Laun hækka vegna hagvaxtarauka

Forsendunefnd ASÍ og SA sem starfar samkvæmt kjarasamningum hefur hist og rætt hagvaxtarauka kjarasamninga. Líkt og greint var frá nýverið (https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/nytt-manadaryfirlit-hagvaxtaraukinn-virkjast/) jókst landsframleiðsla á mann um 2,53% á síðasta ári. Þetta hefur þá þýðingu að hagvaxtarauki kjarasamninga hefur virkjast í fjórða þrepi.

Forsendunefnd ASÍ og SA hefur ákveðið að hagvaxtaraukinn komi til greiðslu 1. maí líkt og kveðið er á um í samningum. Launataxtar munu hækka um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. frá 1. apríl og koma til greiðslu 1. maí.

Lífskjarasamningur var undirritaður í apríl 2019 þegar fyrirséð var að gjaldþrot lággjaldaflugfélagsins WOWair myndi hafa neikvæð áhrif á efnahagslíf. Samningurinn studdi við verðstöðugleika og skapaði forsendur fyrir lækkun vaxta. Greining Alþýðusambands Íslands á launahlutfalli hefur leitt í ljós að launahlutfall í hagkerfinu hefur verið stöðugt á samningstímabilinu.

Samningum miðar vel

Fulltrúar Framsýnar hafa fundað reglulega með Samtökum atvinnulífsins vegna endurnýjunar á sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun á Húsavík. Nú þegar Covid er á niðurleið eru miklar lýkur á því að ferðamenn fari að flykkjast aftur til Húsavíkur í hvalaskoðun enda staðurinn heimsfrægur fyrir sínar hvala- og fuglaskoðunarferðir um Skjálfanda. Miðað við stöðuna í dag reiknar formaður Framsýnar að skrifað verði undir nýjan samning upp úr næstu helgi. Starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækjanna hafa krafist þess að nýr samningur liggi fyrir þegar vertíðin fer á fullt með vorinu.

Framsýn styður við Tónkvíslina

Framhaldsskólin á Laugum hefur haldið úti öflugu skóla- og félagslífi. Hvað félagslífið varðar hafa nemendur skólans staðið fyrir Tónkvíslinni undanfarin ár sem í ár verður haldinn í íþróttahúsinu á Laugum þann 19. mars. Full ástæða er til að hvetja fólk til að mæta á svæðið og upplifa stemninguna. Keppninni verður steymt inn á youtube síðu skólans. Samkvæmt upplýsingum frá Nemendafélaginu verða tólf atriði úr Framhaldskólanum á Laugum og fimm atriði úr grunnskólum á svæðinu.  Verðlaun fyrir að vinna í framhaldsskólakeppninni er tími í upptökustúdíói, gjafabréf og gjafir frá ýmsum fyrirtækjum. Einnig verða verðlaun fyrir annað og þriðja sæti og fyrsta sæti í grunnskólakeppninni. Gjafabréfin eru mörg og vegleg. Þess má geta að Framsýn kemur að því styrkja samkomuna í ár.

 

Sumarferð stéttarfélaganna

Sumarferð stéttarfélaganna í ár verður farin um miðjan ágúst. Að þessu sinni verður boðið upp á  göngu- og sögu ferð í Bárðardal. Farið verður með rútu frá Húsavík og er um að ræða ferð að Skjálfandafljóti undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur. Gengið verður frá bílastæði skammt innan við Stórutungu og þaðan rölt eftir þægilegri slóð út í  Aldey, eftir henni upp að Aldeyjarfossi og Ingvararfossum. Farið til baka merkta leið sem liggur eftir gömlum, vel grónum farvegi fljótsins og  er einstaklega falleg. Sannkölluð ævintýraferð um sérstæða náttúruperlu, þar sem farið verður til að njóta. Að venju verður grillað í lok ferðar. Um er að ræða fremur auðvelda gönguleið sem ætti að vera við flestra hæfi. Þátttökugjaldið verður kr. 5000,- fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Ferðin verður nánar auglýst síðar.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum 2022

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til rannsókna og útgáfu verkefna sem varða sérstaklega íslenskan vinnumarkað, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.

Hámarksfjárhæð einstakra styrkja er 1 milljón króna. Umsóknir um styrkinn þurfa að berast fyrir 15. apríl en úthlutað er úr sjóðnum 1. maí ár hvert.

Nánari uppýsingar um minningarsjóðinn má finna hér.

Styðja Vilhjálm til forystu í SGS

Stjórn Framsýnar styður Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness heilshugar til forystu í Starfsgreinasambandi Íslands. Þetta var samþykkt á fundi stjórnar í gær. Þing sambandins verður haldið á Akureyri síðar í mars. Framsýn hefur lengi barist fyrir róttækari verkalýðsbaráttu, reyndar farið fyrir þeirri baráttu til fjölda ára. Liður í því er að Vilhjálmur taki við forystu innan Starfsgreinasambandsins  og framkvæmdastjórn sambandsins verði skipuð fólki sem er tilbúið að vinna 24/7 að bættum kjörum og réttindum verkafólks sem býr við óviðunandi kjör í dag. Að mati stjórnar Framsýnar verða sigrar í verkalýðsbaráttu ekki bara unnir í dagvinnu, sólarhringsvakt þurfi til.

Framsýn lánar íbúð til flóttafólks frá Úkraínu

Stjórn Framsýnar hefur ákveðið að taka eina íbúð félagsins í Reykjavík úr umferð með það að  markmiði að lána hana endurgjaldslaust til flóttafólks frá Úkraínu sem á um sárt að binda og flúið hefur til Íslands í leit að öryggi. Þá samþykkti stjórnin að opna á frekara aðgengi flóttafólks að íbúðum félagsins Reykjavík/Kópavogi þurfi þess með á þessum ömurlegu tímum.

 

Framsýn samþykkir fjárstuðning til flóttafólks frá Úkraínu

Stjórn Framsýnar telur sig ekki getað setið hjá hvað varðar þær hörmungar sem eiga sér stað í Úkraínu. Félagið hefur þegar ákveðið að leggja til eina íbúð undir flóttafólk frá Úkraínu og fleiri  komi til þess að þörfin verði meiri fyrir íbúðir auk þess að styrkja hjálparstarf vegna flóttafólks frá Úkraínu um eina evru fyrir hvern félagsmann eða um kr. 300.000,-.

Stjórn Framsýnar skorar jafnframt á önnur stéttarfélög  að koma líkt og félagið að verkefninu með fjárstuðningi og láni á orlofsíbúðum. Að mati stjórnar er það ekki í boði að stéttarfélög eða önnur hagsmunasamtök sitji hjá á ófriðartímum sem þessum.

 

Hvetja stjórnvöld til að opna á atvinnuleyfi fyrir Úkraínumenn

Á stjórnarfundi Framsýnar í gær var samþykkt að beina þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að þau opni fyrir aðgengi flóttamanna frá Úkraínu að íslenskum vinnumarkaði, það er með því að veita þeim atvinnuleyfi á Íslandi. Fyrir liggur að illa hefur gengið að manna fjölmörg störf svo ekki sé talað um störf í ferðaþjónustunni þar sem því er spáð að heimsóknir ferðamanna til Íslands verði yfir milljón nú þegar Covid er á undanhaldi. Ísland hefur því mikla þörf fyrir erlend vinnuafl. Framsýn hvetur til þess að flóttamenn frá Úkraínu hafi forgang til starfa á Íslandi á tímum ömurlegra aðstæðna í Úkraínu sem eru á ábyrgð Pútíns sem þegar hefur skráð sig í sögubækurnar sem einn mesti glæpamaður sögunnar.

Óbreytt verð á orlofshúsum milli ára – ferðaávísun hækkuð félagsmönnum til góða – sumarið er okkar

Stéttarfélögin hafa ákveðið að gera vel við félagsmenn sem sækja um orlofshús eða olofsíbúðir sumarið 2022. Sama leiguverð verður milli ára, það er kr. 29.000,- per viku. Tjaldstæðisstyrkir til félagsmanna sumarið 2022 verða kr. 25.000,- og þá verður ferðaávísun til félagsmanna hækkuð úr kr. 15.000,- í kr. 18.000,-. Ferðaávísunina geta félagsmenn notað til að niðurgreiða dvöl á hótelum og gistiheimilum sem finna má á orlofsvef stéttarfélaganna. Niðurgreiðslan/ferðaávísunin kemur til viðbótar þeim afslætti sem stéttarfélögin hafa þegar samið um við fjölmörg hótel, gistiheimili og aðra ferðaþjónustuaðila víða um land.

Eftir helgina verður hægt að sækja um orlofshús og íbúðir á vegum stéttarfélaganna sem eru Framsýn, Þingiðn, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Starfsmannafélag Húsavíkur.

Umsóknarfresturinn er til 18. apríl. Fljótlega upp úr því verður orlofskostunum úthlutað til félagsmanna sem sóttu um. Komi til þess að einhverjar vikur standi eftir, verða þær auglýstar aftur.

Stéttarfélögin hafa jafnframt ákveðið að standa fyrir sumarferð, það er gönguferð í Bárðardal um miðjan ágúst.  Ferðin og orlofskostirnir verða auglýstir nánar í Fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út síðar í mars. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.  Stéttarfélögin hvetja félagsmenn til að ferðast innanlands í sumar og njóta þess að vera til.

Nýr vefur stéttarfélaganna í loftið

 

Heimasíða Stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, www.framsyn.is, opnaði fyrst formlega árið 2001. Frá þeim tíma hafa reglulega verið gerðar breytingar á síðunni. Hvað það varðar má geta þess að undanfarið hefur verið unnið að því að gera gagngerar breytingar á vefnum sem opnaði eftir breytingar í dag. Samið var við hugbúnaðarfyrirtækið AP Media um að framkvæma breytingarnar í samráði við starfsmenn stéttarfélaganna. Samstarfið gekk afar vel og er afraksturinn eftir því.

Á sínum tíma var gerð vefsins í höndum Arngríms Arnarsonar sem sá alfarið um alla forritun, uppsetningu og grafíska hönnun hans í samstarfi við starfsmenn stéttarfélaganna

Uppfærsla á vefnum verður í höndum starfsmanna stéttarfélaganna og munu þeir sjá um að bæta við upplýsingum til félagsmanna, fréttum og tilkynningum inn á vefinn með reglulegu millibili. Þannig mun vefur stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum verða áfram öflugur upplýsingamiðill til mikilla hagsbóta fyrir félagsmenn og aðra þá sem áhuga hafa á málefnum félaganna. Óhætt er að segja að góð heimasíða með helstu upplýsingum fyrir félagsmenn, auðveldi bæði félagsmönnum og starfsmönnum stéttarfélaganna lífið og spari þeim auk þess töluverða vinnu.

Þá er ánægjulegt til þess að vita að fjölmargir félagsmenn og gestir heimsækja síðuna daglega enda afar vinsæl. Allar ábendingar og athugasemdir varðandi vefinn eru vel þegnar og skulu þær sendar til Aðalsteins Árna netfangið kuti@framsyn.is sem jafnframt er ábyrgðarmaður vefsins.

 

Orlofsíbúð í boði á Spáni

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa fengið aðgengi fyrir félagsmenn að tveggja herbergja íbúð í Alicante á Spáni. Um er að ræða íbúð á neðri hæð í litlu fjölbýli með nokkuð stóru útisvæði sem tilheyrir þessari íbúð eingöngu. Auk svefnherbergis er baðherbergi, rúmgóð stofa, eldhús og þvottahús með þvottavél. Í heildina eru svefnstæði fyrir fjóra í tvíbreiðu rúmi í herbergi og svefnsófa í stofunni. Í íbúðinni eru rúmföt og tuskur.

Íbúðin er í lokuðum íbúðarkjarna með sér sundlaug og útisvæði. Frá flugvellinum í Alicante er um 40 km að íbúðinni. Auðvelt er að komast að henni frá flugvellinum með rútu, leigubíl eða bílaleigubíl.

Margvísleg afþreying er á svæðinu, svo sem bátsferðir, skemmtisiglingar og fleira. Þá er í göngufæri verslunarkjarni þar sem finna má úrval verslana s.s. Primark og H&M. Einnig er stutt í matvöruverslanir s.s. Carrefour. Nokkur flugfélög fljúga frá Íslandi til Alicante s.s. Icelandair.

Leiguverð á íbúð:

Vikuleiga er kr. 56.000,- og hver dagur eftir það kostar kr. 8.000.

Frá þessu verði dragast til viðbótar sérkjör félagsmanna kr. 2.000 per. dag sem gist er í íbúðinni. Félagsmenn geta fengið íbúðina leigða í allt að 14 daga enda sé hún laus. Ekki er vitlaust að miða tímabil dvalar við hvenær ódýrast er að fljúga til Alicante.

Frekari upplýsingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna eða hjá umsjónarmanni á íbúðarinnar sem er Inga J. Hjaltadóttir. Netfang hjá Ingu er ingajh@hotmail.com. Þangað má einnig senda fyrirspurnir um íbúðina.

Hvaða skattabreytingar taka gildi um áramót?

Um ára­mót taka gildi ýms­ar skatta­breyt­ing­ar sem snerta bæði heim­ili og fyr­ir­tæki í land­inu. Fjár­málaráðuneytið fjall­ar um helstu efn­is­atriði breyt­ing­anna en nán­ari upp­lýs­ing­ar um ein­stak­ar breyt­ing­ar má finna í grein­ar­gerðum viðkom­andi laga­frum­varpa á vef Alþing­is.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá ráðuneyt­inu, að um ára­mót­in muni nýtt viðmið um þróun þrepa- og skatt­leys­is­marka tekju­skatts ein­stak­linga taka gildi. Breyt­ing­in sé síðasti áfangi skatt­kerf­is­breyt­inga fyr­ir ein­stak­linga síðustu ár, þar sem tekju­skatt­ur hafi lækkað tals­vert – mest hjá tekju­lægri hóp­um.

„Þrepa- og skatt­leys­is­mörk munu þá þró­ast í takt við vísi­tölu neyslu­verðs að viðbættu mati á lang­tíma­fram­leiðni. Miðað verður við 1% fram­leiðni­vöxt á ári sem tekið verður til end­ur­skoðunar á fimm ára fresti, næst vegna staðgreiðslu­árs­ins 2027. Skatt­leys­is­mörk munu því hækka um­fram það sem þau gerðu þegar einnig verður tekið mið af fram­leiðniaukn­ingu. Sama viðmið verður hér eft­ir notað við upp­færslu skatt­leys­is- og þrepa­marka þannig að skatt­byrði mis­mun­andi tekju­hópa þró­ist ekki með ólík­um hætti til lengri tíma litið. Áður fylgdu þrepa­mörk efsta þreps­ins launa­vísi­tölu en skatt­leys­is­mörk fylgdu vísi­tölu neyslu­verðs. Mis­mik­il hækk­un skatt­leys­is- og þrepa­marka hef­ur leitt til þess að hlut­falls­leg skatt­byrði ein­stak­linga í neðri hluta tekju­dreif­ing­ar­inn­ar hef­ur hækkað meira en hjá ein­stak­ling­um í efri hluta tekju­dreif­ing­ar­inn­ar án þess að sér­stök ákvörðun liggi fyr­ir þar um. Sam­tals hækka viðmiðun­ar­fjár­hæðir tekju­skatts um 6,1%. Skatt­hlut­föll tekju­skatts til rík­is­ins verður óbreytt ásamt meðal­útsvari,“ seg­ir í til­kynn­ingu fjár­málaráðuneyt­is­ins. 

Barna­bæt­ur

Þríþætt­ar breyt­ing­ar á barna­bót­um eru boðaðar um ára­mót­in. Fjár­hæðir barna­bóta munu hækka á bil­inu 5,5% til 5,8%. Þá munu neðri skerðing­ar­mörk tekju­stofns barna­bóta hækka um 8,0% og efri skerðing­ar­mörk um 12%.

Trygg­inga­gjald

Í árs­byrj­un 2022 mun tíma­bund­in lækk­un á al­menna trygg­inga­gjald­inu, sem var hluti af aðgerðapakka stjórn­valda vegna efna­hags­áhrifa kór­ónu­veirunn­ar, renna sitt skeið á enda. Skatt­hlut­fall al­menns trygg­inga­gjalds mun því fara úr 4,65% í 4,9%. Trygg­inga­gjald í heild breyt­ist þannig úr 6,1% í 6,35%.

Erfðafjárskatt­ur

Skatt­frels­is­mark erfðafjárskatts tek­ur ár­legri breyt­ingu miðað við þróun vísi­tölu neyslu­verðs og hækk­ar úr 5.000.000 kr. í 5.255.000  árs­byrj­un 2022. Er það í sam­ræmi við samþykkt­ar breyt­ing­ar við af­greiðslu fjár­laga 2021 þar sem skatt­frels­is­markið var hækkað úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. og skyldi fram­veg­is taka ár­lega breyt­ingu miðað við þróun vísi­tölu neyslu­verðs. Skatt­hlut­fallið helst óbreytt.

Nán­ar hér. 

(Þessi frétt er tekin af mbl.is)

Starfsmenn í hátíðarskapi

Forsvarsmenn Framsýnar komu við í verslun Samkaupa í Mývatnssveit rétt fyrir jólin. Þar voru þau Helgi Aðalsteinn, Helgi James Price og Malina Luca að störfum. Þau voru ánægð með lífið og tilveruna, enda mikið að gera í versluninni fyrir jólin og því ekki yfir neinu að kvarta.

Vilja ljúka kjarasamningi við hvalaskoðunar fyrirtækin

Þess var krafist á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar fyrir áramótin að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi fyrir sjómenn á hvalaskoðunarbátum. Ályktað var um málið.

Ályktun um áhugaleysi hvalaskoðunarfyrirtækja fyrir kjörum starfsmanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags, haldinn 29. desember skorar á hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík að klára samningagerð við félagið sem fyrst.

Framsýn hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um endurnýjun á samningi við fyrirtækin. Kjarasamningnum er ætlað að tryggja starfsmönnum á sjó ákveðin kjör fyrir þeirra störf og að þeir séu tryggðir með sambærilegum hætti og aðrir sjómenn sem gegna hliðstæðum störfum hjá öðrum hvalaskoðunarfyrirtækjum.  Annað er ólíðandi með öllu.

Aðalfundurinn telur það vera algjört virðingarleysi við starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja að þeir séu samningslausir á sjó. Framsýn hefur ítrekað krafist þess að viðræðurnar yrðu kláraðar með samningi, en þrátt fyrir það hefur það ekki gengið eftir. Þess vegna ekki síst er mikilvægt að samningsaðilar setjist niður og klári viðræðurnar með samningi á næstu vikum.

Samið við Sókn lögmannsstofu

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa samið við Sókn lögmannstofu á Egilsstöðum um að þjónusta félögin frá og með næstu áramótum. Lögfræðiþjónustan fellst í því að lögmannsstofan mun veita ráðgjöf til starfsmanna stéttarfélaganna í daglegum störfum þeirra er varða hagsmuni félagsmanna, kjarasamningsbundin réttindi, innheimtumál og slysamál og eftir atvikum á málum á öllum sviðum lögfræðinnar er starfsmenn stéttarfélaganna ákveða að vísa til lögfræðistofunnar. Sókn lögmannsstofa var stofnuð haustið 2010 af þremur lögmönnum, Hilmari Gunnlaugssyni, Jón Jónsson og Evu Dís Pálmadóttir. Áður höfðu þau starfað saman í lögmennsku um árabil. Öll hafa þau leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti og Hæstarétti Íslands.  Hjá Sókn lögmannsstofu  er að finna breiða þekkingu á ýmsum sviðum lögfræðinnar. Framkvæmdastjóri Sóknar lögmannsstofu er Eva Dís Pálmadóttir sem jafnframt verður aðallögmaður stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Það eru; Framsýn stéttarfélag, Starfsmannafélag Húsavíkur, Þingiðn félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Skýr krafa til útgerðarmanna, kjarasamning strax!

Miklar og góðar umræður urðu á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar í gær um kjaramál. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Ályktun um kjaramál sjómanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags, haldinn 29. desember gagnrýnir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) harðlega fyrir vanvirðingu þeirra í garð sjómanna. Sjómenn hafa nú verið samningslausir í tvö ár. Vegna áhugaleysis útgerðarmanna er ekki að sjá að samningar takist á næstu mánuðum og árum. Sjómenn geta ekki látið útgerðarmenn komast endalaust upp með hroka og virðingarleysi gagnvart stéttinni. Hvar væru útgerðarmenn án sjómanna?

Aðalfundurinn krefst þess að SFS gangi nú þegar til raunverulegra viðræðna við samninganefnd Sjómannasambands Íslands með það að markmiði að ljúka samningagerðinni sem fyrst.

Hagnaður útgerðarinnar hefur verið um 181.000 milljónir króna á síðustu fimm árum eða um 36.000 milljónir króna á ári að meðaltali. Það ætti því ekki að reynast SFS þung byrði að koma til móts við kröfur sjómanna s.s. með 3,5% viðbótarframlagi í lífeyrissjóði eins og aðrir launþegar hafa í dag sem þykir sjálfsagður réttur. Kostnaðaraukinn af þeirri aðgerð er innan við eitt þúsund milljónir króna á ári.

Sjómenn, hingað og ekki lengra! Það er okkar að sækja fram og krefjast þess að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi við sjómannasamtökin. Vilji sjómanna er að það verði gert með friðsamlegum hætti. Sé það hins vegar vilji SFS að hunsa sjómenn eitt árið enn sér Sjómannadeild Framsýnar fyrir sér að blásið verði til aðgerða strax á nýju ári til að knýja á um gerð kjarasamnings.

Að venju fjörugur fundur hjá sjómönnum

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gær. Fundurinn var fjörugur og urðu snarpar umræður ekki síst um kjaramál. Fundurinn samþykkti samhljóða að senda frá sér tvær ályktanir um kjaramál. Þá var stjórn deildarinnar endurkjörin, hana skipa; Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari, Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi, Héðinn Jónasson meðstjórnandi.

Undir liðnum kjaramál á fundinum kom fram að núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir í tvö ár. Því miður hafa SFS dregið lappirnar í samningaviðæðunum í stað þess að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna.

Varðandi kjarasamning milli LS og SSÍ þá hefur sá samningur verið laus frá 1. febrúar 2014. Upp úr viðræðum við LS slitnaði á vormánuðum 2017 og hafa viðræður ekki farið af stað aftur milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Um þessar mundir eru hins vegar fyrirhugaðar viðræður við LS sem ber að fagna.

Viðræður við útgerðarmenn innan SFS hafa vægast sagt gengið mjög illa og því lítið að frétta. Allar tillögur frá samtökum sjómanna til samtakanna varðandi það að liðka til í samningamálum hafa verið slegnar út af borðinu nánast án þess að þær væru skoðaðar frekar. Vegna heimsfaraldursins COVID-19 og ástandsins í þjóðfélaginu reyndi Sjómannasambandið að koma með mjög hógværar enn sanngjarnar kröfur svo hægt yrði að ganga frá nýjum kjarasamningi. Í því sambandi var helstu ágreiningsmálum lagt til hliðar til að liðka fyrir gerð kjarasamnings til tveggja ára, því var hafnað af hálfu SFS.

Hvað kjarasamningsgerðina varðar skulum við hafa í huga að háleit markmið voru sett þegar núverandi kjarasamningur var undirritaður á sínum tíma þess efnis að á samningstímanum yrði unnið við heildarendurskoðun á kjarasamningnum, s.s. athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í skipum sem og um skiptimannakerfið. Þessari vinnu er langt frá því að vera lokið. Staðan í dag er sú, að aðeins ein bókun hefur verið kláruð sem fólst í athugun á mönnun og hvíldartíma sjómanna. Öllum þessum atriðum átti að ljúka fyrir sumarið 2019 og þá átti að hefjast handa við gerð nýs kjarasamnings en vegna ágreinings milli aðila þá gekk þetta ekki eftir sem er miður fyrir sjómenn.  Það tók svo steininn úr þegar SFS ákvað einhliða að hluti kjarasamnings, það er grein 1.29.1. gildi ekki lengur og falli út úr samningnum sem felur í sér lækkun á skiptaprósentunni um 0,5% þegar landað er hjá skyldum aðila. Slík vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi, það er að annar samningsaðilinn taki út grein úr kjarasamningi þar sem hún hentar honum ekki lengur. Þessi vinnubrögð endurspegla vinnubrögð SFS og þurfa ekki að koma mönnum á óvart sem þekkja til vinnubragða útgerðarmanna.

Þegar ákveðið var við undirritun kjarasamningsins í febrúar 2017 að lengja samningstímann frá því að vera til loka árs 2018 til 1. desember 2019 var hækkun á kauptryggingunni sem vera átti 1. desember 2018 frestað til 1. maí 2019. Samhliða var sett inn ákvæði um að launahækkun sem yrði á almenna vinnumarkaðnum á árinu 2019 kæmi einnig á kauptryggingu og kaupliði hjá sjómönnum. Þegar á reyndi stóðu útgerðarmenn ekki við þetta 9 ákvæði kjarasamningsins og neituðu að hækka kauptrygginguna um þá hækkun sem varð á launatöxtum á almenna vinnumarkaðnum. SSÍ vísaði deilunni til Félagsdóms, en tapaði málinu þar. Fulltrúi ASÍ í Félagsdómi greiddi atkvæði með atvinnurekendum í málinu og því tapaðist málið. Með hjálp fulltrúa ASÍ í Félagsdómi komust því útgerðarmenn upp með að sniðganga það sem samið var um varðandi hækkun kauptryggingar sjómanna á árinu 2019.

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar sem var að mati Sjómannadeildar Framsýnar löngu tímabært. Að sjálfsögðu eiga sjómenn ekki að láta bjóða sér svona framkomu í þeirra garð. Höfum í huga að með samstöðuna að vopni geta útgerðarmenn ekki brotið niður sanngjarnar kröfur sjómanna. Sjómenn um land allt krefjast þess að samið verði þegar í stað, undir það taka sjómenn á Húsavík.  

Þá má geta þess að Sjómannadeild Framsýnar tókst ekki að klára endurskoðun á sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar á árinu vegna sinnuleysis Samtaka atvinnulífsins fh. hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík. Staðan er óþolandi en áfram verður þrýst á gerð kjarasamnings.

Ánægjuleg heimsókn til Björgunarsveitarinnar Stefáns

Nýverið heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir Björgunarsveitina Stefán í Mývatnssveit. Var tilgangur heimsóknarinnar að afhenda sveitinni 250.000,- peningagjöf frá Framsýn, líkt og öðrum björgunarsveitum á félagssvæðinu hefur verið veitt undanfarið ár. Framsýn hefur árlega lagt talsverða upphæð til samfélagsmála og tók  aðalfundur félagsins um það ákvörðun síðastliðið vor að leggja tæpar tvær milljónir króna í það verkefnið. Vill félagið með því leggja sitt að mörkum til að styðja við starf björgunarsveitanna, sem eins og öllum ætti að vera ljóst gegna lykilhlutverki í almannavarnarkerfi okkar Íslendinga.

 Það voru nokkrir galvaskir meðlimir björgunarsveitarinnar með formann sinn, Kristján Steingrímsson í fararbroddi, sem tóku á móti gestunum frá Framsýn og veittu gjöfinni viðtöku. Voru þeir afar þakklátir fyrir fjárstuðninginn og sögðu hann koma sér vel. Til þess að björgunarsveitirnar gætu uppfyllt sem best það hlutverk sem þær gegna, þyrftu þær að hafa yfir að ráða góðum búnaði, en viðhald og endurnýjun á tækjum og búnaði væri mjög fjárfrekt verkefni. Stefánsmenn leiddu gestina um hýbýli sín og fræddu þá um starfsemi sveitarinnar. Það gefur auga leið að björgunarsveitir á jaðri hálendisins þurfa að hafa yfir að ráða öflugum tækjabúnaði til að geta sinnt þeim margvíslegu verkefnum og tekist á við beljandi jökulfljót, misviðri og óblíða náttúru. Tækjakostur Stefáns eru heldur engin barnaleikföng, en í skemmu stendur í stafni 6 hjóla Ford Econoliner á 46 “ásamt fleiri stæðilegum tækjum, s.s. Hagglund snjóbíl, fjórhjóli, vélsleðum, slöngubátum og alls kyns skyndihjálpar og björgunarbúnaði.

„Hálendið hefur mikið aðdráttarafl” segja Stefánsmenn. „Mývatnssveitin er á jaðri hálendisins, sveitina heimsækir gríðarlegur fjöldi ferðamanna og fjöldi útkalla er í samræmi við það“.  

Björgunarsveitin Stefán er með höfuðstöðvar að Múlavegi 2, í suðurenda áhaldahúss og slökkvistöðvar.  Sveitin er einnig með aðstöðu að Múlavegi 3 undir tæki og tól. Félagar í Stefáni eru um 40 talsins.

Til gamans má geta þess að nafn sveitarinnar; Stefán, er tilkomið vegna björgunarafreka Stefáns Stefánssonar á Ytri Neslöndum. Stefán þótti forspár og bjargaði hann oftar en einu sinni mönnum úr lífsháska, er fallið höfðu niður um ís á Mývatni. Voru Stefáni veitt verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir björgunarafrek sín.