Kjörnefnd Þingiðnar kom saman til fundar í fundarsal stéttarfélaganna í gær til að raða félagsmönnum upp í trúnaðarstöður fyrir næsta kjörtímabil sem er 2024-2026, það er milli aðalfunda. Kjörnefnd er skipuð þeim Davíð Þórólfssyni, Kristjáni Gíslasyni og Gunnólfi Sveinssyni.
Kjörnefnd er ætlað að ljúka störfum í lok janúar og auglýsa sína tillögu um félagsmenn í trúnaðarstöður á vegum félagsins fyrir komandi kjörtímabil.
Samkvæmt félagslögum ber félagsmönnum að taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið. Í 10. gr. c-liðar er eftirfarandi tiltekið;
„c) Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda. Enginn getur, nema af frambornum ástæðum sem félagsfundur tekur gilda, skorast undan að taka kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár samfellt í stjórn félagsins, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Sama gildir um önnur trúnaðarstörf í þágu félagsins.“
Á fundinum var farið yfir núverandi uppstillingu. Fyrir liggur að gera þarf nokkrar breytingar þar sem dæmi eru um að félagsmenn séu hættir á vinnumarkaði og því ekki lengur kjörgengir. Þá hefur Vigfús Þór Leifsson varaformaður félagsins beðist undan frekari störfum fyrir félagið eftir áratuga setu í stjórn félagsins. Velt var upp nokkrum nöfnum sem kæmu til greina inn í stjórn félagsins og í önnur embætti. Eftir góðar umræður var samþykkt að hafa samband við ákveðna menn með það að markmiði að fá þá inn í stjórn og varastjórn. Stillt verður upp í aðrar stjórnir og ráð eins og verið hefur enda skylda félagsmanna að gegna störfum í þágu félagsins. Skorað er á áhugasama félagsmenn Þingiðnar sem vilja taka þátt í störfum félagsins að hafa samband við Kjörnefnd sem fyrst þar sem nefndin reiknar með að klára sína vinnu í næstu viku.