aga að túlka á ljósmyndasýningu sem Framsýn stóð nýlega fyrir í Safnahúsinu af erlendu verkafólki við störf.

Starfsemi deildarinnar og kjaramál til umræðu á aðalfundinum

Aðalfundur Deildar Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær. Fundurinn fór vel fram og var mætingin með ágætum. Töluverðar umræður urðu um ástandið í verkalýðshreyfingunni síðustu vikurnar þar sem harðar deilur eru í gangi milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Reyndar hefur mörgum verið blandað inn í deiluna sem er í hörðum hnút. Almenn ánægja er hins vegar með kjarasamninginn sem Framsýn stendur að ásamt öðrum aðildarfélögum LÍV með gildistíma frá 1. nóvember 2022 sé tekið mið af atkvæðagreiðslu um samninginn en tæplega 88% félagsmanna samþykktu kjarasamninginn í rafrænni atkvæðagreiðslu. Á fundinum var gengið frá kjöri á nýrri stjórn deildarinnar. Öll stjórnin var tilbúin að gefa kost á sér áfram nema Trausti Aðalsteinsson sem starfar ekki lengur á samningssviði deildarinnar. Í hans stað kemur Guðrún Þóra Hallgrímsdóttir inn sem varaformaður deildarinnar. Hún starfar hjá endurskoðunarfyrirtækinu Enor á Húsavík. Hún er boðin velkomin til starfa um leið og Trausti fær kærar þakkir fyrir hans störf í þágu deildarinnar. Forsíðumyndin er af stjórninni. Með þeim á myndinni er ungur leiðtogi, Arnhildur Héðinn Einarsson, sem hafði hægt um sig á fundinum. Hér má síðan lesa helstu upplýsingar úr skýrslu stjórnar sem formaðurinn, Elva Héðins, tók saman fyrir fundinn og fylgdi úr hlaði:

Ágætu félagsmenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fundarins.

Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2022, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma. 

Fjöldi félagsmanna:

Varðandi fjölda félagsmanna þá voru rúmlega 400 einstaklingar sem greiddu til deildarinnar á árinu 2022 en voru um 300 árið áður. Félagsmönnum fer því fjölgandi sem er ánægjulegt.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar um 450 talsins.

Kjaramál:

Landssamband íslenskra verslunarmanna og Samtök atvinnulífsins undirrituðu kjarasamning 12. desember 2022. Framsýn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Um er að ræða skammtímasamning sem gildir frá 1. nóvember 2022 og rennur út 31. janúar 2024.

Samningurinn felur í sér umtalsverðar kjarabætur. Frá og með 1. nóvember 2022 hækka mánaðarlaun um 6,75% en þó að hámarki um 66 þúsund krónur á mánuði. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023.

Samhliða almennum launahækkunum hækka kauptaxtar og nýjar launatöflur taka gildi. Desember- og orlofsuppbætur taka sömuleiðis hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður kr. 103.000,- og orlofsuppbót verður kr. 56.000,-.

Markmið samninganna er að styðja við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn byggir undir stöðugleika og skapar forsendur fyrir langtímasamningi. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.

Framsýn stóð fyrir kynningum á samningnum með því að setja inn efni á heimasíðu félagsins. Þá var fjallað um samninginn í samninganefnd félagsins sem skipuð er aðalstjórn og trúnaðarráði félagsins á hverjum tíma. Til stóð að halda sérstakan kynningarfund um samninginn en því miður var hann felldur niður þar sem aðeins einn félagsmaður mæti á fundinn. Vonandi hafa félagsmenn samt sem áður verið duglegir að kynna sér samninginn. Vissulega voru mikil vonbrigði að aðeins 6,23% félagsmanna greiddu atkvæði um samninginn. 

Kjarasamningurinn var samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna innan deildarinnar. Já sögðu 87,5%, nei sögðu 12,5%. Samningurinn var því samþykktur af miklum meirihluta félagsmanna. Samkvæmt niðurstöðunni ríkir mikil ánægja með kjarasamninginn sem gildir til 31. janúar 2024.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári 2022-2023: Elva Héðinsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir.

Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem ritari sem fundar reglulega. Þá á formaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Formaður hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins.

Þing LÍV:

Framhaldsþing LÍV var haldið á Hallormsstað 24. – 25. mars en fyrri hluti þingsins var haldinn 14. október 2021 með rafrænum hætti. Kjörinn fulltrúi Framsýnar á þinginu var Jónína Hermannsdóttir.

Fræðslumál:

Félagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum fræðslusjóði, Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Um 35 fræðslustyrkir voru veittir úr sjóðnum á árinu 2022 samtals kr. 2.436.147,- sem skiptist þannig milli kynja; Konur 30 styrkir og karlar 5 styrkir. Samkvæmt þessu eru konur mun duglegri að sækja um styrki en karlar. Til viðbótar má geta þess að félagsmenn sem eru í kostnaðarsömu námi geta jafnframt sótt um auka fræðslustyrki úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Linda M. Baldursdóttir hætti störfum á vegum félagsins í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn í starf þjónustufulltrúa hjá stéttarfélögunum. Þá mun Agnieszka Szczodrowska hefja störf hjá stéttarfélögunum þann 1. febrúar. Þannig vilja félögin efla þjónustu við erlenda starfsmenn á svæðinu sem hefur fjölgað verulega á umliðnum árum auk þess að bæta vinnustaðaeftirlitið. Aðalsteinn J. Halldórsson gegndi því hlutverki en sagði starfinu lausu fyrir um tveimur árum. Agnieszka verður í hálfu starfi hjá félögunum.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árunum 2022, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma.

Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar félagsmönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.

Félagsmannasjóður starfsmanna sveitarfélaga innan Framsýnar – Hvenær berast greiðslur til félagsmanna?

Í síðasta kjarasamningi aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga árið 2019 var samið um að sveitarfélögin greiddu 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í svokallaðan Félagsmannasjóð. Framsýn á aðild að sjóðnum fyrir sína félagsmenn. Kveðið er á um að stéttarfélögunum beri að standa skil á þessum greiðslum til félagsmanna 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Greitt er úr sjóðnum árlega, það er 1. febrúar. Rétt er að geta þess að ekki hefur verið tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem mun berast félagsmönnum á næstu vikum. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.

Starfsgreinasambandi Íslands var falið að sjá um umsýslu sjóðsins í upphafi fyrir flest aðildarfélögin. Því miður sáu stéttarfélögin ástæðu til að taka sjóðinn yfir til sín, það fyrir sína félagsmenn, þar sem umfangið var of mikið fyrir Starfsgreinasambandið þar sem sambandinu tókst ekki að leysa verkefnið með viðunandi hætti. Framsýn yfirtók því sjóðinn er viðkemur félagsmönnum þann 1. október 2022. Frá þeim tíma hafa greiður í sjóðinn frá sveitarfélögum og tengdum stofnunum borist Framsýn. Greiðslur þessar, frá 1. október, verða greiddar inn á bankareikninga félagsmanna um mánaðamótin.

Hvað varðar greiðslur til starfsmanna sveitarfélaga sem bárust Félagsmannasjóðnum fyrir yfirtöku Framsýnar er töluverð vinna framundan hjá félaginu að gera upp við viðkomandi félagsmenn. Beðist er velvirðingar á því. Yfirfara þarf skilagreinar síðustu þriggja ára er tilheyra greiðslum í Félagsmannasjóðinn meðan hann var í umsjón Starfsgreinasambands Íslands. Það er til að tryggja að allir fái það sem þeir eiga í sjóðnum. Þegar þeirri vinnu er lokið verður endanlega gert upp við félagsmenn. Vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu stéttarfélaganna vanti félagsmönnum frekari upplýsingar um inneign þeirra í Félagsmannasjóðnum.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður 30. janúar kl. 20:00

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags verður haldinn mánudaginn 30. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    1. Skýrsla stjórnar
    1. Kjör formanns og stjórnar
  2. Kjaramál
  3. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.

Stjórnin

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar á mánudaginn

Boðað hefur verið til fundar í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar næstkomandi mánudag. Að venju er Framsýn-ung boðið að sitja fundinn. Kjaramál verða umfangsmikil á fundinum enda mikið að gerast á þeim vettvangi. Fundurinn verður væntanlega langur og strangur.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Búnaður í fundarsalinn
  4. Félagsmannasjóður
  5. Kröfugerð sveitarfélög-ríki
  6. Kjaraviðræður SGS/SA
  7. Sérkjarasamningur-PCC
  8. Sérkjarasamningur-Hvalaskoðun
  9. Vegagerðin stofnanasamningur
  10. Sveitarfélögin launatafla 2023
  11. Þing ASÍ
  12. Starfsmannamál
  13. Fundur um Vinnustaðaeftirlit
  14. Fundur um húsnæðismál í Norðurþingi
  15. Útgjöld sjúkrasjóðs
  16. Kjör trúnaðarmanna
  17. Málefni Þorrasala
  18. Heimsókn forseta Íslands
  19. Aðalfundir deilda
  20. Önnur mál

Vinna að nýjum langtímasamningi SA og SGS hafin

Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hittust í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær á fyrsta fundi til undirbúnings langtímakjarasamnings. Viðræðurnar eru í samræmi við verkáætlun sem fylgdi framlengingu Lífskjarasamningsins til 31. janúar 2024 þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið í kröfugerð aðila var frestað. Í samræmi við verkáætlun var á þessum fyrsta fundi fjallað um menntun, fræðslu og fagbréf, vinna hópsins skipulögð og umfang verkefnisins metin. Gengið var frá fundaáætlun sem miðast við það að verkefni vinnuhópanna verði lokið í samræmi við þá tímasetningu sem kemur fram í verkáætlun. Fundað verður nokkuð stíft næstu vikurnar. Góður gangur var í viðræðunum í gær.

Á meðfylgjandi mynd eru Maj-Britt Hjördís Briem og Sólveig B. Gunnarsdóttir, lögfræðingar á vinnumarkaðssviði SA ásamt fulltrúum SGS, þeim Aðalsteini Árna, Björgu, Guðbjörgu og Finnboga Sveinbjörnssyni. 

Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga innan Framsýnar

Á árinu 2023 losna kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga annars vegar(30.sept) og  Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra fh. ríkissjóðs hins vegar(31.mars). Þessar vikurnar vinnur Framsýn að því að setja saman kröfugerð fyrir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum. Afar mikilvægt er að félagsmenn sem starfa eftir þessum kjarasamningum komi sínum kröfum á framfæri við félagið. Það gera menn best með því að senda sínar kröfur á netfangið kuti@framsyn.is eða þá eru félagsmenn ávallt velkomnir í heimsókn á skrifstofuna vilji þeir fylgja eftir sínum kröfum. Tekið verður á móti kröfum til 22. janúar. Síðan verða tillögur félagsmanna teknar fyrir og mótuð kröfugerð. Koma svo kæru félagar, það er ykkar að hafa áhrif á kröfugerðina.

Úthlutun frá Kötlu vegna ársins 2022 – Félagsmenn STH

Áríðandi upplýsingar til félagsmanna í Starfsmannafélagi Húsavíkur. Vegna fjölda afgreiðsla verður greitt út í áföngum frá 3. febrúar nk. úr Kötlu. Hámarksupphæð verður kr. 94.000 fyrir 100% starf allt árið 2022. Þeir sem hafa fengið greitt úr sjóðnum árið 2022 vegna starfa sinna árið 2021 þurfa ekki að sækja um þar sem viðeigandi gögn og bankaupplýsingar liggja fyrir. 

Tekið af heimasíðu Kötlu félagsmannasjóðs:

https://katla.bsrb.is/sjodurinn/tilkynningar/stok-tilkynning/2023/01/13/Uthlutun-fra-Kotlu-vegna-arsins-2022/

Gengið frá stofnanasamningi við Vg

Starfsgreinasamband Íslands hefur gengið frá stofnanasamningi við Vegagerðina. Samningurinn byggir á ákvæðum kjarasamnings sambandsins og fjármálaráðherra f.h. ríkisjóðs frá 1. apríl 2019.  Formaður Framsýnar kom að þessari vinnu fh. Starfsgreinasambandsins ásamt framkvæmdastjóra sambandsins og formanni Einingar-iðju. Skrifað var undir samninginn í morgun. Á meðfylgjandi mynd má sjá formann Framsýnar fara yfir samninginn með fulltrúum starfsmanna Vegagerðarinnar á Húsavík, þeim Kristjáni Önundar og Þóri Stefáns trúnaðarmanni áður en gengið var frá undirritun samningsins.

Styðja aldrei samúðarverkfall „sem byggir á því að auka fátækt á landsbyggðinni”

Formaður Framsýnar á Húsavík segir sorglegt og til skammar að Efling stilli láglaunafólki í Reykjavík upp á móti láglaunafólki á höfuðborgarsvæðinu. Hann muni aldrei styðja samúðarverkfall sem byggir á því að auka fátækt á landsbyggðinni. Þetta kom fram á ruv í kvöld. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-01-10-stydja-aldrei-samudarverkfall-sem-byggir-a-thvi-ad-auka-fataekt-a-landsbyggdinni

Harðorður í útvarpsviðtali um framgöngu Eflingar

„Hvaða heilvita manni dettur í hug að SA geti tekið undir skoðanir Eflingar um að innleiða fátækt meðal láglaunafólks á landsbyggðinni?“ Formaður Framsýnar í síðdegisútvarpinu á Bylgjunni. Gríðarlega góð viðbrögð hafa verið við viðtalinu og reyndar við grein Aðalsteins Árna á visi.is í gær. „Leikhús fáránleikans“. Einn af fræðimönnum götunar búandi á höfuðborgarsvæðinu skrifar: „Þar sem ég er mikill áhugamaður um greinaskrif þá verð ég að segja þér að greinin þín “Leikhús fáránleikans” er algjörlega stórbrotin. Í Bandaríkjunum væri þetta kallað af mörgum Slam Dunk grein og af hinum KO eða rothögg.“ Fjölmörg sambærileg skilaboð hafa borist. Hér má hlusta á útvarpsviðtalið.

https://www.visir.is/k/a5e06a03-3661-4898-9940-00797ed29928-1673287606294

Leikhús fáránleikans

Það hefur ekki verið auðvelt að sitja undir gegndarlausum árásum forystumanna Eflingar undanfarnar vikur, þar sem þeir hafa haldið uppi óskiljanlegum áróðri gegn nýlegum kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, auk þess að tala niður formann SGS og aðildarfélög sambandsins. Þá hafa skrif starfsmanna og forystumanna félagsins ekki síður vakið athygli, þar sem borin eru saman lífskjör félagsmanna Eflingar annars vegar og landsbyggðarfélaganna hins vegar. Því er haldið fram að félagsmenn Eflingar þurfi sérstaka framfærsluuppbót og mikið hærri laun sökum afgerandi meiri framfærslukostnaðar sem fylgi því að búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu. Slík framsetning hefur þann helstan tilgang að ala á klofn­ingi milli verka­fólks á höfuðborg­ar­svæðinu og landsbyggðinni. Reyndar virðist stefna í að Efling verði eyland í íslenskri verkalýðsbaráttu sé tekið mið af þeirra málflutningi.

Slá ryki í augu fólks með áróðri
Að slá ryki í augu fólks með útúrsnúningum og áróðri af þessu tagi er ljótur leikur. Það er sannarlega ástæða fyrir því að sögulegur fólksflótti hefur verið frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins á undanförnum áratugum og sú ástæða ætti öllum að vera kunn. Ætli forsvarsmenn Eflingar trúi því virkilega að fólk sem ákveður að taka sig upp og flytja búferlum á suðvesturhorn landsins sé að flýja velsældina og háu launin úti á landi, í hokrið í Reykjavík? Það mætti líka spyrja hvort að átak Byggðastofnunar „Brothættar byggðir“ sem sett var á stofn til að vinna gegn frekari fólksfækkun í smærri byggðarlögum hafi algjörlega farið fram hjá þeim? Sem betur fer hefur Reykjavík ekki þurft á slíkum aðgerðum að halda, enda hefur höfuðborgarsvæðið þanist út vegna velmegunar á sama tíma og litlum sjávarplássum víðs vegar um landið hefur nánast blætt út. Það er ekki laust við að maður fái kjánahroll við að upplifa framsetningu forystu Eflingar á samanburði lífsgæða verkafólks á Íslandi. Að það halli á félagsmenn Eflingar er hrein og klár rökleysa og algjört virðingarleysi gagnvart íbúum á landsbyggðinni.

Raunverulegur framfærslukostnaður
Þegar borinn er saman framfærslukostnaður milli landshluta verður að setja alla útgjaldaliði heimilanna í körfu á hverjum stað og meta síðan hvar karfan er dýrust miðað við búsetu og lögbundna þjónustu. Þá liggur fyrir að tekjumöguleikar og launakjör eru almennt mun hærri í borginni við Faxaflóa en á landsbyggðinni. Samkvæmt opinberum gögnum voru þau 9% hærri árið 2021.

Talandi um körfuna góðu. Við skulum líka setja í hana almenna þjónustu  og verslun sem verkafólk og aðrir íbúar landsbyggðarinnar þurfa í mörgum tilfellum að sækja um langan veg með tilheyrandi eldsneytiskostnaði og vinnutapi. Þeir hinir sömu hafa ekki val um að ná niður heimilisútgjöldum með því að velja milli lágvöruverslana í heimabyggð líkt og félagsmenn Eflingar sem búa við þann munað að hafa lágvöruverslanir nánast á hverju götuhorni. Vitað er að dýrasti útgjaldaliður heimilanna eru matarinnkaup og því skiptir verulega miklu máli fyrir alla að hafa gott aðgengi að lágu matvöruverði.

Við skulum heldur ekki gleyma að setja í körfuna aðgengi fólks að framhalds- og háskólanámi. Ætli menn trúi því virkilega að ungt fólk flytji sér að kostnaðarlausu í framhalds- og/eða háskólanám til Reykjavíkur? Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þennan stóra hóp að leigja sér húsnæði í höfuðborginni á okurverði, því það á þess ekki kost að búa í foreldrahúsum, nokkuð sem margir jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu hafa þó tök á.

Forsvarsmenn Eflingar hafa talað um hátt húsnæðisverð í Reykjavík, það réttlæti misskiptingu í kjörum láglaunafólks eftir búsetu. Því miður endurspeglast fáfræðin í þessari fullyrðingu hvað þá varðar sem falla undir þessa skilgreiningu. Vissulega er húsnæðisverðið hátt í Reykjavík, reyndar óviðunandi fyrir allt of marga. Það á ekki bara við um félagsmenn Eflingar heldur allan þann fjölmenna hóp íbúa annara sveitarfélaga sem orðið hafa að koma sér upp öðru heimili í Reykjavík er tengist framhaldsnámi eða atvinnu. Það er með kaupum eða með því að leigja húsnæði.

Samanburður á bensínverði, rafmagns- og húshitunarkostnaði, flugfargjöldum innanlands, leikskólagjöldum og flutningskostnaði verða líka að fá pláss í körfunni enda um mjög kostnaðarsama liði að ræða. Reiknimeistari Eflingar ætti að gefa sér tíma til að fara inná heimasíðu flutningafyrirtækjanna og slá inn í reiknivél málum t.d. á sófasetti eða rúmi og skoða kostnaðinn við að flytja viðkomandi vöru frá Reykjavík til Þórshafnar á Langanesi. Já, hann yrði hissa.

Þá er full ástæða til að nefna misjafnt aðgengi fólks að sérfræði- og heilbrigðisþjónustu.  Það er því miður ekki þannig að allir búi svo vel að vera í kallfæri við hátæknisjúkrahús og/eða fæðingarhjálp eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins, samanber unga fólkið á Austurlandi sem rataði í fjölmiðla á dögunum þar sem það þurfti að flytjast búferlum til að vera nálægt fæðingardeild, en slík þjónusta var ekki í boði á svæðinu. Um er að ræða gríðarlegan útgjaldalið fyrir þann fjölmenna hóp fólks sem þarf á þessari mikilvægu þjónustu að halda.

Við getum einnig tekið til umræðu byggingakostnað á köldustu svæðunum sem er verulega hærri en á höfuðborgarsvæðinu og aðgengi fólks að fjármögnun íbúðarhúsnæðis eftir landshlutum. Eigum við kannski að ræða til viðbótar um verðgildi sambærilegra húseigna á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið?

Hvernig væri nú að helsti sérfræðingur Eflingar reiknaði út heildarmyndina í stað þess að handvelja nokkra þætti út úr framfærslumódelinu, félagsmönnum Eflingar til framdráttar? En höfum þá allt upp á borðinu til að gæta sanngirni.

Stjórnvöld geta ekki setið hjá
Reyndar væri hægt að tiltaka endalaus dæmi um þann mikla ójöfnuð sem þrífst á Íslandi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, landsbyggðinni í óhag. Það ættu ekki að vera nýjar fréttir fyrir fólk sem fylgist á annað borð með þjóðfélagsumræðunni að helsti orsakavaldur byggðaröskunar á Íslandi er mismunur á opinberri þjónustu, launakjörum og vöruverði milli landshluta. Kallað hefur verið eftir því að stjórnvöld komi að málinu með sértækum aðgerðum samhliða kjarasamningum fyrir verkafólk á landsbyggðinni líkt og þekkist í Noregi, þar sem stjórnvöld hafa komið að því að jafna búsetuskilyrði  fólks með skattalækkunum svo vitnað sé í slíkar aðgerðir í Norður Noregi, fjarri Osló.

Hér á landi hafa stjórnvöld því miður ekki gripið til sambærilegra aðgerða, enda engin byggðastefna í gildi og því blæðir landsbyggðinni. Aðgerðir stjórnvalda hafa frekar miðast við að koma til móts við þarfir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Nýlegt dæmi er hækkun húsnæðis- og vaxtabóta sem rennur hlutfallslega mun meira til fólks á höfuðborgarsvæðinu. Eflingarfólk nýtur góðs af þessari aðgerð fram yfir aðra félagsmenn aðildarfélaga SGS. Svona mæti lengi telja.

Efling hafnaði samstöðunni
Þegar aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands lögðu í þá vegferð að móta sameiginlega kröfugerð vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins snemma á síðasta ári með samstöðuna að vopni, hafnaði Efling því að vera í samfloti með öðrum aðildarfélögum sambandsins. Félagið taldi hag sínum betur borgið eitt og sér, að sjálfsögðu ber að virða það. Það er hins vegar ekki boðlegur málflutningur að hálfu Eflingar að halda því fram að aðildarfélög sambandsins hafi brotið niður samstöðuna með undirskrift kjarasamnings þann 3. desember 2022 eftir margra mánaða samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins. Með samstöðuna að vopni var markmið Starfsgreinasambandsins að ná fram góðum kjarasamningum fyrir félagsmenn. Efling hafnaði samstöðunni!

Það væri óskandi að forsvarsmenn Eflingar myndu nú einbeita sér að því að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir sitt félagsfólk þeim til hagsbóta, í stað þess að eyða púðrinu í að rífa niður kjarasamning SGS og SA. Kjarasamning sem almenn ánægja er með sbr. það að 86% félagsmanna samþykktu samninginn. Það er þrátt fyrir að forystufólk innan Eflingar hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að fá félagsmenn landsbyggðarfélaganna til að fella samninginn með skrifum sínum, símhringingum, ályktun og leka á viðkvæmum trúnaðarupplýsingum í fjölmiðla. Fyrir liggur að ályktun Eflingar fer á spjöld sögunar sem minnisvarði um niðurrif og óheilindi félagsins í garð annarra stéttarfélaga innan SGS.

Það er hins vegar ánægjulegt til þess að vita að félagsmenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands samþykktu kjarasamninginn með bros á vör sé miðað við niðurstöðuna úr atkvæðagreiðslunni um samninginn, sem og félagsmenn VR og félaga iðnaðarmanna. Greinilegt er að félagsmenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins bera fullt traust til forystumanna félaganna enda þeirra hlutverk á hverjum tíma að fylgja eftir kröfugerð félagsmanna.

Að lokum þetta. Hver hefði trúað því að stéttarfélag íslensks láglaunafólks myndi krefjast þess að Samtök atvinnulífsins samþykktu að innleiða misskiptingu í launakjörum meðal láglaunafólks í sömu starfsgreinum eftir því í hvaða landshlutum þeir starfa? Já, það er illa komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Höfundur er formaður Framsýnar stéttarfélags og fyrrverandi fiskvinnslumaður

Hefur fengið nóg af áróðri Eflingar

Formaður Framsýnar segist reiður yfir endalausum áróðri forystumanna Eflingar sem eyði mun meiri tíma í að hrauna yfir félaga sína í hreyfingunni í stað þess að semja fyrir sitt fólk. Þá hafi skrif Stefáns Ólafssonar sérfræðings Eflingar og forystumanna þess ekki síður vakið athygli um stöðu félagsmanna Eflingar annars vegar og landsbyggðarfélaganna hins vegar. Því sé haldið fram að félagsmenn Eflingar þurfi sérstaka framfærsluuppbót og miklu hærri laun umfram félaga þeirra á landsbyggðinni vegna afgerandi meiri framfærslukostnaðar sem fylgi því að búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu. Með slíkri framsetningu sé verið að etja saman verkafólki á Íslandi í stað þess að hvetja til samstöðu verkafólks, burtséð frá búsetu. Þessi óforskammaða framkoma fari í sögubækurnar. Hér má lesa viðtalið við Aðalstein Árna formann Framsýnar sem svarar forystumönnum Eflingar fullum hálsi eftir yfirlýsingar félagsins í dag. „Mælirinn orðinn fullur“ (mbl.is)

ASÍ fagnar niðurstöðu Félagsdóms um réttarstöðu trúnaðarmanna

Fé­lags­dóm­ur komst í gær að þeirri niður­stöðu að upp­sögn Efl­ing­ar á trúnaðar­manni í apríl 2022 hafi verið ólög­mæt.

Miðstjórn ASÍ taldi í dag fulla ástæðu til á álykta um dóm Félagsdóms um réttarstöðu trúnaðarmanna:

„Miðstjórn ASÍ fagnar því að Félagsdómur hafi með niðurstöðu sinni í máli nr. 6/2022, skýrt og styrkt réttarstöðu trúnaðarmanna skv. 11. gr. laga nr. 80/1938 og tekið af allan vafa af um að hópuppsagnir vegna skipulagsbreytinga geti ekki réttlætt uppsögn trúnaðarmanna.“

Breytt styrkhlutfall fræðslusjóðanna um áramótin

Vegna áhrifa frá Covid 19 settu fræðslusjóðirnir, sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn, af stað átak í fræðslu sem hófst 15. mars 2020. Hluti átaksins fólst í því að endurgreiðsluhlutfall styrkja hækkaði tímabundið úr 75% í 90% hjá bæði fyrirtækjum og til einstaklinga.

Nú er átakinu lokið og stjórnir sjóðanna hafa ákveðið að endurgreiðsluhlutfallið fari í 80% hjá fyrirtækjum (fyrirtæki utan SA 72%)  og 80% til einstaklinga hjá Landsmennt og Sjómennt. Hjá Ríkismennt og Sveitamennt 80% til einstaklinga. Breytingin tekur gildi 1. janúar 2023 gagnvart því námi sem hefst eftir þann tíma.

Hægt er að sjá reglur vegna einstaklingsstyrkja hér: Landsmennt – Sveitamennt – Ríkismennt – Sjómennt

Hægt er að sjá reglur vegna fyrirtækjastyrkja og styrkja til stofnana sveitarfélaga og ríkisins hér: Landsmennt – Sveitamennt – Ríkismennt – Sjómennt

Sprenging í útgreiðslum úr Sjúkrasjóði Framsýnar –  93 milljónir til félagsmanna

Óhætt er að segja að sprenging hafi orðið á styrkveitingum til félagsmanna Framsýnar á árinu 2022 sé horft til síðustu ára. Greiðslurnar hafa aldrei verið hærri úr sjúkrasjóði félagsins. Enn og aftur sannast, hvað það er mikilvægt að vera félagsmaður í öflugu stéttarfélagi. Félagi sem er tilbúið á hverjum tíma til að grípa félagsmenn í vanda og styðja við bakið á þeim í erfiðleikum til betra lífs.

Á árinu 2021 voru greiddar tæpar 60 milljónir í styrki til félagsmanna. Það er í sjúkradagpeninga, heilsueflingarstyrki, fæðingarstyrki, styrki vegna sálfræðikostnaðar og sjúkraþjálfunar svo eitthvað sé nefnd.

Hvað árið 2022 varðar þá  enduðu greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði í 93 milljónum í árslok sem er veruleg aukning milli ára eða um 55%. Mest munar um að greiddar voru 56 milljónir í sjúkradagpeninga vegna veikinda félagsmanna, 10 milljónir fóru í heilsueflingarstyrki, 8 milljónir í fæðingarstyrki og 3 milljónir í að greiða niður sálfræðiþjónustu fyrir félagsmenn.

Atvinnuástandið í jafnvægi í Þingeyjarsýslum

Atvinnuástandið á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur verið með miklum ágætum á árinu 2022 m.v. stöðuna víða um land. Í byrjun janúar voru 149 einstaklingar á atvinnuleysisskrá, það er í sveitarfélögunum Norðurþingi, Skútustaðahreppi, Tjörneshreppi og Þingeyjarsveit sem skiptist þannig milli sveitarfélaga:

Janúar 2022:

Norðurþing alls 94 einstaklingar (58 karlar 36 konur).

Skútustaðahreppur alls 35 einstaklingar (18 karlar og 17 konur).

Tjörneshreppur alls 3 einstaklingar (3 karlar).

Þingeyjarsveit  alls 17 einstaklingar (11 karlar og 6 konur).

Samkvæmt þessari niðurstöðu voru 90 karlar og 59 konur á atvinnuleysisskrá í janúar, samtals 149. Á landinu öllu var atvinnuleysið 5,2%. Á sama tíma var atvinnuleysið á Norðurlandi eystra 4,9%.

Nóvember 2022:

Norðurþing alls 66 einstaklingar (30 karlar og 36 konur)

Skútustaðahreppur 0

Tjörneshreppur alls 3 einstaklingar (2 karlar og 1 kona)

Þingeyjarsveit alls 31 einstaklingar (17 karlar og 14 konur)

Samkvæmt þessari niðurstöðu voru 49 karlar og 51 kona á atvinnuleysisskrá í janúar, samtals 100 einstaklingar. Á landinu öllu var atvinnuleysið 3,3%. Á sama tíma var atvinnuleysið á Norðurlandi eystra 2,9%.

Stéttarfélögin sjá fyrir sér að atvinnuástandið muni halda áfram að lagast og vöntun verði á starfsfólki til starfa á komandi ári þar sem ekki er annað að sjá en að fyrirtæki á svæðinu standi vel og þá verði töluverð aukning í komum ferðamanna inn á svæðið sem kallar á fjölgun starfsmanna. Efnahagsástandið í heiminum og stríðið í Úkraínu gæti þó dregið úr þeim væntingum. En við vonum það besta og að árið 2023 verði okkur farsælt í alla staði.