Rólegt – fáir á ferðinni

Á hverjum degi leita yfir hundrað manns á Skrifstofu stéttarfélaganna eftir upplýsingum í formi heimsókna á skrifstofuna og/eða með því að senda netpósta á starfsmenn. Það átti þó ekki við í gær enda brjálað veður á Húsavík. Sama staðan er í dag, veðrið er hundleiðinlegt og því fáir á ferðinni. Starfsmenn stéttarfélaganna börðust til vinnu í morgun og eru að venju klárir að þjónusta félagsmenn í dag þrátt fyrir að þó nokkuð sé um að fyrirtæki og stofnanir séu lokaðar í dag.

Það er ekki mikið líf á Skrifstofu stéttarfélaganna upp á morguninn.

Góður fundur um leikskólamál

Framsýn stóð fyrir fundi með foreldrum ungbarna á Húsavík í síðustu viku ásamt stjórnendum Norðurþings. Umræðuefnið var aðgengi ungbarna að Leikskólanum Grænuvöllum og hækkanir leikskólagjalda. Einnig urðu umræður um álögur vegna fasteignagjalda á Húsavík. Fundurinn var fjölsóttur og voru fundarmenn sammála um að hann hefði verið upplýsandi og góður. Foreldrar höfðu ákveðið frumkvæði að fundinum en þau leituðu til Framsýnar með ósk um aðkomu félagsins að málinu sem að sjálfsögðu var orðið við.

Fréttabréf kemur út í vikunni

Ritstjóri, blaðamenn og yfirsetjari Fréttabréfs stéttarfélaganna eru í óða önn að klára uppsetningu á fréttabréfinu með það að markmiði að það fari í prentun á morgun. Það þýðir að blaðið mun væntanlega berast lesendum í lok vikunnar. Það er sem sagt allt á fullu varðandi útgáfu á jólablaði stéttarfélaganna sem að venju er fullt af fræðandi og skemmtilegu lesefni. Meðfylgjandi mynd er af Heiðari Kristjánssyni sem er í þessum skrifuðu orðum að setja upp blaðið góða sem gefið er út í tæplega 2000 eintökum og dreift til lesenda í Þingeyjarsýslum og áskrifanda víða um land.

 

Styttist í komu jólasveinana

Senn koma jólin og eflaust eru margir farnir að huga að undirbúningi þeirra. Í upphafi aðventu fer jólaverslunin að lifna, laufabrauð, konfekt og smákökur kitla bragðlauka landsmanna og jólaljósin skína skært um stræti og torg. Það styttist einnig í komu jólasveinana, en yfir þeim hvílir ákveðin dulúð og leynd. Helst er haldið að varnarþing íslenskra jólasveina sé í Dimmuborgum. Eftir helgina munu þeir einn af öðrum taka að tínast til byggða. Samkvæmt sérkjarasamningi íslenskra jólasveina skal Stekkjastaur, sá fyrsti koma til byggða aðfaranótt 12. desember ár hvert. Allir launþegar þurfa að vera meðvitaðir um réttindi sín og og skyldur, en í fylgiskjali A með samningnum segir að jólasveinar skuli fara í bað einu sinni á ári. Að því loknu skuli þeir vitja íslenskra barna og færa þeim gjafir í skóinn, hafi þau til þess unnið. Réttindi jólasveina eru aftur á móti þau að Grýla móðir þeirra í samráði við hundlatan heimilisföðirinn, Leppalúða, ábyrgist að þeir séu sæmilega til fara. Einnig að eftir hátíðirnar megi þeir kýla vömbina að vild og liggja að því loknu á meltunni þar til líða fer að næstu jólum.

Sannir íslenskir jólasveinar klæðast eins og margir vita gömlu íslensku bændafötunum, líkt og þjóðin klæddist á 18-19 öld. Þau eru unnin úr íslenskri prjónavoð, ull, skinni og gæru.Tölurnar á fatnaði þeirra bræðra eru handunnar úr horni, beini eða tré. Litirnir eru einnig rammíslenskir, en þeir eru byggðir á íslenskum jurtalitum. Það voru Kristín Sigurðardóttir og vinkona hennar Ragnheiður Kristjánsdóttir sem aðstoðuðu Grýlu og umboðsmenn íslensku jólasveinanna fyrir allmörgum árum, við að hanna og sauma föt á þá.

Fréttamaður heimasíðu Framsýnar leit við hjá Kristínu á dögunum, en hún býr í Tjarnarborg í Ljósavatnsskarði. Kristín sem er félagsmaður Framsýnar, starfaði lengi sem skólaliði við Stórutjarnaskóla. Hún er ekki lengur á vinnumarkaði, en grípur gjarnan í saumaskap fyrir Grýlu gömlu, sem orðin er þreytt á að bæta föt sona sinna, enda margir þeirra annálaðir fataböðlar. Kristín segist ekki telja það eftir sér að lagfæra fatnað sveinanna, eða jafnvel sauma nýjan, því það sé mikilvægt að þeir séu hlýlega búnir, því ekki megi þeir veikjast í upphafi jólavertíðarinnar.

En það eru ekki eingöngu lifandi jólasveinar sem Kristín leggur metnað sinn í, heldur framleiðir hún eftirmyndir íslensku jólasveinafjölskyldunnar og eru þau uppábúin í vaðmálsföt og sauðskinnskó. Sveinkarnir hennar Kristínar eru víðförlari en almennt gengur og gerist meðal íslenskra jólasveina, þeir skipta orðið hundruðum og hafa dreifst um allan heim. Hver þeirra hefur sín sérkenni, þeir eru safngripir og ekki síður fínir í tauinu en frændur þeirra í Dimmuborgum.

Jólasveinarnir okkar þrettán, ásamt Grýlu, Leppalúða og húsdýri þeirra, jólakettinum hafa lengi átt þátt i að móta jólahefðir íslendinga með einum eða öðrum hætti. Framganga sveinkana hefur mildast með árunum, hafa þeir bætt hegðun sína og munnsöfnuð og óknyttir þeirra og uppátæki heyra nú nánast sögunni til. Jólakötturinn er orðinn gamall og lúinn, hefur í dag lítinn áhuga á börnum og kúrir heima í bólinu hjá Leppalúða. Þessi ágæta fjölskylda er þáttur í menningararfi okkar Íslendinga, er dæmi lifandi hefðir sem ber að varðveita. Aðstendendur fjölskyldunnar í Dimmuborgum, jafnt Kristín sem aðrir er hafa lagt þar hönd að verki eiga miklar þakkir skyldar fyrir að vekja athygli á þessum arfi, byggja úr honum menningartengda ferðaþjónustu og skapa með því atvinnu fyrir Þingeyinga.

Myndir: Edda Bjarnadóttir og Ósk Helgadóttir sem auk þess tók saman þessa skemmtilegu frétt.

 

 

Afsláttarkjör áfram í boði

Framsýn og Flugfélagið Ernir hafa gengið frá áframhaldandi samningi um sérkjör fyrir félagsmenn stéttarfélaganna sem fljúga með flugfélaginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem gilda á árinu 2020. Samkvæmt samkomulaginu kaupir Framsýn 4800 flugmiða af Erni og endurselur til félagsmanna stéttarfélaganna. Þess má geta að Framsýn er stærsti viðskiptavinur flugfélagsins á Íslandi er viðkemur samningum stéttarfélaga við flugfélagið en stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa verið að selja um 5000 flugmiða á ári til félagsmanna. Áætlað er að félagsmenn hafi sparað sér um 66 milljónir á síðasta ári með því að kaupa miðana í gegnum stéttarfélögin. Samkvæmt nýja samkomulaginu mun miðaverðið haldast óbreytt fram eftir næsta ári en þá kemur til hækkun sem kynnt verður síðar.

Nauðungarvinna og þrælahald aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag dóm í máli sem þrotabú fyrirtækisins Menn í vinnu höfðaði vegna ummæla starfsmanns í Vinnustaðaeftirliti ASÍ, í fréttum Stöðvar 2 snemma á þessu ári.

Eins og alkunna er þurfti ASÍ ítrekað að hafa afskipti af fyrirtækinu Menn í vinnu áður en það varð gjaldþrota. Það var vegna slæms aðbúnaðar starfsfólks og brota á kjörum þess. Frá því fyrirtækið hóf störf hafði Vinnumálastofnun það einnig til rannsóknar og var í samstarfi við bæði Vinnueftirlit ríkisins og Ríkisskattstjóra.

Í frétt Stöðvar 2 þann 7.febrúar 2019 var opinberaður grunur um að erlendir starfsmenn fyrirtækisins Menn í vinnu hafi verið í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu. Þeir séu bæði svangir, peningalausir og hræddir auk þess að búa við óásættanlegar og heilsuspillandi aðstæður á vegum fyrirtækisins. Samkvæmt dómi Héraðsdóms var stafsmanni ASÍ heimilt í þessu viðtali að vísa til þessara aðstæðna og felst í því fullnaðar viðurkenning á réttmæti þeirra ummæla. Hins vegar voru dæmd dauð og ómerk ummæli starfsmannsins um innlagnir á og úttektir af bankareikningum starfsmanna og að framkvæmdastjóri fyrirtækisins virtist hafa aðgang að bankareikningum stafsmanna sinna. Þótti dómara skorta gögn til að styðja við þessar fullyrðingar þrátt fyrir að starfsmenn hafi í frétt Stöðvar 2 sýnt viðstöddum gögn þessu til stuðnings. Heildarniðurstaða dómsins er því umdeilanleg þó ekki sé meira sagt.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort dómnum verði áfrýjað.

Starfsfólk ASÍ mun hér eftir sem hingað til standa með félagsmönnum sínum og enduróma veruleika þeirra á vinnumarkaði. Til stendur að efla vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar enn frekar á næstu mánuðum.

Félagar í ASÍ mega vera afskaplega stoltir af eftirlitsfólki hreyfingarinnar sem sinna erfiðum störfum í baráttunni fyrir betri vinnumarkaði. Starfsmenn í vinnustaðaeftirliti ASÍ hafa unnið þrekvirki við að gæta hagsmuna vinnandi fólks og nýtur órofa stuðnings og fulls trausts í sínum störfum. Alþýðusambandið leitar stöðugt leiða til að efla eftirlit enda er full ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af fólki af erlendum uppruna sem kemur í gegnum starfsmannaleigur á íslenskan vinnumarkað, nauðungavinna og þrælahald verður aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.

(Meðfylgjandi mynd tengist ekki fréttinni)

 

Þingeyjarsveitin heimsótt

Formaður Framsýnar og eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna héldu áfram vinnustaðaheimsóknum í gær um félagssvæðið. Heimsóttir voru átta vinnustaðir í Þingeyjarsveit. Almennt var ríkjandi bjartsýni meðal stjórnenda og starfsmanna sem fulltrúar stéttarfélaganna spjölluðu við. Sjá myndir:

Sveitarfélögin haldi aftur af gjaldskrárhækkunum og sýni ábyrgð!

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með Alþýðusambandi Íslands sem ítrekar nauðsyn þess að sveitarfélög sýni ábyrgð og styðji við lífskjarasamningana með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám, rétt eins og yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga frá síðasta vori kvað á um.

Alþýðusambandinu hafa borist fregnir af því að sum sveitarfélög hafi gefið út að þau ætli að halda hækkunum á gjaldskrám, þ.m.t. fasteignagjöldum, innan við 2,5% og taka þannig ábyrgð og taka þátt í að stuðla að verðstöðugleika í samfélaginu sem er vel.

Það á þó því miður ekki við um öll sveitarfélög en fréttir hafa borist af því að sum þeirra ætli sér að láta íbúa bera miklar gjaldskrárhækkanir á komandi ári og draga þannig úr þeim ávinningi sem lífskjarasamningunum var ætlað að skila.

Þá virðast sum sveitarfélög ætla að hækka fasteignaskatta og önnur fasteignagjöld langt umfram verðbólgu og bera fyrir sig þau rök að fasteignaskattar falli ekki undir gjaldskrár sveitarfélaga.

Fasteignaskattar eru meðal þeirra útgjaldaliða sem fasteignagjöld samanstanda af og falla þeir því að sjálfsögðu undir gjaldskrár sveitarfélaga sem eru ákvarðaðar á ári hverju, rétt eins og leikskólagjöld og önnur gjöld. Fasteignagjöld, þ.m.t. fasteignagskattar vega í mörgum tilfellum þungt í útgjöldum heimilanna og ljóst er að það dugar skammt að halda aftur af hækkunum á aðgangseyri ofan í sundlaugar ef hækka á fasteignaskatta á sama tíma.

Alþýðusambandið krefst þess að sá ávinningur sem kjarasamningarnir hafa veitt heimilum landsins verði ekki eyðilagður með hækkun gjalda. Sveitarfélögum landsins ber að fara að fordæmi þeirra sveitarfélaga sem ætla að sýna ábyrgð og halda aftur af hækkunum á öllum þeim gjaldskrám sem snerta heimili landsins.

 

Formaður á ferðinni um héraðið

Það hefur því miður ekki gefist mikill tími hjá formanni Framsýnar að fara í vinnustaðaheimsóknir á árinu enda ár kjarasamningsgerðar. Á dögunum gaf hann sér þó tíma og heimsótti vinnustaði í Mývatnssveit og Reykjahverfi. Að þessu sinni var tilgangurinn ekki síst að hitta stjórnendur og taka stöðuna á atvinnulífinu og heyra væntingar þeirra varðandi komandi ár auk þess að færa starfsmönnum konfekt og dagatal frá stéttarfélögunum. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina lagt mikið upp úr góðu samstarfi við atvinnulífið á félagssvæðinu. Formanni og eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna Aðalsteini J. Halldórssyni, sem var með í för, var alls staðar vel tekið. Almennt báru stjórnendur sig vel varðandi stöðuna en vissulega höfðu þeir ákveðnar áhyggjur af ferðaþjónustunni. Það er hvernig hún muni koma til með að þróast á komandi árum en fyrir liggur að mikið hefur verið fjárfest í atvinnugreininni á undanförnum árum. Í Mývatnssveit er mjög mikið lagt upp úr ferðaþjónustu. Í Reykjahverfi eru öflug fyrirtæki í grænmetisrækt, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Formaður Framsýnar og eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna munu á næstu dögum halda áfram að heimsækja vinnustaði í Þingeyjarsýslum. Hér koma nokkrar myndir frá heimsókn formanns til fyrirtækja í Mývatnssveit og Reykjahverfi.

 

Jólasveinn ársins 2019

Guðmunda Steina Jósefsdóttir var valin „Jólasveinn ársins 2019“ á lokafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn sem fram fór á föstudaginn. Fundarmönnum bauðst að kjósa þann félagsmann sem þykir hafa skarað fram úr í starfi Framsýnar á árinu. Formaður og varaformaður voru ekki í kjöri.

Titilinn „Jólasveinn ársins 2019“ hlaut Guðmunda Steina fyrir hennar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins. Guðmunda er þriggja barna móðir og býr í Laxárdal. Hún hefur verið liðtæk í starfi Framsýnar og gegnir um þessar mundir formennsku í Framsýn-ung. Með þessu öllu saman er hún í námi og vinnur einnig utan heimilis. Sem sagt hörkukona og góður félagsmaður. Þegar valið fór fram gafst mönnum kostur á að gera grein fyrir atkvæði sínu. Hér koma tvö dæmi: „Hún stendur sig vel, mætir vel, fersk og flott baráttukona!“ „Dugleg, mætir á nánast alla fundi, er í fullum skóla, vinnu og með þrjú ung börn. Bíður sig fram á öll þing.“

Guðmunda fékk ekki Óskarinn að gjöf fyrir að vera virkasti félagsmaðurinn 2019 heldur fallegan jólasvein í verðlaun. Framsýn óskar Guðmundu Steinu til hamingju með titilinn.

Upplýsandi fundur um lífeyrismál

Framsýn stéttarfélag stóð fyrir upplýsingafundi um málefni sjóðfélaga innan Lsj. Stapa í gær, mánudag. Fundurinn var mjög góður en vissulega má gagnrýna að fólk fylgist ekki almennt betur með sínum málum og mæti á fund sem þennan sem ætlað er að miðla upplýsingum til sjóðfélaga og svara fyrirspurnum um málefni sjóðsins. Á fundinum fóru forsvarsmenn Lsj. Stapa yfir réttindakerfi Stapa, lykiltölur úr rekstri og framvindu fjárfestingarstefnu auk þess sem komið var inn á aukið hlutverk fulltrúaráðs sjóðsins. Eins og segir í upphafi var fundurinn góður og lögðu fundarmenn fjölmargar spurningar fyrir frummælendur fundarins.

Allir í stuði á jólafundi Framsýnar – góðu ári að ljúka í starfsemi félagsins

Lokafundur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu fór fram síðasta föstudag. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn. Fundurinn hófst með venjubundnum hætti með dagskrá. Þegar hún var tæmd tók skemmtinefnd kvöldsins við „Gimbrarnar sjö“ við stjórnun fundarins með skemmtidagskrá sem stóð fram eftir kvöldi. Boðið var upp á heimatilbúin skemmtiatriði og að lokum spilaði Hrútabandið fyrir dansi. Veitingarstaðurinn Salka sá um veitingar kvöldsins sem voru í alla stað til mikillar fyrirmyndar. Fundurinn fór í alla staða vel fram en hefð er fyrir því innan Framsýnar að ljúka starfsárinu með góðum jólafundi þar sem blandað er saman gaman og alvöru. Hér koma nokkrar myndir frá lokafundi ársins hjá stjórn og trúnaðarráði Framsýnar ásamt góðum gestum sem starfað hafa fyrir félagið á árinu.

Snæbjörn ráðinn í tímabundin verkefni

Snæbjörn Sigurðarson hefur verið ráðinn í tímabundin verkefni á vegum stéttarfélaganna. Miklar annir hafa verið á skrifstofunni, ekki síst þar sem þetta er samningaár, þar sem flestir kjarasamningar sem stéttarfélögin eiga aðild að voru lausir á þessu ári. Sem dæmi má nefna, þá er enn ósamið við ríki og sveitarfélög vegna kjarasamninga fyrir starfsfólk sem starfar hjá þessum opinberu aðilum. Þá er líka ósamið við Landsvirkjun. Mikill tími hefur því farið í samningagerð á árinu sem enn er ekki séð fyrir endann á. Snæbjörn sem lengi starfaði hjá stéttarfélögunum áður en hann hóf störf hjá Norðurþingi mun fyrst og fremst einbeita sér að bókhaldi og skráningu þess í tölvukerfi stéttarfélaganna. Stéttarfélögin bjóða Snæbjörn velkominn til starfa.

Munið, opinn fundur um lífeyrissjóðsmál í dag kl. 17:00

Framsýn stéttarfélag stendur fyrir upplýsingafundi um málefni sjóðfélaga innan Lsj. Stapa mánudaginn 2. desember kl. 17:00 í fundarsal Framsýnar.

Dagskrá.

  1. Réttindakerfi Stapa
  2. Lykiltölur úr rekstri og framvinda fjárfestingarstefnu
  3. Aukið hlutverk fulltrúaráðs

Fundurinn er opinn öllum sjóðfélögum Lsj. Stapa. Starfsmenn sjóðsins verða frummælendur á fundinum og svara fyrirspurnum fundarmanna. Mikilvægt er að sjóðfélagar fjölmenni á fundinn og kynni sér málefni sjóðsins og/eða komi ábendingum á framfæri við stjórnendur sjóðsins varðandi s.s. réttindakerfið. Það gerist ekkert með því að sitja heima.

Framsýn- stéttarfélag

Framsýn styður baráttu gegn fátækt eldra fólks og öryrkja

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á föstudaginn voru umræður um slæma stöðu öryrkja og aldraðra til umræðu. Samþykkt var samhljóða að félagið ályktaði um stöðuna sem væri mjög alvarleg:

„Framsýn stéttarfélag styður heilshugar undirskriftarsöfnun þess efnis að enginn eigi að þurfa að lifa af lægri innkomu en kjarasamningsbundnum lágmarkslaunum og krefst breytinga þegar í stað.

Framsýn segir NEI við því að stjórnvöld ætli að hlunnfara öryrkja og eldra fólk.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar hækka lægstu eftirlaun um 3,5% um áramótin og verða eftir hækkun tæplega 80.000 krónum lægri en núgildandi lágmarslaun í landinu sem tóku gildi 1. apríl 2019. Örorkulífeyrir verður sömuleiðis töluvert lægri en lágmarkslaun eftir hækkun.

Framsýn mótmælir þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að eftirlaun dragist enn frekar aftur úr lægstu launum og krefst þess að lægstu eftirlaun og örorkulífeyrir hækki afturvirkt frá 1. apríl 2019 upp í kr. 317.000 á mánuði.

Framsýn fordæmir skilningsleysi stjórnvalda og kallar eftir þjóðarsátt um mannsæmandi kjör og framfærslu fyrir aldraðra og öryrkja. Tryggjum öllum áhyggjulaust ævikvöld, ekki bara sumum!“

 

Jólatilboð!

Saga Verkalýðsfélags Húsavíkur „Fyrir neðan bakka og ofan“ er á sérstöku tilboði núna fyrir jólin. Um er að ræða þrjár bækur sem fjalla um sögu verkalýðshreyfingarinnar, atvinnulífs og stjórnmála á Húsavík í 100 ár. Sögusviðið er frá 1885 til 1985. Ritverkið hefur fengið einstaklega góða dóma. Tilboðsverðið er kr. 3.000,-Bókin er til sölu á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Staða Framsýnar mjög sterk um þessar mundir – mikil ásókn í félagið

Hefð er fyrir því að formaður eða varaformaður Framsýnar fari yfir starfsemi félagsins á jólafundi þess á hverju ári. Til fundarins er boðuð; stjórn félagsins, varastjórn, trúnaðarmenn á vinnustöðum, stjórn Framsýnar-ung og starfsmenn félagsins. Jólafundurinn stendur nú yfir og var formaður félagsins, Aðalsteinn Árni, að ljúka við að rifja upp það helsta úr starfi félagsins á umliðnu ári.  Hér má lesa ávarp formannsins:

Ágætu félagar

Við höfum lengi haldið okkur við það að halda sérstakan jólafund stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í desember ár hvert. Starfsmönnum og öðrum þeim sem starfa fyrir félagið í stjórnum, ráðum og nefndum hefur einnig verið boðið að sitja fundinn.

Tilefnið er ekki síst að gera upp árið í starfsemi félagsins, taka fyrir fyrirliggjandi mál og eiga saman ánægjulega kvöldstund.

Árið 2019 hefur verið annasamt í okkar starfi, ekki síst þar sem það hefur einkennst af kjaraviðræðum og kjarasamningsgerð sem ekki er séð fyrir endann á enda enn nokkrir kjarasamningar lausir. Undirbúningur félagsins við kjarasamningsgerð hófst í október 2018 og þeirri vinnu er ekki enn lokið, þar sem ósamið er við ríki, sveitarfélög og Landsvirkjun.

Árið hófst með því að skipuleggja orlofskosti fyrir félagsmenn sumarið 2019. Ákveðið var að bjóða félagsmönnum upp á sambærilega kosti og verið hafa undanfarin ár á góðum kjörum. Ekki er annað að heyra en að félagsmenn séu ánægðir með það framboð sem aðildarfélög skrifstofu stéttarfélaganna hafa boðið upp á í gegnum tíðina.

Samkvæmt 3.mgr. 49. gr. laga ASÍ skulu stjórnir sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Á umliðnu starfsári lét Framsýn framkvæma þessa athugun og sá PWC um skoðunina.

Niðurstaðan er skýr: „ekkert bendi til annars en að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á allra næstu árum sé litið til eiginfjárstöðu í árslok 2017, afkomu sjóðsins á undanförnum árum og þess að bótagreiðslur úr sjóðnum og iðgjöld til sjóðsins verði áfram með líkum hætti og verið hefur.“ Þá kemur fram í fylgisjali að staðan sé í raun öfundsverð.

Þessi niðurstaða sýnir og sannar að við erum á réttri leið í rekstri félagsins, félagsmönnum til hagsbóta.

Deild verslunar- og skrifstofufólks boðaði til aðalfundar 11. febrúar. Jóna Matthíasdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Jónína Hermannsdóttir tók við stöðu formanns og gegnir því hlutverki í dag. Full ástæða er til að þakka Jónu fyrir vel unninn störf í þágu félagsins.

Framsýn stóð fyrir félagsfundi um kjaramál í fundarsal stéttarfélaganna í lok febrúar. Fundurinn var sérstaklega boðaður til kjörinna fulltrúa stjórnar og trúnaðarráðs, til trúnaðarmanna á vinnustöðum og Framsýnar – ung. Tæplega 30 manns tóku þátt í fundinum.

Í mars stóðu stéttarfélögin sem aðild eiga að skrifstofu stéttarfélaganna fyrir sameiginlegum fundi með stjórnendum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um hugmyndir sem verið hafa til skoðunar um sameiningu Atvinnuþróunarfélagsins við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Eyþing. Framsýn hefur átt aðild að Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og átt mann í stjórn félagsins. Ljóst er að Framsýn hugnast ekki þessi sameining og telur hana koma til með að veikja samstöðu sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum varðandi frekari atvinnuþróun í héraðinu. Skoðunum félagsins hefur verið komið vel á framfæri.

Framsýn tók þátt í spurningavagni Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Lagðar voru fyrir nokkrar spurningar um félagið í formi netkönnunar og fór könnunin fram dagana 7. – 25 mars 2019 í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum. Alls svöruðu 1552 manns könnuninni, þar af 451 þátttakendur í Þingeyjarsýslum og var svarhlutfall 69.5%. Könnunin kom afar vel út fyrir félagið. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er mikil ánægja meðal félagsmanna með starfsemi Framsýnar og staðfestir fyrri kannanir sem sýna sömu niðurstöðu. Stjórnendur Framsýnar eru greinilega á réttri leið með starfsemi félagsins.

Kjarasamningar SGS/LÍV og SA voru undirritaðir 3. apríl. Langur aðdragandi var að þessum kjarasamningum og ýmislegt gekk á meðan á viðræðum stóð milli aðila. Bandalag Eflingar, VR, LÍV, VLFA, VG og Framsýnar afstýrði stórslysi sem hefði orðið hefðu hugmyndir SA varðandi vinnutímabreytingarnar náð fram að ganga. Á lokasprettinum komu önnur félög innan SGS að borðinu og lauk þeirri vinnu með undirritun kjarasamnings. Um er að ræða ágæta samninga sem byggja á þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar. Samningurinn byggir á krónutöluhækkunum sem Framsýn hefur lengi talað fyrir. Útspil ríkisstjórnarinnar spilaði stóra rullu á lokasprettinum þar sem inn komu skattalækkanir og fleiri atriði. Gildistími samningsins sem kallaður er Lífskjarasamningurinn er til þriggja ára og átta mánaða, það er til 1. nóvember 2022. Í atkvæðagreiðslu um samninginn/samninganna voru þeir samþykktir meðal félagsmanna Framsýnar og annarra stéttarfélaga innan LÍV og SGS. Þess ber að geta að félagið stóð fyrir nokkrum kynningarfundum um kjarasamningana, það er á íslensku og ensku. Fundirnir hefðu mátt vera betur sóttir af félagsmönnum.

Félagið stóð fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði í apríl í samstarfi við fræðsludeild ASÍ. Trúnaðarmannakerfið hefur aldrei verið eins öflugt og er um þessar mundir, tæplega 30 trúnaðarmenn eru starfandi á félagssvæðinu. Að þessu sinni tóku 17 trúnaðarmenn þátt í námskeiðinu í vor. Markmið Framsýnar er að trúnaðarmenn séu á öllum vinnustöðum.

Félagið kom að því að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn sem fóru á sýningar hjá Leikfélagi Húsavíkur og Eflingar í Reykjadal. Töluverður hópur félagsmanna nýtti sér þessi sérkjör félagsmanna og skelltu sér í leikhús.

Félagi, Aðalbjörn Jóhannsson, gegndi um tíma formennsku í ASÍ – UNG. Hann lét af þeim störfum á árinu.

Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí gengu vel fyrir sig og mikið fjölmenni tók þátt í hátíðarhöldunum. Hátíðarhöldin í ár voru tileinkuð baráttu eldri borgara og var Ásdís Skúladóttir frá Gráa hernum aðalræðumaður dagsins.

Ungliðafundur SGS var haldinn á Hallormsstað 22 – 23 maí. Fulltrúar Framsýnar á fundinum voru Sunna Torfadóttir og Guðmunda Jósepsdóttir.

Kristján Ásgeirsson sem lengi var formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur andaðist í vor. Kristján sem var mikill verkalýðssinni setti sterkan svip á uppbyggingu félagsins og lagði grunn að því góða starfi sem síðar var viðhaldið. Hans var minnst sérstaklega með gjöf til HSN. Um var að ræða 2 milljónir upp í kaup á fullkomnum hjartaeftirlitstækjum á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík, tækin kosta um 8 milljónir króna.

Þann 5. júní var undirritaður nýr sérkjarasamningur við PCC BakkiSilicon hf. Samningurinn er með sama gildistíma og Lífskjarasamningurinn. Samningurinn var samþykktur, nánast samhljóða, í atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna. Um 94% starfsmanna samþykkti samninginn. Með samningnum tókst að tryggja starfsmönnum viðunandi kjör. Markmiðið er að laun starfsmanna PCC verði sambærileg við laun annarra starfsmanna í sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.

Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Í ár voru Hermann Ragnarsson og Jakob G. Hjaltalín heiðraðir. Þá stóð Framsýn að venju fyrir „útifundi“ á Raufarhöfn föstudaginn 31. maí, það er fyrir sjómannadagshelgina líkt og síðustu ár. Kvenfélagskonur á Raufarhöfn lögðu til hnallþórur líkt og undanfarin ár, sem Framsýn kostaði. Góð mæting var í kaffið.

Aðalfundur félagsins var haldinn í byrjun júlí og var mæting á fundinn góð en um 40 manns tóku þátt í fundinum. Því miður dróst að halda fundinn í ár en samkvæmt lögum félagsins ber að halda hann í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar ár hvert. Að sjálfsögðu eigum við að virða lög félagsins nema utanaðkomandi aðstæður verði þess valdandi að það gangi ekki upp. Við munum gera allt til þess að hægt verði að halda aðalfundinn á næsta ári innan marka.

Á aðalfundinum kom fram að fjárhagsleg afkoma félagsins var mjög góð á árinu 2018. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 3,8% milli rekstrarára.  Rekstrartekjur félagsins námu kr. 273.526.627,- sem er aukning um 3% milli ára. Heildareignir félagsins námu kr. 2.017.426.041,- í árslok 2018 samanborið við kr. 1.895.352.623,- í árslok 2017. Þá fengu félagsmenn tugi milljóna í styrki í gegnum sjóði félagsins á árinu 2018. Í því sambandi er rétt að minna á að félagsmenn Framsýnar halda fullum rétti í félaginu þrátt fyrir að þeir hætti á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku.

  1. Þing Alþýðusambands Norðurlands var haldið að Illugastöðum dagana 27 – 28 september. Framsýn átti góða sveit fulltrúa á þinginu. Guðný I. Grímsdóttir var kjörin í stjórn sambandsins. Ósk Helgadóttir var áður í stjórn sem fulltrúi félagsins og eru henni þökkuð góð störf á vetfangi AN.

Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir sumarferð. Farið var í dagsferð á Flateyjardal um miðjan september og var þátttaka í ferðinni mjög góð. Ósk Helgadóttir varaformaður skipulagði ferðina sem tókst í alla staði mjög vel enda ekki við öðru að búast þegar hún á í hlut.

  1. Þing SGS var haldið í Reykjavík 24 og 25 október. Framsýn átti rétt á 5 fulltrúum. Aðalsteinn Árni Baldursson, Ósk Helgadóttir, Jakob G. Hjaltalín, Sigurveig Arnardóttir og Guðmunda Jósefsdóttir voru fulltrúar félagsins á þinginu. Aðalsteinn Árni hlut áframhaldandi kjör í framkvæmdastjórn sambandsins. Að öðru leiti fór þingið vel fram en skjálfti var í kringum kosningar á þinginu, en þau mál leystust farsællega.

Þá má geta þess að Nína skutlaðist inn á Akureyri á 31. þing LIV sem haldið var dagana 18 – 19 október. Nína fór ekki tómhent heim þar sem hún var kjörin í varastjórn LÍV.

Í lok síðasta árs var gengið frá samningum við Flugfélagið Erni um kaup á 4.800 flugmiðum fyrir félagsmenn. Heildargreiðsla fyrir þá var um 50. 000.000 sem var greidd í tvennu lagi. Þannig tryggðum við félagsmönnum flugmiðann á kr. 10.300. Um þessar mundir erum við að ganga frá samningi við Erni um áframhaldandi samning. Við teljum okkur vera búin að tryggja félagsmönnum áfram sama góða verðið fram á árið en í haust liggur fyrir að miðarnir fara úr kr. 10.300 upp í kr. 10.900. Samningsdrög sem liggja fyrir byggja á því. Gríðarleg ánægja er meðal félagsmanna með þessi afsláttarkjör.

Á árinu kom félagið að því með Norðurþingi að hvetja Vinnumálastofnun til að efla þjónustu við atvinnuleitendur á svæðinu. Fundað var með stjórnendum VMST. Því miður hefur lítið breyst hvað þjónustuna varðar. Framsýn mun standa vaktina áfram enda núverandi fyrirkomulag ekki boðlegt.

Starfsfólk Íslandspósts á Húsavík hefur viljað ganga í Framsýn. Eigi það að ganga upp þarf samþykki stjórnenda Íslandspósts. Það samþykki liggur ekki fyrir, það er að Íslandspóstur geri kjarasamning við Framsýn. Málið er í höndum SA.

Formanni félagsins bauðst að fara til Palestínu í lok október. Ferðin var áhugaverð í alla staði. Fundað var með stjórnvöldum, verkalýðssamtökum og góðgerðarfélögum í Palestínu. Formaður þakkar fyrir stuðninginn sem hann fékk frá félaginu vegna ferðarinnar.

Mikilvægur þáttur í starfsemi Framsýnar er að halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi til að miðla upplýsingum til félagsmanna. Þá voru starfsmenn félagsins nokkuð duglegir að heimsækja vinnustaði á svæðinu á árinu. Vonandi tekst okkur að efla það starf frekar á næsta ári.

Félagið kom að því að styrkja nokkur mikilvæg verkefni á félagssvæðinu á árinu með fjárframlögum.

Félagið stóð fyrir ljósmyndasýningu á Mærudögum sem tókst afar vel og fjöldi fólks leit við og skoðaði myndirnar sem teknar voru saman í tilefni af 100 afmæli Verkakvennafélagsins Vonar 2018 af félagskonum við störf. Myndirnar voru til sýnis í Hrunabúð.

Félagið keypti íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn á árinu sem tekin var formlega í notkun um miðjan nóvember sl. Íbúðin er ætluð félagsmönnum sem þurfa að dvelja á Akureyri vegna veikinda, orlofs eða vegna einkaerinda. Íbúðin er í Furulundi 11 E og er kaupverðið kr. 40.500.000. Íbúðin sem er 106m2 er í 5 íbúða raðhúsi, sem byggt er árið 1973. Aðrar íbúðir í raðhúsinu eru í eigu annarra stéttarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það var við hæfi að Svava Árnadóttir vígði íbúðina formlega enda hefur hún lengi talað fyrir því innan stjórnar Framsýnar að félagið fjárfesti í íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn.

Þó nokkur hópur félagsmanna tók þátt í fundum eða þingum sem verkalýðshreyfingin stóð fyrir á árinu sem fulltrúar félagsins. Þá eru fulltrúar Framsýnar reglulega beðnir um að flytja erindi eða annan fróðleik á fundum og/eða ráðstefnum. Jafnframt hafa fulltrúar stéttarfélaganna farið með fróðleik um starfsemi stéttarfélaga inn í grunn- og framhaldsskóla á félagssvæðinu. Það á reyndar líka við um Vinnuskóla á svæðinu.

Að venju vorum við dugleg að álykta á árinu um kjara- atvinnu og önnur mál sem varða velferð okkar félagsmanna. Hugsanlega eigum við Íslandsmet í ályktunum.

Starfsárinu er samt sem áður ekki lokið, framundan er aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar í lok desember og jólaboð stéttarfélaganna laugardaginn 14. desember. Þá vorum við að klára viðbótarsamning við PCC varðandi hæfnismat sem tryggir starfsmönnum viðbótarlaunahækkun upp á 2,5%. Þá munum við áfram taka þátt í viðræðum við ríkið, sveitarfélög og Landsvirkjun um nýja kjarasamninga fyrir okkar félagsmenn sem starfa hjá þessum aðilum. Eins og skynja má, þá stöndum við vaktina 24-7 hjá Framsýn.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komið hafa að störfum fyrir félagið fyrir þeirra ómetanlegu og óeigingjörnu störf í þágu félagsmanna sem og þeim sem skipa landslið starfsmanna á skrifstofu stéttarfélaganna. Þau hafa staðið vaktina og gert sitt besta til að halda skútunni á floti með góðu viðhaldi. Fyrir það ber að þakka.

Ég tel við hæfi að við rísum úr sætum og heiðrum minningu félaga okkar sem látist hafa á árinu og þeirra sem starfað hafa fyrir félagið eins og Kristjáns Ásgeirssonar og Jónu Jónsdóttur sem létust fyrr á árinu.

Megi guð gefa okkur og fjölskyldum sem og öðrum gleðileg jól og farsælt komandi ár. Takk fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða.

 

 

Norðurþing svarar Framsýn varðandi þjóðveg 85 – málið er í skoðun

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings hefur svarað erindi Framsýnar vegna fyrirspurnar félagsins um þjóðveg 85 sem liggur frá Húsavík út á Tjörnes fram hjá PCC á Bakka. Framsýn hefur lýst yfir miklum áhyggjum vegna umferðar gangandi vegfarenda um veginn milli Húsavíkur og Bakka enda vegurinn óupplýstur og töluverð bílaumferð um þjóðveginn. Mikil hætta getur því skapast á veginum. Svar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings má lesa hér að neðan.

Eftirfarandi var bókað á 52. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings;

„Búið er að senda umsókn til Vegagerðar vegna styrks hvað varðar uppbyggingu göngustígs út að Bakka. Hinsvegar er ljóst að sá styrkur mun aldrei koma fyrr en í fyrsta lagi 2021. Því er mikilvægt að skoða leiðir til að bæta núverandi stíg. Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að skoða leiðir til þess.“

 

Setið fyrir svörum í Borgarhólsskóla

Formanni Framsýnar var boðið á starfsmannafund í Borgarhólsskóla í vikunni. Þar gafst yfirmönnum og starfsmönnum skólans, sem starfa eftir kjarasamningum Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur, tækifæri á að spyrja Aðalstein Árna út í ýmislegt varðandi kjara- og réttindamál. Hópur starfsmanna vinnur eftir kjarasamningum þessara tveggja félaga í skólanum. Starfsmenn lögðu fjölmargar spurningar fyrir formanninn. Fundurinn var mjög góður og málefnalegur enda frábært starfsfólk í Borgarhólsskóla á Húsavík. (Meðfylgjandi mynd er úr myndsafni stéttarfélaganna, tekin í Borgarhólsskóla)