Bjarkey Olsen leit við í dag

Kjördæmadagar hafa staðið yfir síðustu daga, það er frá 3.– 6. október og því hafa engir þingfundir verið á Alþingi þessa vikuna. Kjördæmadagana nýta þingmenn til að fara út í kjördæmi sín og hitta kjósendur, sveitarstjórnafólk, fulltrúa fyrirtækja og fleiri. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG í Norðausturkjördæmi og formaður Fjárlaganefndar leit við hjá formanni Framsýnar í dag. Það er alltaf ánægjulegt þegar þingmenn sína málefnum kjördæmisins áhuga og koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem er til staðar víðtæk þekking á málefnum svæðisins sem tilheyrir félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Yfir volgum kaffibolla var farið yfir málefni svæðisins, þing ASÍ í næstu viku og komandi kjaraviðræður í vetur. Þá kom formaður Framsýnar mikilvægum málefnum á framfæri við þingmanninn s.s. hvað varðar vegamál í Bárðardal, flugvallarmál og atvinnumál. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram að fundurinn var vinsamlegur í alla staði.

Því miður hafa aðrir þingmenn kjördæmisins ekki séð ástæðu til að koma við og fræðast um stöðuna á svæðinu, vonandi finna þeir sér tíma til þess í næstu kjördæmaviku eftir áramótin.

 

Til móts við eigendur rafmagnsbíla

Framsýn og Þingiðn stefna að því að koma upp hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla í Þorrasölum í Kópavogi þar sem félögin eiga 5 orlofsíbúðir.  Unnið verður að því að setja upp stöðvar í bílakjallarann í október. Samið hefur verið við Hleðsluvaktina um að koma upp grunnneti og stöðvum í kjallarann. Þannig vilja félögin koma til móts við sífjölgandi félagsmenn sem fjárfesta í rafmagnsbílum og dvelja í íbúðum á vegum félaganna í Kópavogi.

Minningargrein -Sófus Páll Helgason-

Fallegur dagur er runnin upp við Skjálfanda og haustið skartar sínu fegursta í veðurblíðunni og kyrrðinni sem oft er einstök á þessum árstíma. Litskrúð náttúrunnar er engu líkt þessa dagana, nú þegar veðrabreytingar eru í aðsigi og það styttist í komu fyrstu haustlægðarinnar. Það eru blikur á lofti.

Frístundabændur í Grobbholti eru mættir í hús til að vigta og fara í gegnum bústofninn eftir göngur og frekar vætusamt sumar. Það er stemning í hópnum, menn eru kátir og hjálpast að við að undirbúa vigtunina „Hvar er Páll?“ heyrist kallað. Félagi Sófus Páll Helgason, eða Palli eins og hann var ávallt nefndur, hefur fram að þessu haft það hlutverk að skrásetja þyngd og númer á vigtuðum lömbum, enda hluti af hópnum. Hann er nú fjarri góðu gamni, í langþráðu sumarfríi með Nínu sinni á Tenerife. Palla hefur verið best treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki, enda ábyrgur maður í alla staði og óspar á að senda mönnum tóninn reyni þeir að þyngja eigin lömb með því að leggja hendur ofan á þau svo þau virki aðeins meiri á vigtinni.

En líkt og með veðurfarið getum við aldrei stólað á að lífið og tilveran sé okkur hliðholl. Eins og hendi sé veifað er gleðin á bak og burt þegar knúið er dyra í Grobbholti með sorgarfréttir. Félagi Páll er fallinn frá, hafði orðið bráðkvaddur þennan sama dag á Tenerife. Það gat ekki verið að þetta væri að raungerast. Palli sem hafði verið með okkur í anda við vigtunina var ekki lengur á meðal vor. Dimmt ský leggst yfir félagahópinn, menn setur hljóða og tár falla niður vanga.

Upp í hugann koma margar góðar minningar enda höfum við Palli allt frá unga aldri verið samferða í gegnum lífið. Nokkuð sem ég hafði ekki áttað mig á fyrr en ég settist niður til að skrifa minningarorð um góðan félaga. Það hefur verið þægilegt að stíga ölduna með Páli í gegnum lífið, enda einstakur maður í alla staði. Snemma tókum við þátt í  harðvítugum bardögum þess tíma milli Torgara og Hólara, en þá þekktist að unglingar færu milli hverfa á Húsavík til að berjast, oftast í góðu með heimatilbúnum trésverðum og skjöldum og síðar teygjubyssum sem þóttu mikil vopn þess tíma. Á þeim tíma vorum við Palli ekki í sama liði, hann var Hólari en ég aftur á móti Torgari. Félagi Palli var snemma mikið heljarmenni, enda vorum við Torgarar fljótir að gefast upp yrðum við þess varir að hann færi fyrir liði Hólara. Við höfðum einfaldlega ekkert í hann að gera og lögðum því auðsveipir niður vopn. Sigrarnir voru hins vegar auðsóttir ef hann kom því ekki við að berjast með Hólurum.

Við vorum hins vegar í sama liði þegar við stunduðum handbolta með Völsungi, reyndar var ég yngri og lék því í næsta flokki fyrir neðan. Palli var með betri línumönnum sem Völsungur hefur átt í handbolta. Við kepptum reglulega við Þór og KA og það var ekki laust við að við strákarnir kenndum í brjósti um andstæðinga okkar, sem reyndu hvað þeir gátu að stöðva Pál, en þó hann væri með þá tvo til þrjá á bakinu höfðu þeir ekkert í hann að gera. Reyndar lokuðum við oft augunum þegar heljarmennið kastaði sér inn af línunni og skoraði glæsimörk fyrir Völsung. Þá kom fyrir að þeir andstæðingar sem hvað fastast höfðu hangið í honum, lentu undir okkar manni og gengu ráfandi af velli eftir viðskiptin við hann. Það voru ekki lætin í Páli, en hann  var fastur fyrir.

Eftir unglingsárin störfuðum við Palli saman hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur við almenn fiskvinnslustörf, auk þess að vera í löndunargengi fyrirtækisins, sem sá um að landa úr togurum og öðrum vertíðarbátum. Það var ekki nóg með að við værum samstarfsfélagar, heldur stofnuðum við heimili á svipuðum tíma og eignuðumst okkar fyrstu börn á sama árinu. Þá höfum við Jónína Hermannsdóttir eiginkona Páls unnið saman á Skrifstofu stéttarfélaganna frá árinu 1996.

Eftir góðan tíma hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur skildu leiðir tímabundið. Palli réði sig á togarann Kolbeinsey ÞH og ég hélt til starfa hjá Verkalýðsfélagi Húsavíkur, síðar Framsýn. Þrátt fyrir að við færum í sitt hvora áttina  náðum við aftur saman þegar Páll kom alkominn í land til að læra fiskeldisfræði við Hóla í Hjaltadal. Eftir námið réði hann sig til starfa hjá Fiskeldisfyrirtækinu Rifós í Kelduhverfi. Með störfum sínum hjá Rifós gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Framsýn stéttarfélag.

Það hafði lengi blundað í Páli að fá sér kindur sér til gamans. Úr varð að hann gerðist aðili að Grobbholti á Húsavík, þar sem hann hélt nokkrar kindur til margra ára með okkur öðrum frístundabændum sem eiga það sameiginlegt að hafa líf og yndi af því að umgangast sauðfé. Páll var kannski ekki sá fjárgleggsti í hópnum, en hann var með öll eyrnamerki á hreinu væru þau nefnd í hans eyru. „Þetta er mín, Vogey“ fullyrti hann hiklaust eftir að honum hafði verið sagt hvaða númer væri í eyranu. Þá hafði hann gott auga fyrir fjárrækt enda yfirleitt með bestu meðalvigtina í Grobbholti. Já það er mikill sjónarsviptir af höfðingjum eins og Páli Helgasyni. Hans verður sárt saknað. Hafðu kærar þakkir fyrir samfylgdina í gegnum lífið kæri vinur og félagi. Elsku Jónína og fjölskylda. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum og megi góður guð gefa ykkur kærleik og styrk í sorginni. Minning um góðan mann mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Tafir á útsendum kröfum vegna skilagreina til fyrirtækja

Vegna óviðráðanlegra aðstæðna var ekki hægt að senda út um síðustu mánaðamót kröfur vegna  skilagreina frá fyrirtækjum sem greiða til Framsýnar og Þingiðnar. Beðist er velvirðingar á því. Það mun ekki hafa kostnaðarleg áhrif á fyrirtækin. Búist er við að þær berist til fyrirtækjanna um miðjan október. Nánari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda fyrirspurnir á netfangið linda@framsyn.is

37. þingi Alþýðusambands Norðurlands lokið

Alls tóku 77 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi innan ASÍ þátt í 37. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal í gær og í dag , þar af voru 11 fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn. Þingið var í fyrsta sinn pappírslaust og tókst það í alla staði mjög vel. Formaður Framsýnar var annar af fundarstjórum þingsins.

Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með erindi. Helga Þyri Bragadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá VIRK í Eyjafirði, fjallaði um VIRK starfsendurhæfingarsjóð og starfsemi hans. Ellen Jónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi, fjallaði um Vinnumálastofnun – stöðu og framtíðarsýn. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæðis Norðlenska ehf., fjallaði um stöðu og framtíð í kjötvinnslu á Íslandi. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, sagði frá félaginu og hvað væri á döfinni hjá þeim. Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs Stapa, fjallaði um lífeyrismál.

Þá sögðu fjórir trúnaðarmenn frá starfi trúnaðarmannsins og viðhorfinu til þess. Þetta voru þær Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir og Sigríður Þórunn Jósepsdóttir, sem eru í Einingu-Iðju, Sirrý Laxdal, sem er í FVSA og Guðmunda Steina Jósefsdóttir, sem er í Framsýn. Í lok fyrri dags var unnið í hópum þar sem fjallað var um samvinnu og samstarf Alþýðusambands Norðurlands við Orlofsbyggðina á Illugastöðum. Í upphafi vinnunnar fjallaði Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, aðeins um samvinnuna og samskiptin. Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir og Guðrún Edda Baldursdóttir, frá ASÍ, stjórnuðu vinnunni sem var með þjóðfundarfyrirkomulagi. Niðurstöður hópavinnu og atkvæðagreiðslu um hana voru kynntar að morgni föstudagsins.

 

Ný stjórn AN
Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, var kjörin nýr formaður AN til næstu tveggja ára. Með henni í stjórn eru Aneta Potrykus, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, sem er varaformaður stjórnar og Atli Hjartarsson, frá Öldunni stéttarfélagi, sem er ritari stjórnar. Varamenn í stjórn eru Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, Guðný Grímsdóttir, frá Framsýn, og Trausti Jörundarson, frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar.

Forstjóri PCC leit við hjá formanni Framsýnar

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Gestur Pétursson, fyrrverandi forstjóri Veitna og Elkem, verið ráðinn nýr forstjóri PCC BakkiSilicon. Hann tekur við starfinu af Rúnari Sigurpálssyni sem mun halda áfram störfum fyrir PCC samstæðuna og einbeita sér að þróunarverkefnum á Íslandi. Gestur kom við hjá formanni Framsýnar í vikunni. Hann óskaði eftir góðu samtarfi við félagið um málefni starfsmanna og fyrirtækisins. Framsýn hefur lagt mikið upp úr góðu samstarfi við PCC allt frá stofnun fyrirtækisins.

Styrkhlutfallið 90% framlengt til 31. desember 2022 og Framsýn gerir betur

Stjórnir sjóðanna Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar hafa samþykkt að framlengja 90% endurgreiðslu vegna styrkveitinga til 31. desember 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru/byrja innan þessa sama tímaramma. Félagsmenn Framsýnar eru aðilar að þessum sjóðum.

Breytingar á úthlutunarreglum voru eftirfarandi:

Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, voru hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Sveitamennt og Ríkismennt veita 100% styrki til stofnana sveitarfélaga og ríkisstofnana.

Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur.  Hlutfalli endurgreiðslu var hins vegar breytt og er 90% í stað 75% af kostnaði við námið.

Tómstundstyrkir sem voru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári eru í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Nánari upplýsingar veita Kristín Njálsdóttir, kristin@landsmennt.is og Hulda Björg Jóhannesdóttir, hulda@landsmennt.is í síma 599-1450 eða á tölvupósti. Þá er einnig hægt að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Til viðbótar má geta þess að Framsýn veitir félagsmönnum sem nýta rétt sinn að fullu úr kjarasamningsbundnu sjóðunum viðbótarstyrk allt að kr. 100.000,-. Ekki er vitað til þess að önnur stéttarfélög geri svona vel við félagsmenn.

Skrifað undir í morgun

Fulltrúar frá Framsýn stéttarfélagi og Fjallalambi hf. skrifuðu undir sérkjarasamning í morgun um kjör starfsmanna við sauðfjárslátrun haustið 2022. Samningurinn byggir á samningi aðila sem gilti í fyrra. Um 60 starfsmenn starfa við slátrun á vegum fyrirtækisins í haust. Áætlað er að slátra um 26 þúsund fjár.

ASÍ-UNG ályktar um málefni ungs fólks á vinnumarkaði

Yfirskrift þingsins var sem haldið var 16. september í Reykjavík var: „Fyrirmyndir komandi kynslóða.” Stjórn ASÍ-UNG þakkar öllum þeim sem komu að þinginu með einum eða öðrum hætti.

Undir yfirskriftinni „Fyrirmyndir komandi kynslóða” voru umræðuefnin þrjú:

  • Hvað gerir verkalýðshreyfinguna að aðlaðandi starfsvettvangi fyrir ungt fólk?
  • Hverju þarf að breyta í samskiptum innan verkalýðshreyfingarinnar?
  • Hvernig tryggjum við aðkomu ólíkra hópa að málefnum verkalýðshreyfingarinnar?

Það er samhljóma álit þingsins að mikilvægt er að gera verkalýðshreyfinguna að aðlaðandi starfsvettvangi fyrir ungt fólk. Unga fólkið kemur til með að taka við keflinu og þurfum við í millitíðinni að undirbúa og efla fólk til þátttöku. Leita þarf fjölbreyttra leiða til að fá ungt fólk til starfa innan verkalýðshreyfingarinnar og byggja ofan á þann áhuga sem nú þegar er til staðar.

Margt má betur fara í samskiptum innan verkalýðshreyfingarinnar. Við sem ungmenni innan hreyfingarinnar viljum að á okkur sé hlustað, tekið sé mark á skoðunum okkar og þær virtar. Þetta á ekki einungis við um ungmenni innan hreyfingarinnar, heldur hreyfinguna alla. Í öllum samskiptum eigum við að tileinka okkur virðingu. Eilíf átök geta verið og eru fráhrindandi. Það álit þingsins að meira púður geti farið í að beina spjótum okkur að andstæðingum okkar fremur en samherjum.

  1. Þing ASÍ-UNG haldið 16. september 2022 telur mikilvægt að tryggð sé aðkoma ólíkra hópa að málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Sannarlegur árangur næst þegar við erum samheldin og ólíkar raddir fá að heyrast, með það að markmiði að farsæl niðurstaða náist.
  2. Þing ASÍ-UNG haldið 16. september 2022 telur á komandi kjaravetri afar mikilvægt að fulltrúar samninganefnda hafi í huga góð samskipti og sannarlegan fjölbreytileika. Gríðarlegur vandi steðjar að ungu fólki á vinnumarkaði. Vextir hækka, afborganir hækka, leiga hækkar, vöruverð hækkar – en eftir sitja launakjör. Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á að samninganefndir komi samheldnar til kjaraviðræðna og berjist ötullega fyrir bættum kjörum launafólks, ungra sem eldri.

Samningaviðræður hafnar milli SA og SGS

Formlegar viðræður um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna við ferðaþjónustu á Íslandi hófust í Reykjavík í gær. Frá SGS tóku þátt í fundinum Guðrún Elín, Rut, Guðbjörg og Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar. Auk þeirra komu þrír fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins. Fundurinn í gær fór í það að yfirfara bókanir og ræða framhaldið hvað það varðar áður en hafist verður handa við að ræða frekari efnisatriði kjarasamningsins. Umræður urðu jafnframt um 16. kafla samningsins sem fjallar um bensínafgreiðslustaði. Samningsaðilar eru sammála um mikilvægi þess að sameina ákvæði í bensinafgreiðslusamningum SGS og Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins. Það er ef vilji er til þess meðal aðildarfélaga SGS sem á eftir að koma í ljós.

Guðmunda Steina kjörin í stjórn ASÍ-UNG

8. Þing ASÍ-UNG var haldið á Hotel Natura í dag. Framsýn átti tvo fulltrúa á þinginu, Sunnu Torfa og Guðmundu Steinu sem hlaut kosningu í stjórn.

ASÍ-UNG eru samtök innan verkalýðshreyfingarinnar sem sjá til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins.

Yfirskrift þingsins að þessu sinni var „Fyrirmyndir komandi kynslóða – Er verkalýðshreyfingin aðlaðandi starfsvettvangur?“ Sérstök áhersla var á heilbrigð og uppbyggileg samskipti auk þess sem sérstaklega var fjallað um nýliðun innan hreyfingarinnar.

Á þinginu var ný stjórn ASÍ-UNG kosin, en hana skipa:

  • Ásdís Helga Jóhannsdóttir, AFL
  • Ástþór Jón Ragnheiðarson, Verkalýðsfélag Suðurlands
  • Guðmunda Steina Jósefsdóttir, Framsýn
  • Inga Fanney Rúnarsdóttir, Verkalýðsfélag Grindavíkur
  • Jón Unnar Viktorsson, Verkalýðsfélag Grindavíkur
  • Ólöf Helga Adolfsdóttir, Efling
  • Sindri Már Smárason, AFL
  • Svanfríður Guðrún Bergvinsdóttir, Verkalýðsfélag Vestfirðinga
  • Þorvarður Bergmann Kjartansson, VR

Nýkjörin stjórn ASÍ-UNG

Í kjölfar þingsins hélt ný stjórn ASÍ-UNG fyrsta fund stjórnarinnar. Nýr formaður ASÍ-UNG var kosinn á fundinum, Ástþór Jón Ragnheiðarson, Verkalýðsfélagi Suðurlands og varaformaður ASÍ-UNG, Þorvarður Bergmann Kjartansson, VR.

Þorvarður Bergmann Kjartansson, varaformaður og Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður ASÍ-UNG.

Plott og pukur

Varaformaður Verkalýðsfélags Suðurlands, Tryggvi Ástþórsson og starfsmaður félagsins Ástþór Jón Ragnheiðarson gerðu sér ferð til Húsavíkur í vikunni til að heimsækja forystumenn Framsýnar. Aðalsteinn Árni formaður og Ósk Helgadóttir varaformaður tóku vel á móti gestunum og funduðu með þeim. Heimsóknin var ánægjuleg í alla staði og miklar umræður urðu um verkalýðsmál, vinnustaðaeftirlit og stöðuna í hreyfingunni. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er ekki mikill kærleikur innan hreyfingarinnar um þessar mundir þar sem kallað hefur verið eftir breytingum, það er að þeir sem setið hafa við völd innan Alþýðusambandsins allt of lengi gefi öðrum kost á því að komast til áhrifa innan hreyfingarinnar. Svo virðist sem þeir sem setið hafa við völd séu ekki beint hrifnir að því að stiga til hliðar þar sem þeim þykir afar vænt um stólana og rúmlega það.

 

Almenningur látinn gjalda fyrir verðbólgu og heimsfaraldur

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra sem lagt var fram á þriðjudag. Með frumvarpinu er almenningur einn gerður ábyrgur fyrir vaxandi verðbólgu og látinn gjalda fyrir stöðu ríkissjóðs vegna heimsfaraldurs.

Stjórnvöld stefna að því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og auka aðhald til að mæta vaxandi verðbólgu. Með frumvarpinu er sú leið valin að auka skatta og álögur á almenning, með verulegri hækkun krónutölugjalda og skattlagningu bifreiða ásamt því að fresta nauðsynlegum innviðafjárfestingum og auka niðurskurð í velferð og tilfærslu til heimila. Þetta er gert þrátt fyrir að heimilin verði um þessar mundir fyrir þungum áhrifum af vaxandi verðbólgu og hækkandi húsnæðiskostnaði.

Ríkisstjórnin hefur val um að fara aðrar leiðir, leiðir sem hlífa heimilum og færa byrðar á breiðustu bök samfélagsins. Í því samhengi væri hægt að hækka veiðigjöld, taka upp komugjald í ferðaþjónustu og gera skattlagningu fjármagns réttlátari. Á það skal bent að almenningur er með frumvarpinu meðal annars að greiða fyrir þá lækkun fjármagnstekjuskatts og  bankaskatts sem ákveðin var í miðjum heimsfaraldri.

Miðstjórn gagnrýnir að ekki sé ráðist í úrræði til að styðja við heimilin. Barnabætur verða óbreyttar milli ára og vaxtabótakerfið hefur nánast verið lagt niður. Gert er ráð fyrir lækkun á framlögum til uppbyggingar óhagnaðardrifinna leiguíbúða og ekki stendur til að efla húsnæðisbótakerfið.  Þessar ákvarðanir eru þvert á þá stefnu sem stjórnvöld höfðu boðað til að bregðast við gríðarlegum húsnæðisskorti.

Þá bendir miðstjórn á að með gamaldags skattheimtu og auknum álögum á almenning verður fjárlagafrumvarpið beinlínis til þess að kynda undir verðbólgu með vísitöluhækkunum. Svo mótsagnakennd stefnumörkun vekur furðu um leið og það er undrunarefni að stjórnvöld kunni engin ráð önnur en að seilast eina ferðina enn í vasa almennings þegar ríkissjóð skortir fjármagn.

Jafnframt er vakin athygli á að hækkanir á krónutölugjöldum og skattlagningu bifreiða koma verst niður á þeim tekjulægstu, hópum sem geta ekki valið sig frá neyslu á húsaskjóli og nauðsynjavörum og hafa ekki ráð á að festa kaup á dýrum rafmagnsbifreiðum.

Verkalýðshreyfingin sættir sig aldrei við ríkisfjármálastefnu sem felst í að velferðarkerfið sé notað sem hagstjórnartæki. Slík fjármálastefna mun ekki stuðla að sátt og stöðugleika á vinnumarkaði.

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir þessa ályktun.

Rasandi yfir framkomnu fjárlagafrumvarpi

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í vikunni. Meðal mála sem þar bara á góma var framkomið fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023. Það virðist trú ríkisvaldsins að þeir sem minnst hafa séu þeir sem viljugastir séu að standa undir auknum álögum, en það verða heimili landsins sem koma til með að finna mest fyrir aukinni skattheimtu nái frumvarpið fram að ganga.

Hækkanir eru boðaðar á áfengi, tóbaki, bensíni, olíu og  kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjald hækkar um 7,7% á næsta ári. Viðbúið er að auknar álögur á eldsneyti hækki flutnings- og dreifingarkostnað sem og vöruverð.

Lítið fer hins vegar fyrir því að þeir sem meira hafa, s.s. stóru fyrirtækjunum , bönkunum og sjávarútveginum sé gert að leggja meira til samfélagsins.

Greinilegt er að ríkisstjórnin hefur gleymt fögrum fyrirheitum um  að skapa þjóðfélag sem byggir á jöfnuði.

Verkalýðshreyfingunni ber skylda til og mun svara þessum skilaboðum með skýrum hætti í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur og í samskiptum við stjórnvöld. Ábyrgðin liggur ekki bara hjá launafólkinu í landinu.

https://www.fib.is/is/um-fib/frettir/miklar-auknar-alogur-of-langt-gengid-eins-og-thetta-er-lagt-fram-nuna

https://www.ruv.is/frett/2022/09/12/auknir-skattar-a-bensin-geti-haekkad-voruverd

https://kjarninn.is/skyring/fjarlagafrumvarpid-a-mannamali2023/

Framsýn tekur við greiðslum í Félagsmannasjóð sveitarfélaga

Í síðustu kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga var samið um sérstakt framlag í Félagsmannasjóð. Launagreiðanda er ætlað að greiða mánaðarlega framlag í Félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna Framsýnar. Úthlutun úr sjóðnum fer fram 1. febrúar ár hvert, það er til þeirra sem greitt var af til sjóðsins.

Félagsmannasjóðurinn er stofnaður vegna kröfu Alþýðusambands Íslands um jöfnun lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Frá upphafi, það er frá síðustu kjarasamningum, hafa greiðslur af félagsmönnum Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum þess borist til Starfsgreinasambands Íslands sem séð hefur um að halda utan um starfsemi sjóðsins og útgreiðslur úr sjóðnum til félagsmanna aðildarfélaga sambandsins sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum á þeirra vegum.

Frá og með 1. október hefur verið ákveðið að Starfsgreinasambandið hætti að sjá um að halda utan um Félagsmannasjóðinn, þess í stað taki aðildarfélögin við verkefninu að halda utan um sjóðinn fyrir sína félagsmenn. Þannig að, Framsýn, mun frá og með næstu mánaðamótum taka við greiðslum frá sveitarfélögum sem tilheyra félagsmönnum og greiða þær síðan til félagsmanna þann 1. febrúar 2023. Með þessari breytingu verður jafnframt auðveldara fyrir félagsmenn Framsýnar að nálgast sína peninga í gegnum félagið í stað þess að þeir séu hafðir hjá Starfsgreinasambandinu.

Vilt þú skreppa í sumarbústað

Sumarbústaður Framsýnar í Dranghólaskógi í Öxarfirði er laus til útleigu í september fyrir félagsmenn. Hægt er að fá vikuleigu, helgarleigu eða leigða einstaka daga í miðri viku. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Stjórn og trúnaðarráð fundar á morgun, þriðjudag

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudaginn 13. september kl. 17:00. Stjórn Framsýnar-ung er einnig boðuð á fundinn.  Tilgangur fundarins er m.a. að velja fulltrúa á þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar í haust.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Samgöngumál í héraðinu/Afstaða þingmanna
  4. Fundur með fulltrúum Þingeyjarsveitar
  5. Lagfæringar á Skrifstofu stéttarfélaganna
  6. Orlofsíbúð á Húsavík
  7. Staða Fjallalambs
  8. Formannafundur SGS 1. september
  9. Kjör fulltrúa á þing ASÍ
  10. Kjör fulltrúa á þing ASÍ-UNG
  11. Kjör fulltrúa á þing AN
  12. Önnur mál

Snyrtistofan Bellitas opnar í dag á Húsavík

Bellitas snyrtistofa & naglastúdíó opnaði í dag, föstudaginn 9. september að Garðarsbraut 39 á Húsavík. Í tilefni dagsins verður opið hús frá kl. 14:00-18:00. Formaður Framsýnar leit við á stofunni rétt í þessu og færðu eigendum blóm frá félaginu. 

Á snyrtistofunni verður boðið upp á alla almenna snyrtingu; Litun og plokkun, handsnyrtingu, fótsnyrtingu, andlitsmeðferðir, vax og gelneglur. Einnig verður í boði að versla gjafabréf.

Það er Marín Rut Karlsdóttir snyrtifræðimeistari og naglafræðingur sem opnar stofuna.

Hún hefur undanfarin 6 ár starfað sem snyrtifræðingur á snyrtistofunni AquaSpa á Akureyri en ákvað að snúa aftur á heimaslóðir og opna stofu á Húsavík en hún er ættuð úr Aðaldal. Ástæða er til að fagna þessari opnun, þrátt fyrir að karlar og konur í Þingeyjarsýslum gerist ekki fallegri má alltaf gera betur með því að fara í meðferð hjá Marín Rut.

Hér eru gagnlegar upplýsingar:

Tímapantanir á noona.is/bellitas

Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið bellitas.snyrtistofa@gmail.com og í síma 846-4609. Instagram.com/bellitassnyrtistofa

Kalla eftir afstöðu þingmanna til vegamála í Þingeyjarsveit

 „Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar stéttarfélags þann 22. ágúst var ástand malarvega í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit til umræðu. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Það er reyndar óskiljanlegt með öllu að vegir sem þeir sem sérstaklega eru hér tilgreindir virðast algjörlega hafa gleymst hvað varðar mikilvægi þeirra fyrir vegfarendur. Vissulega hefur í gegnum tíðina skort verulega á að þingmenn hafi haft áhuga fyrir því að beita sér í málinu.“

Þetta kemur meðal annars fram í bréfi Framsýnar í dag til þingmanna kjördæmisins um leið og félagið óskar eftir skriflegri afstöðu þingmanna til málsins. Eru þeir tilbúnir að beita sér í málinu eða ekki, þess er vænst að erindinu verði svarað fyrir 15. september 2022.

Ályktun Framsýnar er hér meðfylgjandi:

-Ályktun um ástand malarvega í Þingeyjarsveit-

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda.  Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá.“