„Löng og ströng barátta sem á stundum kostaði blóðuga hnúa, verkföll og vinnustöðvanir.“

Rétt í þessu voru að hefjast hátíðarhöld stéttarfélaganna á Blönduósi, eða kl. 15:00. Ræðumaður dagsins er Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar. Hér má lesa ræðuna:

Ágætu gestir.
Það er mér mikill heiður að fá að vera með ykkur hér í dag og mig langar að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn, þann 1. maí. Ég flyt ykkur kveðju félaga minna úr austri. Á Húsavík er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins í heiðri hafður líkt og hér. Þar koma Þingeyingar saman, blása í lúðra og brýna vopnin til áframhaldandi átaka.
Í dag er full ástæða til staldra við og líta um öxl, því í ár eru liðin 100 ár frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Verkalýðsfélög höfðu þá verið starfandi hér á landi í nokkur ár, en það voru félagsmenn sjö verkalýðs – og sjómannafélaga í Reykjavík sem stóðu að stofnun sambandsins árið 1916. Tilgangurinn með stofnun Alþýðusambandsins var að að berjast fyrir betra samfélagi og stilla saman strengi í baráttunni fyrir bættum kjörum.
Á síðustu öld upplifðu Íslendingar einhverjar mestu framfarir í sögu þjóðarinnar. Í lok aldarinnar nítjándu höfðu nær allir íbúar landsins afkomu sína af landbúnaði á einn eða annan hátt. Vistarbandið sem haldið hafði hluta þjóðarinnar í ánauð hafði þá verið afnumið og tímarnir teknir að breytast. Ný hugmyndafræði fordæmdi ánauð og niðurlægingu þeirra sem minna máttu sín. Hún stráði fræjum sjálfræðis í brjóst hjúa og annarar alþýðu og gaf réttlausu fólki örlitla von um að þeirra kynni að bíða betra líf. Í bæjum og þorpum vöknuðu menn til vitundar um mátt samtakanna og réttsins til að mega lifa eins og menn.
Fram til þessa hafði landbúnaðurinn lifað á ódýru vinnuafli, en með aukinni iðnvæðingu breyttust mjög atvinnuhættir fólks. Gróskumikill sjávarútvegurinn og gott tíðarfar til lands og sjávar skapaði nú samkeppni um vinnandi hendur. Verkafólk á Íslandi fann sinn vitjunartíma á þessum árum og hóf baráttuna fyrir bættum lífskjörum, baráttu gegn auðvaldi og afturhaldi.
Einn fyrsti sigurinn sem vannst fyrir tilstilli verkalýðsbaráttu hér á landi voru Vökulögin svokölluðu, sem sett voru á árið1921. Þau tryggðu sjómönnum sex tíma hvíld á sólarhring. Til þess tíma voru þess dæmi að sjómenn á togurum stæðu vaktir sólarhringum saman, oft þar til þeir duttu sofandi ofan í kösina með hnífinn í greipinni.
Það var sannarlega ástæða fyrir því að lög sem þessi voru sett, því það var farið illa með fólk. Það eru víst bæði gömul sannindi og ný að ,,fæstir njóti eldana sem fyrstir kveikja þá“.

Á árum fyrri heimstyrjaldarinnar var gríðarleg dýrtíð á Íslandi, örbirgð fór vaxandi og baráttan um brauðið var hörð. Upp úr 1930 harðnaði baráttan með hverju árinu, auðvaldskreppan læsti sig inn í heimili allrar alþýðu, með hungurvofuna á hælunum og stéttarskipting var meiri en nokkru sinni. Vinnulaun voru sjaldan greidd í peningum á þessum árum, heldur í vörum, sem voru yfirleitt reiknaðar hærra en peningaverðið. Kaupmaðurinn var sá sem sem fólk átti allt sitt undir og örsnauður almenningur upplifði áframhaldandi þrælahald og kúgun.
Á fyrstu árum verkalýðsbaráttunnar snerist baráttan ekki eingöngu um hækkun lágmarkslauna og viðurkenningu á samningsréttinum, hún sneri líka að því að fá fátækt fólk til að sameinast um kröfur, því sjálfu til hagsbóta. Kúgun aldanna stóð í mörgum manninum, sem frekar kaus að fylgja kvölurum sínum en að berjast fyrir auknum réttindum sjálfum sér til handa. Óttinn við allsleysið og baráttan fyrir brýnustu nauðsynjum vóg þar þungt, baktrygging fjölskyldunnar var í höndum vinnuveitandans. Þeir sem stóðu í eldlínunni og börðust fyrir nýjungum og umbótum fengu heldur ekki alltaf þakklætið að launum.

Verkalýðshreyfingin, með Alþýðusamband Íslands í fararbroddi hefur náð miklum árangri í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðufólks síðustu 100 árin. Við getum nefnt þar baráttu fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir launafólk, fyrir menntun á vinnumarkaði og uppbyggingu starfsendurhæfingar. Við getum einnig nefnt lífeyrisrétt, almannatryggingar , fæðingarorlof, atvinnuleysis – og örorkubætur, sem og veikindarétt. Verkalýðshreyfingin hefur einnig beitt sér fyrir hugarfarsbreytingu í þágu jafnréttis og svo ótal mörgu öðru sem snýr að velferð almennings og breyttu viðhorfi samfélagsins. Löng og ströng barátta sem á stundum kostaði blóðuga hnúa, verkföll og vinnustöðvanir. Sigrar unnust, ekki alltaf stórir, en dropinn holaði steininn.
En hvar erum við í dag? Á Íslandi á velferð almennings að vera tryggð með svokölluðum samfélagssáttmála, en hann kveður á um að menn greiði skatt af sínum launum, allir hafi jafnan rétt til náms, geti leitað sér og sínum eftir þjónustu heilsugæslu, ásamt því að afkoma eldri borgara og öryrkja á að vera tryggð, að allir séu jafnir. Samfélagssáttmálinn er því trygging þeirra sem að honum standa, fyrir því að samfélaginu sé ávallt stjórnað út frá almannahag en ekki út frá einkahagsmunum.
Það er einnig talað um huglæga velferð, en hún byggir á ánægju fólks með lífið og samfélagið. Reiðin og ólgan meðal fólksins í landinu að undanförnu bendir ekki til þess að þorri almennings sé að upplifa þar neina sérstaka ánægju. Og það er ekkert sem bendir til annars í framgöngu þeirra sem halda í stjórnartaumana, en að þeir muni leggja sig fram við að fóðra frænda sinn á fjósbitanum fram til haustsins, hvað sem á þeim dynur.
Einhversstaðar verða peningarnir að vera, það er flókið að eiga peninga á Íslandi“ sagði þáverandi atvinnuvegaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali hér á dögunum.
Ég upplýsi það hér með ágætu gestir að í eyru mín, miðaldra ræstingakonunnar hljómaði speki núverandi forsetisráðherra, furðulega. Hef enda aldrei þurft að „gambla“ með launaafganginn minn né dylja eigur mínar. Hagkerfi míns heimilis hefur byggst á því síðustu áratugi að reyna að ná endum saman og tryggja afkomu fjölskyldunnar og það hefur komið fyrir að mér hafi fundist þeir endar nokkuð flóknir. En mér finnst það ekki flókið að álíta svo að ákveði menn að dylja eigur sínar í aflandsfélögum erlendra skattaskjóla, séu þeir hinir sömu vísvitandi að stinga undan efnahag og velferð í heimalandi sínu.
Í mínum huga er engin synd að vera auðugur, en það er ekkert sem réttlætir það að þeir sem eiga meira fjármagn en aðrir spili eftir eigin leikreglum.

Ágætu félagar. Síðustu árin hafa verið átök á íslenskum vinnumarkaði, þau hörðustu í mörg ár. Án efa var ástæða þeirra sú að almenningur á Íslandi var enn einu sinni kominn með upp í kok af ranglæti, misskiptingu og ég segi siðblindu þeirra sem á endanum sökktu þjóðarskútunni, árið sem frægt er orðið.
Íslenska þjóðin telst í dag, þrátt fyrir ágjöfina meðal efnuðustu þjóða heims og á góðum dögum tala helstu ráðamenn okkar um auðlindirnar þjóðarinnar, í formi jarðvarma og fallvatna. Þeir tala um auðlindir hafsins og ósnortinnar náttúru, auðlindina sem býr í þekkingu og menningu fólksins sem byggir þetta land. Allan þennan auð sem við eigum saman og skapar okkur gjaldeyristekjur, og að það sé gott að búa í réttlátu samfélagi þar sem allir eru jafnir.
Á þessum góðviðrisdögum er einnig talað fyrir útrýmingu launamuns kynja og öflugu heilbrigðis – og menntakerfi. Meira að segja seðlabankastjóri sem alþýða manna á Íslandi telur oftast boðbera válegra tíðinda, lét hafa það eftir sér á dögunum að staða ríkissjóðs hafi ekki verið betri síðan árið 1965, á gullárum síldarinnar.

Hvernig má það þá vera að sjávarútvegsfyrirtækin, sem mörg hver skila sögulegum hagnaði og greiddu eigendum sínum út arð á síðasta ári, þann hæsta frá hruni, skuli ekki geta fundið svigrúm nema fyrir 6.2 % launahækkun til fólksins á gólfinu, þeirra sem hamast eins og hamstrar á hjóli til að skapa eigendum sínum þennan arð? Er það jöfnuður?

Hvernig má það vera að tryggingafélögin hækki iðgjöld sín vegna slæmrar afkomu, en greiði á sama tíma eigendum sínum milljarða í arðgreiðslur? Er það jöfnuður?

Eða er það jöfnuður að ofurlaunaðir forstjórar og sumir æðstu embættismenn þjóðarinnar skuli leyfa sér að dylja eigur sínar í aflandsfélögum erlendra skattaskjóla, meðan allur almenningur hér á landi er skattpíndur til síðasta blóðdropa.

Það er kannski jöfnuður fólginn í því að aldraðir, öryrkjar og tekjulágt fólk á vinnumarkaði veigri sér við að leita eftir þjónustu til okkar stríðshrjáða heilbrigðiskerfis, sökum kostnaðar.
Er það jöfnuður að hjúkrunarheimilin standi auð og bíði fólksins sem byggði upp samfélagið fyrir okkur, af því að það eru ekki til peningar til að reka þau. Er þetta fólk ekki búið að greiða aðgangseyrinn og ætti að geta fengið þá aðstoð og umönnun sem það þarf á að halda til að geta gengið síðustu metrana í þessu lífi með sæmilegri reisn? Hvað varð um samfélagssáttmálann? Lenti hann líka á Tortola?
Hver skyldi hafa ákveðið það að fámennur hluti þjóðarinnar geti sífellt staðsett sig á hærri palli en við hin þegar þjóðarkökunni er skipt. Fyrir mér heitir það ekki jöfnuður – það er spilling.
Ég nefndi hér áðan að kúgun aldanna hafi staðið í fólki á upphafsárum verkalýðsbaráttunnar og ég velti því fyrir mér hvort það sé rétt sem stundum hefur verið sagt að genin gleymi ekki, því mér er lífsins ómögulegt að skilja af hverju fólk kýs kvalara sína.
Fólkið sem barðist fyrir bættum kjörum og viðurkenningu samfélagsins, fólkið sem lagði grunninn að Alþýðusambandi Íslands árið 1916. Hvernig myndi þeim lítast á ástandið í þjóðfélaginu í dag? Vísast gætum við bent þeim á margt sem áunnist hefur á síðustu 100 árum, og þau myndu skilja að íslenskt velferðarkerfi byggðist ekki upp að sjálfu sér. En það er nokkuð ljóst að ekki gætum við stært okkur af stórum breytingum þegar kemur að misskiptingu auðs og valds.
Jöfnuður er í það minnsta ekki fyrsta orðið sem kemur upp í huga mér þegar ég renni yfir söguna síðustu 100 árin. Fréttir fjölmiðla síðustu vikna og mánaða færa okkur heim sanninn um það að þrátt fyrir ötula baráttu eru verkefnin framundan ærin. Fréttir af erlendu starfsfólki sem ráðið er upp á vatn og brauð af bændum, ferðaþjónustuaðilum og verktökum í byggingariðnaði minna á aldagamlar sagnir af ódýru vinnuafli mosagróins bændasamfélags. Nýlegar fréttir af mansali hér á landi svipa einnig til ljótrar sögu um meðferð á fátækum Íslendingum fyrri tíma.
Erlendar starfsmannaleigur sem greiða laun undir gildandi kjarasamningum eru ljót dæmi um forsvarsmenn fyrirtækja sem notfæra sér neyð verkafólks frá fátækustu löndum Evrópu. Ráðningarsamningar án skilgreinds starfshlutfalls eru aftur að ryðja sér til rúms á vinnumarkaði, dapurlegt dæmi og afturhvarf til snapavinnu kreppuáranna. Húsnæðismálin sem þarfnast tafarlausrar úrlausnar, brot á erlendu verkafólki og ungu fólki á vinnumarkaði eru daglega í fréttum.
Er það ekki öfugsnúið að þjóð sem stærir sig að áðurnefndu velferðarkerfi, einu því öflugasta í heimi skuli endalaust líða það að jöfnuður gildi ekki fyrir alla hópa samfélagsins?
Félagar. Baráttunni um brauðið lýkur eflaust aldrei. Við viljum ekki að sagan endurtaki sig, það erum því við sem þurfum að vera á tánum og standa vörð um réttindi okkar – allra, jafnframt því að fylgjast með styðja félaga okkar í öðrum löndum og miðla því sem okkur hefur áunnist.
Íslensk verkalýðshreyfing er sterkt og mikið þjóðfélagsafl, hún stendur sem fyrr fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það neistar enn af eldi forfeðranna. Blásum duglega í glæðurnar, lífgum eldinn og beitum okkur áfram fyrir uppbyggingu heilbrigðara og sanngjarnara samfélags á Íslandi.
Það býr ein þjóð í þessu landi og þeir eiga að njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.

Ósk Helgadóttir

Mikið fjölmenni í höllinni á hátíðarhöldum stéttarfélaganna – „Það eru eftirskjálftar í gangi eftir hrunið mikla og það hriktir í stoðum þjóðfélagsins.“

Mikið fjölmenni er saman komið á hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Íþróttahöllinni á Húsavík enda boðið upp á veglega dagskrá. Dagskráin hófst með ávarpi formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldursonar kl. 14:00 sem er hér meðfylgjandi. Hátíðarræðu dagsins flytur svo Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Hægt verður að nálgast hana á heimasíðunni á morgun. Síðar í dag verður svo fjallað betur um samkomuna í dag.

Ágæta samkoma!
Árið er 1969. Þegar við yngstu bræðurnir litum út um gluggann í kvöldskugganum á aðventunni, þá börn að aldri á Torginu, mátti sjá undarlegar kynjaverur bjástra á húsþökum við skorsteina sem líktust jólasveinum.
Á þeim tíma voru skorsteinar á flestum húsum enda kynnt með olíu.
Móðir okkar notaði tækifærið, hún sagði jólasveina vera á þökunum komna til að gefa okkur í skóinn ef við yrðum þægir. Við hlýddum, drógum fyrir gluggana og lögðumst til hvílu.
Furðuverurnar sem við töldum vera jólasveina, voru þess í stað krókloppnir heimilisfeður að koma fyrir sjónvarpsloftnetum á húsþökum við erfiðar vetraraðstæður til að geta tekið á móti fyrstu sjónvarpsútsendingunum á Húsavík í byrjun desember ´69.
Það var mikil spenna í loftinu, Húsavíkurfjall var miðpunktur alls, enda nýbúið að setja upp sendi á fjallið sem ætlað var að varpa útsendingunum inn á heimilin í bænum.
Aldrei fyrr höfðu menn reigt höfuðið eins oft í áttina að fjallinu eins og dagana fyrir fyrstu útsendinguna, það mátti heldur ekkert klikka, miðið á greiðunni yrði að vera rétt. Sjónvarpstækin seldust upp líkt og fótanuddtækin forðum daga hjá Karli Hálfdánarsyni.
Þar sem sjónvarpstækin seldust upp söfnuðust menn saman hjá nágrönnunum sem höfðu verið svo lánsamir að komast yfir sjónvörp áður en þau seldust upp í Kaupfélaginu.
Mér, þá níu ára gutta, var komið fyrir hjá heiðurshjónunum Guggu og Togga Sigurjóns á Sólvöllunum þar sem foreldrar mínir höfðu ekki komist yfir sjónvarp í tæka tíð, en það var sagt á leiðinni frá Reykjavík.
Spenningurinn var gríðarlegur, myndi sjónvarpsútsendingin klikka og hvað með stillimyndina, yrði hún skýr eða hreyfð. Það mátti heyra saumnál detta í stofunni á Sólvöllunum, menn héldu niðri í sér andanum, stundin nálgaðist.
Áhyggjurnar reyndust óþarfar, allt gekk eins og í sögu. Stillimyndin reyndist skýr og átti eftir að verða vinsælasta sjónvarpsefnið hjá okkur krökkunum fyrstu árin enda lítið sem ekkert barnaefni í boði á þessum tíma, þá voru ekki barnaþættir eins og Dóra landkönnuður, Hvolpasveitin og Úmí Zúmí á dagskrá.
Svarthvíta stillimyndin hafði vissulega ákveðin sjarma fyrir lítil hjörtu, sem settust fyrir framan sjónvarpið korter í átta og horfðu spennt á stillimyndina fram að fréttum. Þetta fyrsta sjónvarpskvöld var einnig heimildarmynd um Hallormsstaðaskóg sem ég man enn vel eftir.
Þvílík var upplifunin fyrir níu ára dreng.
Á okkar stuttu ævi höfum við gengið í gegnum miklar samfélagslegar breytingar sem við höfum þurft að takast á við á hverjum tíma. Ein af þeim var þegar sjónvarpið kom til Húsavíkur sem var mikil bylting í afþreyingu.
Því miður hafa breytingarnar eða þróun mála ekki alltaf verið okkur í hag.
Þingeyingum það er íbúum Norðurþings, Tjörneshrepps, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps hefur fækkað jafnt og þétt eða um 18% frá árinu 1998.
Samhliða hefur þjónustustigið fallið og störfum fækkað fyrir utan störf í ferðaþjónustu.
Áföll hafa orðið í atvinnumálum líkt og þegar útgerðarfyrirtækið Vísir hætti starfsemi, rekstri Kísiliðjunnar var hætt og þegar Kaupfélag Þingeyinga fór í þrot hér á árum áður og hætti starfsemi.
Fram að þeim tíma hafði Kaupfélagið verið einskonar hjarta í atvinnulífi Þingeyinga og veitt fjölda fólks atvinnu auk þess sem það stóð dyggilega við bakið á menningar, æskulýðs- og íþróttastarfi í héraðinu.
Þá hefur margt ungt fólk ekki skilað sér aftur heim að loknu framhaldsnámi.
Þessi staðreynd liggur fyrir enda hefur samfélagið í landnámi Garðars við Skjálfanda verið að eldast ár frá ári.
En það birtir við sólarupprás.
Tímar stöðnunar og fólksfækkunar eru að baki. Framundan eru uppgangstímar á „Stór Húsavíkursvæðinu“.
Við Þingeyingar sitjum á auðlind til góðra verka, ekki síst mannauði, menningu, orku og náttúrufegurð. Það er okkar að hlúa að þessum þáttum svo þeir beri ríkulegan ávöxt.
Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað sem tengjast uppbyggingu PPC á Bakka. Reiknað er með að á þriðja hundrað ný störf verði til við framleiðsluna í verksmiðjunni og við afleidd störf.
Ekki er ólíklegt að þær framkvæmdir sem tengjast uppbyggingunni á Bakka kosti í heildina um 80 til 90 milljarða sem er svipuð tala og stungið er undan sköttum á Íslandi á hverju ári samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.
Við erum að tala um stórar tölur og að uppbyggingunni, sem taka mun um tvö ár, komi um 800 manns. Það verður því mikið undir á Húsavík á allra næstu árum.
Samhliða þessum breytingum er því spáð að íbúum á svæðinu muni fjölga á komandi árum og þörf verði fyrir um 100 nýjar íbúðir.
Reyndar hef ég nú þegar verulegar áhyggjur af húsnæðiskorti í bænum.
Í því sambandi er mikilvægt að bæjaryfirvöld og aðrir hagsmunaaðilar s.s. stjórnvöld, stéttarfélögin og byggingaverktakar taki þegar í stað höndum saman um frekari uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir kaupendur og/eða leigjendur.
Ljóst er að aukin umsvif bæta verulega tekjuflæðið inn í samfélagið sem leiðir af sér styrkingu innviða og fjölgun starfa í þjónustu- og byggingariðnaði.
Á sama tíma standa öflug framleiðslufyrirtæki á svæðinu sterkt en fram að þessu hafa sjávarútvegur og landbúnaður auk ferðaþjónustu verið megin stoðir atvinnulífsins.
Stór kaupskip sigla nú aftur fulllestuð til og frá Húsavíkurhöfn. Flugfélagið Ernir hefur fjölgað flugferðum til Húsavíkur eins og enginn sé morgundagurinn. Um er að ræða mikil lífsgæði og farþegum fjölgar stöðugt.
Já, ferðaþjónustan eflist og eflist, enda búa Þingeyingar við eina fallegustu umgjörð náttúrufegurðar á Íslandi. Á árinu 2014 heimsóttu um 381 þúsund gestir Þingeyjarsýslurnar. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur fyrir árið 2015 en ljóst er að ferðamönnum mun fjölga verulega á komandi árum.
Öflugt atvinnulíf eflir menningar- og listalíf jafnframt því að vera mikilvæg stoð undir æskulýðs og íþróttastarf svo ekki sé talað um skólahald í héraðinu á grunn- og framhaldsskólastigi.
Jafnframt er ástæða til að nefna þær jákvæðu breytingar sem orðið hafa í verslun og þjónustu. Samkaup hafa ráðist í löngu tímabærar breytingar á verslunum keðjunnar á Húsavík sem leiða munu til lækkunar á vöruverði.
Þá eru aðrir þjónustuaðilar að bæta og efla sína þjónustu við viðskiptamenn, ég nefni Olís sem opnar síðar í þessum mánuði glæsilega endurgerða þjónustumiðstöð. Þá er Fosshótel keðjan að endurgera hótelið á Húsavík sem verður einstaklega glæsilegt og opnar á frekari markaðssetningu hótelsins.
Uppsveiflan á svæðinu kallar á þessar breytingar. Verslunarstjóri hér í bæ, tjáði mér á dögunum að veltuaukningin milli ára væri um 30% miðað við sömu mánuði í fyrra. Innspýtingin leynist víða.
Á þessum miklu umrótartímum er mikilvægt að stéttarfélögin í samstarfi við opinbera aðila standi í lappirnar og komi í veg fyrir mansal og kjarasamningsbrot sem því miður virðast fylgja uppsveiflum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa staðið vaktina og komið í veg fyrir undirboð er tengjast um 60 starfsmönnum á undangengnum mánuðum.
Þar kemur til öflugt eftirlit. Markmið stéttarfélaganna er að tryggja að atvinnurekendur virði leikreglur um kjarasamninga, jafnrétti til launa og almennar reglur á vinnumarkaði.
Í heildina hafa stéttarfélögin átt mjög gott samstarf við verktaka og aðra atvinnurekendur á félagssvæðinu.
Þeir sem fara ekki eftir settum reglum eru í miklum minnihluta en grafa undan heiðarlegi atvinnustarfsemi.
Að sjálfsögðu er eðlilegt að skiptar skoðanir geti verið um þær miklu breytingar sem framundan eru á okkar samfélagi bæði stórar og smáar.
Svo hefur alla tíð verið og verður áfram. En við skulum halda umræðunni málefnalegri og án sleggjudóma og virða mismunandi skoðanir fólks.
Ágætu félagar!
Það hefur gengið á ýmsu í þjóðfélaginu undanfarnar vikur, forseti vor Ólafur Ragnar er hættur við að hætta og ríkistjórn Sigmundar Davíðs er farin frá eftir að komst upp um leynireikninga fjölskyldunnar á suðrænum slóðum.
Stjórnendur lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fjárfestar hafa einnig verið teknir í bólinu fyrir vafasama gjörninga í gegnum erlend aflandsfélög og eyjar.
Það er ekki annað hægt en að koma aðeins inn á þessi mál sem endurspeglast í spillingu og misskiptingu í þjóðfélaginu sem líkt og illgresi virðist vera erfitt að uppræta, því miður.
Atburðarrásin síðustu vikurnar minnir helst á sýndarveruleika í bíómynd en ekki raunveruleika.
Það eru eftirskjálftar í gangi eftir hrunið mikla og það hriktir í stoðum þjóðfélagsins.
Ég spyr, hvað fær fólk í ábyrgðarstöðum til að blindast af græðgi og siðblindu hvað þá að ljúga að þjóðinni?
Vissulega fyllist maður reiði yfir fréttum síðustu daga um skattaskjól, aflandsfélög og aflandseyjar.
Þá rifjast upp fyrir mér heimsókn sem fulltrúar Framsýnar fengu í aðdraganda hrunsins.
Sendinefnd frá höfuðstöðvum Landsbankans í Reykjavík óskaði eftir fundi með talsmönnum félagsins og kom hún fljúgandi norður í þeim tilgangi.
Nefndin bauð Framsýn upp á einstök kjör og eignastýringu á fjármunum félagsins sem kæmi til með að færa félaginu verulegan ávinning umfram það sem aðrar fjármálastofnanir gætu boðið.
Sannfæringakrafturinn var mikill í málflutningi gestanna, við værum algjörir vitleysingar ef við tækjum ekki tilboði bankans og yfirgæfum þáverandi viðskiptabanka. Ekki stóð til að fara með þessa peninga úr landi heldur átti að „ávaxta“ þá á Íslandi.
Á sama tíma og þessu fór fram voru starfsmenn Landsbankans í Luxemborg að aðstoða kaupsýslumenn á Íslandi að koma peningalegum eignum þeirra fyrir í erlendum skattaskjólum til að bjarga þeim frá Íslandi.
Í stað þess að brauðmolar féllu af háborði yfirstéttarinnar niður til alþýðunnar í landinu fossaði fjármagn þeirra í stórum stíl í erlend skattaskjól. Blóðinu var tappað af þjóðarbúinu.
Ég stæði ekki hér sem formaður hefði ég látið glepjast af tilboði Landsbankans. Framsýn hefði örugglega tapað verulegum fjármunum á gambli bankans með innistæður félagsins. Það átti að framkvæmda rán um hábjartan dag en það mistókst sem betur fer. Vegna fyrirhyggju slapp félagið við áföll og stendur því sterkt um þessar mundir.
Væntanlega má deila um þetta allt saman. Panama gengið sem sumir kalla Tortóla gengið sem Kastljós hefur dregið fram í dagsljósið heldur því fram að það hafi ekkert grætt á þessu öllu saman heldur tapað umalsverðum fjármunum. Þetta sé allt saman stór misskilningur, þeir hafi ekki ætlað að fela neitt og þá brestur minnið. Þá kveðst fjármálaráðherrann ekki hafa haft hugmynd um að hann ætti reikninga í skattaskjólum.
Líkt og fjármálaráðherra hafa íslenskir eigendur aflandsfélaga margir hverjir komið af fjöllum og ekki vitað af tengslum sínum við slík félög. Þeir ýmist stórtöpuðu eða settu hreinlega enga peninga í aflandsfélögin.
Samkvæmt þessum ótrúlegu fullyrðingum hefði verið miklu heillavænlegra fyrir alla þessa aflands elítu að stofna reikninga í Sparisjóði Suður- Þingeyinga hjá Ara Teits og hans frábæra starfsfólki þar sem lopapeysu hagfræðin er í hávegum höfð en ekki hagfræði græðgi og siðblindu.
Sparisjóðurinn hefur í gegnum tíðina ávaxtað fé sparifjáreigenda með miklum ágætum auk þess sem fjármálaráðherra hefði örugglega fengið reglulegt yfirlit yfir innistæður sínar í sparisjóðnum og því verið í stakk búinn að svara fjölmiðlum um hvar hann ávaxtaði sinn sparnað án þess að hiksta og/eða verða gleymskunni að bráð.
Hugsanlega finnst aflandsliðinu sveitó að eiga reikninga í sparisjóði en þess ber að geta að höfuðstöðvar Sparisjóðsins eru í Þingeyjarsveit og þar er einnig aflandseyjan Flatey á Skjálfanda. Skyldi Panamagengið vita af því?
Höfum í huga:
„Sá sem uppvís verður að því að geyma fé sitt utan við samfélag sitt hefur þar með fyrirgert samfélagslegri sæmd sinni. Og mun ekki endurheimta hana með frekju og ofstopa heldur auðmýkt, raunverulegri iðrun og yfirbót.“ Tilvitnun: Guðmundur Andri Thorsson, Fréttablaðið 25. apríl 2016.
En mikið lifandi skelfingar ósköp er gott að eiga ekki peninga eftir allt saman eins og þeir sem prýða Panama skjölin og haldið hafa okkur framan við sjónvarpsskjáinn undanfarnar vikur í villu og svima. Ég held ég biðji aftur um svarthvítu stillimyndina frá árinu 1969.
Að lokum vil ég óska Alþýðusambandi Íslands til hamingju með 100 ára afmælið sem og Verkalýðsfélagi Þórshafnar sem fagnar um þessar mundir 90 ára afmæli félagsins um leið og ég býð ykkur öll velkomin hingað í dag það er gesti, ræðumann og frábæra skemmtikrafta. Jóna Matthíasdóttir mun stjórna samkomunni hér í dag. Ég segi hátíðarhöldin á Húsavík 1. maí í tilefni af baráttudegi verkafólks hér með sett.

Allt að verða klárt fyrir morgundaginn

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar ásamt starfsmönnum félaganna og formanni Starfsmannafélags Húsavíkur hafa í dag unnið að undirbúningi vegna hátíðarhaldanna á morgun, 1. maí. Hátíðarhöldin verða haldinn í Íþróttahöllinni á Húsavík og hefst dagskráin kl. 14:00. Mikil samheldni er innan stéttarfélaganna sem lýsir sér ekki síst í því hversu margir eru viljugir að leggja hönd að verki til að hægt sé að halda jafn fjölmenna hátíð og stéttarfélögin gera orðið á hverju ári á hátíðar- og baráttudegi verkafólks. Sjá myndir frá undirbúningnum í dag.

hatidmai0416 035hatidmai0416 028hatidmai0416 033hatidmai0416 029hatidmai0416 037hatidmai0416 045hatidmai0416 054hatidmai0416 055hatidmai0416 049hatidmai0416 073hatidmai0416 086

Barist með tertur í ófærðinni

Fulltrúar stéttarfélaganna tóku daginn snemma og heimsóttu vinnubúðir starfsmanna á Þeistareykjum, Bakka og Höfða á Húsavík í dag. Eins og fram kom á heimasíðunni í gær voru starfsmenn Vaðlaheiðagangna heimsóttir og þeim færðar tertur í hádeginu í gær. Alls hafa um 300 starfsmenn þegið tertur í boði félaganna. Almenn ánægja var með framtak félaganna. Leiðindaveður og ófærð var í morgun þegar haldið var upp á Þeistareyki með terturnar en menn gáfust ekki upp og skiluðu þeim á leiðarenda við mikinn fögnuð starfsmanna á vinnusvæðinu. Sjá myndir:

hatidmai0416 026hatidmai0416 004hatidmai0416 008hatidmai0416 006hatidmai0416 015hatidmai0416 013hatidmai0416 021hatidmai0416 096hatidmai0416 111hatidmai0416 104hatidmai0416 093

Ánægð með terturnar

Fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn fóru í heimsókn í dag til starfsmanna sem starfa við Vaðlaheiðargöng. Þrátt fyrir að verkið hafi fram að þessu ekki gengið alveg eftir áætlun voru menn ánægðir með framtak stéttarfélaganna að færa starfsmönnum tertu í tilefni af baráttudegi verkafólks, 1. maí. Á morgun stendur svo til að færa starfsmönnum á Þeistareykjum og á Bakka á Húsavík tertur frá  Heimabakaríi. Sjá myndir:

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þetta er mögnuð terta hjá ykkur.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þessir menn eru ekki skoðana lausir.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Svona, svona ekki mynda meðan ég er að borða.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Formaður Framsýnar og Anna Guðrún Árnadóttir skrifstofustjóri Ósafls tóku stöðuna fyrir framan mötuneytið á staðnum.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er ekkert að því að fá ykkur í heimsókn meðan þið takið með ykkur tertu.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var notalegt að koma í heimsókn til starfsmanna í dag en tugir starfsmanna eru við störf i göngunum um þessar mundir.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Bless, bless. Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar kom með í heimsóknina en hún starfar sem skólaliði í Stórutjarnaskóla. Hér er hún að kveðja nemendur í dag fyrir heimsóknina til starfsmanna í Vaðlaheiðargöngum.

 

Opnun Krambúðarinnar

Krambúðin opnaði í dag á Garðarsbraut 5 í því húsnæði sem síðast hýsti verslunina Kaskó. Sennilega er þetta rótgrónasta verslunarhúsnæði Húsavíkur en eins og nær allir vita var Kaupfélag Þingeyinga með sínar aðalstöðvar þarna á sínum tíma og rak þar matvöruverslun og fleira.

Krambúðin verður með aðrar áherslur en Kaskó. Meiri áhersla verður á þjónustu við ferðamenn og uppfylla áherslur nærumhverfisins með löngum opnunartíma og skyndilausnum í mat, svo sem tilbúna rétti, kaffi og „bakað á staðnum”.

Fjölmenni var við opnunina og þar bauð Samkaup upp á veitingar í tilefni dagsins. Auk þess endurnýjaði Samkaup styrktarsamning sinn við Knattspyrnudeild Völsungs við þetta sama tækifæri.

Myndir frá opnuninni má sjá hér að neðan.

IMG_8935 IMG_8934 IMG_8932 IMG_8926 IMG_8915 IMG_8914 IMG_8910 IMG_8908 IMG_8906 IMG_8904 IMG_8903

Vinna barna, unglinga og ungmenna

Á Skrifstofu stéttarfélaganna hefur borist talsverður fjöldi fyrirspurna að undanförnu um hvaða reglur gilda um vinnu ungs fólks undir 18 ára aldri.

Í stuttu máli eru takmarkanir á vinnu ungs fólks þessar:

  • Börn 12 ára og yngri er bannað að vinna. Undanþágur eru menningar-, lista-, íþrótta- eða auglýsingastarfsemi en þá einungis að gefnu leyfi frá Vinnueftirlitinu
  • 13-14 ára börn mega vinna störf af léttara tagi. Dæmi um slík störf eru létt fóðrun og hirðing dýra, hreinsun illgresis, gróðursetning, sópa og tína rusl og létt fiskvinnslustörf. Þetta er ekki tæmandi listi. Vinnutími þessara barna má vera tveir klukkustundir á skóladegi og 12 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Þegar skólinn starfar ekki mega þessi börn vinna 7 klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku.
  • Unglingar, á aldrinum 15-17 ára og er ekki lengur í skyldunámi, mega vinna 8 tíma á dag og 40 tíma í viku. Unglingar mega aðeins vinna lengur gegn undanþágum ef brýn nauðsyn er fyrir hendi, til dæmis ef bjarga þarf verðmætum í landbúnaði eða fiskvinnslu. Engu að síður er nauðsynlegt að ákvæði um hvíldartíma séu uppfyllt.

Nánar má lesa um reglur um vinnu barna, unglinga og ungmenna hér. Þar má til dæmis lesa um hvaða reglur gilda um yfirvinnu þessa aldurshóps, hvíldartíma og skyldur atvinnurekanda gagnvart þeim.

Framvegis ryður brautina í endurmenntun atvinnubílstjóra

Framvegis – miðstöð símenntunar er fyrsti viðurkenndi námskeiðshaldarinn sem hlýtur starfsleyfi frá Samgöngustofu vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra en leyfið hlaust síðast liðinn miðvikudag. Í því felst að skipulag, innihald og fagstjórn námskeiða hjá Framvegis taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru til námskeiðshaldara, bæði í námskrá Samgöngustofu og opinberum reglugerðum er varða endurmenntun bílstjóra.
Framvegis býður atvinnubílstjórum sérsniðin námskeið í endurmenntun sem Samgöngustofa hefur viðurkennt og samræmast ákvæðum í reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini. Í kjölfar breytinga á umferðarlögum 50/1987 skulu ökumenn sem stjórna ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti.
Fyrsta námskeiðið var haldið síðast liðinn laugardag í samstarfi við Eimskip. Nánari upplýsingar gefur starfsfólk Framvegis í síma 5811900 eða í gegnum netfangið bilstjori@framvegis.is

Dagskráin 1. maí

Dagskráin sem stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum standa fyrir í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí er með eindæmum glæsileg eins og sjá má hér á auglýsingunni að ofan. Við minnum fólk á að hátíðin hefst klukkan 14:00 og eru allir hjartanlega velkomnir. Kaffiveitingar verða í boði stéttarfélaganna.

Undirbúningur er í fullum gangi og mikið um að vera á skrifstofu stéttarfélaganna þessa dagana. Útlit er fyrir þokkalegasta veður og því allar forsendur fyrir hendi til að hátíðin muni vera hin eftirminnilegasta.

 

 

Mál vegna vinnuslyss barns fyrnist hjá lögreglu

Brot á vinnuverndarlöggjöfinni viðast hafa lítið vægi hjá lögregluembættum landsins, jafnvel þó um vítaverð brot gegn barni sé að ræða. Það sýnir mál sem Vinnueftirlit ríkisins kærði til lögreglunnar í Vestmannaeyjum í febrúar árið 2012 vegna fiskvinnslufyrirtækis í bænum. Ástæða kærunnar var þríþætt brot fiskvinnslufyrirtækisins á 14 ára barni sem endaði með alvarlegu vinnuslysi þar sem barnið missti m.a. framan af fingri og hlaut varanlega örorku. Brotin voru eftirfarandi:
1. Barnið var látið vinna við hættulega vél sem er með öllu óheimilt að láta börn vinna við.
2. Barnið vann á 12 tíma vöktum.
3. Barnið var látið vinna á næturvöktum.

Með þessari háttsemi braut fiskvinnslufyrirtækið gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga.
Slysið átti sér stað í júlí 2011 og var það rannsakað áfram árið 2012. Starfsmaðurinn sem sá um málið hjá lögregluembættinu í Vestamannaeyjum hætti hins vegar störfum árið 2012 og þar með stöðvaðist framgangur málsins hjá embættinu. Þar sem refsingar vegna brota á vinnuverndarlöggjöfinni varða eingöngu sektum þá fyrnast slík mál á aðeins tveimur árum. Af þessum sökum felldi lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum málið niður með bréfi dagsettu 9. mars 2016. Eftir situr einstaklingur sem varð fyrir vinnuslysi þar sem hann starfaði við aðstæður sem voru vítaverðar þegar barn á í hlut.
Þetta mál er því miður ekkert einsdæmi. Kærur Vinnueftirlitsins lenda gjarnan neðarlega á forgangslist lögreglu m.a. vegna þess hversu vægar refsingarnar eru. Til að koma í veg fyrir að þetta gerist þarf því að herða refsirammann og kveða á um að brot á vinnuverndarlöggjöfinni varði a.m.k. sektum eða 2 ára fangelsisvist, en við það lengist fyrningarfrestur slíkra mála í 5 ár.

Tveggja daga hátíð framundan

Að venju standa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fyrir veglegri hátíð næsta sunnudag í Íþróttahöllinni á Húsavík, það er á baráttudegi verkafólks um víða veröld. Hátíðin hefst kl. 14:00 og reiknað er með miklu fjölmenni enda dagskráin glæsileg. Boðið verður upp á frábæra skemmtun undir rjúkandi kaffi og tertu ilm frá Heimabakaríi þar sem fjölmargir skemmtikraftar koma fram s.s. Karlakórinn Hreimur, Friðrik Ómar, Jógvan, Stefán, Andri, Gísli Einars og þá verða ræðumenn dagsins tveir menn sem tala íslensku með hreim, Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar og Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Vá, eins og maðurinn sagði. Á laugardeginum fyrir 1. maí munu stéttarfélögin bjóða starfsmönnum á svæðinu sem tengjast framkvæmdunum á Bakka upp á hátíðartertur og kaffi í mötuneytum starfsmanna. Það er á Þeistareykjum, Bakka og á Höfða. Um þessar mundir koma um 250 starfsmenn að þessum framkvæmdum.

IMG_2652

Mikil hátíðarhöld verða á Húsavík um næstu helgi er tengist baráttudegi verkafólks 1. maí, ekki missa af því.

lnssaga0915 003
Fjölmargir erlendir starfsmenn eru við störf á stór Húsavíkursvæðinu vegna framkvæmdanna er tengjast uppbyggingunni á Bakka. Þeim verður boðið upp á kaffi og tertu á laugardeginum.

Varaformaður Framsýnar með hátíðarræðu á Blönduósi

Stéttarfélagið Samstaða í Húnavatnssýslu stendur fyrir hátíðarhöldum á Blönduósi 1. maí. Aðalræðumaður dagsins verður Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar. Hægt verður að nálgast ræðuna inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is þann 1. maí.
Varaformaður Framsýnar mun þruma yfir Húnvetningum á baráttudegi verkafólks 1. maí enda magnaður ræðumaður.

Bændur á faraldsfæti

Um síðustu helgi fór hópur sauðfjárbænda í Suður- Þingeyjarsýslu í heimsóknir á fjóra bæi í sýslunni sem vakið hafa töluverða athygli fyrir fjárrækt. Dæmi er um að þeir hafi verið verðlaunaðir fyrir góða ræktun. Bæirnir sem voru heimsóttir voru, Grund í Grýtubakkahreppi, Þverá í Dalsmynni og Stórutjarnir og Hrifla í Þingeyjarsveit. Móttökurnar voru alls staðar til mikillar fyrirmyndar. Sjá myndir úr ferðinni: bændaferd0416 035bændaferd0416 019bændaferd0416 011bændaferd0416 068bændaferd0416 096bændaferd0416 091bændaferd0416 058bændaferd0416 062bændaferd0416 001bændaferd0416 101bændaferd0416 102bændaferd0416 113bændaferd0416 106bændaferd0416 150bændaferd0416 182bændaferd0416 189bændaferd0416 005

bændaferd0416 042

Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs hættir störfum

Yfirlýsing Kára Arnórs Kárasonar vegna starfsloka laugardaginn 23. apríl 2016.

Ég hef gert stjórn lífeyrissjóðsins Stapa grein fyrir þeirri ákvörðun minni að hætta störfum hjá sjóðnum og mun í framhaldinu óska eftir að samráði við hana um fyrirkomulag starfsloka minna. Ástæðu uppsagnar minnar rek ég í meðfylgjandi yfirlýsingu og hef ég engu við hana að bæta.

Fyrir skömmu fékk ég upphringingu frá Kastljósi þar sem mér var tjáð að nafn mitt sé í hinum svokölluðu Panamaskjölum og tengist þar tveimur félögum. Annars vegar er félag sem stofnað er í Lúxembúrg árið 1999 af Kaupþingi. Þar gaf ég starfsmönnum Kaupþings fullt og óskorað umboð til að eiga viðskipti fyrir hönd félagsins. Eftir því sem mér er tjáð virðist félagið hafa starfað í 3 ár en þá hafi því verið lokað. Sennilega hafa fjárfestingar þess ekki gengið vel. Raunar hef ég engin gögn um viðskipti þessa félags. Kastljós hefur einhver gögn um félagið en vill ekki veita mér aðgang að þeim. Þótt erfitt sé að fullyrða um atburði sem áttu sér stað fyrir 16-17 árum tel ég samt nokkuð víst að ég lagði aldrei neina fjármuni í þetta félag og fékk enga fjármuni greidda frá því. Hitt félagið var stofnað af MP banka fyrir mína hönd árið 2004. Ég sé í gögnum að ég mun hafa greitt 305.200 kr. fyrir stofnun þess félags. Félagið var aldrei notað. Það var talið fram á framtölum á verðmæti stofnkostnaðar og afskrifað þremur árum síðar, sem tapað fé. Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum.

Eflaust bar mér að tilkynna um tilvist þessara félaga til minna yfirmanna. Um er að ræða löngu liðna atburði, sem erfitt er að fullyrða um, en ég tel þó víst að svo hafi ekki verið gert. Því má segja að ég hafi að því leyti ekki uppfyllt starfskyldur mínar. Ítarlegar reglur eru nú um hagsmunaskráningu og vel fylgst með að eftir þeim sé farið. Því var ekki til að dreifa fyrir 12-17 árum síðan.

Það voru mörg gylliboð í gangi hér á Íslandi á áratugnum fyrir bankahrunið. Á þessu má sjá að ég hef ekki verið ónæmur fyrir slíku þótt í þessum tilfellum væru það ekki ferðir til fjár. Ég er ekki stoltur af því að hafa látið glepjast af slíkum boðum. Ég vil þó taka fram að með því er ég ekki afsaka sjálfan mig enda við engan annan að sakast í þessu efni. Ég ber sjálfur ábyrgð á mínum gjörðum.

Þótt eflaust megi deila um hversu alvarlegir þeir hlutir eru sem ég hef hér lýst, þá met ég þá umræðu sem nú er í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig að ekki sé boðlegt að maður sem er í minni stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hafi tengst slíkum félögum. Skiptir þá engu máli þótt langt sé um liðið, hvort þetta var löglegt eða ólöglegt eða hvort viðkomandi hafi hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Það er að mínu mati eina leiðin sem mér er fær til að axla ábyrgð, enda tengist vinnuveitandi minn ekki á neinn hátt þessum málum.

Ég er leiður yfir þessu máli öllu og vil ég biðja fjölskyldu mína, vini, samstarfsfólk og kollega afsökunar á þeim óþægindum sem þau munu eflaust verða fyrir vegna umræðu um þennan dómgreindarbrest minn. Að lokum vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef starfað með í gegnum tíðina fyrir samstarfið og óska því góðs gengis í framtíðinni.

Kári Arnór Kárason

Húsavík í dag, framkvæmdir í fullum gangi

Eftirlitsmenn stéttarfélaganna fóru í dag um framkvæmdasvæðið, það er Þeistareyki, Bakka og hafnarsvæðið á Húsavík. Framkvæmdirnar ganga almennt vel og voru menn ánægðir með veðrið í dag sem var með miklum ágætum. Sjá myndir frá heimsóknunum í dag:

lnssaga00416 001lnssaga00416 002lnssaga00416 022lnssaga00416 008lnssaga00416 029lnssaga00416 033lnssaga00416 035lnssaga00416 037lnssaga00416 041lnssaga00416 044

Setið fyrir svörum og kjör á trúnaðarmanni

Framsýn boðaði til fundar með starfsmönnum LNS Saga sem starfa við framkvæmdir sem tengjast vegalagningunni frá höfninni á Húsavík að iðnaðarlóðinni á Bakka. Fundurinn var vinsamlegur. Starfsmenn stéttarfélaganna gerðu starfsmönnum grein fyrir helstu reglum sem gilda um störf starfsmanna við stórframkvæmdir, þá spurðu starfsmenn LNS fulltrúa stéttarfélaganna út í nokkur atriði sem þeir vildu fræðast um. Að lokum var kjörinn öflugur trúnaðarmaður starfsmanna sem nefnist Þorri Árdal Birgisson og kemur úr Skagafirði.

lnssagabakkavegur0416 008

Formaður Framsýnar þrumaði yfir starfsmönnum á fundinum sem fór vel fram. Starfsmenn voru almennt sáttir með sína stöðu.

lnssagabakkavegur0416 002

Fundarmenn voru duglegir við að leggja fram fyrirspurnir.

lnssagabakkavegur0416 003

Fundarmenn komu frá þremur löndum, Portugal, Póllandi og Íslandi.

lnssagabakkavegur0416 010

Þráinn Ingólfsson var hugsi á fundinum enda búinn að vinna við stórframkvæmdir víða um heim og er nú kominn heim til Húsavíkur til að taka þátt í uppbyggingunni er tengist framkvæmdum á Bakka.

lnssagabakkavegur0416 013

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýi trúnaðarmaðurinn, Þorri Árdal, er hér ásamt Aðalsteini J. starfsmanni stéttarfélaganna eftir fundinn í dag.

Hátíð á Þórshöfn 1. maí

Verkalýðsfélag Þórshafnar stendur fyrir veglegri afmælishátíð á Þórshöfn 1. maí en félagið verður 90 ára þann 16.júlí.

Dagskrá:

16.00 Karlakór Akureyrar-Geysir þenur raddböndin af alkunnri snilld í Þórshafnarkirkju
17.00 Kaffiveitingar í Þórsveri framreiddar af dugnaðarforkunum í Kvenfélagi Þórshafnar
Kynning á Verkalýðsfélaginu og krakkar úr tónlistarskólanum spila. Svo ætla ekki leiðinlegri menn en Hundur í óskilum að slá botninn í samkomuna
Allir velkomnir jafnt félagsmenn sem utanfélagsmenn. Sjáumst hress.
Stjórnin

Fundur með starfsmönnum LNS Bakkavegur á morgun

Á morgun klukkan 11:30 verður haldinn fundur með starfsfólki LNS Bakkavegur en starfsstöð þeirra er á iðnaðarsvæðinu á Húsavíkurhöfða.

LNS Bakkavegur sér um borun jarðgangna í gegnum Húsavíkurhöfða og veglagningu á iðnaðarsvæðið á Bakka. Á fundinn mun því mæta starfsmenn sem starfa við sprengingar, borun, jarðvinnu og fleira í þeim dúr. Á fundinum verður rætt um almenn málefni starfsmanna og kosinn trúnaðarmaður.

 

Kynning á Sjálfbærniverkefninu á Norðurlandi

Mánudaginn 11. apríl sóttu starfsmenn stéttarfélaganna kynningarfund á Sjálfbærniverkefninu á Norðurlandi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, Landsnet, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og hagsmunasamtök ferðaþjónustunnar á svæðinu. Hugmyndin er að vakta ýmissa þætti samfélagsins sem taka breytingum samhliða stórum breytingum á atvinnumarkaði hér Norðanlands. Þar er fyrst og fremst átt við stóriðjuframkvæmdir á Bakka og mikinn vöxt ferðaþjónustu á svæðinu.

Fundurinn var fróðlegur og ágætar umræður áttu sér stað.

IMG_7898 IMG_7897 IMG_7883 IMG_7865 IMG_7870Myndir: Þekkingarnet Þingeyinga

Dekkjaverkstæði taka sig saman og neita þátttöku í verðkönnun ASÍ

Um helmingur dekkjaverkstæða neitaði þátttöku í könnun verðlagseftirlits ASÍ þegar gerð var tilraun til að kanna verð á dekkjaskiptum nú í byrjun apríl. Vísbendingar eru um að samráð hafi verið milli aðila um að vísa fulltrúum verðlagseftirlitsins frá og neita þannig að upplýsa neytendur um verð á þjónustu sinni. Dæmi voru einnig um að þjónustuaðilar vísuðu verðtökufólki á annan stað, svo sem á skrifstofu viðkomandi fyrirtækis, til þess að fá uppgefið verð. Slíkt samræmist ekki þeim sjálfsagða rétti neytenda að fá skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um verð vöru og þjónustu á sölustað og gengur alfarið gegn verklagsreglum verðlagseftirlitsins um framkvæmd verðkannana.

Verðlagseftirlit ASÍ leggur ætíð áherslu að framkvæmd verðkannana og úrvinnsla sé vönduð og í samræmi við verklagsreglur. Reynslan af verðkönnunum hjá dekkjaverkstæðum á undanförunum árum sýnir að það er að jafnaði mikill verðmunur á milli þjónustuaðila og full ástæða fyrir neytendur að bera saman verð. Að fyrirtæki velji að neita fulltrúum neytenda um að safna og birta þessar upplýsingar veldur verulegum vonbrigðum og vekur eðlilega upp spurningar um hvað slík fyrirtæki hafi að fela. Þá vakti athygli að á nokkrum hjólbarðaverkstæðum bar á hreinum og klárum dónaskap í garð verðtökufólks.

Verðlagseftirlit ASÍ getur því ekki birt upplýsingar um verð á umfelgun vorið 2016 eins og það hefur gert mörg undanfarin ár.

Eftirtaldir þjónustuaðilar neituðu fulltrúum verðlagseftirlitsins um aðgang að verði á þjónustu sinni: Betra grip, N1, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan, Bílkó, Dekkjahúsið, Bifreiðaverkstæði SB, Klettur, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn, Sólning, Nesdekk Grjóthálsi, KvikkFix og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels.