Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn 11. janúar 2024. Miklar og góðar umræður urðu um kjaramál og yfirstandandi viðræður aðila vinnumarkaðarins. Töldu fundarmenn mikilvægt að tekið yrði fullt tillit til hagsmuna landsbyggðarinnar í viðræðum verkalýðshreyfingarinnar við ríkið og Samtök atvinnulífsins. Ályktað var um málið sem er meðfylgjandi fréttinni.
Umræður urðu jafnframt um verslun og þjónustu á félagssvæðinu. Óánægju gætir með einu stóru matvörubúðina á Húsavík sem Samkaup reka. Forsvarsmönnum Framsýnar var falið að koma óánægjunni á framfæri við stjórnendur Samkaupa og krefjast úrbóta hvað varðar vöruúrval og almennt aðgengi í búðinni.
Þá var gengið frá kjöri á öflugri stjórn deildarinnar sem er með yfirgripsmikla þekkingu á stöðu og réttindamálum verslunar- og skrifstofufólks. Aðalsteinn J. sem er reyndur félagsmálamaður var kjörinn formaður deildarinnar en hann var nýlega ráðinn á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Tæplega 400 félagsmenn eru skráðir í deildina sem fer ört fjölgandi.
Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn deildarinnar, starfsárið 2024:
Nafn: Vinnustaður:
Aðalsteinn J. Halldórsson formaður Skrifstofa stéttarfélaganna
Elva Héðinsdóttir varaformaður PwC
Karl Hreiðarsson ritari VÍS
Anna Brynjarsdóttir meðstjórnandi Lyfja
Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir meðstjórnandi Eimskip
Eftirfarandi ályktun um kjaramál var samþykkt samhljóða á aðalfundinum:
Ályktun um kjaramál
„Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar kallar eftir þjóðarsátt um frið á vinnumarkaði við endurnýjun kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum. Lögð verði höfuðáhersla á að tryggja stöðu þeir lægst launuðu til framtíðar hvað varðar almenn kjör. Samhliða því verði tekið á verðbólgunni og alltof háu vaxtastigi, sem hefur haldið þúsundum heimila í landinu í heljargreipum og haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið allt.
Launafólk eitt ber ekki ábyrgð á stöðugleika í landinu og við núverandi aðstæður er ekki í boði fyrir viðsemjendur verkalýðshreyfingarinnar að sitja hjá. Stjórnvöld, sveitarfélög, Samtök atvinnulífsins, fjármálastofnanir, verslunar- og þjónustuaðilar verða að taka höndum saman með hreyfingunni og finna leiðir til að ná tökum á verðbólgunni og tryggja efnahagslegan stöðugleika.
Framsýn gerir jafnframt skýlausa kröfu um að tekið verði á þeim mikla aðstöðumun sem íbúar á landsbyggðinni búa við, samanborið við höfuðborgarsvæðið, landsbyggðinni í óhag. Það á ekki síst við um raforkuverð, eldsneytisverð, flutningskostnað, vöruverð og aðgengi að opinberri þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu og framhaldsnámi. Því miður búa ekki allir landsmenn við það sjálfsagða öryggi að hafa læknisþjónustu í heimabyggð eða aðgengi að hátæknisjúkrahúsi í bakgarðinum hjá sér. Um er að ræða kostnaðarsama liði sem almennt verkafólk á mjög erfitt með að takast á við og fjölmörg dæmi eru um að fjölskyldur hafi þurft að flytjast búferlum á höfuðborgarsvæðið, þar sem það hefur verið að sligast undan gríðarlegum útgjöldum sem fylgja því að búa á landsbyggðinni.
Aðalfundurinn mælir með heildstæðum kjarasamningi til þriggja ára enda sé hann byggður á þeirri grundvallarnálgun að bæta kjör þeirra lægst launuðu og jöfnun lífskjara í landinu. Framsýn mun aldrei skrifa upp á kjarasamning sem mismunar fólki enn frekar eftir búsetu.“