Framsýn mótmælir harðlega lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli

Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Á fundi stjórnar Framsýnar, þar sem málið var til umræðu, kom fram mikil reiði út í Borgarstjórn Reykjavíkur sem virðist upplifa sig sem eyland á Íslandi. Þeim komi velferð fólks ekkert við er viðkemur aðgengi fólks á landsbyggðinni að hátækisjúkrahúsum sem byggð hafa verið í Reykjavík fyrir skattfé landsmanna:

Ályktun um lokun neyðarbrautar í Vatnsmýrinni
„Framsýn, stéttarfélag harmar þá ákvörðun Borgarstjórnar Reykjavíkur að loka eigi NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðri neyðarbraut og bendir á að sú ákvörðun muni hafa grafalvarlegar afleiðingar og stefni almannaheill í voða.

Lending á neyðarbrautinni hefur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla.

Framkvæmd þessi er skerðing á þjónustu við íbúa landsins en Reykjavíkurflugvöllur hefur ávallt gegnt mikilvægu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar og skapað betra aðgengi að hátæknisjúkrahúsum.

Lokun flugbrautarinnar er ekki einkamál Borgarstjórnar Reykjavíkur. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar sem viðhaldið er með almannafé til handa öllum íbúum þessa lands.“

Deila á