Skrifað formlega undir kaupsamning

Í vikunni var formlega gengið frá kaupum Framsýnar og Þingiðnar á tveimur orlofsíbúðum sem eru í byggingu í Hraunholtinu á Húsavík. Áður höfðu kaupin verið handsöluð. Það voru formenn félaganna, Jónas og Aðalsteinn Árni sem undirrituðu kaupin fh. félaganna, ásamt verktakanum Ragnari Hjaltested. Með kaupunum vilja félögin auka enn frekar þjónustu við félagsmenn sem starfa víða um land en um 60% félagsmanna Framsýnar búa utan Húsavíkur eða tæplega 2.000 félagsmenn af 3.500 félagsmönnum. Þá eru félagsmenn Þingiðnar einnig dreifir um landið. Ákvörðunin um kaupin var tekin á sameiginlegum félagsfundi stéttarfélaganna 21. nóvember 2023 þar sem tillaga um kaup á íbúðunum var samþykkt samhljóða með lófaklappi.

Um er að ræða 118 m2. íbúðir með geymslu.  Íbúðirnar verða full frágengnar með lóð og upphituðu bílastæði. Verðmatið per íbúð er 69.350.000,-. Áætlað er að íbúðirnar verði klárar 1. ágúst 2024.

Jafnframt er til skoðunar að nota íbúðirnar í skiptum yfir sumarið fyrir orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn Þingiðnar og Framsýnar, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík. Þá geta íbúðirnar einnig gagnast félagsmönnum sem búa utan Húsavíkur og aðstandendum þeirra þurfi þeir að dvelja á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um tíma vegna veikinda.

Um er að ræða sögulega stund. Víða um land eiga stéttarfélög og starfsmannafélög orlofsíbúðir í þéttbýli s.s. á Akureyri.  Fram að þessu hefur það ekki þekkst að slíkar íbúðir væru í boði á Húsavík. Með kaupum Framsýnar og Þingiðnar á tveimur orlofsíbúðum verður þar breyting á hvað félagsmenn þessara félaga varðar. 

Deila á