Áróður SFS á sér engin takmörk – fjölmiðlar fjalla um málið

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um orðaskipti formanns Framsýnar og framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um launakjör fiskvinnslufólks. https://www.frettabladid.is/frettir/sakar-sfs-um-arodur-og-lygar/ Því miður eins og oft áður er sannleikurinn ekki alltaf hafður með í skríninu þegar forsvarsmenn sjávarútvegsins ryðjast fram á ritvöllinn með sinn gegndarlausa áróður. Nú fullyrða samtök þeirra SFS að laun í fiskvinnslu á Íslandi séu hærri en meðallaun í landinu og þau hæstu í heiminum. Formaður Framsýnar hefur óskað eftir upplýsingum frá samtökunum varðandi forsendurnar sem útreikningarnir byggja á. Upplýsingarnar hafa ekki borist.

Framsýn fékk sérfræðing á þessu sviði sem jafnframt er hagfræðingur til að taka saman þessar upplýsingar. Í svari hans kemur fram að þegar rýnt er í tölfræði Hagstofunnar, sem heldur utan um þessar upplýsingar, megi sjá það rétta í málinu. Laun í fiskvinnslu séu ekki hærri en meðallaun á Íslandi. Á árinu 2021, voru meðallaun fullvinnandi í fiskvinnslu kr. 611.000,- ef miðað er við heildarlaun. Meðal heildarlaun á vinnumarkaði voru á sama tímabili kr. 823.000,-. Fyrir almenna vinnumarkaðinn er meðaltalið kr. 808.000,- á mánuði en hæst hjá ríkisstarfsmönnum þar sem það er kr. 903.000,-. Með heildarlaunum er átt við öll laun einstaklinga, þ.m.t. regluleg laun, auk álags, bónusa og yfirvinnu ásamt óreglulegum greiðslum s.s. orlofs- og desemberuppbót, eingreiðslur, ákvæðisgreiður og uppgjörs vegna uppmælinga. Hafa ber í huga að á bak við laun fiskvinnslufólks eru fleiri vinnustundir en gengur og gerist á vinnumarkaði. Greiddar stundir voru þannig 195 að meðaltali á mánuði hjá fiskvinnslufólki borið saman við 177 stundir að jafnaði á vinnumarkaði. Munurinn er því meiri ef skoðað er meðaltímakaup.

Í grein framkvæmdastjóra SFS er því líka haldið fram að laun í fiski séu hærri á Íslandi en í heiminum. Ótrúleg fullyrðing, þau ættu að skoða t.d. launakjör fiskvinnslufólks í Færeyjum og í Noregi í stað þess að fullyrða að allt sé betra á Íslandi.

Það verður áhugavert fyrir talsmenn fiskvinnslufólks að eiga samtal við talsmenn sjávarútvegsins í komandi kjaraviðræðum í haust. Væntanlega vilja þeir standa við stóru orðin og hækka launakjör fiskvinnslufólks verulega. Það er borð fyrir báru í íslenskum sjávarútvegi enda sá arðsamasti í heimi að þeirra sögn. Látum verkin tala og tryggjum fiskvinnslufólki mannsæmandi laun. Til fróðleiks má geta þess að föst mánaðarlaun hjá fiskvinnslufólki á Íslandi eru á bilinu kr. 370.000 upp í kr. 387.000,- samkvæmt gildandi launatöflum aðila vinnumarkaðarins. Launatöflurnar eru aðgengilegar á netinu. Skyldu reiknimeistarar SFS vita af því?

 

Fréttabréfið komið út

Hið vinsæla Fréttabréf stéttarfélaganna er komið út. Búið er að bera það út í flest hús á félagssvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá póstinum mun dreifingin klárast á morgun. Að venju er bréfið fullt af fréttum og upplýsingum úr starfi stéttarfélaganna. Meðal annars er auglýst sumarferð á vegum félaganna í Bárðardal. Skráning í ferðina stendur yfir.

Vinnustaðaskírteini skulu vera til staðar hjá starfsmönnum

Atvinnurekandi skal útbúa eða láta útbúa vinnustaðaskírteini fyrir starfsmenn sína sem hefur að geyma þær upplýsingar sem tilgreindar eru í lögum og samkomulagi ASÍ og SA. Hér að neðan má fá frekari upplýsingar um gerð og efni vinnustaðaskírteinanna. Þar má einnig nálgast form fyrir vinnustaðaskírteini og upplýsingar um aðila sem bjóða upp á prentun plastkorta. Fulltrúar frá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum munu á næstu vikum fara í eftirlitsferðir til að athuga hvort atvinnurekendur á svæðinu séu ekki með þessi mál í lagi.

Form fyrir plastkort má nálgast hér.

Sjá nánar

Hverjir falla undir?

Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, rekstur gististaða, söluturnar og veitingarekstur, húsgagna- og innréttingaiðnaður, gleriðnaður og skyld starfsemi, kjötiðnaður, bakstur, bílgreinar, rafiðnaður, ýmsar málm- og véltæknigreinar, veitustarfsemi, fjarskipti og upplýsingastarfsemi og öryggisþjónusta, ræktun nytjajurta, svína- og alifuglarækt, eggjaframleiðsla, farþegaflutningar á landi og ferðaþjónusta, skrúðgarðyrkja og ýmis þjónustustarfsemi eins og framangreind starfsemi er afmörkuð í fylgiskjölum sem falla nú undir gildissvið samkomulags ASÍ og SA og er miðað við ÍSAT2008 flokkun atvinnurekanda í fyrirtækjaskrá RSK. Samkomulag ASÍ og SA afmarkar einnig hvaða starfsmenn innan þessara atvinnugreina falla undir eftirlitið.

Sjá nánar

Björg ráðin framkvæmdastjóri SGS

Gengið hefur verið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra fyrir Starfsgreinasamband Íslands. Alls sóttu 13 einstaklingar um starfið. Björg mun hefja störf hjá sambandinu 1. október nk.

Björg Bjarnadóttir starfaði sem skrifstofustjóri hjá Verkalýðsfélagi Akraness frá janúar 2006 til ágúst 2018 eða í um 13 ár og þekkir því innviði í starfsemi stéttarfélaga gríðarlega vel. Frá 2018 hefur Björg starfað við kennslu í Fjölbrautarskóla Vesturlands ásamt því að gegna stöðu forstöðumanns bókasafns og sjá um skjalavörslu fyrir fjölbrautarskólann. Hún hefur einnig starfað sem VIRK-ráðgjafi fyrir öll stéttarfélögin á Akranesi og var einn af fyrstu ráðgjöfum sjóðsins og tók þátt í þróun og uppbyggingu þjónustunnar frá upphafi. Hún sat sem aðalmaður í stjórn Festu lífeyrissjóðs frá 2013-2015 og sem varamaður frá 2015-2019. Hún var skipuð í verðlagsnefnd búvara af velferðaráðherra frá árinu 2015 til 2017. Þá hefur Björg haft umsjón með vikulegu barnastarfi hjá Rauða krossinum.

Björg er með meistaranám í upplýsingarfræði (MIS-gráða). Björg er einnig með viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu, kennsluréttindi á meistarastigi sem og starfsréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Hún er auk þess með BA-próf í íslensku og stúdentspróf af félagsfræðibraut.

Framsýn stéttarfélag býður Björgu velkomna til starfa fyrir verkalýðshreyfinguna en félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands.

 

Fundað með landvörðum

Formaður Framsýnar gerði sér ferð í Gljúfrastofu í gær til að funda með starfsmönnum þjóðgarðsins. Um þessar mundir standa yfir viðræður milli Starfsgreinasambands Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar og Þingvalla um gerð stofnanasamnings. Unnið hefur verið að því að endurnýja samninginn. Samningurinn nær til yfirlandvarða, landvaraða, þjónustufulltrúa og verkamanna. Næsti fundur aðila hefur verið boðaður í september. Á meðfylgjandi mynd er trúnaðarmaður starfsmanna, Kolbrún Matthíasdóttir með Einari Inga Einarssyni sem er einn af starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs. Hópur starfsmanna starfar í þjóðgarðinum yfir sumarið.

Þeir gerast ekki mikið fallegri

Mærudagar fóru vel fram um helgina og fjöldi fólks lagði leið sína til Húsavíkur til að skemmta sér fallega með heimamönnum. Það er við hæfi að birta þessa mynd af fallegustu Mývetningunum, þeim Jónasi Hallgríms, Ottó Páll, Stebba Jak, Garðari Finns og Baldri Sig sem tóku þátt í gleðinni eins og fjölmargir aðrir heimamenn og gestir.

Segir kerfið hafa sigrað fólkið í landinu

Aðal­steinn Árni Baldurs­son, for­maður stéttar­fé­lagsins Fram­sýnar, segir að ítök stóru sjávar­út­vegs­fyrir­tækjanna og sam­band þeirra við ráðandi öfl í stjórn­mála­lífinu fylli hann von­leysi. Hann sjái ekki betur en að kerfið hafi sigrað fólkið í landinu.

Upp­kaup Síldar­vinnslunnar á Vísi í Grinda­vík hafa valdið miklum kurr. Óttast Suður­nesja­menn nú að störf í héraði tengd veiðum og vinnslu hverfi burt. Aðal­steinn minnir á að fyrir tuttugu árum hafi Vísir keypt 45 prósenta hlut í sjávar­út­vegs­geiranum á Húsa­vík. Öllu fögru hafi verið lofað um að störfum á Húsa­vík yrði fjölgað fremur en hitt. Á annað hundrað manns hafi þá starfað við land­vinnslu.

SJÁ EINNIG

Margir von­góðir í Grinda­vík en sumir reikna nú með því versta

Tíu árum síðar hafi fisk­vinnslu­fólki á Húsa­vík verið til­kynnt að það gæti annað hvort tekið pokann sinn eða flust nauðungar­flutningum með strætó suður með sjó. Sjávar­út­vegur á Húsa­vík hafi ekki borið sitt barr eftir yfir­ráð Vísis, enda hafi al­menningur sí­fellt minna og minna um það að segja hvernig störfum í sjávar­út­vegi sé háttað.

„Kerfið er ó­nýtt. Maður fyllist eigin­lega von­leysi,“ segir Aðal­steinn.

Þá gagn­rýnir Aðal­steinn að sami stjórn­mála­maður og áður hafi gagn­rýnt til­færslu á afla­heimildum frá Suður­nesjum selji nú sjálfur sinn hlut í Vísi og hagnist um marga milljarða. Á hann þar við Pál Jóhann Páls­son, fyrr­verandi þing­mann Fram­sóknar­flokksins og bæjar­full­trúa. Páll og eigin­kona hans, Guð­munda Kristjáns­dóttir, fá á fjórða milljarð króna í eigin vasa fyrir söluna til Síldar­vinnslunnar sem er að hluta í eigu Sam­herja.

Rætt var við Aðal­stein á Húsa­vík á sjón­varps­stöðinni Hring­braut í kvöld.

n að sami stjórn­mála­maður og áður hafi gagn­rýnt til­færslu á afla­heimildum frá Suður­nesjum selji nú sjálfur sinn hlut í Vísi og hagnist um marga milljarða. Á hann þar við Pál Jóhann Páls­son, fyrr­verandi þing­mann Fram­sóknar­flokksins og bæjar­full­trúa. Páll og eigin­kona hans, Guð­munda Kristjáns­dóttir, fá á fjórða milljarð króna í eigin vasa fyrir söluna til Síldar­vinnslunnar sem er að hluta í eigu Sam­herja.

Rætt var við Aðal­stein á Húsa­vík á sjón­varps­stöðinni Hring­braut í gærkvöldi.

 

Við erum rúmlega 380 þúsund

Íbúar lands­ins urðu í fyrsta sinn rúm­lega 380 þúsund í sum­ar­byrj­un. Þeim hef­ur fjölgað um ríf­lega 4.700 frá ára­mót­um, eða á við íbúa­fjölda Seltjarn­ar­ness, og eru íbú­ar lands­ins nú um 381 þúsund.

Þörf er á aðfluttu vinnu­afli og gæti það, ásamt nátt­úru­legri íbúa­fjölg­un, haft í för með sér að íbúa­fjöld­inn verði kom­inn í 385 þúsund um ára­mót­in.

Nærri íbúa­fjöldi Hafn­ar­fjarðar

Gangi það eft­ir yrði það fjölg­un um 29 þúsund íbúa frá des­em­ber­byrj­un 2018 sem jafn­ast næst­um á við íbúa­fjölda Hafn­ar­fjarðar.

Flest­ir inn­flytj­end­ur á Íslandi koma frá Evr­ópu. Hagþróun í Evr­ópu, ekki síst á evru­svæðinu, gæti því haft áhrif á aðflutn­ing­inn.

Það gæti því ýtt und­ir aðflutn­ing til lands­ins að horf­ur á evru­svæðinu á síðari hluta árs hafa versnað og að staða efna­hags­mála er betri hér.

Christ­ine Lag­ar­de, banka­stjóri evr­ópska seðlabank­ans, ræddi efna­hags­horf­urn­ar er hún gerði grein fyr­ir 0,5% vaxta­hækk­un bank­ans, þeirri fyrstu í ell­efu ár, í gær.

Lag­ar­de gaf til kynna að vext­ir hækki meira í haust en hún sagði hækk­andi orku­verð, í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu, hafa ásamt öðru ýtt und­ir verðbólgu í álf­unni.

Þá boðaði hún stuðningsaðgerðir til handa þeim ríkj­um evru­svæðis­ins sem höllust­um fæti standa en Ítal­ía, eitt stærsta hag­kerfi álf­unn­ar, glím­ir nú við stjórn­ar­kreppu og íþyngj­andi rík­is­skuld­ir.

(Þessi áhugaverða frétt er tekin af mbl.is, nán­ar má lesa um málið í Morg­un­blaðinu)

Staðan tekin í blíðunni

Hér eru þrír stórmeistarar að taka stöðuna í veðurblíðunni á Húsavík. Þetta eru þeir Stefán Bjarni Sigtryggsson, Aðalsteinn Guðmundsson og Óðinn Sigurðsson sem stóðu fyrir utan N1 á Húsavík þegar myndin var tekin. Væntanlega eru þeir ekki að tala um Mærudagana sem eru um helgina heldur eitthvað miklu gáfulegra.

 

 

Framtaksemi Birnu til mikillar fyrirmyndar

Góður og reglulegur göngutúr er býsna gott markmið, en það má segja að göngutúr með það að markmiði að tína upp það rusl sem á vegi manns verður sé jafnvel enn betri. Það er góð leið til að  sameina áhuga á útiveru og umhverfismeðvitund, ánægjan af því að fara út og hreyfa sig verður margfalt meiri með því að gera það með þessum hætti.

Birna Friðriksdóttir býr og starfar í Stórtjarnaskóla.Hún setti sér það markmið fyrr í sumar að ganga í áföngum frá Stórutjarnaskóla til Grenivíkur og tína rusl meðfram þjóðveginum. Birna hefur nú lokið verkinu. Gönguferðirnar í kringum ruslatínsluna urðu 11 talsins og magnið sem hún safnaði af rusli umtalstalsvert.

Það eru 40 km. frá Stórutjarnaskóla til Grenivíkur. Birna segir mesta ruslið hafa verið meðfram þjóðvegi 1 um  Ljósavatnsskarð. Þar hafi hún tínt mikið magn af alls konar dóti í vegköntunum, aðallega þó flöskur og dósir. Hún hafi hins vegar ekki haft mikið upp úr krafsinu eftir að hún beygði inn á veg 835, Fnjóskadalsveg eystri og til Grenivíkur, annað en burtfoknar vegstikur, sem margar hefðu tapað upprunalegu gildi sínu, beyglaðar og brotnar úti í móum eftir sjóþyngsli síðustu vetra. Stikunum safnaði Birna saman og hyggst færa hluteigandi aðila, þ.e.a.s Vegagerðinni á Akureyri.

Það er full ástæða til þess að hrósa fyrir það sem vel er gert og framtaksemi Birnu er til mikillar fyrirmyndar. Alltof víða safnast upp rusl á víðavangi, það er augljóst lýti á umhverfinu, en það liggur ekki endilega í augum uppi í hvers verkahring það er að fjarlægja það. En víst er að varla er til betri leið til að sameina útiveru og hreyfingu, sem og sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki.

 

Mikilvægt að skoða yfirlit og launaseðla

Full ástæða er til að hvetja launafólk til að skoða launaseðlana sína vel sem í flestum tilvikum eru orðnir rafrænir sem og yfirlit um séreignasparnað. Því miður hefur borið á því að launaseðlar séu rangir, atvinnurekendur gleymi t.d. að nýta persónuafslátt viðkomandi starfsmanna, gleymi að hækka orlofsprósentuna og starfsmenn séu á vitlausum launum. Þá hefur einnig borið á því að kjarasamningsbundnum séreignasparnaði sé ekki að skilað til vörsluaðila sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir og/eða fjármálastofnanir. Því er full ástæða til að hvetja félagsmenn stéttarfélaganna til að yfirfara sína launaseðla reglulega enda ekki síður á þeirra ábyrgð að tryggja að hlutirnir séu í lagi þar sem oftast er um að ræða mistök hjá viðkomandi fyrirtækjum.

Flugmiðar bara fyrir félagsmenn

Rétt er að ítreka að flugmiðar á sérkjörum stéttarfélaganna; Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur með flugfélaginu Erni eru einungis til einkanota fyrir félagsmenn. Flugmiðarnir eru ekki fyrir aðra fjölskyldumeðlimi sem ekki eru í stéttarfélögunum. Sama á við um, þurfi menn að ferðast á vegum fyrirtækja eða stofnana. Verði félagsmenn uppvísir af því að misnota flugmiðana fellur réttur þeirra niður til frekari kaupa á flugmiðum á sérkjörum stéttarfélaganna.

Kallað eftir breyttu hugarfari og betri meðferð á starfsfólki

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins kallar eftir breyttu hugarfari og betri meðferð á erlendu starfsfólki, sérstaklega í ferðaþjónustu þar sem brotalömin sé mest. Sögur sem komi inn á borð sambandsins séu sumar hverjar með ólíkindum og aðrir í greininni, sem standa sig vel, eigi ekki að láta misbeitingu á starfsfólki líðast.
Tugir þúsunda starfsmanna af erlendu þjóðerni vinna í ferðaþjónustu hér á landi og er það sá hópur sem helst er órétti beittur að sögn Flosa Eiríkssonar framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. Ekki er borgað eftir kjarasamningum, starfsfólk er á jafnaðarkaupi, fær ekki greidda yfirvinnu og er jafnvel látið leigja óboðlegt húsnæði á staðnum á afarkjörum.

Oftar en ekki berast ábendingar nafnlaust. Starfsfólkið óttast að missa vinnuna ef það leitar réttar síns.

Flosi segist hafa heyrt afar vondar sögur um mannsal, vinnuþrælkun og aðra hluti. Starfsgreinasambandið, auk Alþýðusambandsins og fleiri aðila, hafa verið að safnaþeim saman á undanförnum árum.

„Okkur finnst ganga of hægt að útrýma slíku á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Flosi.

Hann segir að það sé meira um brot gagnvart starfsfólki hjá smáum fyrirtækjum en stórum.

„Það eru náttúrulega alls konar Lukku-riddarar í þessu eins og öllu öðru en það er ótrúlegt virðingarleysi sem vinnandi fólki er oft sýnt og það er eins og mönnum finnist að þeir megi koma fram við fólk sem fætt er annars staðar en hér með alveg ótrúlegum hætti og mann setur hljóðan eiginlega,“ segir Flosi.

„Við erum að glíma við núna menn sem eru fluttir hingað og  borgaður fyrir þá flugmiðinn og svo vinnurðu á einhverju hóteli og þú færð ekkert borgað svo, vikum og mánuðum saman. Við höfum verið að vinna með fólk sem hefur kannski verið á vakt 23 tíma á sólarhring. Ég hef séð fólk á hóteli sem hefur unnið yfir 300 tíma í mánuði. Sögurnar eru endalausar.“

Hann segist sakna þess að „hinir atvinnurekendurnir“ sem standa sig vel í þessum málum og koma vel fram við starfsfólk leggi Starfsgreinasambandinu lið.

„Að þeir skuli ekki standa með okkur og benda á þá sem borga ekki eftir kjarasamningum og koma illa fram við starfsfólk og verja þannig sína hagsmuni,“ segir Flosi Eiríksson. (ruv.is)

Sumarferð stéttarfélaganna -Skráning stendur yfir-

Sumarferð stéttarfélaganna í ár verður farin laugardaginn 20. ágúst. Farið verður með rútu frá Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík kl. 09:00 og komið heim aftur síðdegis sama dag. Á leiðinni verða þeir teknir upp í rútuna sem það vilja.

Að þessu sinni verður boðið upp á  göngu- og sögu ferð í Bárðardal sem tekur um þrjá tíma. Um er að ræða ferð með Skjálfandafljóti undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur. Gengið verður frá bílastæði skammt innan við Stórutungu og þaðan rölt eftir þægilegri slóð út í  Aldey, eftir henni upp að Aldeyjarfossi og Ingvararfossum. Farið til baka merkta leið sem liggur eftir gömlum, vel grónum farvegi fljótsins og  er einstaklega falleg. Sannkölluð ævintýraferð um sérstæða náttúruperlu, þar sem farið verður til að njóta. Að venju verður grillað í lok ferðar, að öðru leiti þurfa menn að nesta sig sjálfir. Um er að ræða fremur auðvelda gönguleið sem ætti að vera við flestra hæfi. Þátttökugjaldið er kr. 5.000,- fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Skráning í ferðina er hafin og stendur til 12. ágúst á Skrifstofu stéttarfélaganna, þar er einnig hægt að fá frekari upplýsingar um ferðina.

Varðandi skráninguna er hægt að skrá sig í síma 4646600 eða með því að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is.

SGS auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf framkvæmdastjóra. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf.

Starfssvið:

  • Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri
  • Stefnumótun og framkvæmd ákvarðana
  • Umsjón með gerð og túlkun kjarasamninga
  • Umsjón með kynningarstarfi, útgáfu og samskiptum við fjölmiðla
  • Skipulagning samráðs og samstarfs aðildarfélaga
  • Samskipti við innlend og erlend aðildarfélög

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi
  • Reynsla af stjórnun og rekstri
  • Reynsla og þekking á málefnum stéttarfélaga og kjarasamningum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti
  • Góð greiningar- og skipulagshæfni
  • Góð kunnátta í íslensku, ensku og einu norðurlandamáli

Umsóknarfrestur er til og með 18. júlí n.k.

Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið með því að senda umsókn á netfangið vilhjalmur@vlfa.is. Umsókninni þarf að fylgja ýtarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ og samanstendur af 19 stéttarfélögum verkafólks með um 72 þúsund félagsmenn. Hlutverk sambandsins er að styðja og styrkja aðildarfélögin í þeirra starfi og hagsmunabaráttu félagsmanna þeirra. Skrifstofa sambandsins er í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík.

Áhugavert – Verkalýðsskóli

Verkalýðsskólinn er þriggja daga námskeið sem haldið verður á Bifröst dagana 2.-4. september 2022. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á framsögn og örugga tjáningu, sögu verkalýðshreyfingarinnar, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, kjarasamninga, fundarstjórn og samningatækni.

Þátttakendur njóta samveru í umhverfi Bifrastar, en boðið verður upp á skipulagðar gönguferðir á svæðinu og sameiginlega matartíma á Hótel Bifröst.

Þátttakendur geta bókað sig á námskeiðið með eða án gistingar og veitinga. Námskeiðið hefst kl. 10 á föstudagsmorgni og því lýkur seinnipart á sunnudegi.

Námskeiðið er skipulagt í samstarfi við Háskólann á Bifröst.

Fyrir hverja
Námskeiðið er samtals 21 klukkustund og er opið öllum. Það er sniðið sérstaklega að þeim sem eru áhugasamir um kjarabaráttu og störf verkalýðsfélaga, til dæmis trúnaðarmönnum og þeim sem koma að kjaraviðræðum.

Þátttökugjald
Heildargjald er kr. 98.800, sem skiptist í námskeiðsgjald kr. 49.800 og gistingu og mat á kr. 49.000).

Snemmskráningargjald er kr. 93.800.

Kennarar
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, Sigríður Arnardóttir, kennari í framsögn og öruggri tjáningu við Háskólann á Bifröst, Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari og Viktor Ómarsson.

Styrkir
Við hvetjum þátttakendur til að kanna rétt sinn á styrk úr sínum fræðslusjóði.

Umsóknarfrestur
Snemmskráning er til 15. júní, en opið er fyrir skráningu til 19. ágúst.

Allar nánari upplýsingar eru veittar á endurmenntun@bifrost.is.

Skorað er á félagsmenn stéttarfélaganna, Framsýnar, STH og Þingiðnar að taka þátt í þessum áhugaverða þriggja daga skóla. Góðir styrkir í boði fyrir áhugasama. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Gleðilegt sumar!

Ferðaþyrst fólk flykkist til og frá landinu eftir tveggja ára ferðatakmarkanir. Flugvellir víða um heim standa ekki undir álaginu og aldrei að vita hvar farangur endar eða í versta falli ferðamenn. Mjög víða vantar starfsfólk og álagið á vinnandi fólk er mikið. Ýmsir furða sig á því að þó atvinnuleysi sé víða um heim skorti enn starfsfólk. Það þarf þó engan að undra að flugvellir sem víða eru komnir í eigu alþjóðlegra stórfyrirtækja sem reyna eftir megni að þrýsta launum og öðrum starfsmannakostnaði niður eigi erfitt með að fá til sín fólk. Flugvellirnir eru oft langt frá heimilum, starfsumhverfið ómanneskjulegt og hækkandi samgöngukostnaður, barnagæsla og fleira gerir það að verkum að fólk greiðir nánast með sér til vinnu. Það er hin stóra breyting sem orðið hefur í kófinu: Fyrirtæki sem koma ekki fram við fólk af virðingu í launum og aðbúnaði eiga erfitt með að fá starfsfólk aftur til sín. Þetta er staðreynd úti í heimi og þetta er líka staðreynd hér á Íslandi. Við sjáum ákveðið mynstur og hægt að leiða að því líkum að fyrirtæki sem stóðu ekki með sínu starfsfólki í gegnum kófið eigi erfiðar uppdráttar að fá til sín fólk. Á meðan höfum við sem betur fer góð dæmi um að fyrirtæki sem unnu með sínu fólki þegar í harðbakkann sló njóta þess nú að hafa reynslumikið fólk í vinnu.

Við getum líka heimfært þetta á heilu samfélögin, þau sem bjuggu við sterkt opinbert kerfi og beittu almannatryggingum í faraldrinum koma betur út en samfélög þar sem fólk féll niður í örbyrgð og vonleysi án afkomu. Hér á landi vann ýmislegt með okkur og gerir enn. Húshitunarkostnaður hefur margfaldast í hinu græðgisvædda Evrópska orkukerfi en við búum sem betur fer við lágan orkukostnað í lokuðu kerfi í almannaeigu. Þetta eru verðmæti sem hafa aldrei verið jafn áþreifanleg og nú.

Um heim allan er verðbólgan farin af stað og staða vinnandi fólks þrengist. Fólk sækir stuðning í stéttarfélög og beitir samtakamætti til að knýja fram betri kjör í óviðunandi ástandi. Þau ríki sem geta beitt skattkerfum til jöfnunar, búa við sterka verkalýðshreyfingu og sterkt opinbert kerfi hafa möguleika til að bæta kjör almennings og styrkja með þeim hætti atvinnulífið. Við erum þar á meðal.

Gleðilegt sumar!

Svo skrifar Drífa Snædal

Kjaraviðræður SA og SGS hefjast í ágúst

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands afhenti í dag fulltrúum Samtaka atvinnulífsins kröfugerð SGS vegna kjarasamninga á almennum markaði, sem verða lausir 1. nóvember næstkomandi. Á fundinum var rætt um fyrirkomulag komandi viðræðna og þau úrlausnarefni sem liggja fyrir samningsaðilum. Gert er ráð fyrir að formlegar viðræður byrji um miðjan ágúst og voru aðilar sammála um að ganga skipulega til verks. Hér að neðan eru nokkur meginatriði úr kröfugerð sambandsins.

 Kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands byggir á grunni kjarasamnings SGS og SA sem tók gildi 1. apríl 2019.  Kröfugerðin byggir á kröfugerðum 17 af aðildarfélögum SGS, sem samþykktar voru á félagslegum vettvangi eftir vandaða vinnu einstakra félaga.

Lögð er áhersla á áframhaldandi hækkun lægstu launa og að tryggja kaupmátt launafólks. Krónutöluhækkanir á laun, eins og samið var um í núgildandi kjarasamningi, skila launafólki mestum árangri og er það krafa SGS að samið verði um krónutöluhækkanir á kauptaxta í komandi kjarasamningum.

Við gerð síðustu kjarasamninga var horft til þess að samningarnir leiddu af sér lækkun vaxta. Seðlabankinn hefur nú í þrígang hækkað stýrivexti og Landsbankinn spáir því að þeir verði komnir í 4,25% árið 2023, eða á sama stað og þeir voru við gerð Lífskjarasamningsins vorið 2019. SGS mun ekki una því að vaxandi verðbólgu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í húsnæðismálum, og erlendra hækkana verða sett á herðar okkar félagsmanna.

Samtök launafólks sömdu um það í síðustu samningum að auka ráðstöfunartekjur launafólks með heildstæðum hætti, með krónutöluhækkunum, vaxtalækkunum og aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Aðstæður þær sem nú eru í samfélaginu og efnahagsumhverfinu kalla á svipaða aðferðafræði og víðtækt samstarf og samráð til að bregðast við miklum vanda á húsnæðismarkaði, tryggja kaupmátt og öfluga grunnþjónustu um land allt.

Nú eru uppi þær aðstæður í samfélaginu að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum mun skipta miklu máli við gerð þeirra. Stóraukin verðbólga, miklar verðhækkanir og mikill vandi á húsnæðismarkaði kalla á að stjórnvöld og SA taki höndum saman við samtök launafólks til að tryggja kaupmátt, húsnæði fyrir alla og öfluga grunnþjónustu um land allt.

Tímalengd samningsins mun ráðist af þeim aðstæðum sem verða í efnahagslífi í haust og innihaldi samningsins. Framsýn er aðili að kröfugerð SGS og mun taka virkan þátt í kjaraviðræðunum þegar þær hefjast í ágúst.