Félagsliðar – hvað er nú það?

Undanfarnar vikur hafa stjórnarkonur í Félagi íslenskra félagsliða, þær Ólöf Bára Sæmundsdóttir og Guðrún Geirsdóttir verið á herferð um landið og boðað til funda með félagsliðum. Í síðustu viku var röðin komin að Húsavík og var fundurinn haldinn í sal stéttarfélaganna á Garðarsbraut 26. Tilgangur kynningarfundanna er að kynna félag íslenskra félagsliða og kanna vilja fólks innan stéttarinnar til að stofna eigið stéttarfélag.
Á fundinum var einnig rætt um menntun félagsliða og nauðsyn þess að gera störf þeirra sýnilegri, en þó að þekking fólks á störfum félagsliða hafi aukist á síðustu árum virðist námið ekki alls staðar metið sem skildi. Ekki er tekið tillit til félagsliða í mönnunarmódelum stofnanna og þar af leiðandi síður auglýst eftir fólki með félagsliðamenntun. Starfsvettvangur félagsliða er reyndar mjög fjölbreyttur en segja má að hann felist að mestu leiti í því að styðja og efla sjálfstæða félagslega virkni, á heilbrigðis- félags- og menntunarsviði, í aðstoð og umönnun, ávallt með vilja og þarfir skjólstæðingsins að leiðarljósi.
Fagmenntun félagsliða á Íslandi hófst árið 1998 með þróunarverkefni Borgarholtsskóla, Félagsmálaráðuneytisins og stéttarfélaga og innan stéttarinnar eru í dag eru um 1000 félagsliðar. Stéttin mætir vaxandi þörf í samfélaginu fyrir sérþekkinguna sem námið veitir og benda má á að samkvæmt greiningu sem Starfsgreinasamband Íslands vann á fræðsluþörf fyrir aðstoðarfólk fatlaðs fólks kemur fram að nám félagsliða uppfyllir þær gæðakröfur sem gerðar eru á Norðurlöndunum um menntun fyrir aðstoðarfólk.
Á fundinum var einnig var rætt um mikilvægi þess að félagsliðar verði löggilt heilbrigðisstétt. Nauðsynlegt er fyrir framgang stéttarinnar að hún fái sömu viðurkenningu og aðrar fagstéttir innan heilbrigðisgeirans og ekki síður fyrir gæði þjónustu við ört vaxandi hóp fólks í þjóðfélaginu sem þarf á aðstoð og umönnun að halda. Kom fram í máli stjórnarkvenna að fulltrúar félagsliða hafi fundað með heilbrigðisráðherra í nóvember 2015, en síðan hafi ekkert af því máli spurst.
Fundurinn tókst í alla staði vel og niðurstaða hans var helst sú að samvinna og samheldni sé það sem mestu máli skiptir í baráttunni fyrir viðurkenningu stéttarinnar og náist að halda henni muni það leiða félagsliðastéttina til áframhaldandi góðra verka.

Eftirfarandi myndir voru teknar á fundi sem Félag íslenskra félagsliða boðaði til á Húsavík fyrir helgina. Nokkrir félagsliðar eru starfandi á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

felagslidar1606 013felagslidar1606 015felagslidar1606 017felagslidar1606 018felagslidar1606 020

Deila á