Þú ert einn á fundinum!

Fundarformið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, sumir tengja það Covid þegar mönnum var almennt bannað að koma saman, hvað þá að  funda í návígi. Vissulega getur það verið þægilegt að funda í gegnum Teams og önnur sambærileg forrit þar sem það sparar bæði peninga og tíma fyrir þá sem taka reglulega þátt í fundum. Á meðfylgjandi mynd má sjá Kristján M. Önundarson sem situr í Uppstillinganefnd Framsýnar funda með öðrum í nefndinni í gegnum Teams. Hann sitjandi í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík og á skjánum má sjá Gullu í Klifshaga í Öxarfirði og Ósk sem býr í Merki í dalnum fagra, Fnjóskadal, en þær eru með Kristjáni í nefndinni ásamt tveimur öðrum fulltrúum sem gátu ekki verið með á fundinum í gær.  Nefndin hefur undanfarið unnið að því að stilla upp í allar helstu stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar fyrir kjörtímabilið 2024-2026, samtals yfir 80 félagsmönnum. Nefndin reiknar með að klára verkið síðdegis á morgun. Í kjölfarið verður tillagan auglýst á heimasíðu stéttarfélaganna.

Deila á