Ný þjónusta á Húsavík

Stundum er sagt að hlutir hafi tilhneigingu til að fara í hringi. Þegar Pétur heitinn Jónasson ljósmyndari var að undirbúa og byggja íbúðarhús og aðsetur fyrir ljósmyndastofu á Stóragarði 15 byrjaði hann á að fá rými á fjórðu hæð í Kaupfélagshúsinu og útbjó þar framköllunaraðstöðu. Sem nýttist vel þangað til ljósmyndastofan varð tilbúin og opnaði á Stóragarðinum. Þar var hún starfrækt þangað til í fyrra og eins og margir þekkja, vel búin tækjum og þekkingu varðandi myndir og myndatengda þjónustu, í takt við fáanlega tækni á hverjum tíma.

Núna er tækjabúnaður af Ljósmyndastofu Péturs kominn á aðra hæð í Kaupfélagshúsinu og þar er veitt ýmiskonar þjónusta. „Við Pétur höfum unnið nokkuð saman undanfarin ár og þegar fór að halla undan fæti var m.a. rætt hvort og hvernig væri mögulega hægt að halda starfseminni áfram í einhverri mynd“ segir Gunnar Jóhannesson. „Eftir fráfall Péturs var gert samkomulag við aðstandendur og undirbúningur flutnings á tækjum, búnaði hófst“. Hafþór Hreiðarsson gekk til liðs við TN ehf. í ágúst og vinna við að fara í gegnum ljósmyndastofuna hófst. „Við tókum að okkur að fara í gegnum búnað og mjög mikið af myndum, gögnum og allskonar sem hafði safnast saman í langan tíma. Mikil saga sem þarna var og mikil vinna fór í að flokka og fara yfir“ segir Hafþór sem er á meðfylgjandi mynd.

TN er með ágætis aðstöðu í Kaupfélagshúsinu á annarri hæð. Þar er veitt m.a. almenn myndaþjónusta, tökur og myndvinnsla, stafræn framköllun, stækkanir á myndum og útprentun, teikningaútprentun, skiltagerð, plöstun ofl. „Við erum með nokkra prentara fyrir mismunandi notkun“ segir Hafþór, „svo hægt að þjónusta hvort heldur sem er með venjulegar myndir í hefðbundum stærðum eða stækkanir. Stærsti prentarinn getur prentað 130cm á breidd, svo stækkun á myndum er ekki vandamál svo lengi sem gæði myndar eða annars efnis eru nægileg.“

„Við erum ekki meistari Pétur“, segir Gunnar, „en við kappkostum að veita góða þjónustu og byggja á því sem hefur verið og byggja svo ofan á ofan á það eftir aðstæðum og eftirspurn. Við erum t.d. með aðeins af römmum, kartonum og slíku sem tengist frágangi mynda/útprentana.“

Margir hafa velt fyrir sér, hvað með allan þann fjársjóð af myndum sem ljósmyndastofan hefur tekið frá upphafi. „Við varðveitum filmusafnið í bili og höfum síðan aðgang að því, auk þess að hafa öll stafræn gögn. Þetta þýðir að fólk getur leitað til okkar til að athuga með mynd sem tekin var á einhverjum tilteknum tíma. Filmusafnið er skráð svo hægt að leita en allt getur samt tekið sinn tíma“, segir Gunnar að lokum.

Deila á