Öll aðildarfélög Sjómannasambandsins, þar á meðal sjómenn innan Framsýnar, felldu kjarasamning SFS og SSÍ með 67% atkvæða. Samningsboðið var til tíu ára. Sextán félög eru í Sjómannasambandi Íslands.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir niðurstöðuna hafa komið á óvart. „Kannski var það samningstíminn sem fór öfugt ofaní menn,“ segir Valmundur.
Þá segir hann að borið hafi á misskilningi varðandi grein 1.39.1 í samningnum sem snertir nýsmíði. Snýr hún að því að semja þurfi sérstaklega um það ef fram koma ný skip eða nýjar veiði- eða verkunaraðgerðir.
„Við reyndum að styrkja þá grein í samningnum en þetta hefur valdið einhverjum ægilegum dellu misskilningi,“ segir Valmundur.
Hann segir að næsta á dagskrá sé að fara í baklandið og fá nánar úr því skorið hvar hnífurinn stendur í kúnni.
Samningar Sjómanna og SFS voru undirritaðir þann 9. febrúar síðastliðinn. (Heimild mbl.is)